Ofanflóðasjóður

Eftir hörmulegar afleiðingar snjóflóða á Vestfjörðum fyrir tuttuguogfimm árum voru sett lög um stofnun "Ofanflóðasjóðs" sem fjármagnaður var með sérstöku álagi á fasteignatryggingar. Eins og nafnið sýnir glögglega var ætlunin að sjóðurinn yrði notaður til að verja mannslíf þar sem hætta væri á "ofanflóðum". Í upphaflegu lögunum hljóðaði 9. grein laganna svona:

"9. gr.

Ráðherra skipar þriggja manna nefnd, ofanflóðanefnd, til fjögurra ára í senn til að annast þau verkefni sem greinir í 2. mgr. Formaður nefndarinnar skal skipaður án tilnefningar, en aðrir nefndarmenn samkvæmt tilnefningu [ráðherra er fer með sveitarstjórnarmál] 1) og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Verkefni ofanflóðanefndar eru:

1. Að fjalla um og taka afstöðu til tillagna sveitarstjórnar skv. 10. og 11. gr.

2. Að ráðstafa fé úr ofanflóðasjóði skv. 13. gr.

Ákvarðanir ofanflóðanefndar skv. 2. mgr. öðlast fyrst gildi þegar ráðherra hefur staðfest þær. Ráðherra getur sett nánari reglur um störf nefndarinnar."

Af þessu sést greinilega að nefndin átti að sjá um að ráðstafa fé sjóðsins, þó ætlast væri til að ráðherra staðfesti þær ákvarðanir.

Frá og með árinu 2011 virðist fjármálaráðherra hvers tíma hafa tekið sér það vald með samþykkt svokallaðs "bandorms" í tengslum við afgreiðslu fjárlaga að nánast ræna þessum sjálfstæða sjóði og taka fjármuni hans til almennra nota ríkissjóðs.  Þessu hefur verið náð fram með eftirfarandi árlegri breytingu á lögunum um sjóðinn:

"Breyting á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, með síðari breytingum.

20. gr. 12. gr. laganna orðast svo:

Leggja skal árlegt gjald á allar brunatryggðar húseignir sem nemur 0,3‰ af vátryggingarverðmæti. Gjaldið skal innheimt ásamt iðgjaldi til Náttúruhamfaratryggingar Íslands og fer um innheimtu þess samkvæmt lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, þar á meðal skal gjaldið njóta lögtaksréttar og lögveðsréttar í vátryggðri eign.

Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð.

Álagning gjalds þessa skal ekki hafa áhrif til hækkunar á innheimtuþóknun til vátryggingafélaga samkvæmt lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

Sérstakur sjóður ríkisins, ofanflóðasjóður, er í vörslu ráðuneytisins.

Tekjur sjóðsins eru:

Fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum sem byggist á rekstri sjóðsins, framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára og öðrum verkefnum.

Framkvæmdaáætlun skal miðast við markmið reglugerðar um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða.

Vaxtatekjur, sbr. 13. gr.

Aðrar tekjur."

Þessi árlega meðferð á sjóðnum er til algerrar skammar og ekki í neinu samræmi við upphaflegan tilgang hans.  Sú réttlæting fjármálaráðherra að nauðsynlegt hafi verið að ráðstafa fjármunum sem innheimtust í sjóðinn til að rétta við fjárhag ríkissjóðs gæti hafa verið fyrirgefanleg fyrstu árin eftir hrun, en alls ekki lengur og reyndar hefði fyrir löngu átt að vera búið að endurgreiða alla skuld ríkissjóðs við þá sem í lífshættu eru vegna "ofanflóða".

Ríkisstjórnin verður að bæta ráð sitt í þessu efni ekki seinna en strax og koma byggingu flóðvarnagarða í það horf sem lögin hafa alla tíð gert ráð fyrir.


mbl.is „Við hljótum að geta gert betur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband