Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Þyrfti að lesast upp á landsfundi Samfylkingarinnar

Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur verið að kynna sér stöðu ríkja, sem farið hafa illa út úr fjármálakreppunni sem skall yfir á haustdögum árið 2008 og komist að þeirri niðurstöðu að neyðarlögin sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde setti við bankahrunið, hafi orðið til að bjarga því sem bjargað varð í efnahagslífi Íslands.

Setning neyðarlaganna og sjálfstæður gjaldmiðill hafi orðið til þess að Íslendingar hafi langt í frá orðið þjóða verst úti í fjármálakreppunni, eða eins og hann útskýrir hvers vegna þetta er staðreyndin:

"Aðalástæðan sé sú, að Íslendingar neituðu að axla ábyrgð á þeim skuldum, sem bankamenn höfðu hlaðið upp. Einnig hafi Íslendingar getað látið gengi krónunnar lækka mikið og þannig fengið forskot á þær þjóðir, sem annaðhvort voru með evru eða tengdu gjaldmiðla sína við þá mynt."

Þessi niðurstaða verðlaunahagfræðinsins er svo sem ekki ný uppgötvun hans, því flestir aðrir en stuðningsmenn Samfylkingarinnar hafa gert sér grein fyrir þessum staðreyndum alveg frá bankahruninu í október 2008.

Einhver þyrfti að taka sig til og kynna álit Paul Krugmans á landsfundi Samfylkingarinnar sem nú stendur yfir.   


mbl.is Ísland hefur ekki farið verst út úr kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er von á góðu í Líbíu

Eftir að uppreisnarmönnum í Líbíu tókst að drepa Gaddafi, fyrrum einræðisherra, án þess að ná því að skýra rétt frá aðdraganda og framkvæmd þeirrar gjörðar, geta leiðtogar hinna ýmsu hópa, sem að byltingunni stóðu, ekki komið sér saman um hvar, hvenær eða hvernig skuli husla líkið af harðstjóranum.

Ekki vekja þessar deilur miklar vonir um að framtíðin verði friðsamleg í Líbíu, eða að þar takist að koma á friðsamlegum stjórnarháttum á næstunni. Fylkingar uppreisnarmanna eru svo margar og "framámenn í héraði" svo margir, að ólíklegt er að samkomulag náist um stærri og brýnni mál en hvernig skuli staðið að þessari útför hins hataða harðstjóra.

Ekki kæmi á óvart þó bardögum sé langt frá því lokið í landinu og þeim verði ekki hætt fyrr en nýr "þjóðarfrelsari" verður búinn að drepa af sér alla keppinauta um hver skuli teljast vera "faðir" Líbíu í framtíðinni.

Sú valdabarátta mun að sjálfsögðu bitna mest á almenningi landsins, sem þó hefur mátt þola meira en nógar þjáningar í áratugi, meira að segja aftur fyrir valdatíma Gaddafis.


mbl.is Deilur um útför Gaddafis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árás "velferðarstjórnarinnar" á lífeyriskerfið

"Norræna velferðarstjórninni" er að takast það markmið sitt að fá fólk á besta aldri til að eyða þeim sparnaði sem það átti í séreignarlífeyrissjóðunum til þess að ná af því auknum tekjuskatti og að auki stærir hún sig af því að hagvöxtur, byggður á aukinni einkaneyslu, hafi farið vaxandi.

Slíkur hagvöxtur er auðvitað falskur og nú þegar sér fyrir endann á því að frekari úttektir úr séreignarsjóðunum verði mögulegar, dettur "velferðarstjórninni" í hug það snjallræði að minnka möguleika fólks á slíkum sparnaði um heil fimmtíu prósent.

Með því móti tekst ráðherrunum, sem svo háðulega kenna sig við "velferð" að auka skattpíninguna á launafólk, án þess að þykjast vera að hækka skattprósentur. Þetta bætist við þá skattahækkun sem orsakast af því að launaþrep í skattstiganum verða ekki hækkuð í samræmi við launavísitölu. Slík hækkun launaþrepanna er bæði lögbundin og bundin í loforð ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga, en hvort tveggja vílar ríkisstjórnin sér ekkert við að svíkja.

Það er ömurlegt að horfa upp á "norrænu velferðarstjórnina" ráðast ítrekað á og brjóta niður það velferðarkerfi sem sífellt var verið að bæta á tuttugu ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn.

Ekki þarf annað en að lesa umsagnir öryrkja og annarra lífeyrisþega til að skilja þvílíkt öfugmæli nafnið er, sem þessi "norræna velferðarstjórn" hefur gefið sjálfri sér.


mbl.is Ekki val heldur lögboðuð þvingun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerir Steingrímur J. vegna ólöglegs virðisaukaskatts?

Verði endanleg niðurstaða dómstóla sú, sem líklegast er, að kaupleigusamningar fjármálafyrirtækjanna sem voru gengisbundnir verði úrskurðaðir ólöglegir eins og aðrir gengisbundnir lánasamningar, mun það kalla á háar endurgreiðslur úr ríkissjóði vegna virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið frá upphafi þessara gengisviðmiðana.

Um milljarða tugi gæti verið að ræða þar sem þúsundir fyrirtækja og einstaklinga hafa í gegn um tíðina fjármagnað tækjakaup sín með þessu móti og margir hreinlega orðið gjaldþrota, eftir að gengið hrundi og afborganir þessara samninga hækkuðu gífurlega.

Að slíkri niðurstöðu fenginni yrði ríkissjóður að skila til baka þeim virðisaukaskatti sem innheimtur hefur verið af ólöglegum innheimtum, því ríkið verður auðvitað að skila illa fengnu fé, eins og aðrir. Ekki síður mun þetta koma illa við þá sem innskattað hafa slíka samninga í rekstri sínum og þurfa þá að endurgreiða ríkissjóði vegna þess.

Nema Steingrími J. detti í hug að setja lög í snarhasti, sem undanskilji báða aðila frá slíku uppgjöri.


mbl.is Ríkissjóður gæti tapað á dómi um fjármögnunarleigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýsing berst "til síðasta blóðdropa".

Fjármálafyrirtækin hafa verið að hrekjast úr einu vígi í annað vegna dóma Hæstaréttar um ólögmæti gegnistryggingar lánasamninga. Þrátt fyrir að niðurstaða Hæstaréttar sé skýr í hverju því máli sem lokið er fyrir dómstólnum, neita fjármálastofnanirnar að viðurkenna dómana sem fordæmi vegna annarra lánasamninga en nákvæmlega þeirra sem dæmt er um hverju sinni.

Þetta hefur orðið til þess að nauðsynlegt hefur verið að fara með hvert einasta lánsform í sérstök málaferli og þrátt fyrir að niðurstaða Hæstaréttar sé sú sama í hvert sinn, hvort sem um raunverulega lánasamninga eða fjármögnunarsamninga hafi verið að ræða, að alltaf er sagt að orðalag næsta samnings sé ekki nákvæmlega eins og í þeim samningum sem þegar hefur verið felldir dómar vegna og þess vegna eigi dómsniðurstaðan ekki við um "okkar samninga".

Lýsing hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna dóms Hæstaréttar um ólögmæti fjármögnunarleigusamninga Íslandsbanka og segir að sá dómur eigi alls ekki við um sína samninga, enda sé orðalagið á þeim öðruvísi en á samningum Íslandsbanka og því verði sá dómur að engu hafður varðandi samninga Lýsingar.

Lýsing ætlar að "berjast til síðasta blóðdropa" og segir að niðurstaðu dómstóla varðandi orðalag sinna samninga verði vonandi að vænta um mitt næsta ár. Síðan "harmar" fyrirtækið hve dómstólarnir rugli fólk mikið í ríminu og fái það jafnvel til að halda að dómar Hæstaréttar geti verið fordæmi fyrir viðskiptavini sína.

Falsið og tvískinnungurinn í málflutningi Lýsingar veldur flökurleika hjá hraustasta fólki. Aðrir kasta strax upp.


mbl.is Segja dóminn ekki gefa fordæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villimennska á báða bóga í Líbíu

Þegar uppreisnarmenn í Líbíu fundu Gaddafi, fyrrum einræðisherra, eftir bardagana um fæðingarbæ hans, virðist hann hafa verið særður en þó með fullri rænu og rólfær.

Ekki er annað að sjá en að harðstjórinn hafi verið beittur miklu harðræði og í raun níðingsskap eftir handtökuna, honum verið misþyrmt og að lokum drepinn og líkið dregið um götur í háðungarskyni.

Gaddafi hafði stjórnað landinu með mikilli hörku og miskunnarleysi gagnvart andstæðingum sínum í áratugi og því byggt upp mikið hatur á sjálfum sér og stuðningsklíku sinni, en eftir sem áður er framferði uppreisnarmannanna eftir handtöku hans algerlega óafsakanlegt og ógeðslegt.

Það miskunnarleysi sem uppreisnarmenn hafa sýnt ýmsum samstarfsmönnum einræðisherrans, hermönnum hans og málaliðum gefur ekki miklar vonir um að stjórnarhættir breytist mikið í landinu á næstunni og raunverulegt lýðræði mun eiga langt í land með að verða að veruleika.

Næstu vikur og mánuðir munu skera úr um hvort bjartari tímar renni í raun og veru upp fyrir almenning í þessu langhrjáða landi, sem ætti að geta átt bjarta framtíð við eðlilegar aðstæður.


mbl.is „Þá sáum við hans loðna höfuð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vígin falla, eitt og eitt

Hæstiréttur hefur staðfest dóm undirréttar um að gegnistryggðir fjármögnunarleigusamningar lánafyrirtækjanna séu í raun lánasamningar en ekki leigusamningar, eins og bankarnir hafa reynt að hanga á, til þess að þurfa ekki að endurreikna þá yfir í íslenskar krónur eins og aðra ólöglega gengisviðmiðaða lánasamninga.

Bankarnir hafa verið ótrúlega þrjóskir að viðurkenna ólögmæti hinna ýmsu lánsforma sinna og lánþegar hafa þurft að reka mál fyrir dómstólum vegna hverrar einustu tegundar af þeim leigu- og lánssamningum sem bankarnir settu saman fyrir hrun, en þær nema tugum. Þessi þrjóska bankanna vegna fjármögnunarleigunnar hefur fyrst og fremst bitnað á verktakafyrirtækjum og mörg þeirra farin í þrot vegna þeirrar tafar sem orðið hefur á lokaniðurstöðu þessara málaferla.

Vonandi fer deilum vegna þessa lánaforms eða hins að ljúka, svo fyrirtæki geti farið að snúa sér að öðru en að standa í málaferlum við viðskiptabanka sína.


mbl.is Bankinn vel í stakk búinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB vill skjóta sendiboðann

Framkvæmdastjórn ESB hefur undanfarið leitað logandi ljósi að lausnum á skuldavanda evruríkjanna og gegnið erfiðlega að ná samstöðu um leiðir til varanlegrar lausnar, enda erfiðleikarnir miklir.

Nú hefur framkvæmdastjórninni dottið það snjallræði í hug, að banna lánshæfismatsfyrirtækjunum að birta mat sitt á skuldsetningu sambandsríkjanna og möguleikum þeirra til að endurgreiða lán sín. Lánshæfismötin hafa verið lánadrottnum til viðmiðunar um þá áhættu sem þeir taka þegar ákvarðanir til einstakra ríkja og stórfyrirtækja eru ákveðin.

Sú lausn á vandamálum, að skjóta þann sem boðar válegu tíðindin, hefur fram að þessu verið talin bæði ómerkileg, lítilmannleg og gagnslaus. Ekki síður hefur hún verið talin merki um örvæntingu og ráðaleysi þess, sem svo lágt leggst að drepa sendiboðann í stað þess að einbeita sér að lausn hins raunverulega vanda.

Vonandi finnur ESB betri leiðir út úr vandamálum sínum, því hrun í Evrópu mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskan efnahag, sem ekki má við frekari hremmingum en íslensku ríkisstjórnina.


mbl.is Vilja banna birtingu lánshæfiseinkunna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar maður bítur hund

Yfirleitt hefur verið sagt að það sé ekki frétt að hundur bíti mann, en hins vegar væri það stórfrétt ef maður biti hund.

Eitthvað virðist þetta fréttamat hafa brenglast að undanförnu, því fréttamiðlar eru sí og æ að birta "fréttir" af því að hundar hafi glefsað í þennan eða hinn, án þess að um nokkur raunveruleg meiðsli hafi verið að ræða.

Oft eiga hundar það til að hoppa upp um fólk og vilja jafnvel leika við það og beita þá skoltinum til þess, enda hundum eðlislægt að nota hann til slíkra hluta. Þá vill stundum svo til að tennur hundsins rekast í þann sem við á að leika og stundum getur myndast lítil sár við slíkan hamagang í hundi og þeir sem óvanir eru hundum túlka slíkt oft sem "bit" þó slíkt sé í raun víðs fjarri.

Fjölmiðlamenn ættu að snúa sér að gamla og góða fréttamatinu og birta einungis bitastæðar fréttir, en vera ekki að eyða plássi í bitlausar sögur.


mbl.is Hundur beit bréfbera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fínar efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins

Framtíðin, blað sem Sjálfstæðisflokkurinn sendir inn á hvert heimili í dag, birtir nýjar efnahagstillögur flokksins og verður þetta að teljast mikið og gott framtak, enda fátítt að flokkur í stjórnarandstöðu vinni svo umfangsmiklar tillögur til framfara í þjóðlífinu.

Án þess að hafa náð því að lesa allt blaðið í gegn ennþá, frá orði til orðs, er óhætt að fagna þessum tillögum og hvetja alla til þess að kynna sér þær til hlýtar.


mbl.is Skattarnir lækki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband