Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

"Besti"brandarinn er orðinn leiðigjarn og fylgið dalar hratt

Með hverri skoðanakönnunni sem birtist kemur í ljós að fylgi "Besta"brandarans dalar stöðugt, enda brandarinn orðinn leiðigjarn og hreinlega leiðinlegur, enda ekkert leiðinlegra en langdreginn og síendurtekinn skrítla.

Því miður er samt útlit fyrir að ekki verði allir orðnir nógu leiðir á fíflaganginum, til þess að þessi nýjasti stjórnmálaflokkur landsins, sem byggður er upp í kringum rugl og fíflagang, fái ekki svona 4 borgarfulltrúa.  Það eru alltof margir borgarfulltrúar, en þó ekki fleiri en svo, að þeir verði til teljandi skaða á næstu fjórum árum, því ábyrgðin á rekstri borgarinnar mun þá hvíla á 10-11 ábyrgum alvöruborgarfulltrúum, sem taka hlutverk sitt alvarlega.

Það er mikið gleðiefni að æ fleiri skuli sjá í gegn um vitleysuna og ætli ekki að vanhelga kosningarétt sinn á morgun.


mbl.is Besti flokkurinn með 6 fulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir ákveða sig í kjörklefanum

Samkvæmt rannsóknum ákveður 10-15% kjósenda, ef prósentan er nokkurn veginn rétt munuð, sig ekki endanlega við hvaða framboð þeir krossa, fyrr en eftir að komið er í kjörklefann.  Þetta á við um allar kosningar, en núna segjast reyndar talsvert fleiri vera óákveðnir en venjan er, þegar svo stutt er til kosninga.

Fyir sveitarstjórnarkosningarnar núna hefur verið ótrúlegur áróður í gangi gegn stjórnmálamönnum almennt og þeir upp til hópa sagðir einskis nýt fífl, eiginhagsmunapotarar og hreinir glæpamenn.  Í manna minnum hefur aðdragandi kosninga aldrei komist í hálfkvisti við það sem nú er að gerast, enda virðist nokkur hluti þjóðarinnar hafa gjörsamlega hafa tapað áttum eftir hrunið, þannig að auðvelt hefur fyrir óvandaða menn að stjórna hjarðhugsuninni, sem vanalega nærist á neikvæðum og ósönnum slefburði.

Ótrúlega margir virðast láta slíkan áróður villa sér sýn og fylgja hjörðinni í algerri blindni og án nokkurrar sjálfstæðrar hugsunar, eins og sést vel nú um stundir, þegar þriðjungur Reykvíkinga, eða meira, segjast ætla að kjósa nýjan stjórnmálaflokk til áhrifa í borginni, sem stofnaður er í algeru gríni og hæðist mest að kjósendum sjálfum, sem þó virðast ekki átta sig á því.

Kosningarnar á morgun munu leiða í ljós hvort Reykvíkingar vilji áfram styrka, vandaða og örugga stjórn á sínum málum, eða hvort þeim sé í mun að rífa allt niður, sem gert hefur verið og skapa nýja upplausn og stjórnleysi í borginni.

Þetta verða kosningar sem skera úr um getu og ábyrgð kjósenda til að velja sér forystu, sem treystandi er til að reka borgarsjóð á ábyrgan hátt, en ekki leikhús fáránleikans í anda Dario Fo.


mbl.is Margir enn óákveðnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfrétt úr heimspólitíkinni

Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, er í opinberri heimsókn í Suður-Kóreu og hefur þar gefið í skyn að Kína styðji Norður-Kóreu ekki lengur í deilum ríkjanna tveggja á Kóreuskaganum.  Hann hefur ekki afdráttarlaust viljað fordæma Norður-Kóreu fyrir að hafa sökkt herskipi sunnanmanna á umdeildu hafsvæði nýlega, en sagði hins vegar í við komunar til Suður-Kóreu:  „Kína fordæmir allar aðgerðir sem grafa undan friði og stöðugleika á Kóreuskaga."

Kínverjar eru ekki þekktir fyrir neitt flaustur í stjórn lands síns og alls ekki í samskiptum sínum við umheiminn og hafa ekki látið neinn segja sér til verka í þeim efnum, frekar en öðrum.   Þeir hafa verið dyggustu stuðningsmenn Norður-Kóreu og nánast þeir einu, undanfarna áratugi og studdu norðanmenn dyggilega í Kóreustríðinu, sem raunar stendur enn, þar sem Norður-Kórea hefur sagt upp öllum vopnahléssamningum sem gerðir hafa verið, en í raun hefur aldrei verið lýst yfir að stríðinu sjálfu hafi lokið nokkurntíma.

Séu þessi ummæli forsætisráðherra Kína, þó undir rós séu, til marks um að Kína ætli ekki lengur að bakka upp vini sína, fram að þessu,  í Norður-Kóreu, þá er það stórfrétt og einhver merkilegustu tíðindi í heimspólitíkinni í marga áratugi.

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu mála á Kóreuskaganum í framhaldi þessara tíðinda.


mbl.is Kína stendur með S-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir komust áfram á ABBA, en Svíar ekki með nýtt lag

Allt frá því að ABBA sló í gegn í Eurovision hafa Svíar sent ný og ný afbrigði af ABBAlögum í keppnina og oftast komist ofarlega á lista með ABBAútgáfur sínar og stundum jafnvel unnið keppnina.

Í ár sendu þeir alveg nýtt og virkilega gott lag í keppnina, sem ekki bar á sér mikinn ABBAsvip. sem sungið var af virkilega góðri söngkonu, en þá bregður svo við að þeir komast ekki einu sinni upp úr undankeppninni.  Sú niðurstaða kemur flestum á óvart, enda reiknuðu allir með að sænska lagið yrði jafnvel sigurstranglegt í lokakeppninni á Laugardaginn.

Hins vegar brá svo við, að Danir komust í lokakeppnina með sitt lag, sem dregur sterkan svip af sænskum ABBAstælingum og þar með verða það Danir, sem verja ABBAhefðina í Eurovision þetta árið.

ABBAformúlan hefur ekki brugðist að ráði hingað til í Eurovision og ekki að búast við öðru en Danir skori hátt með sína útgáfu þetta árið.

 


mbl.is Svíum brugðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óákveðnir munu ráða úrslitum

Samkvæmt síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins segjast tæp 40% aðspurðra vera óákveðin eða ætla að skila auðu í borgarstjórnarkosningunum á morgun.

Það er þessi hópur kjósenda, sem mun ráða úrslitum kosninganna, því á meðan svo stór hópur gefur sig ekki upp í skoðanakönnunum, er niðrustaðan alls ekki eins afgerandi og ætla mætti við fyrstu sýn.

Í skoðanakönnunum, í því upplausnarástandi sem ríkir í þjóðfélaginu, má fastlega gera ráð fyrir, að mjög margir refsi flokknum sínum með því að segjast ætla að kjósa grínframboð, en geri það svo alls ekki þegar í kjörklefann er komið.  Því má gera ráð fyrir að grínframboðið sé ofmetið í þessum könnunum, en fylgi stjórnmálaflokkanna vanmetið.

Eina skoðanakönnunin, sem skiptir máli, er sú sem fram fer á kjörstöðunum á morgun.  Ekki verður öðru trúað, en kjósendur láti ábyrgð og samvisku sína ráða atkvæði sínu, enda eru kosningar ekki gamanmál, því atvkæðisrétturinn er dýrmætur og vandmeðfarinn.

Fólk stundar ekki tilraunastarfsemi eða glens og grín á kosningadegi.

 


mbl.is Besti flokkurinn fær 7 borgarfulltrúa samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biti fyrir blóðhundana

Átatugum saman tíðkaðist að reka kosningabaráttu, hvort heldur var flokkanna sjálfra eða prófkjörsbaráttu frambjóðenda, með styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum, enda gerðu allr reglur, sem um þetta giltu á þeim tíma, ráð fyrir að sá háttur væri á hafður.  Þeta leiddi til þess að sífellt meira fé var eytt í kosningar og prófkjör og eins og allt annað í þjóðfélaginu má segja að þessi aðferð við fjármögnun hafi gengið út í öfgar áður en lög voru sett til að stemma stigu við vaxandi öfgum í þessum efnum.

Þar sem engin lög eða reglur, sem í gildi voru, voru brotnar með því að fjármagna kosningabaráttu með þessum hætti, hefur á þessu bloggi verið mótmælt harðlega aðför sjálfskipaðra siðapostula, sem setið hafa um heimili ákveðinna aðila til að neyða þá með óbeinum ógnunum, til að segja af sér þeim embættum sem þeir voru kjörnir til í síðustu kosningum.

Um fátt var meira rætt í aðdraganda kosninganna vorið 2009, eða fyrir aðeins einu ári, en þessa styrki frá árunum 2006 og 2007 og allir sem enn eru á þingi og þáðu þessa styrki á sínum tíma, endurnýjuðu umboð sitt frá stuðningsmönnum flokka sinna og síðan í kosningunum sjálfum og því er með ólíkindum, að nú sé hafin ný herferð gegn þessu fólki, án þess að nokkuð nýtt hafi komið upp vegna þessara styrkja, eða sýnt fram á óeðlileg tengsl við þá sem styrkina veittu, hvað þá að þingmennirnir hafi hyglað þeim sérstaklega.

Það er lágmarkskrafa, að í réttarríki sé hver maður álitinn saklaus, þangað til annað sannast og algerlega óásættanlegt að sá sem saklaus er, skuli þurfa að leggja fram sérstakar sannanir þar um, eingöngu vegna ofsókna ákveðins hóps í þjóðfélaginu, sem heilagari þykist vera en aðrir.

Með afsögn Steinunnar Valdísar hafa blóðhundarnir náð að rífa í sig fyrsta fórnarlambið og þegar þeir komast á bragðið hætta þeir aldrei árásum sínum og fá aldrei nóg.  Að því leyti til er afsögn Steinunnar Valdísar óheppileg, en skiljanleg vegna þeirra ofsókna sem hún hefur orðið fyrir af hendi óvandaðra manna, því þarf sterk bein til að þola slíkt á heimili sínu, kvöld eftir kvöld.

Jafnvel þó allir, sem eina krónu hafa þegið í styrki vegna stjórnmálabaráttu sinnar, segðu af sér strax á morgun, myndu blóðhundarnir ekki hætta að gelta og glefsa, því þá yrðu bara einhverjir aðrir fyrir barðinu á þeim, þar sem blóðþorstinn slökknar ekki þó ein bráð sé felld.

Það er ófögur birtingarmynd þess þjóðfélags, sem hér virðist vera að mótast, þegar löghlýðnir borgarar geta ekki orðið um frjálst höfuð strokið fyrir sjálfskipuðum aftökusveitum.

 


mbl.is Steinunn Valdís segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin er móðgun við þjóðina

Iðnaðarráðherra gerði sér ferð norður á Húsavík til þess að móðga íbúa Norðurþings með því að skýra þeim frá því, að ríkisstjórnin væri búin að ákveða að tefja og trufla allt sem samið hafði verið um áður til atvinnuuppbyggingar í landshlutanum.

Þessi framkoma ráherrans hefði auðvitað ekki átt að koma neinum á óvart, enda í fullu samræmi við atvinnuleysisstefnu ríkisstjórnarinnar, sem hefur það sem meginmarkmið að lengja eins mikið í kreppunni og mögulegt er og fjölga svo mikið á atvinnuleysisskránni að það nái a.m.k. 10% fyrir áramót.

Þetta hefur komið vel fram undanfarna daga, enda sendi formannafundur ASÍ ríkisstjórninni kaldar kveðjur vegna svika og óheilinda hennar gagvart aðilum vinnumarkaðarins varðandi nánast öll atriði, sem samið var um í stöðugleikasáttmálanum síðasta sumar. 

Það er algjör móðgun við þjóðina, að þessi ríkisstjórn skuli ekki viðurkenna vanmátt sinn til allra verka og segja af sér.


mbl.is Móðgun við Húsvíkinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um að gera að láta Icesave fara fyrir EFTA dómstólinn

Alveg frá upphafi deilunnar um Icesave reikninga Landsbankans hafa Bretar og Hollendingar verið algerlega andvígir því, að láta málið fara fyrir dómstóla og hefur ESB staðið þétt að baki þeirra í þeirri afstöðu og allt verið gert til að neyða Íslendinga til að gangast undir ýtrustu fjárkúgunarkröfur ofbeldisþjóðanna.

Aldrei hefur verið neinn ágreiningur um að Tryggingasjóður innistæðieigenda og fjárfesta eigi að tryggja eigendum innistæðna á Icesavereikningum allt að 20.887 evrur á hvern reikning, en það er uppgjörsmál milli sjóðsins og Breta og Hollendinga í umboði þessara landa sinna.  Þetta mál kemur hins vegar skattgreiðendum á Íslandi ekkert við og hvorki íslenska ríkisstjórnin og hvað þá þær bresku og hollensku hafa nokkra heimild til að gera íslendinga að skattaþrælum erlendra þjóða til margra áratuga.

Sætti Bretar og Hollendingar sig ekki við það uppgjör, sem þeim stendur til boða frá tryggingasjóðnum, þá er um að gera að láta EFTAdómstólinn skera úr um kröfu þeirra á hendur honum.

Málið kemur íslenskum almenningi nákvæmlega ekkert við og hann er ekki aðili að málinu.


mbl.is Góð tíðindi ef málið fer fyrir EFTA-dómstólinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr treystir á skapandi hugsun borgarstarfsmanna, en ekki sína eigin.

Jón Gnarr er hrærður og þakklátur góðum viðtökum leikhúsgesta við nýjasta leikriti hans, sem er framboðið í Reykjavík, og hneigjir sig auðmjúklega, eins og góðum leikstjórna sæmir.  Leiksýningin gengur enn fyrir fullu húsi, en um súrrelíska stjórnleysissýningu er að ræða, sem áhorfendur skilja ekki fullkomlega, en skemmta sér konunglega yfir engu að síður.

Þegar leikstjórinn er spurður um málefni borgarinnar, segir hann jafnan að hjá borginni starfi gott og vinnusamt fólk og því verði treyst fyrir allri þeirri vinnu, sem vinna þarf og borgarfulltrúar leikhússins muni bara hirða nefndarlaunin sín og ekki þvælast fyrir vinnandi fólki hjá borginni.

Í viðtali við mbl.is segir Jón að brýnastu úrlausnarefnin á næstunni séu málefni Orkuveitu Reykjavíkur og hans launs á þeim vanda er þessi:  "Stærsta vandamálið sem við þurfum að takast á við eftir kosningar eru málefni Orkuveitu Reykjavíkur. Það er alvarlegasta málið og við munum mæta því af mikilli festu og undirbúningi. Það er mál sem verður að leysa í mjög nánu samstari við starfsfólk Reykjavíkurborgar. Þar er reynsla og þar er kunnátta til að leysa þetta eins farsællega og hægt er."

Þetta er dæmigert svar við öllum erfiðum spurningum sem beint er til leikaranna í leikhúsi fáránleikans, enda var handritið að leikritinu aldrei skrifað til enda, heldur er leikið af fingrum fram jafnóðum og spurningum er beint að handritshöfindinum og öll svörin steypt í þetta sama mót.

Leikhúsrýnum fjölmiðlanna finnst ennþá gaman í leikhúsinu og sjá ekkert athugavert við gallana á handritinu og hvernig það þynnist út með hverjum deginum sem líður.

Það er ótrúlegt að stórum hópi kjósenda, sérstaklega yngsta fólkinu, skuli ekki vera farið að leiðast að láta draga sig svona á asnaeyrunum endalaust.


mbl.is „Fyllist von fyrir hönd borgarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiksýningin gengur vel

Leiksýning "Besta"brandarans nýtur ennþá gífulegrar hylli áhorfenda og allt útlit fyrir að hún gangi í full fjögur ár, en ef að líkum lætur verða vinsældir sýningarinnar farnar að dala verulega í lok sýningartímabilsins og brandararnir farnir að þynnast mikið út.

Fyrirmynd framboðsins, Silvía Nótt, naut mikilla vinsælda í tvö ár, en gekk þá gjörsamlega fram af fólki vegna ofmetnaðar aðstenda þeirrar leiksýningar, vegna þeirrar hylli sem sýningin naut og á endanum var gengið svo hraustlega fram af fólki í vitleysunni, að nú vill enginn kannast við að hafa nokkurn tíma verið aðdáandi farsans.

Mogginn bendir á það í leiðara í dag, að sú refsing sem Álftnesingar veittu sitjandi meirihluta í síðustu sveitarstjórnarkosningum hafi orðið sveitarfélaginu svo dýrkeypt, að erfitt sé að koma auga á hvernig Álftanes nær sér aftur fjárhagslega eftir "refsiaðgerðirnar".

Samkvæmt skoðanakönnun fyrir Moggann fær "Besti" brandarinn lang mest fylgi meðal yngsta aldurhópsins, 18 til 24 ára, eða 68,2% svarenda, en það er sá hópur, sem er að kjósa í fyrsta eða annað sinn og í mörgum tilfellum ekki farinn að gera sér grein fyrir þeirri alvöru, sem felst í kosningaréttinum og þeirri ábyrgð sem honum fylgir.

Vonandi verður þetta leikhús fáránleikans Reykvíkingum ekki jafn dýrkeypt og refsing kjósenda á Álftanesi gagnvart sínum stjórnvöldum.


mbl.is Mikið forskot Besta flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband