Skuldbreytingar

Einstaklingum á vanskilaskrá fjölgar hratt, en ekki kemur fram, vegna hvaða skulda fólk er að lenda á skránni.  Í allri umfjöllun um skuldavandann þyrfti að greina vanskilin betur, þ.e, eru vanskilin vegna húsnæðisskulda, hve mikið vegna verðtryggðra lána og hvað mikið gengistryggt, eða eru vanskilin vegna bílalána, hjólhýsakaupa, húsgagnakaupa o.s.frv.  Ef á að fara út í einhverjar skuldaniðurfellingar verða þessar upplýsingar að liggja fyrir, því varla verður ætlast til að fólki verði bjargað út af vanskilaskrá vegna annars en íbúðaskulda.

Ein aðferð, sem kemur upp í hugann, gæti verið að breyta gengistryggðum lánum yfir í verðtryggð lán í íslenskum krónum frá útgáfudegi, uppreikna þau og gjalddaga þeirra, eins og um verðtryggð lán hefði verið að ræða og leiðrétta áfallnar afborganir.  Eftir svona lánabreytingu stæðu allir húsnæðiskaupendur jafnir og því yrði mun auðveldara að móta almennar tillögur til lánabreytinga.

Með því að gera öll lán að verðtryggðum íslenskum lánum, væri hægt að breyta afborgunaraðferð þannig að mismunur á vísitölubreyting frá t.d. 1. júlí 2008 til 1. júlí 2009 yrði fryst þannig, að hún yrði færð aftur fyrir upphaflegan lánstíma og lengt í lánum sem því næmi.  Þetta yrði almenn aðgerð og engum mismunað.  Með þessu móti þyrftu lánveitendur ekki að afskrifa skuldirnar, en lengja lánstímann í staðinn og skuldabyrði lántakanda yrði léttari en nú er.

Hvað svo sem gert verður í þessum lánamálum, hlýtur jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar að gilda og fólki verði ekki mismunað með fyrirhuguðum aðgerðum.


mbl.is Vanskil aukast hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Það hafa bæst 10 miljónir við höfuðstólinn á litlu 90 fm íbúðinni minni, peningar sem að ég tók ekki að láni. Upphæðir sem urðu til í tölvum fyrir reiknimistök bankanna. Upphæð sem er algjört mannréttindamál að stjórnvöld leiðrétti......en þau eru að reyna með öllum leiðum að véla mig til að borga. Ég segi nú bara eins og Bjarni Ármanns; það væri fjárhagslega algjörlega óábyrgt af mér framtíðar minnar vegna og dóttur minnar að borga þessa ofgreiðslu.

 Ég mun aldrei greiða ofgreiðslurnar á lánunum mínum - þessar 10 miljónir sem stjórnvöld hafa bætt við íbúðalánin mín fyrir reiknimistök bankanna og ég tók aldrei að láni. Allar þær aðferðir stjórnvalda til hjálpar heimilunum sem lúta að lengingu lána... og að ég borgi þessar ofgreiðslur koma ekki til greina.

http://annamargretb.blog.is/blog/annamargretb/entry/949424/?fb=1

Anna Margrét Bjarnadóttir, 17.9.2009 kl. 11:45

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Anna Margrét, ertu viss um að þetta séu reikningsmistök bankanna.  Tókst þú ekki ákveðna erlenda upphæð að láni, sem þú seldir síðan fyrir íslenskar krónur og keyptir fyrir þær íbúð og bíl?  Voru mistökin ekki þín megin, að taka lán í erlendri mynt?  Ég reikna að minnsta kosti með því að þín rithönd sé á skuldabréfunum og tveggja votta, sem hafa skrifað upp á það, að þú skrifaðir undir bréfið allsgáð og án utanaðkomandi þvingana.

Hafir þú tekið lán í erlendri mynt, hefur þú skuldbundið þig til þess að greiða til baka sömu upphæð í erlendri mynt og í sjálfu sér er það þitt vandamál en ekki lánveitandans að útvega þennan gjaldeyri til að endurgreiða þá erlendu upphæð, sem þú tókst að láni.  Væntanlega hefur þú valið að taka erlent lán, vegna þess að þú ætlaðir að græða á því, en sá sem tekur mikla áhættu, getur orðið fyrir miklu tapi, sem hann verður að vera tilbúinn til að axla og gera sér grein fyrir, þegar hann tekur áhættuna.

Í mínu bloggi var ég að leggja til að þessum erlendu lánum yrði breytt í verðtryggð íslensk lán frá útgáfudegi og afborganir endurreiknaðar með tillitti til þess.  Einnig var þeirri hugmynd varpað fram að vísitöluhækkun eins árs yrði sett afturfyrir áður fyrirhugaðan lokagjalddaga.  Einnig var minnt á jafnræðisregluna og að allir yrðu látnir sitja við sama borð.

Ekki kom fram hjá þér, hvort þér þætti þetta sanngjörn leið, eða hvort þú ætlast bara til að einhver annar en þú borgi af láninu þínu.  Sá, einhver annar, er þá væntalega aðrir launþegar í landinu, sem myndu borga lánið þitt með sköttunum sínum.

Er það sanngjarnt?

Axel Jóhann Axelsson, 17.9.2009 kl. 13:23

3 identicon

Sæll Axel,

 Eflaust yrði þessi leið sem þú leggur þarna til ekkert ósanngjörn enda menn á sama stað staddir og þeir væru ef um væri að ræða íslenskt lán.

Varðandi áhættuna sem viðkomandi tók þegar hann skrifaði undir erlent lán þá er þetta hrein og bein vitleysa hjá þér. Ég veit ekki betur en að fjármálaráðgjöf sé hlutverk bankanna og þekki ég það sjálfur að þeir vöruðu fólki við sveiflum en þá gætu þessar sveiflur verið allt að 10-20%, ekki 100-150%. Afhverju erum við svo stödd með gengið eins og það er í dag? Er það vegna þes að Anna var svo óskynsöm í sínum lánaviðskiptum eða er það vegna þess að við vorum með staurblindan seðlabanka og 15% stýrivexti? Er það kannski vegna þess að Anna var að fjármagna sig með innistæðum sparífjáreigenda í Bretlandi og Hollandi? Eða kannski er hún terroristi?

Jóhannes (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 10:33

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Nei, hún er enginn terroristi.  Hún er hins vegar ábyrg fyrir sínum fjármálum, alveg eins og ég og þú.  Það er ekki hægt að skella skuldinni á misvitra ráðgjafa í bönkunum, þú leitar ráða, en tekur síðan þína ákvörðun sjálfur, út frá þeirri áhættu, sem þú ert tilbúinn til að taka.  Allir, endurtek allir, eiga að þekkja þær sveiflur sem hafa orðið á gengi krónunnar frá upphafi og enginn gat látið sér detta í hug í því "lánæri" sem ríkti, að krónan myndi standast þennan gífurlega innflutning á erlendu lánsfé.

Allir, endurtek allir, hefðu átt að sjá það fyrir, að krónan myndi hrynja eftir það brjálæði.

Axel Jóhann Axelsson, 18.9.2009 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband