Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Kaupæðið heldur áfram

Nýja flugfélagið WOW hóf að selja farmiða á netinu í hádeginu í dag og þó áætlunarflugið eigi ekki að hefjast fyrr en eftir nálægt því hálft ár nánast hrundi bókunarkerfið vegna álags, en allt að fimm hundruð manns reyndu að tengjast því á hverri sekúndu á fyrstu klukkustundunum.

Líklega er WOW þó ekki flugfélag frekar en Iceland Exprss, heldur eingöngu farmiðasali, en eftir sem áður ber að fagna allri samkeppni á flugleiðunum til og frá landinu, enda eina tryggingin fyrir lágu verði á flugmiðum.

Þessi gríðarlega ásókn inn á bókunarkerfi félagsins, strax á fyrstu mínútunum og klukkustundunum minnir mikið á örtröðina sem myndaðist í Smáralind þegar verslunin Lindex opnaði, en þá seldist sex vikna vörulager upp á tæpum þrem dögum.

Án þess að vera með neina svartsýni vegna þessa nýja félags, má benda á að margir létu glepjast til að kaupa farmiða með IE til Bandaríkjanna með margra mánaða fyrirvara, en sitja nú uppi með sárt ennið vegna fyrirvaralausrar stöðvunar á Ameríkuflugi IE.

Íslendingar hafa lengi verið þekktir fyrir kaupæði sitt og bæði opnun Lindex og bókunarvefjar WOW sýna svart á hvítu að þar hefur engin breyting orðið á.


mbl.is Álag á vefsíðu WOW
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælendur sjálfum sér til háðungar

Eins fáránlegt og það var að leyfa "tjaldbúðir" mótmælenda á Austurvelli, er það jafn skammarlegt hvernig mótmælendurnir ganga um völlinn og subbuskapurinn sem einkennir allra þeirra umgengni á staðnum er þeim til mikillar skammar.

Borgaryfirvöld hljóta að sjá til þess að hreinsa Austurvöll strax á morgun, því þó meirihlutinn hafi sýnt og sannað í sumar að snyrtimennska sé ekki hans sterka hlið, eins og opin svæði borgarinnar sýndu svo ekki varð um villst, þá er of langt gengið að líða þennan sóðaskap í hjarta borgarinnar.

Eins sjálfsagt og það er að mótmæla því sem fólki finnst miður fara, þá er jafn sjálfsagt að umhverfinu sé sýndur sá sómi að umgengni sé eins og siðuðu fólki sæmir.


mbl.is Slæm umgengni á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattabrjálæðið í hnotskurn

Skattabrjálæði ríkisstjórnarinnar ríður ekki við einteyming og allt skal skattlagt í drep, sem nokkur leið er að skattleggja til heljar, hvort sem um er að ræða skattpíningu einstaklinga eða fyrirtækja, stórra og smárra.  Nýjasta æðiskastið beinist að hrikalegri skattlagningu orkufreks iðnaðar og reynt að fegra geggjunina með því að þetta sé gert í þágu náttúru- og loftlagsverndar, enda heldur Steingrímur J. að með slíkum "röksemdum" sé auðveldara að troða áróðrinum ofan í þjóðina.

Eftirfarandi klausa úr fréttinni segir allt sem segja þarf um málið:  „Miðað við framleiðsluáætlanir Elkem Ísland ehf. mun fyrirhuguð álagning kolefnisgjalds sem lögð verður á félagið verða u.þ.b. 430.000.000 kr. árið 2013, 645.000.000 kr. árið 2014 og 860.000.000 kr. árið 2015. Fyrirhugað kolefnisgjald verður því meira en tvöfalt hærri upphæð en meðalhagnaður fyrirtækisins undanfarin tíu ár. Má því vera ljóst að allar forsendur fyrir frekari rekstri Elkem Ísland ehf. í framtíðinni verða gerðar að engu, en fyrirtækið hefur verið ein af meginstoðum atvinnulífs á Vesturlandi í rúmlega 30 ár.“  

Vinstri grænir hafa alltaf verið heiftúðugir hatursmenn allrar atvinnuuppbyggingar í landinu og alveg sérstaklega þeirru gríðarlegu hagsæld sem fylgt hefur orkufrekum iðnaði.  Nægir að benda á Hafnarfjörð, Reyðarfjörð og Akranes til sönnunar um þau gífurlegu áhrif sem stóriðjufyrirtækin hafa á nærumhverfi sitt.

Greinilegt er á öllu að VG ætlar að ná því markmiði að koma í veg fyrir frekari stóriðju í landinu og tortíma þeirri sem fyrir er með skattabrjálæði.  

Þjóðin hlýtur að rísa upp og gera allt sem í hennar valdi stendur til að vernda lifibrauð sitt. 


mbl.is Loka ef skattur verður lagður á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pálmi í snú - snú

Krakkar hafa gaman af að leika sér í snú - snú og sá vinnur leikinn sem lengst getur hoppað án þess að bandið flækist í fótum hans. Banka- og útrásargengin iðkuðu einskonar fjármálalegt snú - snú, sem fólst í alls kyns vafasömum lánavafningum, peningafærslum milli tuga eða hundraða leynifélaga um allan heim og milljarða arðgreiðslum til sjálfra sín, án þess að hafa nokkurn tíma lagt fram eigið fé eða ábyrgðir.

Pálmi í Iceland Express er enn að leika alls kyns fjármálalegt hopp og hí og eftir að hafa náð að "bjarga" IE og flugfélaginu Astraeus út úr Fons með laufléttu snú - snú, rétt fyrir gjaldþrot þess félags, hafa bæði félögin ásamt Ferðaskrifstofu Íslands hoppað í snúningsbandinu og tekist að halda sér á lofti þangað til Astreus flækist nú í sveifluspottanum og flýgur beint á hausinn.

Svo "heppilega" vill þó til að sama dag og Astraeus verður þessi fótaskortur hefur tékkneskt flugfélag áætlunarflug fyrir IE, en þar sem það félag hefur ekki leyfi til Ameríkuflugs er sú áætlunarleið "tekin til endurskoðunar" samdægurs og tilkynnt að allt sé óvíst um framhaldið og viðskiptavinir sem ætluðu með félaginu vestur um haf næstu mánuði, verði einfaldlega sendir með Icelandair.

Vonandi mun hrun Astraeus ekki koma illa niður á farþegum IE. Einhvern tíma hefði svona snúningur verið kallaður "handstýrt gjaldþrot", en líklega mun enginn kippa sér umm við svona leikfléttur lengur.


mbl.is Astraeus komið í slitameðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er stefna VG?

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og frægur að endemum vegna ýmissa furðuyfirlýsinga, skrifar á vefsíðu sinni um landsfund Sjálfstæðisflokksins og setur þar, rétt einu sinni, fram fúkyrði og fullyrðingar út í loftið um mál, sem hann hefur enga hugmynd um.

Björn Valur þekkir sjálfsagt vinnubrögð á samkomum VG, en sýnir með færslu sinni að hann hefur enga þekkingu á lýðræðislegri umræðu og afgreiðslu mála á þingum annarra flokka, a.m.k. ekki Sjálfstæðisflokksins.

Fyrir landsfundi Sjálfstæðisflokksins lá uppkast að ályktun um utanríkismál og þar á meðal um að flokkurinn ítrekaði fyrri afstöðu sína um að hagsmunum Íslands væri best borgið utan ESB, en ekki orðað þannig að aðildarviðræðum skyldi hætt nú þegar. Eftir miklar umræður og skoðanaskipti á fundinum komu fram tvær breytingartillögur þar sem orðalagið var á þann veg að aðildarviðræður bæri að stöðva nú þegar.

Þriðja breytingartillagan og sú sem samþykkt var sem stefna Sjálfstæðisflokksins í málinu hljóðaði á þann veg að "hlé" skyldi gert á aðildarviðræðunum við ESB og ÞÆR EKKI TEKNAR UPP AFTUR NEMA SlÍKT YRÐI SAMÞYKKT Í ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLU. Skýrari getur afstaða flokksins varla orðið og ekkert hægt að misskilja eða hártoga í því sambandi.

VG segist vera á móti innlimun landsins í ESB, en samþykkti eftir sem áður að óska eftir innlimuninni í stórríkið væntanlega.

Getur Björn Valur Gíslanson útskýrt þann tvískinnung fyrir fólki sem ekki skilur slíkan þankagang?


mbl.is Stefnulaus og þverklofinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðarleiðtogi þjóðarinnar

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem nú stendur yfir, einkennist af samheldni, styrk og baráttuanda, sem mun smitast út í þjóðfélagið og skila flokknum stórauknu fylgi í næstu kosningum. Vonandi verða þær kosningar fljótlega, því ótækt er að leggja þá ánauð á þjóðina að þurfa að sitja uppi með ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms fram á mitt ár 2013.

Í bland við umræður og afgreiðslur stefnumála, héldu fyrrverandi formenn flokksins frábærar ræður, hvor með sínum stíl og síðar fluttu frambjóðendur í formannskjöri mál sitt fyrir troðfullum sal Laugardalshallarinnar.

Bjarni Benediktsson talaði eins og góðum stjórnmálamanni og foringja sæmir, en með ræðu sinni sannaði Hanna Birna Kristjánsdóttir að hún ber höfuð og herðar yfir alla sem að stjórnmálum koma í landinu um þessar mundir. Ræða hennar var afar yfirgripsmikil og tók á öllum helstu málum sem brunnið hafa á almenningi undanfarin ár og ríkisstjórninni hefur algerlega mistekist að greiða úr.

Bæði fór hún vel yfir þjóðmálin í heild, ásamt því að ræða stöðu, stefnu og framtíðarmarkmið Sjálfstæðisflokksins og sannarlega átti hún hvert bein í landsfundarfulltrúum, sem fögnuðu henni heitt og innilega með margendurteknu lófataki og hvað eftir annað risu áheyrendur á fætur til merkis um fögnuð sinn vegna boðskapar hennar.

Ólöf Nordal hélt síðan sköruglega ræðu til að minna á framboð sitt til varaformanns og fékk hún einnig geysigóðar viðtökur funarmanna við boðskap sínum til fundarins.

Eftir ræðu Hönnu Birnu á fundinum, til viðbótar við það sem hún hefur sýnt með störfum sínum fram til þessa, verður öðru varla trúað en að hún muni verða kjörin næsti formaður Sjálfstæðisflokksins og þar með framtíðarleiðtogi þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn gæti litið stoltur til framtíðarinnar með Hönnu Birnu sem formann og Ólöfu í varaformannsembættinu.

Ekki síður mætti þjóðin verða stolt og ánægð með slíka leiðtoga á Alþingi og í ríkisstjórn.


mbl.is Stjórnin sér háa skatta í hillingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skortsala í tuskubúðum

Gríðarlegur skortur hefur verið í landinu á ýmsum tuskum sem nauðsynlegar eru til að hylja nekt og verjast kuldatíðinni sem geysað hefur í landinu undanfarnar vikur, eins og sannaðist eftirminnilega þegar versluninni Lindex tókst að fá heilan skipsfarm af ýmsum tuskuvarningi til landsins nýlega.

Skipsfarmurinn seldist upp á þrem dögum, eftir örvæntingarfulla baráttu viðskiptavina um varninginn, en til allrar hamingju tókst eigendum verslunarinnar með ótrúlegri útsjónarsemi að ná nokkru magni fatnaðar til landsins á ný, þannig að enn hefur skapast örtröð langþurfandi fataleysingja á staðnum, enda óvíst hvort nokkur fatnaður muni fást í landinu næstu mánuði eða misseri.

Heyrst hefur að skortur sé á fleiri nauðsynjavörum og því skyldi fólk ekki taka áhættu á að bíða með að kaupa upp alla hugsanlega vörulagera sem hugsanlega gætu leynst í skúmaskotum verslana í landinu.

Fyrstur kemur, fyrstur fær.  Málið er ekki flóknara en það, að sá sem ekki mætir fyrstur á það á hættu að líða áframhaldandi skort.


mbl.is Biðröð við mátunarklefana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert veit ég um.......

Ekkert veit ég um aflandsfélög ríkisbankanna fyrir einkavæðingu.

Ekkert veit ég um störf Gunnars Þ. Andersen í stjórnum aflandsfélaga Landsbanka Íslands á meðan bankinn var í ríkiseigu.

Ekkert veit ég um verksvið eða starfsemi aflandsfélaga ríkisbankanna fyrir einkavæðingu þeirra.

Ekkert veit ég um störf Gunnars Þ. Andersen hjá Fjármálaeftirlitinu.

Ekkert veit ég um rannsóknir FME á bönkunum eftir einkavæðingu þeirra og fram að hruni.

Það sem maður þykist þó vita, er að eftir einkavæðingu bankanna voru framkvæmd bankarán innanfrá og alls kyns starfsemi sem hlýtur að hafa verið algerlega löglaus eða siðlaus, nema hvort tveggja hafi verið.

Það eina sem maður veit nokkurn veginn fyrir víst, er að Eva Joly var búin að spá því að banka- og útrásargengin myndu vinna að því öllum árum að eyðileggja mannorð allra sem að rannsóknum málanna kæmu og ekki síður reyna að drepa orðspor allra stofnana réttarkerfisins á Íslandi sem að málunum myndu vinna.

Það eina sem liggur fyrir akveg kristaltært, er að Sigurður Guðjónsson, hrl., er helsti verjandi banka- og útrásargengjanna og hefur verið handbendi þeirra árum saman og því augljóslega einn þeirra sem beitt verður í baráttunni gegn sakfellingu gengjameðlimanna sem hruninu ollu.

Eðli málsins samkvæmt er rétt að fara varlega í að taka afstöðu til hæfis eða vanhæfis þeirra sem að rannsóknum sakamála vinna um þessar mundir.


mbl.is „Óheft mannorðsmorð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvennt athugavert

Á Alþingi standa yfir umræður um fjáraukalög fyrir árið 2011 og eru vinnubrögð stjórnarflokkanna algerlega stórfurðuleg og reyndar fullkomlega óboðleg í lýðræðisþjóðfélagi. Í anda vinnubragðanna sem viðhöfð voru þegar frumvarpið um Icesave I var lagt fram og átti að afgreiðast án þess að þingmenn fengju að kynna sér innihaldið eða lesa "samninginn", á nú að afgreiða fjáraukalögin án þess að þingmennirnir fái að vita hvað þeir muni vera að samþykkja ef þeir greiða frumvarpinu atkvæði sitt.

Í fréttinni kemur þetta fram um leynimakkið: "Fram kom að þingmenn í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd fengu að sjá þessa samninga í morgun en var þá sagt að leynd hvíldi yfir þeim. Þeirri leynd var aflétt síðdegis en þá kom í ljós að hluta af samningunum vantaði í þau eintök, sem þingmenn höfðu undir höndum. Vildu stjórnarandstæðingar að umræðu um fjáraukalögin yrði frestað svo þingmenn gætu kynnt sér málið nánar. Við því var ekki orðið."

 Þetta eru meira en lítið athugaverð og vítaverð vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og furðulegt að stjórnarþingmenn fáist til að greiða atkvæði með frumvarpi sem þeir vita ekki til fulls hvað inniheldur, eða hvaða kostnað það hefur í för með sér fyrir ríkissjóð og þjóðfélagið.

Annað sem er athugavert, en þó að nokkru skiljanlegt, er að stjórnarandstaðan skuli ekki ætla að mæta á boðaðan þingfund, þó svo að hann sé boðaður á óvanalegum tíma, því frumskylda þingmanna er auðvitað að taka þátt í þingstörfum.

Fáist ríkisstjórnin ekki til að leggja fram umbeðnar og nauðsynlegar upplýsingar um þau mál sem til umfjöllunar eru hverju sinni, hefur stjórnarandstaðan það beitta vopn uppi í erminni að beita málþófi og koma þannig í veg fyrir að svona fáránleg mál séu keyrð í gegn um þingið.

Hvorki stjórn eða stjórnarandstaða eru þinginu til mikils sóma þessa dagana. 


mbl.is Verða upptekin þegar atkvæðagreiðsla fer fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of há arðsemiskrafa Landsvirkjunar?

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að meðalarðsemi fyrirtækisins frá árinu 1965 hafi verið um 2% á ári, en segir að stefna þyrfti að 11% arðsemi eiginfjár árlega.

Þegar hann talar um arðsemi eigin fjár, hlýtur hann að vera að tala um raunvexti fjárins, þ.e. ávöxtun umfram verðbólgu, enda bókhald félagsins fært í dollurum og allar tekjur í þeirri mynt.

Til þess að ná 11% arði af eigin fé Landsvirkjunar þyrfti væntanlega að hækka allt raforkuverð í landinu um tugi prósenta, væntanlega bæði til almennings, smærri fyrirtækja og ekki síst til stóriðjunnar.

Landsvirkjun er öflugasta og eignamesta fyrirtæki landsins, þrátt fyrir að arðsemi eigin fjár hafi ekki verið meiri en þessi 2% að meðaltali og því vaknar sú spurning, hvort ekki sé full mikið í lagt að ætla sér að nánast sexfalda þessa arðsemi á næstu árum og áratugum.

Vextir á Íslandi hafa alltaf verið háir, svo háir að um raunverulegt vaxtaokur hefur verið að ræða, en varla hefur nokkur lánveitandi og hvað þá innistæðueigendur getað látið sig dreyma um 11% raunávöxtun fjármuna sinna.

Þeir sem gagnrýna "lága" arðsemi Landsvirkjunar verða að vera reiðubúnir til að greiða margfalt raforkuverð, miðað við það sem þeir gera núna.


mbl.is Of lítil arðsemi af virkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband