Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Það eina góða við Landsdómsmálið

Allt sem fram hefur komið í fréttum af réttarhöldunum fyrir Landsdómi staðfestir að stjórnvöld gátu ekki með nokkru móti komið í veg fyrir að banka- og útrásarruglið spryngi í loft upp á sínum tíma, en voru hins vegar vel undir það búin og unnu í raun kraftaverk og björguðu því sem bjargað varð með neyðarlögunum í október 2008.

Þó dómsmálið sem slíkt sé byggt á pólitískum ofsóknum og hatri gegn einum manni, þá er þó það eina góða sem af því hlýst, að almenningi verður loksins ljóst að Geir H. Haarde er ekki sekur um vanrækslu í starfi forsætisráðherra og hvað þá nokkurn einasta glæp. Þvert á móti skýrist með hverjum degi réttarhaldanna að hann hefur þvert á móti staðið sig með afbrigðum vel í embættinu við nánast óviðráðanlegar aðstæður.

Eini glæpurinn í sambandi við allt þetta mál er í raun aðdragandi og tilurð ákærunnar sjálfrar. Að það skýrist betur og betur með hverjum deginum, er það eina góða við Landsdómsmálið.


mbl.is Gerðu sér grein fyrir hættunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fórnarlömb illviljaðra stjórnmálamanna

Hreiðár Már Sigurðsson, f.v.forstjóri Kaupþings, gerði sitt fyrir Landsdómi í dag að sýna og sanna hverjir það voru sem raunverulega voru fórnarlömb og hverjir gerendur í bankahruninu á árinu 2008.

Samkvæmt vitnisburði Hreiðars Más voru það banka- og útrásarvíkingar, sem voru fórnarlömb illviljaðra og heimskra stjórnmálamanna sem allt gerðu til að leggja stein í götu þeirra sem vildu hag lands og þjóðar sem mestan án þess að þurfa að neyðast til þess að vera háðir "litla Íslandi".

Sérstakur saksóknari hefur verið að leggja þessa, að eigin sögn, bjargvætti þjóðarinnar í einelti undanfarin misseri og virðist ætla að saksækja þá fyrir lögbrot og ýmsar aðrar upplognar sakir, en eftir vitnisburð Hreiðars Más þarf enginn að láta sér detta í hug að þeir verði sakfelldir fyrir nokkurn skapaðan hlut.

Þjóðin má líklega þakka fyrir, ef sá sérstaki er ekki að baka henni tugmilljarða skaðabótaábyrgð með verkum sínum og ofsóknum á hendur þessum bestu og framsæknustu sonum hennar frá landnámi.


mbl.is Höfðu ekki afskipti af Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óáreiðanlegur þingmaður, Þór Saari

Þór Saari hefur löngum barið sér á brjóst og gefið sig út fyrir að vera heiðarlegri og að öllu leyti merkilegri mann og þingmann en aðra sem á þingi sitja.

Hann hefur ekki sparað stóryrðin í gagnrýni sinni á aðra, en gerist nú ber að hreinum ósannindum, þegar hann fullyrðir í ósmekklegri bloggfærslu, að sjálfsvígum hafi fjöllgað gífurlega í landinu á síðust rúmum þrem árum, þ.e. frá banka- og efnahagshruninu haustið 2008.

Þrátt fyrir að slíkar fullyrðingar hafi marg oft áður verið hraktar af þar til bærum aðilum, gerist þingmaðurinn svo djarfur að slá slíkri fyrru fram og ætlast væntanlega til að fólk trúi honum, enda þykist hann öðrum mönnum áreiðanlegri, eins og áður sagði.

Þetta er ekki í fyrsta sinn og sjálfsagt ekki í það síðasta, sem Þór Saari verður sér til skammar með gífuryrðum sínum.


mbl.is Segir Þór fara frjálslega með staðreyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsendingarþjónusta Landsbankans

Tvennt er meira en lítið athugavert við fréttina af njósnum Gunnars Andersen um fjármál Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.

Í fyrsta lagi að forstjóri Fjármálaeftirlitsins láti senda slíkar upplýsingar um einstaklinga heim til sín og í öðru lagi að fjármálastofnun skuli senda slíkar upplýsingar heim til fólks.

Hvort tveggja hlýtur að verða rannsakað ofan í kjölinn og reynist þessar upplýsingar réttar hljóta fleiri en Gunnar Andersen að verða látnir taka pokann sinn.

Þetta er ekki bara alvarlegt mál fyrir Guðlaug Þór, heldur verður Landsbankinn að gera hreint fyrir sínum dyrum og láta viðkomandi starfsmenn sæta ábyrgð á gjörðum sínum.


mbl.is Er brugðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband