Upprifjun vegna Icesave

Þann 2. Janúar 2010 afhenti Indifence forseta Íslands áskorun á sjötta tug þúsunda Íslendinga um að hafna lögum um ábyrgð ríkissjóðs á skuldum Landsbanka Íslands vegna Icesave í Bretlandi og Hollandi.

Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, skrifaði undir samning við Breta og Hollendinga þann 5. Júní 2009, en samningurinn var svo leynilegur að þingmenn áttu að samþykkja hann án þess að fá að sjá hann eða lesa og alls ekki átti að upplýsa þjóðina um innihaldið.

Málið allt var með miklum ólíkindum og í tiefni af afhendingu áskorananna til forsetans er gaman að rifja upp nokkur blogg af síðunni frá Júnímánuði 2009, en þann mánuð, sem og þá sem á eftir komu, var mikið fjallað um Icesave og því staðfastlega mótmælt að ríkissjóður tæki á sig nokkrar skuldbindingar vegna málsins og eins og allir vita staðfesti EFTAdómstóllinn það að lokum eftir mikið japl og jaml og fuður.

 

5.6.2009 | 13:39 Aldrei sagður allur sannleikurinn

Því hefur alltaf verið haldið fram, að Icesave deilan sé sérstakt viðfangsefni og komi samningum við AGS ekkert við og þrátt fyrir yfirlýsingar Gordons Brown, um að Bretar væru í viðræðum við AGS vegna málsins, hefur íslenski ríkisvinnuflokkurinn ætíð borið slíkt til baka og sagt þessi mál algerlega ótengd.

Nú hefur mbl.is eftir Steingrími Jong Sig., fjármálajarðfræðingi, að: "Hann vísar því á bug að verið sé að hraða málinu til að greiða fyrir aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Málið tengdist frekar öðrum lánum, til að mynda norrænu lánunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum."

Hér með er hann að viðurkenna það loksins, að allar "vinaþjóðir" okkar á norðulöndunum og AGS setja þetta allt saman í einn pakka. Íslendingar fá engin lán frá AGS, eða Evrópuþjóðum, nema ganga fyrst frá Icesave.

Því oftar sem ráðamenn neita því, að samningar vegna Icesave, sé skilyrði af hendi Evrópuþjóða og ekki verði einu sinni tekið við aðildarumsókn að ESB, án þessa frágangs, því ótrúverðugri verður sú neitun. Tími er til kominn að gera þetta mál "opið og gegnsætt" og að hætt verði að ljúga að þjóðinni.

 

5.6.2009 | 14:51 Icesave breytt í kúlulán

Jóhanna, ríkisverkstjóri, sagði í hádeginu, að loksins væri búið að leysa Icesave deiluna á farsælan hátt og Íslendingar myndu aldrei þurfa að borga nema í mesta lagi frá 0 kr. og í versta falli 65 milljarða.

Það er að vísu himinn og haf á milli 0 og 65 milljarða, en eins og venjulega er ekki verið að segja satt. Kúlulánið, sem á að taka fyrir Icesave, er upp á 650 milljarða króna og það byrjar ekki að greiðast niður fyrr en eftir sjö ár. Á hverju ári þangað til verða greiddir 37,5 milljarðar í vexti, eða samtals á þessum sjö árum alls 262,5 milljarða króna.

Ofan á þessa 262,5 milljarða króna leggst síðan það, sem ekki tekst að fá út úr búi Landsbankans í Englandi, því eins og segir í fréttinni: "Á þessum sjö árum mun verða reynt að selja eignir Landsbankans upp í skuldina." Það sem ekki selst á þessum sjö árum, lendir þá á ríkissjóði, samkvæmt þessu.

Hefur Jóhanna, ríkisverkstjóri, ekki skilning á fjármálum, eða er hún að blekkja vísvitandi?

 

16.6.2009 | 16:11 Hver trúir þessari vitleysu?

Steingrímur Jong Sig., fjármálajarðfræðingur, segir að það muni verða vandasamt fyrir þingmenn að fjalla um samninginn um ríkisábyrgðina á Icesave, ef þeir fái engar upplýsingar um innihald hans.

Það mun ekki verða vandasamt fyrir þá, heldur ómögulegt. Hvernig á nokkur einasti maður að reyna að ræða mál á Alþingi, ef hann veit ekker um hvað málið snýst? Í morgun sagði Jóhanna, ríkisverkstjóri, að hún treysti á að Sjálfstæðisflokkurinn myndi bjarga ríkisvinnuflokknum frá falli, vegna þess að útlit væri fyrir það, að Vinstri grænir myndu ekki samþykkja samninginn, sem er þó gerður í nafni fjármálajarðfræðingsins. Um þá vitleysu var fjallað í morgun í þessu bloggi.

Getur það verið rétt, að samningamenn Íslands hafi skrifað undir slíkan risasamning um fjárhagsskuldbindingu Íslendinga inn í framtíðina, án þess að nokkur maður á Íslandi mætti vita hvað stendur í þessu plaggi. Að það skuli þurfa að skrifa bréf til Hollendinga og Breta til þess að fá náðasamlegt leyfi til að sýna, þó ekki væri nema nokkrum útvöldum þingmönnum, samninginn er svo ótrúlegt, að menn setur hljóða og trúa ekki sínum eigin augum og eyrum. Samningurinn var undirritaður um miðja nótt.

Hvað er það sem þolir ekki dagsljósið?

 

18.6.2009 | 09:07 Tvísaga embættismaður

Indriði H. Þorláksson, sérlegur aðstoðarmaður fjármálajarðfræðingsins, verður neyðarlega tvísaga í einni og sömu setningunni, þegar hann segir: "Aldrei hefur staðið til að Icesave-samningurinn yrði leyndarmál. Líklega er það spurning um daga hvenær samkomulag sem nú er unnið að næst við Breta og Hollendinga um að aflétta leynd yfir samningnum, meðal annars til að þingmenn geti kynnt sér hann."

Hvers vegna þarf að skrifa bréf til Hollendinga og Breta með beiðni um að fá að opinbera samninginn, ef aldrei stóð til að hann væri leyndarmál? Hvers vegna er það spurning um daga hvenær samkomulag næst við Hollendinga og Breta um að aflétta leynd yfir samningnum? Þarf leyfi til að aflétta leynd, sem aldrei stóð til að yrði nein leynd?

Það er alveg með ólíkindum hvað ráðherrar og embættismenn geta bullað mikið, án þess að fréttamenn sjái í gegnum ruglið og gangi eftir skýrari svörum. Það er kannski ekki undarlegt, þegar Icesave og ESB eru annars vegar.

Flestir fjölmiðlamenn eru í reynd áróðursmenn fyrir hvoru tveggja.

 

22.6.2009 | 16:23 Tilskipun um innistæðutryggingar verndar ríkissjóð

Í tilskipun ESB um innistæðutryggingar, sem má sjá hér kemur fram að Tryggingsjóðir innistæðueigenda skuli ekki vera á ábyrgð yfirvalda, enda skulu lánastofnanir sjálfar bera kostnaðinn af fjármögnun þeirra.

Þetta má glögglega sjá á eftirfarandi klausum úr tilskipuninni:

"Það er ekki bráðnauðsynlegt í þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun kerfa sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, meðal annars vegna þess að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa og einnig vegna þess að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingaskuldbindingarnar. Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu. Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun."

Með svokölluðum Icesave samningi er verið að neyða Íslendinga, með ógnunum, til að taka á sig a.m.k. 500 milljarða króna, sem allir geta séð að ríkissjóður Íslands getur aldrei greitt.

Það hlýtur að vera hægt að koma ESB þjóðunum til þess að fara eftir sínum eigin tilskipunum. Ef ESB þjóðirnar eru ekki sáttar við það, eiga þær að leita til dómstóla.

Málið er ekki flóknara en það.

 

23.6.2009 | 10:36 Dómstóllinn er víst til

Eiður Guðnason, fyrrverandi pólitíkus og sendiherra, gerir lítið úr fremstu lögspekingum landsins og telur að þeir viti ekki um hvað þeir séu að tala, þegar þeir benda á þá augljósu staðreynd, að lagalegan ágreining eigi að útkljá fyrir dómstólum. Hann telur að enginn dómstóll sé til, sem geti skorið úr milliríkjadeilum, eins og t.d. ágreiningi um ábyrgð ríkisins á Icesave innlánum Landsbankans.

Hingað til hefur ekkert skort á að evrópskir dómstólar hafi getað fjallað um og ákært Íslendinga, ef þeir hafa ekki verið nógu fljótir að innleiða allskyns tilskipanir frá ESB.

Í þessu bloggi er sýnt fram á að tilskipun ESB um Tryggingasjóð innistæðueigenda gerir ekki ráð fyrir ríkisábyrgðum, enda þyrftu Bretar og Hollendingar þá ekki að kúga Alþingi til að samþykkja ríkisábyrgð núna.

Íslendingar þurfa einungis að hafna ábyrgð á Icesave, umfram ábyrgð tryggingasjóðsins og ef Bretar og Hollendingar sætta sig ekki við það, þá finna þeir réttan dómstól til að reka sín mál fyrir.

Ef þeir lenda í einhverjum vandræðum með að finna dómstól, má benda þeim á, að lögþing ríkissjóðs er á Íslandi og þar er hægt að höfða innheimtumál gegn ríkissjóði eins og öðrum.


Bloggfærslur 3. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband