Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Enn hægt að kenna Icesave um að lítið þokast

Þegar ríkisstjórnin var mynduð fyrir rúmu ári síðan neyddi Samfylkingin Vinstri græna til að samþykkja aðildarumsókn Íslands að ESB, enda væri innlimun í stórríkið eina von landsins í efnahagsþrenginum þess.  Reyndar hélt Jóhanna Sigurðardóttir því fram, að aðildarumsóknin ein og sér myndi auka svo mikið traustið á íslenskum efnahag, að öll viðskipti við erlendar lánastofnanir myndu sjálfkrafa komast í besta horf.  Reyndar var að sögn Jóhönnu allra brýnast af öllu, að reka seðlabankastjórana, til þess að hægt væri að lækka vexti og styrkja krónuna, enda var fyrsta verkið að reka þá, en ekkert breyttist reyndar við það.

Þegar ekkert gekk eftir varðandi þessi atriði, var gripið til þeirrar skýringar að hér skylli á frostavetur í efnahagsmálunum, ef ekki yrðu samþykkar fjárkúgunarkröfur Breta og Hollendinga vegna Icesave, enda setti AGS uppgjöf Íslands í því máli, sem skilyrði fyrir frekari efnahagssamvinnu við Íslendinga. 

Icesavekúgunin tókst ekki eins og ríkisstjórnin ætlaði sér og AGS endurskoðaði efnahagsáætlunina og sjóðurinn og norðurlöndin, ásamt Póllandi samþykktu að greiða út annan hluta af lánsloforðum sínum og þar með hefði öll vandamál að leysast, samkvæmt fyrri yfirlýsingum ráðherranna.

Þar sem ekkert af þessum lausnum hafa dugað til að slá á getu- og hugmyndaleysi stjórnarinnar í atvinnuuppbyggingu landsins, þá er enn gripið til Icesave til að réttlæta ræfildóminn við lausn á brýnasta vandanum, sem er að koma almennilegum skriði á atvinnulífið og minnka þar með atvinnuleysið.

Á meðan ríkisstjórnin hefur enga trú á sjálfri sér og eigin getu, munu engir aðrir treysta henni, allra síst erlendar lánastofnanir.

 


mbl.is Icesave tefur afnám gjaldeyrishafta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir hafa fjárfestingagetu upp á 500 milljónir?

Smáralindin er nú auglýst til sölu, en eignarhaldsfélag hennar er eitt af þeim fyrirtækjum sem bankarnir hafa þurft að taka upp í skuldir útrásarvíkinganna, en ekki eitt einasta af fyrirtækjum þeirra snillinga virðist hafa gengið hjá þeim í rekstri, enda blóðmjólkuð af öllu eigin fé, í formi arðgreiðslna til skúrkanna sjálfra.

Í fréttinni kemur fram að:  "Söluferlið hófst 28. apríl 2010 og er opið öllum áhugasömum fjárfestum, sem standast hæfismat og sýnt geta fram á fjárfestingargetu umfram 500 milljónir króna."  Ekki er víst að margur maðurinn á Íslandi nú til dags hafi fjárfestingargetu umfram 500 milljónir króna nema útrásarglæponarnir, sem hljóta að eiga einhversstaðar einhverja aura afgangs af öllum þeim milljörðum króna, sem þeir skömmtuðu sér í arð í "gróðærinu".

Jón Geral Sullenberg skrifar opið bréf til Jóns Ásgeirs í Bónusi í Mongunblaðinu í morgun þar sem hann biður hann að útskýra hvað hafi orðið um allan þann arð, sem hann og fjölskylda hans greiddi sér út út gjaldþrota fyrirtækjum sínum, alveg fram á síðustu dagana fyrir bankahrun og eins hvernig þotur, snekkjur, skíðahallir og lúxusíbúðir upp á milljaða króna var fjármagnað.  Svar frá Bónusdrengnum hlýtur að birtast á sama stað fljótlega.

Nú er að sjá hvort Smáralindin verður keypt fyrir Tortola- eða Luxemborgarpeninga, nema mjög stór hópur annarra en útrásarglæpamanna taki sig til og safni saman 500 - 1000 milljörðum til að leggja í púkkið.


mbl.is Smáralind til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein lög fyrir alla

Nú á tímum þykir ýmislegt í fari manna og gerðum alveg eðlilegt og sjálfsagt, sem áður og fyrrum þótti bæði óeðlilegt og ósiðlegt og var þar af leiðandi bannað með hörðum viðurlögum, jafnvel dauðadómum.  Samkynhneygð féll undir þessa skilgreiningu og gerir reyndar enn í sumun löndum og enn tíðkast dauðarefsing vegna slíkra mannlegra kennda í nokkrum löndum.

Kennisetningin hefur verið sú í gegnum tíðina, að hjónaband skyldi einungis viðurkennt milli karls og konu og hlýtur að hafa byggst á þeirra tíma þjóðfélagsháttum þar sem karlinn hafði það hlutverk að afla bjargar í búið og vernda fjölskyldu sína og ætt fyrir utanaðkomanandi áreiti.  Börnin, sérstaklega strákarnir voru síðan líftryggingarfélag foreldranna og bar að sjá fyrir þeim í ellinni og eins systrum sínum, féllu eiginmenn þeirra frá.

Nú eru tíma breyttir, þó ekki allsstaðar, því enn er karla- og feðraveldi við líði víða og annarsstaðar tekur nokkrar kynslóðir að breyta hugsunarhætti fólks um gömul gildi, en a.m.k. á vesturlöndum er farið að viðurkenna fjölskyldur, sem samsettar eru af einstaklingum af sama kyni og börnum þeirra, enda vandalaust fyrir konur að eignast börn, án þess að notast við gamla lagið og karlar geta ættleitt börn, hafi þeir á því áhuga.

Vegna þessara þjóðfélags- og hugarfarsbreytingar eiga auðvitað að gilda ein lög í landinu fyrir alla þegna, hver sem kynhneygð þeirra er og eiga öll lög um sambúðarfólk, rétt þeirra, skyldur og erfðir að gilda jafnt fyrir alla.

Jafnvel íhaldssöm stofnun, eins og kirkjan, er að verða tilbúin til þess að viðurkenna þetta.


mbl.is Biskup býst við einum hjúskaparlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evruland í ruslflokki

Ísland hefur orðið fyrir hlutfallslega mesta bankahruni í veröldinni og er í mikilli fjármála- og skuldakreppu, sem ekki sér fyrir endann á ennþá.  Þrátt fyrir allt, sem á undan er gengið hefur tekist að halda uppi bankaþjónustu við almenning, þó mikið vanti upp á að þjónustan við atvinnulífið sé komin í viðunandi horf.

Lánshæfismat íslenska ríkisins og þjóðarinnar í heild er í næsta flokki fyrir ofan ruslflokk, þ.e. það hefur haldist í fjárfestingarflokki og ástandinu nýlega verið breytt úr neikvæðu í stöðugt.  Þeir sem lenda í ruslflokki í þessum mötum teljast ekki lengur nógu traustir aðilar, til þess að óhætt sé að versla með skuldabréf þeirra af öryggi á fjármálamörkuðum, því í slíku mati felst spá, um að viðkomandi muni ekki geta greitt skuldir sínar í nánustu framtíð.

Grikkland hefur nú dottið niður í ruslflokk hjá matsfyrirtækjunum og getur því ekki lengur endurfjármagnað skuldir sínar og hefur orðið að leita til AGS og ESB eftir neyðarhjálp.  Því hefur lengi verið haldið fram, að Íslendingar hefðu ekki lent í neinni kreppu, ef þeir hefðu verið gengnir ESB á hönd og búnir að taka evruna upp sem gjaldmiðil.

Grikkland, Spánn, Ítalía, Írland, Portúgal og fleiri ESB lönd hafa nú afsannað þessa kenningu á eftirminnilegan hátt.


mbl.is Skuldir Grikkja verða endurfjármagnaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nornaveiðarnar halda áfram

Um þessar mundir er þjóðfélagið á hvolfi vegna nornaveiða og beinast þær helst að stjórnmálamönnum, enn sem komið er að minnsta kosti.  Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var knúin til að segja af sér varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum og taka sér hlé frá þingstörfum, vegna fyrri starfa og gerða eiginmanns hennar. Þingmenn hafa tekið frí frá þinginu vegna tengsla við bankana fyrir hrun og einstakir þingmenn eru umsetnir á heimilum sínum af nornaveiðurum, sem þykjast geta dæmt æruna af fólki, án nokkurra sannana um lögbrot af hálfu viðkomandi fórnarlambs.

Nýjasta dæmið um þessa sefasýki er brotthvarf Guðrúnar Valdimarsdóttuir, hagfræðings, af lista Framsóknarflokksins í Reykjavík og jafnframt hefur hún sagt sig úr öllum trúnaðarstörfum á vegum hans þ.m.t. formennsku í Félagi framsóknarkvenna í Reykjavík. 

Þessa ákvörðun tekur þessi unga og vammlausa kona vegna þess að eiginmaður hennar tók þátt í milljarða plotti fyrir bankahrun og tapaði á því verulegum peningum, ef rétt er skilið.  Vegna þessara viðskipta eiginmannsins krafðist fulltrúaráð Framsóknarflokksins þess, að hún segði sig af framboðslistanum fyrir borgarstjórnarkosningarnra í Reykjavík, en þar skipaði hún annað sætið, eftir prófkjör fyrr í vor.

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvar blóðþorstinn endar þegar hjarðhegðunin beinist inn á nýja braut, en hún hefur sveiflast frá algerri meðvirkni í efnahagsruglinu fyrir bankahrun, yfir í nánast algerar ofsóknir gegn þeim, sem einhver bein tengsl eða viðskipti áttu við banka- og útrásarruglarana.

Um þessar mundir er vandlifað í þessu ágæta landi.

 


mbl.is Segir sig af lista Framsóknarflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmt er þeirra óréttlæti, en verra er "réttlætið"

Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, hefur oft átt góða spretti í málflutningi sínum, síðan hún kom inn á þing, en nýjasta útspil hennar um "réttlætið" er svo yfirgengilet, að hefðu orðin ekki fallið inni á hinu háa Alþingi, hefði ekki nokkrum manni dottið í hug, annað en að hún væri að grínast.

Lilja lét eftirfarandi út úr sér í þingræðunni;  „Skuldarar hrópa á réttlæti, norrænt réttlæti. Það felst í því að gripið er til almennra aðgerða og svo er skattkerfið notað til að taka frá þeim sem ekki þurfa á aðgerðunum að halda.“ 

Eins og ástandið er í efnahagsmálunum í landinu snúast hlutirnir hjá flestum um að fleyta sér frá degi til dags og þeir eru sárafáir, sem eiga einhvern afgang, a.m.k. sem heitið getur þegar líður að mánaðamótum og næstu útborgun.  Þannig er ástandið hjá þeim, sem ekki lentu verst úti í hruninu, en þeir sem tóku erlendu lánin og fóru óvarlega að öðru leyti í lántökum árin fyrir hrun, eru auðvitað í miklum vandræðum og munu margir missa eignir sínar á uppboð og jafnvel verða gjaldþrota.

Margir hafa nýtt sér þau úrræði sem skuldurum hafa staðið til boða og enn fleiri verða að skoða þau mál, áður en uppboðsfrestir renna út og leita allra leiða til að bjarga sér fyrir horn.  En að láta sér detta í hug, að þeir sem ekki yfirveðsettu sig fyrir hrun, geti tekið á sig að borga niður lánin fyrir hina, er svo glórulaust, að óskiljanlegt er að nokkrum þingmanni skula detta svona vitleysa í hug.

Og þó, kannski er þess einmitt að vænta að þingmenn VG fái hugdettur, sem ekkert vit er í.


mbl.is „Skuldarar hrópa á réttlæti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíðkast nú hin breiðu spjótin

Mikill slagur virðist vera í uppsiglingu í Blaðamannafélagi Íslands vegna stjórnarkjörs, sem fram á að fara á fimmtudaginn, en Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins, býður sig fram til formannsembættis á móti sitjandi formanni, Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur.

Greinilegt er á öllu, að grunnt hefur verið á því góða, milli formannsins og framkvæmdastjórans í langan tíma og stöðugt rifrildi verið um fjármál félagsins, sem ókunnur hefði getað haldið að væru ekki stórmerkileg eða flókin í eitt- til tvöhundruð manna félagi, jafnvel illskiljanlegt að slíkt smáfélag þyrfti formann, með sex stjórnarmenn með sér, ásamt varamönnum og framkvæmdastjórna, og í ofanálag virðist formaðurinn helst hafa viljað ráða gjaldkera til viðbótar.

Hvað sem því líður, stendur stríð um uppáskrift ársreiknings félagsins fyrir liðið ár og neita fjórir af sjö stjórnarmönnum að undirrita, þrátt fyrir að reikningarnir hafi verið endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og yfirfarnir af skoðunarmönnum félagsins.

Með neitun á uppáskrift reikninganna er ekki einungis verið að gefa ýmislegt í skyn um vafasama fjármálastjórn framkvæmdastjórans, heldur verið að lýsa vantrausti á löggilta endurskoðendur félagins og skoðunarmenn þess, sem kjörnir eru af félagsmönnum á aðalfundi ár hvert.

Fróðlegt verður að fylgjast með þessum harkalega bardaga og frásögnum félagsmannanna af honum í fjölmiðlum sínum, enda telja þeir sjálfir að þeirra helgasta skylda sé, að uppfræða almenning um hvern þann sóma og ósóma, sem þeir komist á snoðir um.

Þjóðin hlýtur að bíða eftir úrslitunum með öndina í hálsinum.


mbl.is Neita að skrifa undir ársreikninga BÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar er öflugur skaðvaldur

Ólafur Ragnar Grímsson var var aðal-grúppía banka- og útrásarliðsins og þeyttist um allan heim í einlægum stuðningi sínum við þá og þáði marga góða veisluna fyrir, ásamt því sem honum finnst skemmtilegast, en það er að fá að halda uppskrúfaðar ræður á opinberum vettvangi og ekki spillir ef erlendir fjölmiðlar eru á vettvangi, en þá líður honum eins og þriggja ára barni í leikfangabúð.

Þó engin ástæða sé til að reyna sérstaklega að halda því leyndu fyrir umheiminum að hætta sé á Kötlugosi, er heldur engin ástæða til að forseti þjóðarinnar sitji ekki af sér nokkurt tækifæri til að komast í heimspressuna til þess að vara við þeirri stórkostlegu hættu, sem veröldinni sé búin þegar þar að kemur, sem hann útlistar svo vel í fjölmiðlunum að geti orðið á morgun, hinn daginn eða eftir 5, 10 eða fimmtán ár, en þangað til gætu ferðamenn orðið innlyksa á Íslandi, verði þeir svo vitlausir að hætta sér þangað í fríum sínum.

Ólafur Rgagnar er svo sólginn í sviðsljós erlendra fjölmiðla og svo málgefinn að hann má hvergi sjá hljóðnema, hvað þá myndatökuvél, að hann stökkvi ekki til og haldi fjálgar ræður um hvað sem honum dettur í hug og honum dettur alltaf eitthvað í hug, sem kemur hans eigin persónu í sviðsljósið og gerir hana að aðalatriði allra viðtala við hann.

Það þyrfti sérstakur varðmaður að fylgja honum hvert fótmál og varna honum aðgangs að öllum þeim hljóðnemum og myndavélum, sem á vegi hans verða.

Það yrði þjóðinni til mikilla heilla og forða henni frá mörgum skaðanum af forsetans völdum.


mbl.is Tjón þjóðarbúsins stefnir í 10 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki lengur fjárhagslegt vandamál, heldur sálfræðilegt?

Ráðherrarnir tala út og suður um skuldamál heimilanna, annan daginn segir Jóhanna að "fljótlega" verði lögð fram frumvörp sem eigi að veita fleiri og betri úrræði fyrir skuldug heimili, en næsta dag kemur Árni Páll og segir að því miður sé ekki hægt að gera meira, en þegar hafi verið gert. 

Fyrir nokkrum dögum sagði Árni Páll í viðtali, að þau úrræði í skuldamálum, sem þegar væru komin til framkvæmda dygðu flestum skuldugum heimilum ágætlega og ef menn vildu ekki notfæra sér þau, þá væri þeim ekki viðbjargandi, því ríkisstjórnin myndi ekki gera meira í þessum málum. 

Eftir að Seðlabankinn birti síðustu skýrslu sína um skuldir heimilanna, sagði Árni að góðu fréttirnar væru þær, að erfiðleikarnir væru ekkert meiri hjá fólki, en þeir hefðu verið í Janúar 2008, löngu fyrir hrun og því væri ástandið í raun bara nokkuð gott og ekki þörf á frekari aðstoð við skuldara.

Samkvæmt því sem Árni Páll segir og ekki annað að skilja á Steingrími J. en hann sé samþykkur, þá lenda einungis húseignir þeirra á uppboði í haust, sem ekki vilja nýta sér "skjaldborgina" sem ríkisstjórnin hefur svo rausnalega slegið um heimilin í landinu.

Eftir þessum boðskap ríkisstjórnarinnar er það ekki lengur getuleysi fólks til að ganga frá sínum skuldamálum, heldur viljaleysi og þar með er þetta ekki lengur efnahagslegt vandamál, heldur sálfræðilegt. 

Verst að það skuli ekki vera neinn sálfræðingur í ríkisstjórninni. 


mbl.is Nauðungaruppboðum ekki frestað frekar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Linnir skattahækkanabrjálæðinu eða ekki?

Þegar stöðugleikasáttmálinn var undirritaður í júní í fyrra lofaði ríkisstjórnin því, að fjárlagahallanum yrði náð niður á þrem árum og skyldi 45% af honum fjármagnaður með hækkun skatta og 55% skyldu nást með niðurskurði ríkisútgjalda.

Á árunum 2009 og 2010 hafa skattar verið hækkaðir svo mikið, að samkvæmt loforði stjórnarinnar mun ekki verða hægt að hækka skatta meira á næstu árum, heldur verður að ná halla áranna 2011 - 2013 niður með sparnaði í ríkisrekstrinum.  Um þetta hafa aðilar vinnumarkaðarins marg oft gefið yfirlýsingar, þ.e. að allar þær skattahækkanir, sem um hafi verið rætt við gerð stöðugleikasáttmálans séu þegar komnar fram og gott betur.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði í sjónvarpsfréttum nýlega, að nú væri unnið að fjárlögum fyrir árið 2011 og þar væri unnið út frá þeirri hugmynd að helmingur hallans á því ári yrði fjármagnaður með enn meiri skattahækkunum og aðeins helmingurinn með sparnaði.  Strax við þessa yfirlýsingu var augljóst, að ríkisstjórninni dettur ekki í hug að standa við gerða samninga og það sem verra er, er að almenningur mun ekki þola frekari skattahækkanir á næstu árum.  Brjálæðið er orðið nóg í því efni, nú þegar.

Í dag sagði Steingrímur J. á Alþingi, að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um hvernig halla næsta árs yrði mætt opg sagði engar ákvarðanir hafa verið teknar, s.s. hvort skattar verði hækkaðir frekar.

Það verður að teljast með ólíkindum hvernig ráðherrarnir tala alltaf út og suður og í allar áttir, en engin leið er að vita hver þeirra segir satt og hver ekki. 

Líklega vita þeir það ekki einu sinni sjálfir.


mbl.is Stefnir í 100 milljarða kr. halla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband