Það á að kjósa um lögin - ekki ríkisstjórnina eða forsetann

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ryðst fram á völlinn á vef sínum og byrjar þar fyrirséðan áróður um að væntanleg þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingarlögin um útþynningu fyrirvara Alþingis fyrir ríkisábyrgð á skuldum Landsbankans, komi til með að snúast um það, hvort ríkisstjórnin eða forsetinn eigi að segja af sér.

Þó það hafi verið fyrirséð, að þrælslundaðir stuðningsmenn ríkisstjórnarnefnunnar og hún sjálf, myndu stilla málinu svona upp, er þetta alger afvegaleiðing málsins og svona villukenningum verður að vísa út í hafsauga strax og taka ekki á þeim nokkurt mark.

Kosningin á og verður að snúast um málið sjálft og á ekki að vera rekið á flokkspólitískum nótum, hvað þá að reyna að koma því í þann farveg, að það snúist í einhverskonar uppgjör á milli forseta og ríkisstjórnar.   Kjósandi, sem er andstæðingur beggja þessara aðila, er með því móti neyddur til að sitja heima og taka ekki þátt í kosningunni, hvort sem hann er meðmæltur lagabreytingunni, eða ekki.

Það verður að ætlast til þess, að þingmenn og aðrir, fari ekki að afvegaleiða umræðuna um lagabreytinguna á þennan veg, því þetta eru ekki ríkisstjórnar- eða forsetakosningar.  Þær bíða síns tíma, en nú þarf umræðan að snúast um málefnið sjálft, en alls ekki stríð á milli reiðra stjórnarþingmanna og forsetans.

Málefnalega umræðu, takk.


mbl.is Segir valið standa milli ríkisstjórnar og forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Óskarsson

Þetta er enn eitt dæmið um að þegar þingmenn Samfylkingar opna munninn þá veldur það meira tjóni en að gera gagn.  Hræðsluáróður Samfylkingarmanna og sumra Vinstri-Grænna er farinn í gang gagngert til að snúa umræðunni á hvolf og beina athyglinni frá aðalatriðum.  Kynningarstarfsemi stjórnvalda bæði innanlands sem og erlendis hefur algjörlega brugðist, en svo sem nánast ekki nein.   Það einfaldlega verður að segja þjóðinni um hvað málið snýst og þar reynir á fjölmiðlana í landinu.  Á sama hátt þarf að koma Evrópuþjóðum í skilning um málið.

Jón Óskarsson, 6.1.2010 kl. 11:03

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sú umræða, sem nú er hafin, um innleiðingu þjóðaratkvæðagreiðslna í auknum mæli, jafnvel með því að 10-15% atkvæðisbærra manna, eða 1/3 hluti þingmanna, geti krafist þjóðaratkvæðisgreiðslu, er til einskis, ef í hvert sinn á að snúa atkvæðagreiðslunni upp í það, hvort ríkisstjórnir segi af sér, eða ekki.

Ef atkvæðagreiðslurnar eiga ekki að snúast um málefnið sjálft, er betra heima setið, en af stað farið.

Axel Jóhann Axelsson, 6.1.2010 kl. 11:11

3 Smámynd: Jón Óskarsson

Það er afleitt að þingið skuli ekki vera búið fyrir mörgum árum að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur.  Þetta hefði átt að gera strax í kjölfar synjunar Forseta Íslands á fjölmiðlalögunum árið 2004.  

Mín skoðun er að það þurfi að vera hæfileg blanda af þingi og þjóð sem farið getur fram á þjóðaratkvæðagreiðslu.  Menn þurfi að setja viss viðmiðunarmörk sem helst vinni saman.  Þannig var t.d. nú varðandi Icesave málið að 30 af 63 þingmönnum greiddu atkvæði með tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu.  Það hlýtur að vera áberandi og ábyrgt hlutfall þingmanna (47,6%).  Síðan var sá undirskriftalisti sem InDefence hópurinn afhenti að morgni 2.janúar kominn í rúm 56 þúsund gild nöfn sem jafngilti um 23,3% kosningabærra manna sem aftur er u.þ.b. 27% af þeim sem í venjulegum Alþingiskosningum myndu taka þátt.  Eftir að listinn var afhentur hélt jafnt og þétt áfram að fjölga á listanum.  Svona mikill fjöldi kjósenda hlýtur að skipta máli.   Ákvörðun Forseta Íslands í ljósi ofangreindra atriða var því mjög eðlileg.

En eftir situr að ekki hafa verið sett lög um þetta.  Báðar tillögur sem liggja fyrir Alþingi er stórgallaðar að þessu leiti. 

Ég tel að dæmið núna varðandi lögin frá 30.desember, eigi í öllum tilfellum að falla innan þess ramma sem ætlast þarf til að sé til staðar svo skilyrði þjóðaratkvæðagreiðslu séu til staðar.   En að ætlast til þess að annað hvort 1/3 hluti þingmanna eða 10% þjóðarinnar óski eftir þessu eru röng hlutföll.  Með slíku fyrirkomulagi gætu t.d. þingmenn Sjálfstæðisflokksins (miðað við venjulegt kjörfylgi) sí og æ krafist þjóðaratkvæðagreiðslu svo dæmi sé nefnt.

Þetta mætti vera svona:  Ef yfir 40% þingmanna greiðir atkvæði með þjóðaratkvæðagreiðslu og jafnframt undirriti 20% kosningabærra manna áskorun um að tiltekið mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu þá skuli verða við þeirri áskorun.  Einnig geti 25% kosningabærra manna óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin frumvörp Alþingis, þrátt fyrir að ekki hafi komið fram tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu á Alþingi.

Gera þarf síðan ákveðnar kröfur til þess hvernig áskorun almennings skuli framkvæmd, þ.e. rafrænir listar þurfa að vera gallalausir að því leiti til að ekki sé hægt að skrá ólöglegar kennitölur, ekki fólki undir kosningaaldri og að menn geti ekki skráð mikinn fjölda í hverri tölvu.  Best væri að skoða fyrirkomulag eins og að kjósa á grundvelli lykilorða sem menn fá sent í heimabanka eða geta látið senda sér sérstaklega hafi þeir ekki aðgang að heimabanka.  Slík skoðunarkönnum eða netkosning myndi því vera mjög áreiðanleg.

Samhliða þessu væri eðlilegt að færa kosninguna sjálfa frá því gamaldagskerfi að þurfa að fara á kjörstað til þess að kjósa og gefa mönnum í það minnsta kost á að gera kosið rafrænt fyrir þá sem það vilja og staðfesta kosninguna sína í gegnum eitthvað öruggt kerfi eins og heimabankana (auðkennislyklana) eða út frá lykilorðum sem aðeins væri hægt að nálgast á mjög öruggann máta.

Jón Óskarsson, 6.1.2010 kl. 11:27

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þetta er ágæt tillaga um skilyrði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur, þ.e. hvernig væri hægt að krefjast hennar.  Það myndi aldrei ganga upp, að eitthvert hlutfall þingmanna einna, dygði til að af þjóðaratkvæðagreiðslu yrði, því þá yrði hætta á að einn flokkur kæmist í þá stöðu, að geta tafið öll mál, með því að vísa þeim til þjóðarinnar.

Eins yrði að finna ódýrari leið, en nú á að fara og sem mun kosta hátt í 200 milljónir króna, til þess að framkvæma slíkar kosningar.  Tiltölulega auðvelt ætti að vera, að kjósa t.d. í gegnum vef skattstjóra og í gegnum hann væri hægt að úthluta lykilorðum.  Þeir sem ekki hefðu aðgang að tölvu, heima eða í vinnu, gætu þá mætt á einhvern ákveðinn stað þar sem upp yrði komið tölvum og þannig fengist niðurstaða fljótt og á tiltölulega ódýran hátt.

Axel Jóhann Axelsson, 6.1.2010 kl. 11:36

5 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Mér finnst samt ekki maður komast hjá því að segja að trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar er í veði. Svo mikla umræðu á þingi sem það hefur fengið og menn hafa sett pólitiskt líf sitt að veði á báða bóga. Nefni Ögmund versus Steingrím J. - Þegar upp er staðið eru það stjórnarmenn og ég hef ekki séð sömu einlægni hjá leiðtogum stjórnarandstöðunnar. - Það verður erfitt fyrir Steingrím sem stjórnmálamann að halda áfram ótrauður eftir að ÞJÓÐIN HAFNAR tillögu sem hann leggur fram. Það væri siðlaust nem ahnn gæfi út yfirlýsingu um það fyrirfram að slík niðurstað myndi engin áhrif hafa á hans stöðu í ríkisstjórninni. Síðan má segja að þetta verður kosning um framtíð ÓRG lika. Ef þjóðin hafnar þessu frumvarpi þá mun hann líta á það sem stuðning við framboð sitt næsta forsetakjörtímabils.

Gísli Ingvarsson, 6.1.2010 kl. 11:49

6 Smámynd: Jón Óskarsson

Já mér líst mjög vel á hugmyndina um að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslum í gengum vef Ríkisskattstjóra (skattur.is) þar sem bætt væri við einum lið í lykilorðum og þau lykilorð notuð sérstaklega fyrir rafrænar kosningar. 

Þetta gætu síðan bæði sveitarstjórnir sem og Alþingi nýtt í kosningum um tiltekin mál og jafnvel auk þess fært með tímanum Alþingis-, sveitarstjórna- og forsetakosningar yfir í þetta form.   Auðvelt ætti tæknilega að vera að koma því svo fyrir að þó einhverjir vildu kjósa í slíkum kosningum samkvæmt gamla laginu að kjörstjórnir gætu á rafrænan hátt séð hvort viðkomandi hafi nýtt atkvæðisrétt sinn og jafnframt hakað viðkomandi út á kjörstað.  Á kjörstað yrði að sjálfsögðu til staðar rafrænn búnaður til að kjósa.  Svona fyrirkomulag myndi spara stórfé.

Skoðunarkannanir, undirskrifalistar, netkosning eða áskorun í öðru formi þyrfti hins vegar að mínu mati að fara fram á öðrum vettvangi rafrænt.

Jón Óskarsson, 6.1.2010 kl. 11:50

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er rétt, að skoðanakannanir, áskoranir og annað slíkt yrði að fara fram annarsstaðar en á skattur.is.  Þar ættu aðeins "alvöru"kosningar að fara fram, þ.e. kosningar á vegum ríkis eða sveitarfélaga.

Auðvelt ætti að vera, að koma upp öruggum gagnagrunni, sem væri svindlfrír, til annarra nota, þó með einhverjum takmörkunum, þannig að ekki væri sífellt verið að skora á þing, forseta, eða hvern annann, að gera þetta eða hitt, eða gera það alls ekki.

Axel Jóhann Axelsson, 6.1.2010 kl. 13:29

8 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Axel ég er þér algjörlega sammála eins og þú vísar í í athugasemd á blogginu mínu. Því miður höfum við litla hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum en þurfum að skapa hana sem fyrst. Við ættum að taka reglurnar í Sviss til ákveðinnar fyrirmyndar en þar getur þjóðin hafnað lögum sem þingið samþykkir. Sett fram lagafrumvarp og látið greiða um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu og beðið um atkvæðagreiðslur um ákveðin málefni eins og t.d. hefur verið gert síðast um bænakallsturna Múslima.  Svisslendingar hafa meir en 100 ára sögu þjóðaratkvæðagreiðslna og skoðað í baksýnisspeglinum þá er hægt að segja að þar sem þing og þjóð greindi á þar hafi þjóðin án undantekninga haft rétt fyrir sér.

Jón Magnússon, 6.1.2010 kl. 13:31

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jón, auðvitað ætti að taka Sviss til fyrirmyndar í þessum efnum.  Þar snúast kosningar ekki um líf og dauða ríkisstjórna, heldur þau málefni, sem til umfjöllunar eru hverju sinni og ríkisstjórnir þar verða að sætta sig við niðurstöður, hvort sem þær eru sáttar við útkomuna eða ekki.  Bænaturnarnir eru gott dæmi um það.

Með Icesave málið í þeim farvegi sem það er komið í, er algerlega vonlaust að stilla atkvæðagreiðslunni upp, sem spurningu um líftíma rikisstjórnarinnar eða Ólafs Ragnars í embætti, því þá gætu hvorki ég eða þú greitt atkvæði, þar sem við erum andstæðingar beggja.  Svo er auðvitað um marga fleiri, þannig að þeir yrðu ansi margir, sem yrðu nánast útilokaðir frá kosningunni, ef túlka ætti atkvæði þeirra sem stuðning við annan hvorn þessara aðila.

Kosningin verður að snúast um málefnið sjálft og ekkert annað.  Frábiðjum okkur allan áróður á örðum nótum.

Axel Jóhann Axelsson, 6.1.2010 kl. 13:57

10 Smámynd: Jón Óskarsson

Sammála ykkur nafni og Axel að Sviss má taka til fyrirmyndar í þessum efnum sökum mikillar og almennt góðrar reynslu þeirra.   Við þyrftum að nýta okkur það besta úr þeirra löggjöf og færa það að okkar þörfum ásamt því að nútímavæða kosningarnar eins og við Axel höfum verið að fjalla um hér að framan.

Áríðandi er að í gang fari af hálfu allra stjórnmálaflokka nú þegar ásamt fjölmiðlum landsins kynning á því um hvað málið snýst og þar verða menn að vera samstíga og horfa í sömu átt og láta svo þjóðina um valið.   Ég þarf ekki svona kosningu til að kjósa um þessa eða hina ríkisstjórnina ég kýs í Alþingiskosningum og verð að hlíta niðurstöðunni hverju sinni og á sama hátt kýs ég í forsetakosningum.  Samfylkingin sem og aðrir verða nú þegar að hætta að stilla þessu upp sem vali milli Forseta Íslands og ríkisstjórnarinnar.   Málefnið er það sem skiptir máli.  Ekkert annað.

Jón Óskarsson, 6.1.2010 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband