Leysist Spánn upp í frumeindir?

Ótrúlegt var að fylgjast með offorsi spænskra yfirvalda í baráttunni gegn atkvæðagreiðslunni í Katalóníu um hvort lýsa skyldi yfir sjálfstæði héraðsins.  Stjórnlagadómstóll hafði kveðið upp þann úrskurð að atkvæðagreiðslan væri ólögleg og niðurstaða hennar þar af leiðandi ómarktæk.

Miklar líkur eru á að hefðu kosningarnar verið látnar afskiptalausar af hendi yfirvalda í Madrid hefði niðurstaðan orðið sú að meirihlutinn hefði kosið gegn sjálfstæði.  Hefði niðurstaðan orðið önnur hafði ríkisstjórnin dóminn í höndunum og alla möguleika til að berjast gegn sjálfstæðisyfirlýsingum katalóna.

Ekki er ólíklegt að harkaleg framkoma og fantaskapur lögreglunnar á kjördag hafi þjappað íbúum Katalóníu saman gegn ofríkinu og þar með stóraukið fylgið við sjálfstæði héraðsins.  Spennandi verður að fylgjast með framhaldi málsins og vonandi verður allt gert til að koma í veg fyrir frekara ofbeldi, hver svo sem næstu skref yfirvalda í Katalóníu verða.

Að sumu leyti eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar í Madríd skiljanleg í ljósi þess að til viðbótar við Katalóníu eru sextán sjálfstjórnarhéruð á Spáni og verði Katalónía sjálfstætt ríki er nánast viðbúið að sjálfstæðiskröfum vaxi hryggur um hrygg í hinum héruðunum. 

Nægir í því sambandi að benda á Baskaland, Andalúsíu og Galisíu í því sambandi en sjálfstæðiskröfur hafa verið þar á lofti og jafnvel í fleiri héruðum.  Verði af sjálfstæði Katalóníu er ekki ólíklegt að Spánn leysist upp í frumeindir sínar áður en yfir lýkur.

 

 


mbl.is „Gerðist þetta í alvörunni?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband