Háskólanám í kreppu

Nú er kreppa, ekki eingöngu á Íslandi, heldur um allan hinn vestræna heim og hefur það leitt af sér atvinnuleysi, minnkun vinnu hjá flestum og tekjulækkun hjá öllum.  Þetta verður fólk að taka á sig og reyna að skrimta þangað til sér til sólar á ný í atvinnumálum.

Nokkuð stór hópur þolir hins vegar ekki orðin "sparnaður" "niðurskurður" og "samdráttur", og hafa opinberir starfsmenn verið mest áberandi í þeim flokki fram að þessu, en nú hefur þeim bæst öflugur liðsauki, sem eru háskólastúdentar.

Hvorugur hópurinn virðist tilbúinn að takast á við erfiða tíma, eins og launafólk á almennum vinnumarkaði hefur þurft að gera og þess í stað krefjast þeir að þeirra málum verði komið fyrir, eins og ekkert hafi í skorist í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Þjóðin mun öll þurfa að taka á sig miklar byrðar til þess að komast út úr kreppunni og eru opinberir starfsmenn og stúdentar þar ekki undanskildir.


mbl.is Háskólanám forréttindi ríkra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já sæll félagi !

Fyrir það fyrsta þá er þetta LÁN, ekki bætur, og því borga námsmenn þetta til baka til ríkisins.

Í öðru lagi þá eru þetta 74.000 kr. á mánuði sem námsmaður er að fá frá LÍN ef hann er í fullu námi. Leiga á Stúdentagörðum er um 50.000 kr á mánuði, þ.a. eftir standa 24.000 kr. á mánuði fyrir önnur útgjöld. 

Í þriðja lagi, ef námsmaður vill vinna með skólanum til að reyna ná endum saman þá lækkar lánið á móti. Þ.a. að námsmenn hafa ekki einu sinni þann möguleika að vinna með skólanum því það eykur tekjur þeirra sáralítið. (Nema auðvitað að vinna svart)

Bjarni (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 09:20

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sæll Bjarni.

Málið er nefninlega ekki síður það, að sá sem á enga peninga getur ekkert lánað.  Það á við um ríkissjóð um þessar mundir. 

Fáir eru líklega eins blankir og einmitt hann.

Axel Jóhann Axelsson, 9.9.2009 kl. 09:24

3 Smámynd: Friðrik Jónsson

Sæll Axel,

Þú mættir kannski íhuga hvað gerist þá ef við lánum ekki nægilega mikið til námsmanna. Þetta fólk ræður ekki við að borga gjöld sín meðan á námi stendur, neyðist til að trosna úr námi og fer á atvinnumarkað... ...nema þar er lítið að fá, og verða því atvinnulaus og fá meiri pening frá íslenska ríkinu gefins í formi atvinnuleysisbóta. Ekki hjálpar það auralausum ríkissjóði

Friðrik Jónsson, 9.9.2009 kl. 09:29

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að þetta er mikið vandamál fyrir námsmenn.  Mín samúð liggur þeirra megin, en við verðum að gera okkur grein fyrir þeim vandamálum, sem þjóðin stendur frammi fyrir.  Allir hafa orðið að herða sultarólina og hjá mörgum dugar það ekki til.

Það fær enginn gefins peninga frá ríkinu, þó hann verði atvinnulaus.  Atvinnufyrirtækin hafa greitt í Atvinnuleysistryggingasjóð vegna starfsmanna sinna og enginn fær atvinnuleysisbætur, nema greitt hafi verið til sjóðsins vegna viðkomandi.  Það er því misskilningur,  að námsmenn eigi mikinn rétt í þeim sjóði, því miður.

Axel Jóhann Axelsson, 9.9.2009 kl. 09:36

5 identicon

Sæll Axel

Samanborið við háskólanemendur í dag hversu mörg prósent þjóðarinnar heldur þú að hafi verið í háskólanámi á þeim tíma sem þú varst í námi?

Þú nefndir að ríkissjóður sé blankur. Að draga úr útgjöldum til menntamála er eins og að pissa í skóinn sinn, því að útskrifaðir háskólanemendur greiða mun meira til baka til ríkisins heldur en ríkið leggur í menntun þeirra. Þannig að besta leiðin til að byggja upp traustan og heilbrigðan ríkissjóð er að leggja pening í menntakerfið.

Bestu kveðjur,

Elísabeth Inga

Elísabeth Inga (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 11:32

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Elísabeth Inga, ekki hef ég nú prósentutölurnar á hraðbergri, en á þeim tíma var ríkissjóður blankur eins og núna, þannig að þetta var auðvitað bölvað streð á öllum í þá daga eins og núna og þeir sem fengu námslán á annað borð, kvörtuðu mikið undan því að þau væru ekki nógu há.  Tekið skal fram að ég fékk aldrei námslán, hvað þá styrki af nokkru tagi, en greiddi skólagjöld.  Sumarvinnan varð að duga til að skrimta yfir veturinn.

Ég er algerlega sammála þér í því, að menntun er besta fjárfesting sem þjóðfélagið getur lagt peninga í.  Maður verður hins vegar að gera sér grein fyrir því, að ríkissjóður er blankari núna, en hann hefur líklega nokkurn tíma verið áður, og fær ekki einu sinni lán nokkursstaðar til að standa undir ríkisrekstrinum og auðvitað námslánum.

Axel Jóhann Axelsson, 9.9.2009 kl. 11:47

7 identicon

Það fær enginn gefins peninga frá ríkinu, þó hann verði atvinnulaus.  Atvinnufyrirtækin hafa greitt í Atvinnuleysistryggingasjóð vegna starfsmanna sinna og enginn fær atvinnuleysisbætur, nema greitt hafi verið til sjóðsins vegna viðkomandi.

 Því miður uppljóstrar Axel hér fávisku sína um hvernig sjóðurinn virkar. Námsmenn fá atvinnuleysisbætur 3 mánuði eftir að námi líkur hafi þeir enga vinnu fengið.

Einnig Axel, útskýrðu fyrir okkur hvað gerist nú þegar tryggingasjóðurinn tæmist? Hvernig koma peningarnir þá og í hvaða formi er það? Varla er það í formi lána til þeirra sem þetta þiggja líkt og þær upphæðir sem námsmenn fá frá LÍN.  Nei þetta eru bætur sem eru um 87% hærri en námsmannaLÁNIN. Þetta eru bætur sem fólk þiggur beint frá ríkinu þar sem tryggingasjóðurinn er við þann mund að klárast.

PP (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 13:54

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það gleður mitt litla hjara, að námsmenn skuli vera svo heppnir að fá gefins peninga frá ríkinu í þrjá mánuði eftir nám, hafi þeir ekki fengið vinnu.  Þetta er þá ein breytingin sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið í gegn á sínum valdatíma, til hagsbóta fyrir námsmenn, en hefur farið fram hjá þeim sem eru vinnandi.

Þegar tryggingasjóðurinn tæmist mun hann þurfa að taka lán til að standa undir atvinnuleysisbótum, þangað til atvinnuleysið minnkar aftur.  Ríkissjóður mun ekki leggja honum til fjármuni, en auðvitað getur verið að ríkið þurfi að útvega sjóðnum lánið og ábyrgjast það.

Vinnandi fólk greiðir yfirleitt til ríkisins, en ekki öfugt.  Allar tekjur ríkissjóðs koma beint og óbeint frá vinnandi fólki í landinu.

Nám er fjárfesting og tryggir menntafólki yfirleitt betri laun eftir fjárfestinguna, en þeim sem ekki fjárfesta í námi.  Nám er því besta fjárfesting sem einstaklingur getur lagt peninga í, jafnvel þó hann þurfi að taka til þess fjárfestingarlán.

Vandamálið er hins vegar það, að nú eru komnar upp tvær kynslóðir í landinu, sem aldrei hafa þurft að neita sér um neitt og yfirleitt fengið allt upp í hendurnar, oftast á kostnað foreldra sinna, sem jafnvel hafa þurft að steypa sér í skuldir, til að veita börnunum allt sem þeim hefur dottið í hug að biðja um.  Þetta á auðvitað ekki við alla af þessum tveim kynslóðum, en flesta og það eru þeir sem kvarta mest.

Því miður er ástandið í þjóðfélaginu núna og mun verða næstu ár, þannig að allir verða að fara að láta ýmislegt á móti sér, sem hefur þótt sjálfsagt á unanförnum árum.

Axel Jóhann Axelsson, 9.9.2009 kl. 14:09

9 identicon

Það fær enginn gefins peninga frá ríkinu, þó hann verði atvinnulaus.  Atvinnufyrirtækin hafa greitt í Atvinnuleysistryggingasjóð vegna starfsmanna sinna og enginn fær atvinnuleysisbætur, nema greitt hafi verið til sjóðsins vegna viðkomandi.  Það er því misskilningur,  að námsmenn eigi mikinn rétt í þeim sjóði, því miður.

Þú gerir þér grein fyrri því er það ekki Axel að stærstur hluti námsmanna eru eða hafa verið launafólk og greiða  vinnuveitendur þeirra í þessa sömu sjóði?

Það gleður mitt litla hjara, að námsmenn skuli vera svo heppnir að fá gefins peninga frá ríkinu í þrjá mánuði eftir nám, hafi þeir ekki fengið vinnu. 

Fyrirlitning sem felst í þessari einu setningu er alveg hreint mögnuð

Ég er námsmaður, ég fær frá lín 78 þús krónur á mánuði, þegar ríkisbankinn hefur tekið af því yfirdráttarvexti fæ ég ca 74 þús, ég borga 45 þús krónur í húsaleigu..

Málið er mjög einfalt, ef ég væri ekki svo heppinn að hafa vinnu og yndislegan vinnuveitanda þá væri ég ekkert í námi...

Ég er að horfa upp á hvern skólafélagann á fætur öðrum flosna úr námi af þeirri einföldu ástæðu að þeir eiga ekki í sig og á... og það er hræðilegt

Það er alveg hreint magnað að lesa hér hvert bloggið á fætur öðru þar sem misvitrir einstaklingar ganga út frá því að námsmenn séu upp til hópa fólk sem hefur aldrei þekkt neitt annað en að lifa á mömmu og pabba og ríkinu

Í fyrstu grein laga nr 21. frá 1992 - Lög um lánasjóð íslenskra námsmanna segir:

Hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að tryggja þeim sem falla undir lög þessi tækifæri til náms án tillits til efnahags.

Hann er ekki að tryggja öllum þetta tækifæri í dag, og það verður að laga

Cicero (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 14:37

10 identicon

Biðst afsökunar á innsláttarvillum í svarinu hér fyrir ofan

Cicero (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 14:47

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Cicero, ef þú lest þig í gegnum athugasemdirnar og svörin við þeim, sérðu að setningin:  "Það gleður mitt litla hjara, að námsmenn skuli vera svo heppnir að fá gefins peninga frá ríkinu í þrjá mánuði eftir nám, hafi þeir ekki fengið vinnu" er svar við því að PP sagði að ég uppljóstraði fávisku mína, með því að segja að enginn fengi gefins peninga frá ríkinu. PP sendi mér tóninn og sagði að víst fengju námsmenn gefna peninga í þrjá mánuði eftir nám.  Það voru orð PP, en ekki mín, þannig að það fólst nákvæmlega engin fyrirlitning í þessu svari mínu.

Þetta ættu jafnvel misvitrir námsmenn að skilja.

Axel Jóhann Axelsson, 9.9.2009 kl. 14:52

12 identicon

"Nokkuð stór hópur þolir hins vegar ekki orðin "sparnaður" "niðurskurður" og "samdráttur",..............sem eru háskólastúdentar.

Hvorugur hópurinn virðist tilbúinn að takast á við erfiða tíma.... "

Ég velti því fyrir mér áður en ég svaraði hvort svona staðhæfing væri yfir höfuð svara verð.  En í allri hreinskilni þá varð ég of reið til þess að líta frammhjá þessu. Og velti fyrir mér hvort þú eigir sjálfur börn í háskóla námi í dag.

Ég er gift verðandi tveggja barna móðir og erum við hjónin bæði í námi. Við erum ekki unglingar í foreldrahúsum og höfum ábyrgð gagnvart börnum okkar. Við búum í leighúsnæði, eigum gamlan bíl og hófleg húsgögn sem við höfum sankað að okkur héðan og þaðan frá því við byrjuðum að búa. S.s. höfum ekki eytt í óþarfa heldur einbeitt okkur að okkar fjölskyldu og námi. Við fáum hvort um sig rúmar 100.000 krónur á mánuði frá lín. Þar af fer lánið hjá öðru okkar nánast allt í húsaleigu ( sem hefur btw. ekki lækkað og ef eitthvað er hækkað ). Eftir situr svo almennt uppihald, matur, bleyjur, sími, hiti, rafmagn, net ( í dag er flest háskólanám miðað út frá því að þú sért nettengdur), leikskólagjöld, bílatryggingar, bensín, strætókort, viðhald á bíl og fleira og fleira....Hvort sem þú trúir því eða ekki þá nær hitt námslánið ekki utan um alla þessa útgjaldaliði. Því hefur maðurinn minn verið að vinna með skóla nánast hverja einustu helgi. Sem gerir vinnu vikuna hanns um 74 tíma í viku. Eða frá 8-6 alla virka daga og tólf tíma vaktir báða helgardagana. Er það maður sem þú mundir segja að sé "ekki tilbúinn til að takast á við erfiða tíma".

Fyrir kreppu gerði þetta fyrirkomulag okkur kleift að leggja örlítið til hliðar hver mánaðarmót. Og tókst stundum að skrapa saman allt að 20 þús. aukalega sem fóru á sparireikning sem átti svo að fara í innborgun á íbúð strax að loknu námi ! Nú hinsvegar eftir að ógæfan dundi yfir okkur hér á þessu litla skeri, og já annarsstaðar í heiminum eins og þú bendir svo mælskulega á, þá nægir þetta ekki til þess að láta enda mætast og er spariféð farið..

Samkvæmt nýjum úthlutunarreglum LÍN mun tekjulaus námsmaður í leiguhúsnæði fá 100.600 kr. mánaðarlega næsta skólaár. Það er óhætt að fullyrða að enginn annar samfélagshópur býr við svo bág kjör.

Til nánari rökstuðnings á fáránleika fjárhæðarinnar reiknar Lánasjóðurinn með því að námsmaður geti brauðfætt sig á 584 kr. daglega. Því til samanburðar greiðir ríkið 1.300 kr. daglega í matarkostnað fyrir hvern afplánunarfanga. Það er rúmlega tvöföld sú upphæð sem námsmönnum reiknast og rúmlega margfalt fáránlegur raunveruleiki.

Ráðamenn þjóðarinnar hafa í gegnum árin búið betur í haginn fyrir alla aðra samfélagshópa - öryrkja, atvinnulausa, fólk á félagsbótum - jafnvel verst settu hóparnir hafa það náðugra en námsmenn. Svo virðist sem kjör námsmanna á þessum árum hafa gleymst. Við biðjum ekki um mikið. Er til of mikils mælst að vilja jöfn kjör og afbrotamenn.

Grunnframfærsla námslána þarf að vera í samræmi við framfærslugrunn atvinnulausra, öryrkja og afplánunarfanga.

Ég vona að þú sért vel klæddur þarna uppi.

Lísa (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 14:58

13 identicon

Ég er sjálfur námsmaður en á meðan ég bjó heima þá sparaði ég peninga til að búa mig undir háskólanámið. Íslensku krónurnar mínar eru nú ekki mikils virði þar sem ég er núna en það hjálpar samt. Ég trúi því bara ekki að enginn annar námsmaður hafi lagt peninga til hliðar fyrir mögru árin og ég trúi því ekki heldur að þeir ætlist til þess að Lín haldi þeim gjörsamlega á floti. Eins og ég lít á Lín þá er þetta mjög góð viðbót við þær tekjur sem ég hef á sumrin auk þess að minnka það hlutfall sem ég þarf að nota af sparnaðinum mínum á hverju ári. Er hlutverk Lín virkilega að greiða gjörsamlega öll útgjöld sem námsmaður getur haft á námsferli sínum og er það raunhæft markmið?

Jeje (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 15:41

14 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Lisa, þú hefur eitthvað misskilið það sem ég hef verið að skrifa hér að ofan, ef þér finnst ég hafa verið að halda því fram, að námslán væru allt of há.  Það sem ég sagði var, að nú væru erfiðir tímar hjá ríkissjóði og ekkert í hann að sækja, en mér finndist opinberir starfsmenn og háskólastúdentar ekki mega heyra á það minnst.  Ég er algerlega sannfærður um það, að ykkar fjölskylda hefur það ekki gott, með þessar tekjur, en við skulum ekkert gleyma því, að fjöldinn allur af vinnandi fólki, að ekki sé talað um þá, sem eru búnir að missa vinnuna, sem alls ekki geta framfleytt sér lengur og eru jafnvel að missa eigur sínar.

Stúdentar ætlast til að "vinnandi" fólk, sem er "þarna uppi" skilji sínar aðstæður og þá er varla til of mikils mælst, þó ætlast sé til að stúdentar setji sig inn í þær aðstæður, sem eru í þjóðfélaginu og lagi sig að þeim.

Afar gleðilegt var að fá athugasemdina frá Jeje, því þar virðist fara stúdent sem tekur tillit til aðstæðna og furðar sig á því, eins og ég, að ætlast sé til að námslánin dekki allan kostnað samfara námi, lífi og skemmtan.

Axel Jóhann Axelsson, 9.9.2009 kl. 16:01

15 identicon

Jeje ég held að fæstir námsmenn treysti eingöng á námslánin sín til þess að framfleyta sér og sinni fjölskyldu. Fljótt á litið man ég ekki eftir nokkrum sem ekki vinnur samhliða námi og sparar það sem aukalega kemur í budduna yfir sumartímann.

Lísa (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 16:23

16 identicon

Axel, það hefur ekki farið frammhjá mér frekar en nokkrum öðrum að atvinnuleysi hefur aukist og fólk er að missa eigur sínar sökum atvinnumissis. Viðhorf mitt til námslána og aðstæðna námsmanna hefur ekkert með skilning minn á aðstæðum þessa fólks að gera eða gerir það að verkum að ég geti ekki sett mig inní þær aðstæður. Ef eitthvað er eykur þetta skilning á þeirri örvæntingu sem grípur fólk þegar það á ekki lengur fyrir helstu nauðsynjum og sér frammá að geta ekki framfleytt börnum sínum eða séð fyrir þaki yfir höfuðið á fjölskyldu sinni.

Lísa (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 16:48

17 identicon

Lísa: ég er að tala um að ég hafi sparað peninga frá unga aldri og lifað mjög nægjusömu lífi. Ég sleppti utanlandsferðum á meðan vinir mínir spreðuðu hundrað þúsund kalli á hverju sumri og misstu tvær vikur úr vinnu á sama tíma. Ég keypti mér ekki dýr og flott tískuföt eða rak bíl frá því ég var 17 ára. En það er fólk sem gerir þetta og það er þetta fólk sem lendir í vandræðum og það er þetta fólk sem lætur fólk eins og mig borga fyrir óreglusemi sína. Það er kjarni málsins. Svo eru þetta svo heimtufrekir einstaklingar að þeim finnst vaxtalausu lánin þeirra vera of lág, hverslags veruleikafirring er þetta?

Jeje (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband