Blekkingarfyrirvarar

Nú virðist vera að ná samstaða í Fjárlaganefnd Alþingis um skilyrði fyrir ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, sem eiga "að rúmast innan samningsins", eins og Jóhanna Sigurðardóttir orðaði það.  Það þýðir einungis, að Alþingi er endanlega að samþykka að gangast undir niðurlægjandi uppgjafarskilmála Breta, Hollendinga, ESB og norðurlandanna.  Meira að segja Hallvorsen, fjármálaráðherra Noregs og VG systir Steingríms J., segir að samningurinn sé rétt mátulegur á Íslendinga, fyrir að "leyfa" glæpamönnum að vaða uppi í banka- og viðskiptalífi landsins.

Eftir Vestmannaeyjagosið 1973, var lagt sérstakt 2,5% viðlagagjald ofan á virðisaukaskatt og enn, eftir 36 ár, er þessi "ábót" innheimt í virðisaukaskattinum, þó hún heiti ekki lengur viðlagagjald.  Samþykkt ríkisábyrgðarinnar, þó hún verði með einhverjum málamyndaskilyrðum, mun verða til þess að samþykkja þarf viðbótarhækkun á virðisaukaskatti um rúm 2%, eða hækkun tekjuskatts einstaklinga um 20%, umfram þær hækkanir sem verða, til að rétta af ríkissjóðshallann.

Nú, þegar villa á um fyrir þjóðinni, með fyrirvörum á ríkisábyrgðina, sem eingöngu eru til málamynda, en ekki til að minnka greiðsluáþjánina á þjóðina, hlýtur sú skattahækkun, sem til þarf að koma vegna þessa, að verða kölluð "glæpasjóðsgjald" og rétt væri að bókhald þess sjóðs yrði aðskilið frá bókhaldi ríkissjóðs, þannig að þjóðin gæti betur fylgst með úthlutunum úr "Glæpasjóði".

Með sýndarfyrirvörunum á ekki að afneita greiðsluskyldu á Icesave, heldur á aðeins, ef fyrirvararnir halda á annað borð, einungis að lengja í skuldaáþján þjóðarinnar um nokkur ár.

Ekki er verið að færa þjóðinni mikla, eða bjarta, von um framtíðina með þessum sýndarfyrirvörum.

 


mbl.is Samkomulag í fjárlaganefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður pistill, Axel Jóhann, eins og þín var von og vísa.

Eru þeir búnir a birta sína "fyrirvara"? Verða þeir eins og upplýst var um á Ejunni? Sennilega. Fjárlaganefnd ætlaði sér þar að setja þann fyrirvara að árlegar afborganir yrðu "ekki meiri en 3,5% af landsframleiðslu". Höfum í huga, að þegar skattbyrðar Bandaríkjamanna vegna Íraksstríðsins voru mestar, voru þær samt undir 1% af landsframleiðslu! Þessi 3,5% eru FJÓRFÖLD sú fjárhagsbyrði vegna Íraksstríðsins!

Það kom fram í fréttum um daginn, að allur fiskur upp úr sjó sem við veiddum hér við land árið 2008 var að verðmæti 99 milljarðar króna. Icesave-SVIKASAMNINGURINN mun heimta af okkur á bilinu 350 til 6–700 milljarða króna, sennilega a.m.k. fimmfalt verðmæti árlegs sjávarafla, sem er um leið sú tekjulind sem aflar okkur mests gjaldeyris!

Takist gömlu nýlenduveldunum ætlun sín gagnvart okkur, verður það til ómældra hörmunga fyrir þjóðina, landflótta, ofurskattheimtu, vöruskorts vegna upptöku gjaldeyris til að greiða gerviskuldina, og athafnalíf verður hér allt í fjötrum, ofursligað af gamla nýlenduveldinu. Þá ætti að slíta stjórnmálasambandi við Bretland, um leið og einhver vitleg stjórn kæmist hér að völdum, og Bretar helzt ekki að koma hingað. Svavar Gestsson ætti að mínu mati að gera útlægan og það sem fyrst og fleiri með honum.

Það þarf raunar ekkert að leggja áherzlu á þetta síðasta af neinna manna hálfu. Þjóðin sjálf mun, þegar hún áttar sig á svikunum, sjá um þetta sjálf eftir um 7–10 ár.

Heilar þakkir, Axel Jóhann. En eins og þú veizt, geng ég úr Sjálfstæðisflokknum, en þingflokkur hans allur eða mestallur stendur að Icesave-svikasamkomulagi fjárlaganefndar.

Jón Valur Jensson, 15.8.2009 kl. 11:21

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jón Valur, það hafa fáir, ef nokkrir, barist af jafn miklum krafti og þú, gegn þessum þrælasamningi, með þínum vönduðu greinum á blogginu, Útvarpi Sögu og víðar.

Það er algerlega óskiljanlegt, að nokkur maður skuli réttlæta þessa áþján og eina skýringin sem maður getur fundið, er sú, að Samfylkingin sé búin að gera leynisamning við vini sína í ESB, um að hluti af aðildarsamningi Íslands að ESB verði að sambandið muni yfirtaka "skuld Íslands við Breta og Hollendinga" ef Íslendingar samþykki inngönguna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þannig verði aðildarsamningurinn kynntur sem "samningur sem þú getur ekki hafnað" vegna þess að ESB ætli af góðsemi sinni að aflétta þrælaklafanum af þjóðinni.  Auðvitað munum við þurfa að gefa eftir aðgang að sjávarauðlindinni o.fl., að ekki sé talað um aðganginn að norðurslóðum, sem ESB sér, réttilega, sem afar mikilvægan í framtíðinni.

Þessi þrælasamningur hefði alls ekki átt að vera flokkspólitískt mál og ef svo fer sem horfir, verða flokkarnir ekki margir, sem munu hafna þessu.  Það er meira að segja fokið í flest skjól, þegar þrjóska Ögmundar verður borin yfirliði.

Axel Jóhann Axelsson, 15.8.2009 kl. 11:41

3 identicon

Góður pistill!? Vandinn er bara sá í fyrsta lagi að árið 1973 var ekki virðisaukaskattur á Íslandi heldur söluskattur, þannig að þetta viðlagagjald var aldrei lagt á virðisaukaskattinn, sem var ekki til, er löngu úr sögunni. Í öðru lagi er ekkert röklegt samhengi á milli viðlagagjalds og fyrirvara með Iceave. Í þriðja er það vart frétt að með frumvarpinu eins og það lítur út nú er ekki verið að neita greiðsluskyldunni. Sú neitun var löngu horfin á þingi, vegna þess að þingmenn voru búnir að kyngja henni fyrir löngu.

Gunnar (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 12:32

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Gunnar, það er rétt að skatturinn hét söluskattur á þeim tíma, en við breytinguna yfir í virðisaukaskatt var miðað við að tekjur ríkissjóðs myndu ekki minnka við breytinguna, þannig að viðlagasjóðsgjaldið er í raun innheimt ennþá, undir öðru nafni.  Það er auðvitað vegna þess, að skattur, sem einu sinni er búið að koma á, er sárasjaldan felldur niður aftur.

Samhengi er auðvitað ekkert milli viðlagagjaldsins og fyrirvaranna við Icesave, en eftir sem áður þarf að leggja á aukaskatta, til þess að standa undir drápsklyfjunum og þá viðbót væri vel við hæft að kalla "Glæpasjóðsgjald".

Þingmenn kyngdu "greiðsluskyldunni" undir efnahagsþvingunum og hótunum og þannig fram knúin "játning" stenst alls ekki fyrir dómstólum.

Axel Jóhann Axelsson, 15.8.2009 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband