Hvað getur svona grín gengið lengi?

Stjórn Pírata hefur gefið út að átján af þeim tuttugu sem "smalað" var til þátttöku í prófkjöri Pírata í norðvesturkjördæmi hafi einungis merkt við einn frambjóðanda, þ.e. "smalann" og því hafi borið að ómerkja prófkjörið og endurtaka það með þátttöku allra landsins Pírata.

Nú loksins hafa verið birtar tölur úr prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu og samkvæmt ótrúlega fullkomnu, en að sagt er flóknu, talningakerfi þeirra fékk Birgitta, sjóræningjakafteinn, aðeins 15,5% atkvæða (160 alls) í fyrsta sæti.  Það þætti léleg útkoma í öllum öðrum kosningum.

Það furðulega kemur einnig fram að 81 kjósandi, eða 7,8%, merktu aðeins við einn frambjóðanda og miðað við skýringarnar á ógildingu prófkjörsins í norðvesturkjördæmi hlýtur kosningin á höfuðborgarsvæðinu að verða ógilt líka og kosið upp á nýtt og þá á landsvísu auðvitað.

Þetta stjórnmálagrín hófst allt saman með "Besta flokknum" í borgarstjórnarkosningunum árið 2010 og nú hefur Pírataflokkurinn haldið fíflaganginum á lofti á Alþingi undanfarin ár og verður að telja að nú fari kjósendur að fá leið á uppistandinu, enda ekkert fyndið lengur.

 


mbl.is Oddviti Pírata fékk 15,5% í fyrsta sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jú, jú, það er margt skrítið í kýrhausnum, en ættum við ekki að hafa af því meiri áhyggjur að nú stekkur hver sem betur getur frá borði Sjálfstæðisflokksdallsins, nema auðvitað flokkseigendur og þeir sem styðja spillinguna og sjálftökuna, sama hvað? Hvað skal gera í því?

Ágúst Annar (IP-tala skráð) 6.9.2016 kl. 14:53

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Vonandi valda þessar áhyggjur þér ekki varanlegu svefnleysi.  Það er víst verulega slæmt fyrir andlega heilsu.

Axel Jóhann Axelsson, 6.9.2016 kl. 15:26

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það kom ekki fram í fréttinni hversu mörg atkvæði hún fékk í önnur sæti en það fyrsta. Þau telja nefninlega líka. Fyrst hún lenti í efsta sætinu hlýtur hún að hafa fengið atkvæði frá meirihluta kjósenda (yfir 500 og líklega nær 1.000) í hærra sæti en aðrir frambjóðendur sem fengu atkvæði í fyrsta sæti líka.

Axel. Veist þú nákvæmlega hvernig Schulze aðferðin virkar? Varla, miðað við þessi skrif þín.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.9.2016 kl. 15:50

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þeir segja að sá sem fær flest atkvæði samtals sé líklegastur til að fá fyrsta sætið.  Er ekki einfaldara að krossa einfaldlega við frambjóðendur og sá sem uppi stæði með flestar merkingar fengi fyrsta sæti o.s.frv?  Aðrir flokkar láta númera frambjóðendur og ekki hefur vafist fyrir þeim að raða á lista samkvæmt þeim aðferðum.

Hvaða kosti hefur Schulze aðferðin fram yfir allar hinar, annað en flækjustigið?

Axel Jóhann Axelsson, 6.9.2016 kl. 16:33

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já og þessi tala, 160, segir aðeins til um hversu mörg atkvæði viðkomandi frambjóðandi fékk í fyrsta sætið, en ekki hversu mörg atkvæði viðkomandi fékk samtals. Fyrst að þessi tiltekni frambjóðandi lenti í fyrsta sætinu, hlýtur viðkomandi einmitt að hafa fengið flest atkvæði þeirra sem komu til greina í einhver af efstu sætunum.

Vissulega er einfaldara að láta kjósendur bara merkja við einn og raða frá þeim sem fær þannig flest atkvæði til þess sem fær fæst. Sú aðferð hefur hinsvegar einmitt þann galla sem ýjað er að í þessum fréttaflutningi á villigötum, að þá getur það gerst að einhver lendi í efsta sætinu jafnvel þó hann sé aðeins með lítinn hluta atkvæða á bakvið sig, ef hin atkvæðin dreifast til dæmis frekar jafnt á alla hina. Til dæmis gæti útkomand orðið: 1. sæti 10%, 2. sæti 9%, 3. sæti 8% og svo framvegis. Ef það væri tilfellið, þá væri einmitt hægt að gagnrýna niðurstöðuna fyrir að vera ólýðræðisleg.

Schulze aðferðin hefur þann kost umfram þetta, að hún stuðlar að því að þeir frambjóðendur sem flestum kjósendum hugnast sæmilega vel lenda ofarlega í röðuninni. Svo dæmi sé tekið, ef það væri bara valinn einn þá hefði Birgitta aðeins verið með 160 atkvæði á bak við sig í fyrsta sæti. Með Schulze aðferð er hinsvegar tekið tilli líka til þeirra atkvæða þar sem henni var raðað hærra en öðrum frambjóðendum sem fengu einhvern fjölda atkvæða í efsta sæti. Þar af leiðandi er í raun með miklu fleiri en bara þessi atkvæði á bak við sig, líklega ríflega meirihluta allra greiddra atkvæða. Á móti kemur vissulega sá ókostur að þessi aðferð er flóknari, eins og þú bendir réttilega á. Það er hinsvegar ekki vandamál fyrir Pírata því tölvurnar okkar kunna mjög vel að reikna og eru ekki í neinum vandræðum með að finna rétta útkomu á grundvelli greiddra atkvæða, og þess vegna varð þessi aðferð fyrir valinu þegar reglur félagsins voru settar.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.9.2016 kl. 16:46

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það tók nú samt ótrúlega langan tíma að birta endanlegar niðurstöður úr prófkjörinu.  Ef sá á að fá fyrsta sæti sem flest fær atkvæði samtals er einfaldast að kjósendur krossi við einhvern lágmarksfjölda frambjóðenda og sá sem flesta krossana fær við nafn sitt hlýtur fyrsta sætið o.s.frv.

Þetta er einfalt kerfi og fljótlegt að láta tölvurnar reikna úrslitin.  Svo er nú ekki verra að auðvelt er að finna útkomuna þó engin tölva sé við höndina.

Aðferð píratanna við að raða á lista er gott dæmi um það hvernig auðveldir hlutir eru gerðir flóknir og það algerlega að óþörfu.

Axel Jóhann Axelsson, 6.9.2016 kl. 16:56

7 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Hef enga þekkingu á forvals aðferðum sjóræningjanna og enn minna veit ég eftir að hafa lesið ýmsa  texta hins margorða Guðmundar Ásgeirssonar.

En svarið við spurningunni í fyrirsögninni er. 

Eins lengi og gávaðafólkið sem slegið hefur eign sinni á ríkisútvarpið heldur undir þetta uppsóp af Austurvelli með lúðrum sínum.

En þetta spaug verður varla notað í áramótaskaupi RUV allaveganna ekki með þessum manskap.  

Hrólfur Þ Hraundal, 6.9.2016 kl. 17:33

8 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Þetta er eins og ég hef skrifað í athugasemd undir öðrum pistli fyrir um tveimur vikum: 

Sjóræningjarnir kjósa og telja þangað til Birgitta Jónsdóttir er ánægð með niðurstöður og framboðslistana, alveg eins og ESB hefur það um sínar kosningar.

Nú spyr sá sem ekki veit; af hverju fá ekki útlendingar að kjósa í framboði Sjóræningjana, það er í stefnuskrá Sjóræningjana að hafa opin landamæri af því að það má ekki mismuna útlendingum af því að þeir eru fólk eins og við?

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 6.9.2016 kl. 20:54

9 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

 1.034 kusu í prófkjöri sjóræningja í Reykjavík. Æðsti strumpur, afsakið kapteinninn, fékk aðeins 672 atkvæði í heildina og þar af aðeins 160 í fyrsta sætið en var samt sigurvegari í því sæti, það þætti ekki gott í röðum annarra sjóræningja. Mér er spurn, hversu margir fengu atkvæði í fyrsta sæti, þar sem sá sem fékk mest fylgi í það sæti fékk ekki nema 15,5%? Það er nokkuð ljóst að sjóræningjar eru ekki samstíga og greinilega á kapteinninn í vök að verjast, ekki mikill stuðningur við hann, afsakið hana.

Var það ekki þessi flokkur sem hefur verið að mælast með mesta fylgi í skoðanakönnunum?

Þessi flokkur ásamt Vinstri grænum nota sömu aðferð og ESB, þ.e. að kjósa aftur ef vænleg niðurstaða fæst ekki í fyrstu tilraun og síðan aftur og aftur þar til ráðandi öfl eru sátt við niðurstöðuna.

Tómas Ibsen Halldórsson, 6.9.2016 kl. 21:07

10 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Og ég sem var nýbúin að segja við sjálfa mig, að vonandi sigruðu Píratar í næstu kosningum? En það hefur heldur betur breyst í mínum huga eftir þessa nýjustu kosningasvika-sveiflu þar á bæ.

Ég hef ekki ennþá áttað mig á því, hvað Pírataflokknum í 101 fannst athugavert við þann ágæta dreng sem var kosinn í fyrsta sæti í NV-kjördæmi?

Hvernig væri að fá það alveg á hreint, hvað Pírata-baktjaldavaldinu mislíkaði við Þórð Guðstein Pétursson?

Er þetta ekki alveg fyrirtaks góður og duglegur drengur. Ég veit ekki betur en að hann sé flottur og frambærilegur strákur.

Skýringar óskast frá ósýnilegu baktjalda-hersveitinni sem öllu stjórnar Pírataflokknum. Nú eru línurnar farnar að skýrast í þessu Pírata-mynstri. En það þarf að opinbera baktjalda-hersveitina sem öllu stýrir/ræður, og semur við suma innan flokkanna, og fer á bakvið aðra flokksfélaga flokkanna og kjósendur.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.9.2016 kl. 22:58

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Smalanir í prófkjörum á þann hátt að innrita jafnvel heil félög inn í flokka fyrir kjörið og láta hina smöluðu síðan ganga úr flokkunum, hefur viðgengist árum saman síðan í öllum flokkum síðan Finnur Ingólfsson og fleiri uppgötvuðu þennan möguleika.

Eini möguleikinn til þess að koma í veg fyrir þetta er að færa valið inn í kjörklefana í kosningum eins og lagt er til í tillögum stjórnlagaráðs.

En þá rísa gagnrýnendur prófkjörann upp á afturlappirnar mótmæla harðlega þessari "umbyltingu" á stjórnarskránni.  

Ómar Ragnarsson, 7.9.2016 kl. 07:56

12 identicon

Gunnlaugur Ásgeirsson, það skiptir varla máli hvað einhver fær mörg atkvæði í fimmta sæti ef hann hefur þegar hlotið það fyrsta. Reikniritið sem flestir siðmenntaðir flokkar notast við er það að sá sem hlýtur flest atkvæði í tiltekið sæti + atkvæðin í hærra sæti fær sætið. Það sem ætti að vera áhyggju efni fyrir Pírata er að einungis 15,5% hugnast að Birgitta Jónsdóttir leiði listann, hún er þingmaður, stofnandi og hvað sem hver segir leiðtogi flokksins. 5/6 af þeim pírötum sem tók þátt í porófkjörinu hugnast ekki oddvitinn og engin annar er augljós til að taka sætið. Píratar eru með þessu að segja að mannvalið var heldur óspennandi.

Viða Þorsteinsson (IP-tala skráð) 7.9.2016 kl. 09:57

13 identicon

Sæll Axel.

Kann að fara svo um þá er þú gerir að umtalsefni
það sem greinir frá í Harmljóðunum:

"...þeir sem bornir voru á purpura, faðma nú mykjuhauga."

(Biblíuþýðingin 1981, Harmljóðin, 4:5)

Húsari. (IP-tala skráð) 8.9.2016 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband