Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Fjárlögin eða ESB?

Kosningar eru afstaðnar og því miður fyrir þjóðina urðu úrslitin þau að hætta er á, að mesta afturhaldsstjórn, sem sögur færu af á vesturlöndum, gæti orðið að veruleika á næstunni.

Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, að rúmlega fimmti hver Íslendingur myndi kjósa nánast hreinræktaðan kommúnistaflokk af gamla skólanum, sem að vísu hefur hulið sig grænni slikju umhverfisverndar.  Sterk útkoma hans mun gera stjórnarmyndun með Smáflokkafylkingunni erfiða, enda gefur þessi niðurstaða VG miklu sterkari stöðu gegn SMF við stjórnarmyndun.

Eina góða við þetta er, að nú minnka líkur á að SMF geti þvingað fram aðildarumsókn að ESB, en á móti kemur að nauðsynlegar aðgerðir til bjargar atvinnulífinu eiga sér engan málsvara í þessari ríkisstjórn.

Fyrir kosningar var látin í ljós sú skoðun að hætta gæti verið á stjórnarkreppu eftir kosningar og nú eru fleiri farnir að velta fyrir sér þeim möguleika, eins og sést á  þessari hugleiðingu Egils Helgasonar á Eyjunni.

Strax á kosninganóttina og ekki síður á Sunnudeginum, hertu bæði SMF og VG á áherslum sínum í ESB málum og nú lýsir Steingrímur J. því yfir að fjárlagavinnan muni taka allan tíma stjórnarinnar næstu vikur og mánuði, á meðan SMF klifar enn á því að forgangsverkefnið sé umsóknaraðild að ESB, strax í maí.

Næstu dagar verða fróðlegir, en afdrífaríkir, fyrir þjóð í vanda.


mbl.is Steingrímur: Fjárlagavinna sett í forgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunverulegur leiðtogi

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, bar af öðrum talsmönnum flokkanna í leiðtogaþætti sjónvarpsins í gærkvöldi.  Hann talaði fyrir sjónarmiðum Sjálfstæðisflokksins af þeim skörungsskap, að engum gat dulist að þar færi raunverulegur framtíðarleiðtogi þjóðarinnar. 

Bjarni svaraði öllum spurningum málefnalega og lét aumt frammígjamm Jóhönnu Sigurðardóttur ekki trufla sig hið minnsta.  Allt annað var uppi á teningnum hjá Jóhönnu og Steingrími J., sem voru í vörn allan þáttinn og áttu í mestu erfiðleikum með að útskýra hvað þau hefðu "afrekað" frá því þau komust í ríkisstjórn, hvað þá það sem þau vildu gera eftir kosningar.

Ágreiningur flokkanna í helstu stórmálum kom berlega í ljós, þ.e. algerlega ósamrýmanlegar áherslur í atvinnumálum og að ekki sé talað um Evrópumálin.  Ekki gátu þau heldur verið nógu heiðarleg til að útskýra fyrir þjóðinni, hvar og hvernig þau ætla að skera niður ríkisútgjöld á næstu árum, en fyrir liggur að brúa þarf 60 milljarða króna fjárlagagat árlega næstu þrjú ár, og er þá eftir að bæta við 20 milljarða árlegri fjárvöntun Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Líklegt er að eftir langa stjórnarkreppu verði mynduð ný bráðabirgðaríkisstjórn og síðan verði kosið aftur innan skamms tíma.

Vinstri stjórn mun framlengja og dýpka kreppuna, sem þjóðfélagið stendur frammi fyrir. 

Eina huggunin er, að ef af slíkri stjórn verður, þá verður hún skammlíf.


mbl.is Bjarni Ben kaus fyrstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarkreppa?

Ef fram fer sem horfir, að Smáflokkafylkingin og VG verði álíka stórir flokkar eftir kosningarnar, er að verða útlit fyrir að hér geti orðið langvarandi stjórnarkreppa.  Afstaða flokkanna til ESB er svo algerlega ósamrýmanleg, að ef Smáflokkafylkingin ætlar að standa fast á aðildarumsókninni að ESB, er afar ólíklegt að saman náist um slíkt með VG, enda hefur VG verið að herðast í andstöðinni á síðustu dögum kosningabaráttunnar.

VG er farin að sýna klærnar, svo um munar, eftir því sem styrkur þeirra verður stöðugri í skoðanakönnunum.  Neitun Ögmundar um staðfestingu þjónustutilskipunar ESB, sýnir að VG er jafnvel tilbúinir til að fórna samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, svo mikil er andstaða þeirra við ESB tengslin, eða eins og segir í fréttinni:  "Flokksráð VG hefur lagt til að neitunarvaldi verði beitt í EES til að hindra innleiðingu tilskipunarinnar vegna áhrifa á velferðarþjónustu."

Dettur einhverjum í hug lengur, að VG muni nokkurn tíma, í samstarfi við Smáflokkafylkinguna, samþykkja aðildarumsókn að ESB?  Með inngöngu í ESB verður ekkert neitunarvald í höndum VG.

Þeir Sjálfstæðismenn, sem hafa hugsað sér að kjósa Smáflokkafylkinguna, vegna afstöðu hennar til ESB, ættu að hugsa sinn gang vandlega, því með því eru þeir líklega að stuðla að langvarandi stjórnarkreppu, sem er síst það sem þjóðin þarfnast nú um stundir.  Auð atkvæði stuðla að því sama.

Það sem getur haft veruleg áhrif á gang mála, þjóðinni til heilla, er að Sjálfstæðisflokkurinn komi sterkur út úr þessum kosningum.


mbl.is VG stoppaði ESB-lögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn standi saman

Á morgun rennur upp sú stóra stund, að fram fer raunveruleg skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna í landinu.  Útlit er fyrir að nokkur hluti Sjálfstæðismanna ætli að sitja heima, eða, svo ótrúlegt sem það er, hugsi sér að kjósa VG, til að refsa Sjálfstæðisflokknum fyrir það sem aflaga hefur farið í þjóðfélaginu.  Jafnt vilja menn refsa flokknum fyrir það sem hann hefði getað gert betur og ekki síður fyrir það, sem hann gat alls ekki haft stjórn á.  Sjállfstæðisflokkurinn hafði ekki stjórn á þeim fjárglæframönnum í bönkunum og "útrásinni" sem með afglöpum, jafnvel glæpum, sínum settu þjóðina í þá stöðu, sem hún nú er í.

Í féttinni segir m.a:

"Einar Mar segir að þótt það sé vinstri sveifla bendi ennfremur margt til þess að kjósendur séu einfaldlega að refsa Sjálfstæðisflokknum. Hann hafi lent í ólgusjó vegna skandala en þar beri hæst styrkjamálið, orka flokksforystunnar hafi farið í að svara fyrir það og hún hafi því haft minna svigrúm til að kynna áherslumál sín fyrir kosningarnar."

Sjálfstæðismenn, látum ekki gremju í garð flokksins verða til þess að VG hrósi stórum sigri í þessum kosningum.  Sjálfstæðismenn geta ekki látið henda sig að gera þann öfgaflokk, sem VG er, framlengja kreppuna í landinu um langan tíma, með andstöðu sinni við alla nýja uppbyggingu atvinnulífsins og ríkisvæðingu stórs hluta þess sem ennþá er í rekstri.

Sigur vinstri flokkanna í þessum kosningum væri slíkt slys fyrir þjóðina, að Sjálfstæðismenn geta ekki , samvisku sinnar vegna, stuðlað að slíku.


mbl.is Sögulegar kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB OG SMF

Smáflokkafylkingin (SMF) boðar að allar þrautir íslensku þjóðarinnar muni linast, eins og hendi væri veifað, með því einu að sækja um aðild að ESB.  Aldrei er reynt að útskýra hvernig það myndi leysa erfiðleika þjóðarbúsins, aðeins sagt að þannig myndi þjóðin eiga auðveldara með að afla lánsfjár á meginlandinu.  Framvegis verður ekki spurt um aðild að ESB, við mat á lánshæfi þjóða, heldur verður tekið mið af getunni til að endurgreiða lánin, því fjárglæfraruglið í liðnum "lánærum" heyrir sögunni til og mun ekki endurtaka sig næstu áratugina.

Ekki hrundi allt bankakerfið á Spáni í fjármálakreppunni og þeir eru aðilar að ESB.  Svona líta nýjustu fréttir út þaðan:

"Spánverjar fóru að finna verulega fyrir kreppunni í lok árs 2008 og er þetta í fyrsta skipti í 15 ár sem hagkerfi þeirra skreppur svo mikið saman. Atvinnuleysi á Spáni hefur nú náð 17% og hefur þannig næstum tvöfaldast á síðastliðnu ári svo fjórar milljónir Spánverja hafa nú enga vinnu." 

Samskonar fréttir birtast daglega frá öðrum ESB löndum, t.d. Bretlandi, Írlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Austurríki, Ungverjalandi, Póllandi, Lettlandi o.s.frv., o.s.frv.  Á þessar staðreyndir er aldrei bent í áróðri Smáflokkafylkingarinnar fyrir inngöngu í bandalagið.  Er ekki kominn tími til að fara að segja þjóðinni satt?

Hér á landi er Sjálfstæðisflokknum kennt um allt sem miður hefur farið. 

Varla hefur hann haft svona gríðarlega mikil áhrif í ESB, að þar sé allt að fara á hvolf líka.

 


mbl.is Spánn veitir 14 milljarða til smáfyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siv og trúnaðurinn

Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður, kemur út af fundi utanríkismálanefndar og segir að sér hafi verið sögð leyndarmál, afar spennandi, en hún hafi lofað að segja engum frá þeim, eða eins og segir í fréttinni:

"Nefndarmenn mega ekki tjá sig um gögnin. Atburðarrásin sé ævintýralegri en hún hafi nokkurn tímann ímyndað sér og hún sé slegin yfir þeim upplýsingum sem hafi komið fram. Málið hafi þó ekki skýrst mikið."

Þetta er allt nokkuð undarlegt, hún má ekki segja frá því að atburðarrásin hafi verið ævintýraleg, en segir það samt.  Svo tekur hún fram að málið hafi þó ekki skýrst mikið.  Er hægt að segja meira, án þess að segja nokkuð?  Er hægt að vera lágkúrulegri í málflutningi, en þetta?  Annað hvort segir hún frá því sem hún veit og þá alla söguna, eða hún segir bara alls ekki neitt.  Hún á ekki að segja að hún viti nú ýmislegt, sem aðrir vita ekki hvort er gott eða slæmt, án þess að útskýra málið nánar.

Árni Þór Sigurðsson, formaður Utanríkisnefndar, segir í sömu frétt að gögnin verði "sjálfsagt" birt í haust. 

Sennileg á þetta að vera dæmi um opna og gagnsæja stjórnsýslu, sem boðuð var af núverandi ríkisstjórn.


mbl.is Siv segir atburði ævintýralega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxtaokur

Seðlabankinn hefur birt nýja tilkynningu um dráttarvexti og vexti af peningakröfum.  Í henni er tilkynnt að frá 1. maí n.k. verði dráttarvextir 22,5%, af óverðtryggðum lánum 18,0% og af verðtryggðum lánum 5,9%. 

Vísitala neysluverðs var 227,9 stig fyrir janúarmánuð, en hefur verið reiknuð 327,9 stig fyrir maí.  Þetta er 2% hækkun frá áramótum, sem jafngildir c.a. 4,8% ársverðbólgu, reiknað til næstu áramóta.  Af þessu má sjá hvílíkir okurvextir gilda hér á landi, meira að segja á óverðtryggðum lánum, að ekki sé talað um óverðtryggð lán, hvað þá dráttarvextina.  Það er ekkert sem getur réttlætt svona okur, enda er það allt að drepa, bæði heimili og atvinnulíf.

Á sama tíma eru birtar áróðursfréttir um að þjóðin myndi "græða" 228 milljarða króna á ári, ef hún fengi 3% vaxtalækkun með inngöngu í ESB.  Það mætti halda að þessu háa vaxtastigi sé haldið uppi hér á landi, eingöngu í pólitískum tilgangi, til þess að geta logið til um "vaxtagróðann" af inngöngu í ESB.

Ef bankar geta lækkað vextina niður úr öllu valdi með inngöngu í ESB, geta þeir allt eins lækkað þá til samræmis við ESB löndin, án aðildar.  Reyndar eru engir samræmdir vextir í ESB, ekki einu sinni ríkissjóðir ESB landanna njóta samræmdra vaxtakjara fyrir sína ríkissjóði, þannig að í raun er hrein blekking að tala um einhverja sérstaka ESB vexti. 

Það er Morgunblaðinu til skammar, að taka þátt í að ljúga þjóðina inn í ESB.

Svona fréttaflutningur er eingöngu til að eyðileggja gamla góða slagorðið:  "Ekki lýgur Mogginn".


mbl.is Dráttarvextir lækka um 1,5 prósentustig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysi í ESB

Á Íslandsi ríkir ein dýpsta efnahagskreppa, sem yfir landið hefur dunið, með tilheyrandi erfiðleikum heimila og mesta atvinnuleysi í áratugi.  Í febrúarmánuði mældist atvinnuleysi hérlendis 8,2% og þykir Íslendingum atvinnuleysi af þessari stæðrðargráðu algerlega óþolandi.  Eina ráðið, sem Smáflokkafylkingin sér til bjargar, er að þjóðin gangi í ESB og þá verði atvinnuleysi hér svipað og í öðrum Evrópuríkjum.

Því er haldið fram, að kreppan hér sé miklu meiri en í ESB ríkjunum, enda hafi allir helstu bankar Íslands farið á hausinn, en ekki nema hluti banka í ESB, en öðrum hafi verið bjargað með þúsundum milljarða Evra framlaga úr viðkomandi ríkissjóðum.  Í því ljósi, er athyglisvert að atvinnuleysi mældist að meðaltali 7,9% í ríkjum ESB í febrúar, eða nánast það sama og hérlendis, þrátt fyrir kerfishrun.  Í einstökum ESB löndum er atvinnuleysið miklu meira, t.d. 10,9% í Póllandi og hvorki meira né minna en 17,36% á Spáni, sem er það mesta frá því mælingar hófust árið 1976.

Ekki hefur langvarandi aðild Spánar að ESB hjálpað mikið í atvinnumálum og ekki heldur í efnahagsmálum almennt, því Spánverjar eru í miklum efnahagslegum erfiðleikum og ekki hjálpar Evran mikið í þeim málum, er reyndar frekar til trafala.  Ekki er framtíðin heldur glæst fyrir spænska launþega, því spáð er að atvinnuleysi verði orðið 19,4% á Spáni á næsta ári.

Atvinnuleysi í eðlilegu árferði í ESB löndum hefur alltaf verið margfalt á við það sem hérlendis hefur verið og hér þarf kerfishrun, til að atvinnuleysið verði sambærilegt við ESB.

Inn í slíkt ástand vill Smáflokkafylkingin koma Íslandi varanlega. 


mbl.is Atvinnuleysi mælist rúm 17% á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokaspretturinn

Nú eru ekki nema tveir dagar til kosninga og þrátt fyrir að lítið hafi farið fyrir raunverulegri umræðu um stefnu flokkanna, sem hefur fallið í skuggann fyrir alls kyns aukaatriðum og skítkasti í garð frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins, er loks að koma í ljós hvers er von frá vinstri flokkunum eftir kosningar.

Þrátt fyrir ástand atvinnumála, vilja vinstri grænir enga atvinnuuppbyggingu og ekki má einu sinni rannsaka olíusvæðin fyrir norð-austan land, hvað þá reisa iðjuver, sem geta skapað þúsundir starfa.  Smáflokkafylkingin boðar engar aðrar launsnir en inngöngu í ESB, sem hún segir lausn á öllum vanda þjóðarinnar, án þess að rökstyðja það nokkuð frekar.

Eini flokkurinn sem boðar raunhæfar lausnir á vandamálunum er Sjálfstæðisflokkurinn, en vinstri flokkarnir fást ekki til alvöru umræðu um þessi mál, heldur kynda undir óhróðri um flokkinn og frambjóðendur hans, til þess að leiða athyglina frá hinum raunverulegu vandamálum og úrræðaleysi sínu gagnvart þeim.

Sannir og heiðarlegir borgarar eiga enga samleið með þessum "skítkösturum" og láta ekki bjóða sér þannig málflutning.  Þeim, sem fylgjast með t.d. í bloggheimum, blöskrar algerlega sá sóða málflutningur og óhróður, sem þar er dreift.  Almenningi ofbýður þetta og á enga samleið með slíku öfgafólki.

Sjálfstæðisfólk, sem situr heima á kjördag, eða skilar auðu, gerir í raun ekkert annað en að styðja öfgafyllstu stjórnmálaöflin.  Það er næg áminning til Sjálfstæðisflokksins, vegna þess sem fólk telur að hann hefði mátt betur gera í fortíðinni, að gefa sig ekki upp í skoðanakönnunum.  Það er næg refsing.

Nú verða allir heiðvirðir borgarar að gera allt, sem mögulegt er, til að forða þjóðinni frá vinsta slysi.


mbl.is Dregur saman með flokkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkirnir enn og aftur

Alltaf verður kosningabaráttan ómerkilegri og ómerkilegri, eftir því sem nær dregur kosningunum.  Nú er DV farið að stjórna umræðunni með því að lýsa því yfir að blaðið hafi undir höndum lista yfir 17 stjórnmálamenn, sem hafi þegið styrki til prófkjörsbaráttu frá Baugi.  Síðan er byrjað að birta nafn Guðlaugs Þórs Þórðarssonar og allir EKKIFRÉTTAMIÐLAR landsins rjúka upp til handa og fóta og lepja "spillingarfréttina" upp eftir sneplinum og bloggheimar loga í hneykslan sinni á manninum.

Til að drýgja umræðuna, en nú birt næst nafn og væntanlega verður svo birt nýtt og nýtt nafn á tveggja tíma fresti, svo æsingurinn út af þessum gömlu fréttum selji fleiri eintök af sneplinum á morgun.

Fyrr í dag var bloggað hér um þessi mál (áður en nokkur nöfn voru birt) og er óþarfi að endurtaka það, sem þar var sagt.

Það er algerlega ótækt, að EKKIFRÉTTAMIÐLAR stjórni kosningaumfjöllun, með óhróðri og níði um einstaka frambjóðendur og endalausu þvaðri um óheiðarleika þeirra.

Ekki nokkur heiðvirður maður á að taka þátt í þessari vitleysu.


mbl.is Steinunn Valdís fékk fjórar milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband