Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Óboðlegur málflutningur ráðamanna

Össur Skarphéðinsson, Sigríður Ingibjörg, Árni Páll og fleira Samfylkingarfólk og jafnvel sumir Vinstri grænir hafa keppst við að gera lítið úr efnahagserfiðleikum ESBríkjanna og látið eins og evran sé sterkur og traustur gjaldmiðill og hafa reynt að gera lítið og jafnvel ekkert úr þeim efnahagserfiðleikum sem steðja að öllum heiminum vegna vandamálanna sem ESB glímir við og þá alveg sérstaklega evrulöndin.

Þetta fólk lemur höfðinu við steininn og neitar að viðurkenna það sem allir forystumenn Evrópu, annarra ríkja og alþjóðastofnana viðurkenna og ræða opinskátt um þessar mundir og þetta fólk, sem kosið hefur verið til að leiða þjóðina og stjórna málefnum hennar, leyfir sér hreinlega að ljúga að umbjóðendum sínum um stöðu þessara mála.

Efnahagserfiðleikar ESB er aðalumfjöllunar- og áhyggjuefni heimsbyggðarinnar um þessar mundir og málflutningur íslenskra ráðamanna um þetta efni er algerlega óboðlegur og raunar móðgandi fyrir þjóðina að þurfa að þola slíkt fláræði af sínum eigin "forystumönnum".

Ef þetta "forystufólk" þjóðarinnar skilur ekki  um hvað málið snýst er það alvarlegt mál.  Ef það skilur málið, en lýgur vísvitandi,  er virkilega illa komið fyrir íslenskri þjóð.


mbl.is Endurskoða evrubjörgunaráætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað skyldu ESBgrúppíur ekki skilja varðandi skuldavandann?

Íslenskar ESBgrúppíur undir foystu Össurar Skarphéðinssonar og jáfólks hans í Samfylkingunni, halda áfram að blekkja þjóðina til að samþykkja innlimun Íslands í væntanlegt stórríki Evrópu, sem áhrifalauss útnárahrepps, og harðneita öllum staðreyndum um efnahagsvandræði ESBríkja og ekki síst þeirra sem nota evruna sem gjaldmiðil.

Ársfundur AGS, þar sem saman koma fulltrúar allra helstu ríkja veraldar, hefur lýst yfir miklum áhyggjum af efnahagsvanda ESBríkja og í ályktun fundarins er skorað á forystumenn stórríkisins væntanlega að bregðast fljótt og skipulega við vandamálinu, annars muni vandamálið smita út frá sér um heiminn allan.

Í fréttinni kemur m.a. þetta fram:  "Zhou Xiaochuan, seðlabankastjóri Kína, sagði á ársfundinum í dag, að verði skuldakreppan á evrusvæðinu ekki leyst án tafar gæti það leitt til þess, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ráði ekki yfir nægum fjármunum til að aðstoða önnur ríki í vanda en mikil eftirspurn væri nú eftir aðstoð frá sjóðnum. Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, tók undir þetta, og sagði að það stæði glöggt hvort sjóðurinn réði yfir nægum fjármunum í ljósi þess hve mikil þörf væri fyrir fjármagn."

Þessar yfirlýsingar eru algerlega í takt við fullyrðingar annarra fræði- og stjórnmálamanna undanfarna mánuði um fjárhagsvanda ESBríkja.  

Hvað skyldi það vera varðandi efnahagsvanda ESBríkjanna sem ESBgrúppíunum gengur svona illa að skilja? 


mbl.is Evrusvæðið má engan tíma missa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður illskan allsráðandi 1. október

Boðað hefur verið til mótmæla við Alþingishúsið við þingsetningu þann 1. október næstkomandi.

Væntanlega mun þar safnast saman stór hópur almennings til að láta reiði sína út í stjórnnöld í ljós og ef miða má við fyrri uppákomur af líku tagi mun ekki þurfa mikið til að upp úr sjóði og ólátabelgir láti til sín taka með skrílslátum.

Ef miða má við viðbrögð lögreglumanna vegna gerðadóms um laun þeirra, má reikna með að ólátabelgjunum mæti öskureiðir lögregluþjónar og líklega mun reiði þeirra annaðhvort koma fram í aðgerðarleysi eða reiði þeirra mun brjóstast út og verða til þess að skrílslátum verði mætt af mikilli hörku.

Ef til vill verður 1. október minnst sem dags illskunnar á Íslandi.


mbl.is Lögreglumenn vonsviknir og reiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannorðið á milljón

Jón Ásgeir, Baugsgengisforingi, telur að Björn Bjarnason hafi skaðað mannorð sitt illilega með þeirri ritvillu í bók sinni um Baugsgengið að Jón Ásgeir hafi verið dæmdur fyrir fjárdrátt, þegar staðreyndin er sú að hann var dæmdur sekur um bókhaldsbrot.

Björn hefur leiðrétt ritvilluna í seinni útgáfum bókarinnar og beðist afsökunar á mistökunum, en Jón Ásgeir telur samt að æra sín hafi beðið gífurlegan skaða vegna þessa og mátti hún nú ekki við miklu til viðbótar við þann skaða sem Jón Ásgeir hefur sjálfur valdið æru sinni.

Þennan meinta viðbótarskaða, sem Björn Bjarnason á að hafa valdið, metur Jón Ásgeir á eina milljón króna og telur æru sína fullbætta með þeirri upphæð úr hendi Björns.

Aðrir munu líklega telja þessa upphæð vera mikið ofmat í þessu tilfelli.


mbl.is Krefst einnar milljónar í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin gerir þjóðinni grískan grikk

Grísk stjórnvöld "hagræddu" ríkisbókhaldinu árum saman til þess að sýna á pappírunum að staða ríkissjóðs Grikklands stæði nógu vel til þess að uppfylla Maastikt-skylirðin fyrir upptöku evrunnar.

Þetta "skapandi" bókhald er nú að koma í bakið á Grikkjum af fullum þunga, reyndar svo að ekki aðeins rambar gríska ríkið á barmi gjaldþrots, heldur titrar öll Evrópa vegna þessa og framtíð evrunnar sem sameigilegs gjaldmiðils allrar Evrópu er fyrir bí.

Íslenska ríkisstjórnin vinnur nú hörðum höndum að innlimun Íslands, sem útnárahrepps, í væntanlegt stórríki Evrópu og hefur af því tilefni tekið upp "skapandi" ríkisbókhald, þar sem raunverulegri skuldastöðu ríkissjóðs er "hagrætt" að hætti Grikkja til þess að blekkja ESB og ekki síður íslensku þjóðina, sem látin er halda að staða ríkissjóðs sé mun betri en hún raunverulega er.

Í þessu blekkingarskini er látið líta út fyrir að einhver annar en ríkið sjálft fjármagni ríkisframkvæmdir og síðan taki ríkissjóður fjárfestinguna á leigu til langs tíma og þannig er kostnaði og lántökum haldið utan ríkisreiknings að hætti Grikkja.  Jafnvel er svo langt gengið að ríkissjóður er látinn "lána" ríkisfyrirtæki fyrir framkvæmdinni (Vaðlaheiðargöng)  , eða ríkisfyrirtæki er látið "lána" ríkissjóði fyrir byggingaframkvæmdum (hjúkrunarheimilin)  Um þetta segir Sveuinn Arason, ríkisendurskoðandi, í samtali við BUV:  "Það má benda á það að ríkið eignfærir ekki varanlega rekstrarfjármuni í bókhaldi A-hluta ríkissjóðs og að því leyti til er verið að vísa þessum gjaldfærslum til framtíðarinnar."

Jóhanna og Steingrímur J. eru sannarlega að gera þjóðinni ljótan grikk. 


mbl.is Gagnrýnir fjármögnun framkvæmda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlind sem ekki má leika sér með

Ísland er ein af tuttugu mestu fiskveiðiþjóðum heimsins og útflutningur sjávarafurða skiptir algeröum sköpum um framtíð þjóðarinnar og afkomu.

Ríkisstjórnin hefur verið að ógna þessari framtíð, bæði með innlimunarvinnu sinni í væntanlegt stórríki ESB og ekki síður með hótunum sínum um að kollvarpa allri skipulagningu og stjórnun fiskveiðanna við landið, en hver einasti aðili sem tjáð hefur sig um þær fyrirætlanir hafa mótmælt þeim harðlega vegna þess að þær muni nánast leggja sjávarútveginn í rúst og þar með framtíðarafkomu þjóðarinnar.

Hverjar sem þær breytingar verða, sem að lokum verða ofan á í fiskveiðimálum, mega þær ekki verða til þess að minnka arð og afrakstur auðlindarinnar, heldur ættu þær að verða til þess að auka hagkvæmni greinarinnar og þar með auðvitað þjóðarbúsins.

Alvöru auðlindagjald ætti hins vegar að taka upp og álagning þess ætti að vera einföld og auðskilin og ganga jafnt yfir alla. Það væri best gert með ákveðnu gjaldi á hvert landað kíló af fiski, en ekki reiknað út eftirá eftir flóknum reglum um framlegð, sem myndi koma misjafnlega niður á útgerðaraðilum.

Einfalt og auðskilið kerffi, sem skilar hámarksarði fyrir þjóðina hlýtur að vera keppikefli allra.


mbl.is Ísland 17. mesta fiskveiðiþjóðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannorð Jóns Ásgeirs í hættu?

Jón Ásgeir, leiðtogi Baugsgengisins, hefur stefnt Birni Bjarnasyni vegna meiðyrða, þar sem sú villa slæddist inn í fyrstu prentun bókar Björns um Baugsmálið fyrsta, að Jón Ásgeir hefði fengið dóm fyrir fjárdrátt, þegar staðreynd málsins er sú að hann var dæmdur fyrir bókhaldsbrot.

Í huga almennings í landinu stendur Jón Ásgeir fyrir ímynd hins eina og sanna útrásargangsters og engin leið að sverta mannorð hans með ritvillum um þau brot sem hann hefur þegar verið dæmdur fyrir, enda reikna allir með að hann muni fá mun fleiri og þyngri dóma vegna athafna sinna í aðdraganda banka- og efnahagshrunsins, sem Rannsóknarnefnd Alþigis sagði eigendur og stjórnendur bankanna fyrst og femst ábyrga fyrir.

Þessi kæra Jóns Ásgeirs uppfyllir hins vegar hluta af þeim spádómi Evu Joly að útrásargengin myndu beita öllum brögðum til að leiða athyglina frá gerðum sínum og ráðast með öllum tiltækum ráðum að þeim sem um þá fjölluðu og eins þá rannsakendur sem með mál þeirra fara og munu væntanlega sækja þá til saka fyrir dómstólum. Einnig sagði Eva fyrir um það, að allir helstu og dýrustu lögfræðingar landsins og janfvel þó víðar væri leitað, yrðu notaðir af útrásargengjunum í baráttunni gegn réttvísinni. Sú spá hefur einnig ræst.

Kæran mun ekki skaða Björn Bjarnason, en sýnir hins vegar enn og aftur hvern mann Jón Ásgeir hefur að geyma.


mbl.is Birni afhent stefnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Jón Gnarr forsætisráðherraefnið?

Guðmundur Steingrímsson, flokkaflakkari, hefur nú loksins fundið sér samastað í pólitíska litrófinu, en það er í faðmi þess stjórnmálaflokks á landinu sem enga stefnu hefur og ekkert markmið haft fram að þessu annað en að koma Jóni Gnarr í borgarstjórastólinn.

Enginn hugsandi maður lét sér detta í hug að grínframboð myndi fá nokkurt fylgi sem heitið gæti í kosningum, en það gerðist nú samt og fíflagangurinn náði völdum í stjórn Reykjavíkurborgar, sem varð að athlægi um víða veröld fyrir vikið.

Nú fást fáir til að viðurkenna að þeir hafi kosið þetta flokksskrípi í síðustu borgarstjórnarkosningum, en það aftrar ekki Guðmundi Steingrímssyni frá því að gagnga sjálfviljugum í þetta bjarg forheimskunnar, enda sýnt og sannað í störfum sínum á Alþigi að hann á best heima í flokki með öðrum liðleskjum.

Kjósendur sýndu reyndar og sönnuðu í síðustu borgarstjórnarkosningum að skynsemi ræður ekkert endilega för í kjörklefanum og því skal hreint ekki útilokað að næsta ríkisstjórn verði samsett úr "Besta flokknum" og Samfylkingunni.

Í þeirri ríkisstjórn yrði Jón Gnarr auðvitað forsætisráðherra.


mbl.is Hyggja á framboð til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur seinn að skilja, þó boðin væru skýr

 Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, ríður nú um héruð Vestfjarða til að útskýra fyrir íbúum svæðisins niðurstöðu sína um vegabætur fyrir vestan, en vegna deilna um vegastæðið hefur Ögmundur legið undir feldi undanfarna mánuði og íhugað tillögu að lausn málsins.

Í stað þess að leysa hnútinn virðist "lausn" Ögmundar hafa orðið til þess að herða hnútinn frá því sem hann hafði verið áður hnýttur og bætt rembihnúti ofan á.  Fundargestir á þeim fundum sem haldnir hafa verið hafa verið algerlega andvígir "niðurstöðu" Ögmundar og eru alveg einhuga um að vegurinn skuli lagður á láglendi, en ekki um fjöll og firnindi, þrátt fyrir andstöðu tveggja eða þriggja landeigenda.

Viðbrögð Ögmundar við því að meirihluti fundargesta skuli hafa gengið út af fundi hans á Patreksfirði í mótmælaskini og til að tjá atkvæði sitt við frávísun "sáttaleiðar" Ögmundar, voru nokkuð undarleg, en hann sagði m.a. við mbl.is:  "Ef menn kjósa að ganga af fundi þá gera menn það þótt ég hefði gjarnan viljað heyra sjónarmið fleiri."

Ögmundi gat eingan veginn orðið að þeirri ósk sinni að heyra fleiri sjónarmið, því þau voru ekki fyrir hendi.

Hefðu fleiri tjáð sig hefði hver einasti maður yfirgefið fundinn og Ögmundur orðið einn eftir með sitt fylgislausa  sjónarmið. 


mbl.is Hefði viljað heyra fleiri sjónarmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkomulag við breskan hrunverja - um hvað?

Slitastjórn Kaupþings hefur gert samkomulag við Vincent Tchenguiz, annan þeirra breskur bræðra sem stórtækastir voru í lántökum hjá bankanum á árunum fyrir hrun og líklegt er að bankinn tapi óheyrilegum fjárhæðum vegna þeirra "viðskipta".

Í fréttinni segir m.a.: "Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins frá þeim tíma rannsakar SFO fyrst og fremst að því virðist nánast takmarkalausan aðgang Roberts Tchenguiz að lánsfé hjá Kaupþingi. Þegar aðrir bankar gerðu veðköll hjá honum undir lok árs 2007 og á árinu 2008 kom Kaupþing Robert jafnan til aðstoðar með aukinni fyrirgreiðslu. Allar lánveitingar Kaupþings til Roberts Tchenguiz voru gerðar í gegnum móðurfélagið á Íslandi. En viðskiptasamband Roberts við bankann hófst hins vegar við Kaupthing Singer&Friedlander árið 2004."

Í fréttinni kemur einnig fram að samkomulagið nái einungis til Vincents en ekki bróður hans Roberts, en Robert var sá skuldugasti við bankann og Vincent lánaði honum veð í eignum sínum, þegar harðna fór á dalnum hjá bróðurnum.

Ekkert er sagt um í hverju þetta samkomulag sé fólgið, t.d. hvort bankinn sé að gefa eitthvað eftir af kröfum sínum á hendur bræðrunum, hvort Vincent sé leystur undan ábyrgðunum fyrir bróður sinn eða nokkuð annað sem að þessu samkomulagi snýr.

Íslenskir viðskiptamenn bankakerfisins eiga kröfu til þess að fá að vita nákvæmlega um innihald allra "samninga" sem gerðir eru við aðalgerendur í bankahruninu, enda þeir sem allan kostnað og erfiðleika hafa þurft að axla vegna gjörða þeirra.

Samninginn á borðið - strax. 


mbl.is Tchenguiz semur við Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband