Galdrabrennur hinar síðari

Á árunum 1654 - 1683 voru tuttugu manns brennd á báli á Íslandi fyrir galdra og er það tímabil kallað Brennuöld þó einn maður hafi reyndar verið brenndur á báli fyrir galdra árið 1625.

Núna, þegar nokkuð er liðið á annan áratug tuttugustuogfyrstu aldar, er hafin Brennuöld hin síðari á Íslandi, en nú er fólk brennt táknrænt á báli samkvæmt Dómstóli götunnar að áeggjan fjölmiðla, þar á meðal útvarpsstöðvar þjóðarinnar sjálfrar.

Ekkert í lögum vesturlanda a.m.k. hefur bannað þegnunum að eiga erlendar eignir eða bankareikninga hvar sem þeim hefur sýnst (nema auðvitað á Íslandi eftir bankahrunið), en að sjálfsögðu er þjófnaður bannaður með lögum og þar á meðal fjárdráttur og skattsvik.

Ekkert samhengi þarf að vera í því að eiga slíkar eignir og skattaundandrætti og þegar leki á sér stað um hundruð þúsunda, eða milljóna, nafna fólks og fyrirtækja sem eignir eiga í þessum "aflöndum" og annarsstaðar þar sem hugsanlega er hægt að koma eignum og tekjum undan skattgreiðslum, á auðvitað að miðla slíkum upplýsingum beint til lögreglu- og skattayfirvalda, enda í verkahring slíkra að rannsaka hvort rétt og löglega sé að málum staðið.

Í þessum nýja galdrabrennufári er sönnunarbyrði snúið algerlega á haus og látið eins og allir sem að máli koma sé ótýndur glæpalýður og þvert á alla siði og venjur er ætlast til að viðkomandi sanni sakleysi sitt, en ákærendur þurfi ekki að sýna fram á neina sekt.

Á Wikipedia er fjallað um fyrra galdrafárið á Íslandi og segir þar m.a:  "Ekki var að fullu hægt að sanna sekt sumra galdramannanna en þó voru þeir samt brenndir. Réttarkerfi Íslands var þannig gert að mestu máli skipti framsögn háttsettra manna en minna máli sannannir gegn sakborningum."

Þrátt fyrir framfarir á ýmsum sviðum frá sautjándu öld virðist hugsunarháttur að mörgu leyti vera svipaður.


mbl.is Foreldrar Bjarna áttu aflandsfélag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Megin tilgangurinn með eign á fyrirtækjum í skattaskjólum er að koma eignum og tekjum undan eðlilegum skattgreiðslum í heimalandinu. Fína hugtakið yfir þessi undanskot er skattalegt hagræði. Geti menn sýnt fram á að sú sé ekki raunin í þeirra tilviki þá er það hið besta mál. En eins og menn sem gripnir eru við að setja ólyfjan í drykki þá er eðlilegast að telja þá hafa illt í hyggju geti þeir ekki sannað annað. Það eru ekki galdrabrennur þó reiknað sé með sekt þó ekki séu þeir með meðvinundarlausa konu á öxlinni.

Gústi (IP-tala skráð) 5.5.2016 kl. 18:46

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Reglan er sú að rannsóknaraðilar skulu sanna glæpi á fólk og leggja fram sannanir því til stuðnings.  Sakborningur skal teljast saklaus þar til sekt er sönnuð og honum ber ekki að sanna sakleysi sitt.

Að ásækja fólk og saka það um glæpi án nokkurra sannana er algerlega sambærilegt við galdrabrennurnar hinar fyrri.

Ekki eru allir karlmenn nauðgarar þó þeir gangi alltaf með öll tól til slíkra glæpa á sér og fráleitt væri að hver og einn þeirra þyrfti að sanna sakleysi sitt í þeim efnum og hvað þá að afsanna að hann hafi verið að hugsa um slíkan verknað.

Axel Jóhann Axelsson, 5.5.2016 kl. 19:16

3 identicon

Mikið skelfing var ég hissa á framgöngu Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur. Hún gekk alveg fram af mér meðan ég hlustaði á símtal hennar við Stöð 2 í kvöld. Ég þekkti faðir hennar vel og enn betur afa hennar og ömmu, einstakt heiðursfólk. Og viss er ég um að þeim hefði aldrei dottið í hug að ásaka mig til dæmis fyrir eitthvað sem foreldrar mínir hugsanlega hefðu gert á þeirra hlut. Þannig hugsuðu þau ekki og það gera raunar engir nema þeir sem láta blint hatur ráða för og láta hatrið yfirtaka skinsemina. Því miður þá eru allt of margir sem eru samstíga Bjarkey, bæði á meðal vinstri grænna, samfylkingar og sjóræningja. Fólk sem ætti að skammast sín. Svona málflutningur eins og Bjarkar og skoðanafélaga, minnir mig á gömlu hörðu kommúnistana á Siglufirði forðum sem höfðu uppi orð eins og: „Tilgangurinn helgar meðalið, segjum það nógu oft, þá fer einhver að trúa því, þó lygi sé“

Steingrímur Kristinsson (IP-tala skráð) 5.5.2016 kl. 19:28

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég er algerlega sammála þér, Steingrímur.  Maður ætlaði varla að trúa sínum eigin eyrum þegar maður hlustaði á ógeðslegan málflutning þingmannsins.  

Reyndar var þessi ofsi og öfgar algerlega í takt við annan málflutning hennar og félaga hennar í stjórnarandstöðunni.

Axel Jóhann Axelsson, 5.5.2016 kl. 20:32

5 Smámynd: Rafn Guðmundsson

jájá - allt stjórnarandstöðunn og fjölmilum að kenna - allt þetta 'heiðursfólk' er auðvitað bara fórnarlömb

Rafn Guðmundsson, 5.5.2016 kl. 23:48

6 identicon

"Reglan er sú að rannsóknaraðilar skulu sanna glæpi á fólk og leggja fram sannanir því til stuðnings.  Sakborningur skal teljast saklaus þar til sekt er sönnuð og honum ber ekki að sanna sakleysi sitt." En almenningsálit fer ekki eftir þeim reglum. Álit almennings á framkomu fólks miðast ekki við hvort eitthvað sé löglegt eða ekki. Þú sjálfur leggur harðan dóm á málflutning þingmanns þó ekkert hafi þar verið ólöglegt á ferð, og bætir svo um betur og setur alla stjórnarandstöðuna undir sama hatt. Þú átt enga kröfu á því að almenningur tali fallega um þá sem eiga fyrirtæki í skattaskjólum.

Siðleysi, lygar og blekkingar er fólkið sakað um og sannanirnar liggja ljósar fyrir. Áskoranir um að rannsakað sé hvort glæpir hafi átt sér stað hafa komið fram þar sem ekkert annað skýrir lygarnar og blekkingarleikinn. Það eru ekki galdrabrennur. Það er stór munur á því að heimta rannsókn, bölva og formæla einhverjum og því að henda honum á bálköst. Í þessu brennufári þínu hefur ekki verið kveikt á einni einustu eldspítu.

Gústi (IP-tala skráð) 6.5.2016 kl. 00:24

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

"Almenningsálitið fer ekki eftir þeim reglum" segir Gústi. Dómstóli götunnar kemur ekki við hvort um sekt eða sakleysi er að ræða þegar fólki er hent á bálið.

Það er búið að kveikja á mörgum eldspýtum og þið brennustjórarnir keppast við að kasta kyndlum á bálkestina.

Axel Jóhann Axelsson, 6.5.2016 kl. 02:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband