Af hverju er skattaskjólunum ekki lokað?

Alþjóðleg stórfyrirtæki gera allt sem í valdi þeirra stendur til að komast hjá því að taka eðlilegan þátt í uppbyggingu og rekstri þeirra þjóðfélaga sem þau starfa í og skjóta hagnaði á milli landa með alls kyns bókhaldskúnstum.  

Að lokum lendir gróðinn inni í málamyndafyrirtæki sem skráð er í einu af fjölmörgum skattaskjólum heimsins, þar sem jafnvel þúsundir fyrirtækja eru skráð í einu og sama húsinu sem stundum er þó lítið annað en samsafn af póstkössum.

Ríkisstjórnir og stjórnmálamenn hneykslast oft í orði á þessari sniðgöngu eðlilegra skattgreiðslna, sem eru í flestum tilfellum löglegar en siðlausar, en ef raunverulegur vilji væri fyrir hendi væri tiltölulega auðvelt að koma í veg fyrir þessi skattaundanskot með lagabreytingum heima fyrir og samningum milli landa sem kæmu í veg fyrir flutning hagnaðar út í himinblámann.

Skattaskjólin eru mörg á landsvæðum og eyjum sem eru undir stjórn vesturlanda og nægir þar að nefna Guernsey og Tortola að ekki sé talað um þau lönd í Evrópu sem taka fullan þátt í skattaundanskotunum með sérsamningum við risafyrirtækin og þar fer Lúxemborg fremst í flokki.

Það er í raun algerlega ótrúlegt að ekki skuli fyrir löngu vera búið að gera alþjóðasamninga til að koma skattamálum þessara brallara í eðlilegt horf þar sem málið snýst um stjarnfræðilegar upphæðir og allir ríkissjóðir eru í sífelldri þörf fyrir auknar tekjur.

Kæmust skattskil þessara gróðaflakkara í eðlilegt horf væri hægt að lækka byrði skattpínds almennings svo um munaði.


mbl.is Vill uppljóstra um skattleysi fyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hefi lengi velt þessu sama fyrir mér og stundum grunað viðkomandi ráðamenn ríkisstjórna um mútuþægni eða annað álíka. Það sama má segja um öll þessi hryðjuverk, það er „margsannað“ að sænsk, bandarísk, þýsk og rússnesk morðtól hafa fundist í fóru hryðjuverkahópa, samber hjá talibönum, al-Qaeda og Íslamska „ríkinu“. Þessir ofstækismenn hata allt sem vestrænt er og annarra trúarhópa en þeirra egin, en elska þó morðtólin og fjarskiptabúnaðinn frá ofannefndum ofl. Búnað sem þeir eru svo vanþróaðir að geta ekki framleitt sjálfir. Ef „sameinuðu“ þjóðirnar kæmu sér saman um að stöðva allan slíkan útflutning og herða á eftirlitinu vegna glæpahyskjanna, vopnasmyglaranna. Þá kæmi fljótt á friður. Það er að minnsta kost i mitt mat. Og þar eiga viðkomandi ríkistjórnir þeirra landa sem vopnin framleiða ekki hvað minnsta sök á öllum morðunum og eru þeir að mínu mati samsekir hryðjuverkahópunum með aðgerðaleysi sínu. 

Steingrímur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.8.2015 kl. 15:50

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er rétt, Steingrímur, að það býr fleira í kýrhausnum en mann grunar.  Ef virkilegur áhugi væri fyrir hendi hlyti að vera auðvelt að koma í veg fyrir að hryðjuverkahóparnir kæmust yfir allan þennan gríðarlega vopnabúnað.  Hagsmunir vopnasalanna ráða hins vegar svo miklu og tekjur ýmissa ríkissjóða af þeim að ekkert er gert í málinu.

Nákvæmlega það sama má segja um skattaskjólin.

Axel Jóhann Axelsson, 16.8.2015 kl. 16:04

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

"Alþjóðleg stórfyrirtæki gera allt sem í valdi þeirra stendur til að komast hjá því að taka eðlilegan þátt í uppbyggingu og rekstri þeirra þjóðfélaga sem þau starfa í og skjóta hagnaði á milli landa með alls kyns bókhaldskúnstum. "

Vegna þess að þau varðar ekkert um uppbyggingu og rekstur þjóðfélaganna sem þau starfa í.  Þau vinna fyrir aðra aðila.  +Eg er ekkert viss um að það þætti boðlegt ef eitthver stórfyrirtæki færu að vasast með þjóðfélög, til dæmis með því að móta þau í eigin þágu.  Þó slíkt hafi vissulega verið gert hér og þar, það efast ég ekki um.

"Ríkisstjórnir og stjórnmálamenn hneykslast oft í orði á þessari sniðgöngu eðlilegra skattgreiðslna,"

Þeir verða að spila fyrir markaðinn.  Þ.e.a.s kjósendur.

"sem eru í flestum tilfellum löglegar en siðlausar,"

Siðlausar?  Nei.  Ég myndi ekki ganga svo langt.

"Það er í raun algerlega ótrúlegt að ekki skuli fyrir löngu vera búið að gera alþjóðasamninga til að koma skattamálum þessara brallara í eðlilegt horf þar sem málið snýst um stjarnfræðilegar upphæðir og allir ríkissjóðir eru í sífelldri þörf fyrir auknar tekjur."

Það er vegna þess að pólitíkusar allstaðar eru á launum hjá "þessum bröllurum."  Og Ríkissjoðir hafa ekkert með auka peningana að gera, þeir sóa þeim bara í einhverja vitleysu.

"Kæmust skattskil þessara gróðaflakkara í eðlilegt horf væri hægt að lækka byrði skattpínds almennings svo um munaði."

Dream on.  Þó þessir peningar skiluðu sér allir til rikissjóðs og meira til, þá mættirðu samt búast við skattahækkunum, vegna þess að, svo ég vitni í þá á þingi: "hvað með þá lægst launuðu?  Hvað með öryrkja?  Hvað með spítalana?" Og svo frv.

Og svo:

Ef "sameinuðu" þjóðirnar kæmu sér saman um að stöðva allan slíkan útflutning og herða á eftirlitinu vegna glæpahyskjanna, vopnasmyglaranna. Þá kæmi fljótt á friður. 

HAHAHAHA!  Besti brandari sem ég hef lesið í heila viku.  Minnir mig á hið fræga ljóð þjóðskaldsins Morthens:

Er helvíti Dantes Íslands óður
allt hafið bleik klósettskál?
Var Neró hinn ljúfi á lýruna góður
hafa lögfræðingar sál?

Ásgrímur Hartmannsson, 16.8.2015 kl. 22:54

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Útúrsnúningar og grín geta oft verið fyndin og skemmtileg, þó að í þessu tilfelli sé það nú hálf mislukkað.  En það má alltaf reyna, sérstaklega ef menn hafa ekkert til málanna að leggja og vilja ekki láta taka sig hátíðlega.

Axel Jóhann Axelsson, 17.8.2015 kl. 10:13

5 identicon

Ástæðan fyrir því að sumar ríkisstjórnir vilja ekki koma í veg fyrir skattaskjól er sú að slík lagasetning henti ekki hagsmunum þeirra. 

Hilmar (IP-tala skráð) 17.8.2015 kl. 12:41

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Lúxemborg var í kosningaáróðursskyni af Angelu Merkel í Þýskalandi sett á lista yfir "skattaskjól" þegar fjármálakreppan 2009 skall á Evrópu, Axel. En þá fór Jean-Claude Juncker þáverandi fjármálaráðherra Lúxemborg og "formaður evruhópsins" í fýlu. Eftir kosningarnar í Þýskalandi 2009 var þetta "leiðrétt" og Lúx tekið af listanum og hinn yfirlýsti lygari Jean-Claude Juncker var smám saman gerður að forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Þetta varð náttúrlega að gera því að faldir og skattfrjálsir lífeyrissjóðir embættismanna Evrópusambandsins í Lúxemborg eru sambandinu mikilvægir, því þeir gera starfsmönnum þess leift að vera á (tekjutengdri) framfærslu skattgreiðenda í heimalöndum sínum á meðan þeir þiggja faldar skattfrjálsrar greiðslur úr lífeyrissjóðum í skattaskjólum ESB.

Gunnar Rögnvaldsson, 17.8.2015 kl. 13:04

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Lúxemborgarar gera líka leynisamninga við alþjóðleg stórfyrirtæki um skattamál, þ.e. þeim er gefinn stórafsláttur af sköttum gegn því að skrá fyrirtækin í landinu og með því eina skilyrði að báðir aðilar steinhaldi sér saman um málin.

Það er auðvitað ótrúlegt að þetta skuli viðgangast í "næsta húsi" við höfuðstöðvar ESB, en skýringin er sjálfsagt þessi sem þú nefnir, Gunnar, og margt fleira sem ekki hefur komist upp á yfirborðið ennþá.

Axel Jóhann Axelsson, 17.8.2015 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband