Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Nú er bara að krossa fingur

Ákæra á hendur Agli "Gilzenegger" Einarssyni hefur nú verið felld niður vegna reikuls og ótrúverðugs framburðar kæranda og þar með verður að reikna með því að niðurstaða rannsakenda sé sú að ákæran hafi verið upplogin og þar með algerlega óréttmæt.

Fljótlega eftir að ákæran kom fram fóru að heyrast efasemdarraddir um málið og töldu ýmsir að verið væri að hefna sín á "Gilzenegger" vegna ýmissa ummæla hans um kvenfólk og þá aðallega feminista og satt best að segja voru ýmis þeirra bæði ósmekkleg og ófyndin, en aðaltilgangur leikpersónunnar "Gilzeneggers" virtist einmitt eiga að vera sá, að gera grín að feministunum og ergja þá á alla vegu.

Ef um falskar ákærur er að ræða í þessu máli verður "nú bara að krossa fingur" og vona að rannsakað verði hver eða hverjir hafi staðið á bak við þær og í hvaða tilgangi það hafi þá verið gert.

Það er geysilega alvarlegur glæpur að nauðga og það er líka alvarlegt að ljúga slíkum glæp upp á fólk.


mbl.is Mannorðið beðið alvarlegan skaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknaraðferðir Geirfinnsmálsins?

Á sínum tíma voru sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum látnir dúsa í gæsluvarðhaldi mánuðum saman og allt upp í tvö ár í einangrun. Nokkrir einstaklingar sem ekkert tengdust málunum voru látnir dúsa í einangrun í marga mánuði í þeirri von að þeir myndu brotna niður að lokum og játa á sig sakir.

Síðar voru slíkar rannsóknaraðferðir fordæmdar og lögregluyfirvöld hafa afsakað framferði sitt með því að á þeim tíma hefðu rannsóknaraðferðir verið frumstæðar og reynsla íslenskrar rannsóknarlögreglu af meiriháttar afbrotum engin verið.

Við lestur viðhangandi fréttar rifjast þessi ótrúlegu vinnubrögð upp en einn sakborningur hefur setið í gæsluvarðhaldi í sex mánuði vegna gruns um aðild að hrottalegu líkamsárásarmáli, án þess að nokkuð hafi komið fram sem sannar aðild hans eða vitneskju um málið.

Hafa íslenskir rannsóknaraðilar ekkert lært á undanförnum áratugum?


mbl.is Vítisenglar héldu fundargerðarbók
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hortugur lagabrjótur

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir var Félagsmálaráðherra stóð hún fyrir lagabreytingum um vald Jafnréttisstofu í þeim að efla stofnunina með þeim ásetningi að mark yrði tekið á úrskurðum hennar og stofnanir ríkisins myndu ekki komast lengur upp með að hunsa þá bótalaust.

Sem forsætisráðherra hefur Jóhanna gerst sek um að brjóta lögin sem hún barðist sjálf fyrir að innleiða og nú bregður svo við að hún reynir að gera lítið úr Jafnréttisstofu, hártoga niðurstöðu hennar og gefa í skyn að úrskurðurinn hafi verið svo vafasamur að sérstakan "rýnihóp" þyrfti að setja á fót til að yfirfara niðurstöðuna.

Héraðsdómur hefur nú "rýnt" í þetta mál og komist að sömu niðurstöðu og Jafnréttisstofa, þ.e. að Jóhanna Sigurðardóttir sé lagabrjótur af hortugustu gerð, enda reyndi hún að niðurlægja þann umsækjanda sem hún sniðgekk við ráðningu eftir að hafa brotið lögin sem um slíkar ráðningar gilda.

Með sanni má segja að Jóhanna Sigurðardóttir sé hortugur lagabrjótur. Ef til vill ekki undarlegt ef litið er til framkomu hennar almennt í samskiptum við annað fólk.


mbl.is Fagnar niðurstöðu héraðsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiðigjaldið í Auðlindasjóð en ekki ríkissukk

Öll vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna í málefnum sjávarútvegsins er til mikillar skammar fyrir alla aðila og algerlega óboðleg þegar um svo stór hagsmunamál er að ræða, en í þessu tilfelli er hvorki meira né minna en höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar sem um er vélað.

Allir umsagnaraðilar um veiðigjaldafrumvarpið voru sammála um að það væri hroðalega illa unnið og myndi að öllum líkindum leggja íslenskan sjávarútveg í rúst og þrátt fyrir margítrekaðar kröfur stjórnarandstöðunnar á þingi og annarra aðila, sem málið varðar, fengust ekki lagðir fram neinir útreikningar um áhrif frumvarpsins á þjóðarhag og verður það að teljast með ólíkindum í slíku stórmáli.

Kristján Möller, formaður Atvinnuveganefndar Alþingis, viðurkennir að enginn viti í raun og veru hvernig þessi væntanlegu lög um veiðigjald muni fara með undirstöðuatvinnuveginn, en segir að það muni allt verða reiknað út á næstu árum, en þá gæti það að vísu verið orðið of seint fyrir atvinnugreinina, sérstaklega ef hún verður dauð áður en niðurstaða í þá útreikninga fæst.

Í raun er verið að pressa þessi lög í gegn á þessu þingi í þeim eina tilgangi að ríkisstjórnin geti lagt fram eyðslu- og sukkfjárlög fram fyrir næsta ár, sem er kosningaár og því mikið í húfi fyrir ríkisstjórnina að láta líta út fyrir að fjármál ríkissjóðs bjóði upp á slíkt eyðslufyllerí sem Kristján gefur í skyn að bjóða eigi til á næsta ári.

Sjálfsagt er að veiðigjald standi undir kosnaði ríkisins af Hafrannsóknarstofnun og öðru sem snýr beint að fiskveiðum og vinnslu, en allt sem þar er umfram ætti að leggjast í Auðlindasjóð sem aðeins yrði nýttur í neyðartilfellum, þ.e. t.d. þegar aflabrestur eða aðrar efnahagshörmungar ganga yfir þjóðina.

Þess vegna á auðvitað að nota veiðigjaldið núna til að létta á skuldabyrði ríkissjóðs eftir síðasta efnahagsáfall, en alls ekki að nota það í kosningasjóð Samfylkingar og Vinstri grænna.


mbl.is Kristján: Hefðum mátt vera sneggri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrukrísan versnar enn og áhyggjur heimsins vaxa

Í viðhangandi frétt er fjallað um frásögn fréttavefjar Daily Telegraph í Bretlandi af áhyggjum Gordons Brown, fyrrv. forsætisráðherra Bretlands, af því að evrukrísan gæti enn versnað og náð til æ fleiri landa og þar á meðal til Frakklands, sem fram að þessu hefur verið burðarás svæðisins ásamt Þýskalandi.

Brown er enn einn af málsmetandi mönnum veraldarinnar sem varar við þeim hörmungum sem framundan gætu verið í Evrópu, ef fram fer sem horfir með evruna og reyndar eru fleiri en Evrópubúar sem óttast afleiðingar evrukrísunnar og eru að búa sig undir það versta, eins og segir í fréttinni:  "Þá segir í fréttinni að margir telji að seðlabankar eins og Englandsbanki og Bandaríski seðlabankinn séu reiðubúnir að dæla gríðarlegum fjármunum inn í hagkerfi heimsins gerist þess þörf þegar markaðir opna á mánudaginn."

Allir hugsandi menn í heiminum hafa verulegar áhyggjur af fjármálakrísunni sem herjar á Evrópu og þá sérstaklega löndin sem nota evru sem gjaldmiðil, þ.e. fyrir utan ráðamenn á Íslandi sem ennþá láta eins og hér sé um minniháttar vandamál að ræða sem komi íslendingum ekkert við og hafi engin áhrif á áformin um að innlima landið í væntanlegt stórríki Evrópu.

Algert lágmark væri að fresta öllum innlimunarviðræðum um a.m.k. fimm ár, en líklega verður ekki séð fyrir endann á evrukrísunni fyrr og gæti jafnvel tekið mun fleiri ár að greiða endanlega úr vandanum.

Að fresta ekki innlimunaráformunum er hrein móðgun við íslenska þjóð. 


mbl.is Frakkland og Ítalía gætu þurft björgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarlögin tekin til eftirbreytni erlendis

Við bankahrunið í október 2008 björguðu Neyðarlögin því sem bjargað varð í peningamálum þjóðarinnar, en eins og allir muna vafalaust voru bankainnistæður settar fremstar í kröfuröð við gjaldþrot fjármálastofnana, sem t.d. verður til þess að breskir og hollenskir Icesaveinnistæðueigendur munu fá kröfur sínar greiddar úr þrotabúi Landsbankans  og fá forgang á aðra kröfuhafa við uppgjör búsins.

Ýmsir gagnrýndu þessa íslensku lagasetningu á sínum tíma, en nú er svo komið að erlendar ríkisstjórnir eru farnar að sjá snilldina við setningu Neyðarlaganna á sínum tíma, þó erfitt sé að viðurkenna það og einhver tími muni vafalaust líða þar til forgangur innistæðna verður almennt viðurkenndur í heiminum, en þó er breska ríkisstjórnin að ríða á vaðið og taka Neyðarlögin sér til fyrirmyndar við endurskoðun laga um fjármálakerfið, eða eins og segir í viðhangandi frétt:

"Gert er ráð fyrir að breska ríkisstjórnin leggi fram lagafrumvarp um umbætur í breska fjármálakerfinu síðar á þessu ári þar sem meðal annars verði kveðið á um forgang innistæðueigenda en eins og mbl.is hefur áður fjallað um fela þau áform í sér að farin verði sambærileg leið og gert var með neyðarlögunum sem sett voru hér á landi í kjölfar bankahrunsins haustið 2008."

Líklega mun ríkisstjórnar Geirs H. Haarde verða minnst víða um lönd fyrir fyrihyggjusemi sína og byltingarkennda lagasetningu á neyðarstundu þegar heimurinn verður almennt búinn að melta það sem í Neyðarlögunum fólst.


mbl.is Breskir innistæðueigendur í forgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgin kaupi Orkuveituna í heilu lagi af sjálfri sér

Orkuveita Reykjavíkur er í fjárhagskröggum eins og flestir vita og hefur sett sér það takmark að selja eignir fyrir a.m.k. tvo milljarða króna á þessu ári til að bjarga sér fyrir horn fjárhagslega.

Erfiðlega hefur gengið að finna kaupendur að eignum OR, enda í flestum tilfellum um eignir að ræða sem ekki falla að hvaða rekstri sem er og hvað þá að þær gætu nýst einstaklingum, sem fæstir hefðu hvort eð er ráð á því að kaupa þær þó þeir gætu nýtt sér þær í einhverjum tilgangi.

Vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að finna kaupendur að þessum eignum hefur stjórn OR fengið þá snilldarhugmynd að best væri að Reykjavíkurborg keypti af fyrirtækinu bæði Perluna og Línu-Net, eins og það fyrirtæki hét þegar það var stofnað til að veita borgarbúum aðgang að internetinu í gegnum rafmagnslínur, en öllum þessum árum síðar er það ekki orðinn raunhæfur kostur, en snillingurinn sem lét sér detta þá dellu í hug er hins vegar sífellt meira hampað af Samfylkingunni.

Næst dettur þessum snillignum sjálfsagt í hug að Reykjavíkurborg kaupi OR í heilu lagi af sjálfri sér og bjargi þannig fjárhag beggja til allrar framtíðar.


mbl.is Borgin fær lengri frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúður í Kópavogi

Það verður að teljast mikil glámskyggni hjá bæjarstjóra og bæjarfulltrúum í Kópavogi, hvort sem þar er um meirhlutann að ræða eða samstöðu allra bæjarfullterúanna, að hækka laun sín um 23% á einu bretti og kalla það "leiðréttingu" en ekki launahækkun, sem það auðvitað er og ekkert annað.

Þó laun bæjarfulltrúa hfi verið lækkuð í kjölfar hrunsins, þá þurftu flestir aðrir að taka á sig launalækkanir og þar til viðbótar miklar hækkanir á sköttum, öðrum opinberum gjöldum og alls kyns þjónustugjöldum opinberra stofnana.

Á meðan þessar auknu álögur verða ekki dregnar til baka a.m.k. að einhverju leyti, er algerlega taktlaust að hækka laun bæjarfulltrúa, þrátt fyrir að ráðherrar og Alþingismenn hafi látið sér sæma að taka við álíka launahækkunum og bæjarfulltrúar í Kópavogi þiggja núna.

Ráðherrar, bæjarstjórar, Alþingismenn og bæjarfulltrúar þurfa að sýna að þeir séu í tengslum við kjósendur sína og hafi einhvern skilning á þeim raunveruleika sem almenningur býr við í þessu landi.

Kauphækkanir til sjálfra sín á þessum tímum sýna ekki slíkan skilning.


mbl.is Dragi til baka launahækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herdís vinnur stöðugt á sem verðugur forseti

Herdís Þorgeirsdóttir verður sífellt álitlegra forsetaefni, því nær sem dregur kosningum, enda loksins farið að gefa henni gaum í fjölmiðlum og þar með hefur henni gefist kostur á að sýna hvað hún hefur fram að færa, án þess að hengja sjálfa sig á ævilangan skuldaklafa vegna auglýsinga og annars kostnaðar sem kosningamaskínur stjórnmálaflokka virðast greiða fyrir einstaka frambjóðanda.

Herdís virðist vera hrein og bein, kemur vel fyrir og er vel menntuð og með mikla og góða starfsreynslu, innanlands og utan og ekki annað að sjá en að hún hafi allt til að bera til að geta orðið góður forseti til næstu tólf til sextán ára.

Kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar hefur verið á fremur rólegum nótum fram að þessu, en hefur þó verið að harðna síðustu dagana og mun sjálfsagt verða þeim mun óvægnari eftir því sem nær dregur kjördegi og línur fara að skýrast milli frambjóðenda, en vafalaust á fylgi Herdísar eftir að vaxa mikið á þeim tveim vikum sem eftir lifa fram að kosningunum.

Persónulegt skítkast er farið að vera talsvert áberandi og virðist helst mega rekja til herbúða Þóru Arnórsdóttur og verður að láta þá von í ljósi að slíku linni og baráttan síðustu dagana verði málefnaleg og heiðarleg.

Því verður ekki trúað að persónulegt skítkast verði nokkrum frambjóðanda til framdráttar og hvað þá að nokkur kjósandi byggi afstöðu sína á slíkum óþverra.


mbl.is Forsetinn á að efna til umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama er hræddur- Jóhanna og Össur ekki

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, er hræddur við evrukrísuna og þau neikvæðu áhrif sem hún hefur og getur haft á bandaríkst efnahagslíf.

Bandaríkin eru eitt mesta efnahagsveldi veraldarinnar, en samt líst Obama ekkert á blikuna vegna vandamálanna sem evruríkin eru að glíma við og telur að þau séu svo smitandi að efnahagur Bandaríkjanna muni bera stórskaða af sjúkdómnum.

Íslenskir ráðamenn, með Jóhönnu og Össur í fararbroddi, hafa hins vegar ekki minnstu áhyggjur af þeim áhrifum sem evruvandinn kynni að hafa á veikburða efnahag Íslands, sem þó má ekki við miklu enda langt frá því búið að jafa sig eftir bankahrunið í október 2008.

Íslensku ráðherrarnir þrá ekkert heitara en að komast á sjúkrabeðið með evruríkjunum og virðast halda að með því að veikjast af enn illvígari sjúkdómi þá muni sá sem nú herjar á íslenskt fjármálalíf a.m.k. læknast.

Hvort skyldi nú ótti Obama eða óttaleysi íslensku ráðherranna vera skynsamlegri viðbrögð við þessu stóralvarlega vandamáli?


mbl.is Obama óttast evrukreppuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband