Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Stórslösuð ríkisstjórn

Össur Skarphéðinsson viðurkenndi að framlalgning "Stóra kvótafrumvarpsins" hafi verið stórslys og frumvarpið ekki verið boðlegt þingmál.

Ráðherrann lýsti framlagningu frumvarpsins við bílslys og sagði ríkisstjórnina verða að læra af þeim glæfraakstri til að forðast annað eins stórslys og þar hefði orðið.

Spurður hvort nokkurri ríkisstjórn væri sæmandi að leggja fram frumvarp sem líktist engu öðru en stórslysi, sagði Össur að sér fyndist slíkt ekki boðlegt, enda hefði hann ekki lagt frumvarpið fram.

Slíkt svar er eintómur blekkingarleikur enda var þarna um að ræða stjórnarfrumvarp, sem Össur Skarphéðinsson var jafnábyrgur fyrir og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar.

Þetta er ekki eina slysið sem ríkisstjórnin hefur lent í á ferlinum, því hann hefur einkennst af ótrúlegri seinheppni og varla hægt að tilnefna meiri hrakfallabálk en einmitt þessa ríkisstjórn.

Eftir allan þennan óhappaferil er ríkisstjórnin stórslösuð og óvíst að hún nái nokkurn tíma fullum bata.


mbl.is Kvótafrumvarpið eins og bílslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppstoppaður Kim Jong-il

Varla dettur ráðamönnum Norður-Kóreu í hug að jarðsetja hinn dýrðlega, ástsæla og guðlega Kim Jong-il eftir allt sem hann hefur gert fyrir þjóð sína og mannkynið allt með stjórnvisku sinni og leiðsögn á öllum sviðum mannlífsins.

Kim Jong-il á sannarlega skilið að verða stoppaður upp og hafður opinberlega til sýnis alþýðunni til innblásturs um alla framtíð, eins og gert hefur verið með ýmsar aðrar furðuskepnur, eins og t.d. pabba hans blessaðan, Lenin, Stalin og Maó.

Mannkynið stendur í þvílíkri þakkarskuld við þessa guðlegu veru að nokkurra tuga milljóna króna kostnaður má ekki verða til að smásálir komi í veg fyrir að rússneskir uppstopparar komi gripnum í sýningarhæft ástand.


mbl.is Verður lík Kim Jong-ils smurt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verja sína og ásaka aðra

Níu verjendur ýmissa meðlima þeirra banka- og útrásargengja sem ábyrgir eru fyrir efnahagshruninu hér á landi árið 2008 kvarta sáran, fyrir hönd skjólstæðinga sinna, yfir því að fjölmiðar skuli fjalla um rannsóknirnar og ræða við hina og þessa álitsgjafa um gang málanna.

Fyrirfram var vitað að banka- og útrásargengin sjálf myndu beita öllum brögðum til að reyna að veikja trúverðugleika þeirra embætta sem með rannsóknirnar fara og má t.d. benda á herferðina undanfarið gegn forstjóra Fjármálaeftirlitsins og ný er stórum hópi lögfræðinga beitt í því skini að gera Sérstakan saksóknara og rannsóknir hans tortryggilegar.

Lögfræðingarnir skammast yfir umfjöllun um sakamálarannsóknirnar og segja hana byggða á getgátum og órökstuddum fullyrðingum, en í yfirlýsingunni falla þeir í þann pytt að beita nákvæmlega þeim brögðum, þegar þeir gefa í skin að rannsakendur málanna leki upplýsingum í fjölmiðlana, en í yfirlýsingu þeirra segir m.a:  "Þar virtust sérstakur saksóknari og aðrir rannsakendur mála tengdum bankahruninu hafa ákveðið að leka völdum upplýsingum til Kastljóss."

Með þessum dylgjum virðast lögfræðingarnir ásaka rannsakendur um lögbrot.   Hafi þeir sannanir fyrir ásökunum sínum hljóta þeir að leggja þær á borðið.  Annars virðast þeir ekki trúverðugir.


mbl.is Segja mál að linni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins einhver glæta fyrir Suðurnesjamenn?

Eftir langt og strangt ferli fyrir sænskum gerðardómi og mikið jaml, japt og fuður hefur loksins fengist niðurstaða í deilumál HS-orku og Norðuáls varðandi orkuverð til álversins í Helguvík.

Við þessa niðurstöðu virðist opnast lítil glufa að bættu atvinnuástandi á Suðurnesjum, en þar er mesta atvinnuleysi á landinu og lengi verið beðið eftir einhverjum jákvæðum tíðindum varðandi nýframkvæmdir á svæðinu.

Náist að ganga frá lausum endum á milli Norðuáls og HS-orku á næstu mánuðum er allt útlit fyrir að framkvæmdir komist á fullt skrið á næsta ári og munu þá nokkur hundruð, eða jafnvel þúsundir manna fá vinnu við uppbyggingu álversins og nokkur hundruð fasta vinnu þegar framleiðsla í verksmiðjunni fer af stað.

Það eina sem veldur verulegri óvissu um framgang þessarar gleðilegu framvindu er ríkisstjórnin, sem fram að þessu hefur barist um á hæl og hnakka til að koma í veg fyrir allar stórframkvæmdir, hvort heldur sem er á Suðurnesjum eða annars staðar á landinu, þar sem fjárfestar hafa sýnt áhuga á að reisa verulega stóra vinnustaði.

Veturinn mun skera úr um hvort ríkisstjórnin hafi þingmeirihluta til að stöðva þetta þjóðþrifaverk.


mbl.is Álver í Helguvík á fullt 2014?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástkærasti leiðtoginn fallinn frá

Ástkærasti þjóðarleiðtogi vorra tíma, Kim Jong-il, er fallinn frá í blóma lífsins, aðeins sjötugur, og var það dugnaður hans, vinnusemi og fórnfýsi sem að lokum varð honum að aldurtila og eins og gefur að skilja er dauði hans gríðarlegur harmur fyrir þjóð hans.

Íbúar Norður Kóreu mega illa við að bæta þessum hörmungum ofan á aðrar sem þeir hafa þurft að þola undanfarna áratugi, enda erfiðara fyrir hungrað fólk að sinna sorginni eins og skyldi og erfitt er að láta ljós loga í minningu hins mikla landsföður þar sem rafmagn er af skornum skammti í landinu og kerti vandfundin.

Íbúarnir skilja vel að dauða hins mikla og ástsæla leiðtoga má rekja beint til þrældóms hans í þágu alþýðunnar og varla er hægt að ímynda sér hvílíkt hörmungarástand væri ríkjandi í landinu, hefði hans ekki notið við.

Ekki er að efa að sá elskaði, virti og dáði Kim Jon-un, sem nú mun taka við stjórnartaumunum, muni fórna sér af minni krafti fyrir þjóðina en faðir hans og afi gerðu.

Dugnaður, kraftur og fórnfýsi hefur alltaf verið aðalsmerki Kim ættarinnar. Þjóðir heims eiga henni mikið að þakka og þá auðvitað ekki síst sú norður-kóreska.

Vonandi leggur hún á sig enn meiri vinnu og matarsparnað í þágu hins nýja, elskaða og dáða þjóðarleiðtoga, sem forsjónin hefur fært henni fyrirhafnarlaust upp í hendurnar.


mbl.is Kim Jong-il látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnuveitandi ábyrgur fyrir kynlífi starfsmanna?

Átta konur hafa stefnt bresku lögreglunni vegna ástarsambanda sem þær hafa átt í við leynilega útsendara löggunnar, sem störfuðu innan ýmissa hópa umhverfisverndarsinna undanfarinn einn og hálfan áratug, þar á meðal við mótmælaaðgerðir Saving Iceland.

Burtséð frá því, hvort réttlætanlegt hafi verið af bresku lögreglunni að planta njósnurum í þessi umhverfissamtök, verður það að teljast nokkuð einkennilegt að stefna vinnuveitendum þeirra vegna ástarsambanda sem greinilega hafa stofnast milli þeirra og kvennanna.

Fréttin leiðir huganna að því hvort vinnuveitendur geti verið ábyrgir og þá væntanlega skaðabótaskyldir vegna kvennafars sem starfsmenn þeirra stunda, hvort heldur er í vinnutíma eða utan hans.

Verði breska löggan dæmd í þessum málum, hlýtur kalt vatn að renna milli skinns og hörunds allra yfirmanna í stofnunum og fyrirtækjum veraldarinnar, þar sem kynkvötin hefur lengi valdið alls kyns vandræðum í samskiptum kynjanna.

Væri t.d. hægt að kæra AGS vegna kvennamála Strauss Khan?


mbl.is Fagnar málsókn á hendur bresku lögreglunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir hverju er verið að bíða?

Jón Gnnarsson og átta aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp um að fela Landsvirkjun að ráðast hið fyrsta í virkjanir í Neðri-Þjórsá, enda um hagkvæma og fljótlega virkjunarkosti að ræða.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a: "Verði frumvarpið að lögum skal hið fyrsta hefja framkvæmdir við þær þrjár virkjanir sem eru kenndar við Urriðafoss, Holt og Hvamm og nýta orkuna þaðan til uppbyggingar atvinnulífs á sunnanverðu landinu. Þessi áform um virkjanir hafa þegar uppfyllt öll skilyrði umhverfissjónarmiða og hagkvæmnissjónarmiða. Virkjanirnar hafa þegar farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum án athugasemda, verið í tvígang settar í rammaáætlun og komið vel út í bæði skiptin, eru fjárhagslegar hagkvæmar og styrkja íslenskt atvinnulíf."

Það sem bráðvantar er að koma atvinnustarfseminni í landinu í fullan gang og minnka atvinnuleysið.

Eftir hverju er verið að bíða? 


mbl.is Virkjað verði í Neðri-Þjórsá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú skal hefna óhlýðni Breta

Íslendingar hafa illilega orðið fyrir barðinu á ESB og hefndaraðgerðum hins væntanlega stórríkis, t.d. vegna Icesave og nú er hótað grimmilegu efnahagsstríði gegn landinu, gangist það ekki undir ákvarðanir kommisaranna í Brussel um veiðar á makríl innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.

Bretar voru svo ósvífnir að neita að afsala fullveldi sínu algerlega og fjárhagslegri stjorn Bretlands til Merkels og Sarkozys og af þeim sökum er nú hafið hefndarstríð gegn Bretlandi, efnahag þess og trausti umheimsins á landinu sem fjármálamiðstöð.

Í byrjun er Frökkum beitt í þessu stríði gegn Bretunum, en ef miða skal við fyrri reynslu af ESB munu fleiri framámenn í Evrópu taka þátt í stríðinu á seinni stigum og án vafa er þessi ófrægingarherferð rétt að byrja.

Sjálfsagt er þessu stríði gegn Bretunum í og með ætlað að leiða athyglina frá vandamálunum sem steðja að evruríkjunum og langt er í land með að leysist, en t.d. gaf eitt af matsfyrirtækjunum út í dag að líklega yrði lánshæfismat nokkurra þeirra lækkað á næstu dögum, en það eru Belgía, Spánn, Slóvenía, Ítalía, Írland og Kýpur. Óþarfi ætti að vera að minna á að Grikkland er þegar komið í ruslflokk matsfyirtækjanna, enda vandamálin þar í landi nánast óleysanleg, þó þegar sé búið að fella niður drjúgan part skulda þess.

Umheiminum á að gera fullljóst að ESB líður engar sjálfstæðar skoðanir innan Evrópu.


mbl.is Bretar svara Frökkum fullum hálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna úti á þekju, eins og venjulega

Jóhanna Sigurðardóttir hefur margsýnt að hún lifir í einhverjum allt öðrum heimi en aðrir Íslendingar og er sjaldan með á nótunum í umfjöllun um helstu málefni sem til umræðu eru á hverjum tíma.

Jóhanna heldur t.d. að fólksflóttinn úr landinu undanfarin þrjú ár sé nánast venjubundin ferðalög til sólarlanda og því ekkert til að hafa áhyggjur af, enda komi fólk fljótlega aftur heim úr þessum skemmtiferðum.

Í umræðunni um hvort draga skuli ákæru Alþingis á hendur Geir H. Haarde sýnir Jóhanna enn og aftur hvað hún hefur lítinn skilning á málinu, þar sem hún virðist ekki vita hvenar mál hafa verið dómtekin og hvenær ekki og enn síður virðist hún skilja, að saksóknarinn í þessu máli tók það ekki upp hjá sjálfum sér að ákæra, heldur starfar einungis í umboði Alþingis, sem er ákærandinn fyir Landsdómi.

Sá sem kærir annan aðila fyrir meint brot, sem síðan kemur í ljós að var á misskilningi byggt, getur að sjálfsögðu afturkallað kæruna hvenær sem honum sýnist, ef hann er heiðarlegur og vill ekki gera öðrum rangt til að ósekju.

Alþingi kærði og Alþingi eitt getur dregið kæruna til baka. Viðamiklum atriðum ákærunnar hefur þegar verið vísað frá Landsdómi og engar líkur á öðru en sýknað verði vegna þeirra sem eftir standa.

Við afgreiðslu þingsályktunartillögunnar um að ákæran verði felld niður, kemur enn og aftur í ljós hvaða þingmenn eru óprúttnir og hatursfullir ofsækjendur pólitískra andstæðinga sinna og hverjir eru það ekki.


mbl.is Landsdómsmálið er þingfest en ekki dómtekið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óviðunandi umgengni um sjávarauðlindina

Mikið er um dauða síld í fjörum við ýmsar eyjar í Breiðafirði og liggur ógeðslegur rotnunardaunn í loftinu, mönnum og skepnum til mikils ama og óþæginda.

Mun þetta gríðarlega magn af dauðri síld eiga sér skýringar í "brottkasti" síldveiðiflotans, sem í mörgum tilfellum hefur aðeins innbyrt hluta þess sem í næturnar hefur komið og afganginum verið "sleppt" aftur í hafið.

Síldin er viðkvæm fyrir hreisturskemmdum og lifir ekki af eftir að hafa verið hrúgað saman í síldarnæturnar og "sleppt" aftur. Svona umgengni um sjávarauðlsindina er algerlega óboðlegur og til skammar.

Finna verður leið til þess að mögulegt verði að hirða alla síld sem kastað er á og geti síldveiðiskipin ekki innbyrt allan aflan sjálf, að þá fylgi flotanum aðrir bátar sem fái að hirða "umframaflann".

Fiskveiðiþjóð getur ekki verið þekkt fyrir að "henda" verðmætum á borð við þessi. Enn síður þjóð, sem glímir við efnahagsvanda og gjaldeyrisskort.


mbl.is Mikið um dauða síld við Stykkishólm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband