Dagur verður málamyndaborgarstjóri

Við kynningu á samstarfssáttmála "nýs" meirihluta í Reykjavík kom glögglega fram að Dagur B. Eggertsson verður borgarstjóri til málamynda, en fulltrúar Viðreisnar í borgarstjórninni munu hafa völdin í sínum höndum.

Þórdís Lóa verður formaður borgarráðs og sagðist myndu hafa stjórn fjármála borgarinnar á sinni könnu, en hingað til hafa þau heyrt undir borgarstjórann og Pavel verður forseti borgarstjórnar.  Þannig verða helstu valdaembættin bæði í höndum Viðreisnar og hlutverk Dags B. verður þá líklega ekki ólíkt því sem Jón Gnarr hafði á sínum tíma, þ.e. að vera borgarstjóri til málamynda.  Dagur B. mun þá hafa það hlutverk að koma fram á minniháttar mannamótum, en Þórdís Lóa og Pavel þar sem aðkoma borgaryfirvalda skiptir raunverulegu máli.

Samstarfssáttmáli meirihlutans er hins vegar óljóst og ómarkvisst plagg, þar sem í öllum helstu málum er rætt um að framkvæmdir þurfi að ræða við ríkið eða nágrannasveitarfélögin og því óvíst hvort og hvenær hlutirnir komist í framkvæmd, t.d. borgarlínan, bætt kjör kvennastétta o.fl., o.fl.

Ekkert er minnst á að bæta samgöngur í borginni, ekkert minnst á Sundabraut eða Miklubraut í stokk.  Borgarbúar, sem þurfa og vilja nota bílana sína sjá fram á að enn verður haldið áfram á þeirri braut að gera þeim lífið óbærilegra og enn er talað um að bæta strætókerfið og neyða fólk til að nota strætó í stað eigin bíla.

Ekkert er líklegra en að óánægja með ruglið í stjórnun borgarinnar muni aukast enn á kjörtímabilinu og tap Samfylkingarinnar og hrun Vinstri grænna í nýafstöðnum kosningum verði smámunir hjá útreiðinni sem þessir flokkar muni fá í næstu kosningum.

Jafnlíklegt er að örlög Viðreisnar verði þau að flokkurinn falli í sömu gröf og aðrir einnota flokkar sem upp hafa sprottið undanfarna áratugi en horfið jafnharðan og eru nú öllum gleymdir.


mbl.is Borgarlína „lykilmál“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband