Risastór bylting, sem ótrúlega lítið fer fyrir

Nokkrir nýsmíðaðir togarar hafa verið að koma og eru væntanlegir til landsins og hefur útlit sumra þeirra vakið athygli. Alveg nýtt útlit á stefni þeirra eitt og sér er mikil breyting frá algengastu skipshönnun áður fyrr.

Risafréttin við komu þessara skipa er ekki útlitið eitt og sér, heldur sú algera bylting í útgerðarsögu heimsins sem er að verða með tækninni sem notuð verður við frágang afla skipanna, sem bæði mun stórauka aflaverðmætið og létta störf áhafnanna.  Ekki verður lengur þörf á því að ísa fiskinn þar sem hann verður kældur með nýrri tækni og lestarnar verða mannlausar, en sjálvirknin mun sjá um að fylla fiskikörin og ganga frá þeim í lestunum.

Skaginn 3X hefur hannað og smíðað og forritað öll þessi tæki sem eru þvílík nýjung í fiskiskipaútgerð, að hún hefur vakið heimsathygli og líklegt að þessi tæknibylting verði nýtt alls staðar í veröldinni, þar sem alvöru fiskiskipaútgerð er fyrir hendi á annað borð.

Þó nokkuð hafi verið fjallað um þetta stórmál í fjölmiðlum, hefur það ekki fengið nærri því eins mikla athygli og það á skilið, enda upphaf nýrrar aldar í fiskiskipaútgerð í veröldinni og hugvitið og framleiðslan alíslensk.  Það er ekki á hverjum degi sem íslenskar nýjungar og tækni bylti jafnvel heilu altvinnugreinunum í heiminum öllum. 

Í Morgunblaðinu í dag segir Vilhjálmur forstjóri Granda um þetta tækniundur:  "Þetta sjálf­virka lest­ar­kerfi er stærsta breyt­ing í út­gerð ís­fisk­tog­ara frá því að skut­tog­ar­arn­ir komu á átt­unda ára­tugn­um."  Það eru engin smámeðmæli að forstjóri eins stærsta útgerðarfélags landsins skuli segja þetta vera mestu byltingu í útgerðarsögunni í hart nær hálfa öld.

 


mbl.is Líkir búnaði Engeyjar við komu skuttogaranna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband