Ólík aftstaða til undirverktaka

Forkólfar álvers Ríó Tinto í Hafnarfirði harðneita að ræða við verkalýðsfélög starfsmanna sinna um nokkrar breytingar á kjarasamningum og allra síst launaliðum, nema félögin samþykki að fyrirtækinu verði heimilt að ráða fleiri undirverktaka til starfa í verksmiðjunni.

Slíka undirverktöku ætlar fyrirtækið að nýta sér til að spara launakostnað og segist með því geta sparað starfsmenn vegna starfa sem eru tilfallandi og krefjist ekki fastra launamanna allt árið.  Þetta fallast verkalýðsfélögin ekki á, en halda því fram að þvert á móti ætli álverið að nýta sér undirverktöku, svokallaða gerfiverktöku, til að ráða starfsfólk á lægri launum en kjarasamningar fyrirtækisins og félaganna gera ráð fyrir.

Á Landspítalanum er þveröfugt uppi á tengingnum, því þar vilja hjúkrunarfræðingar stofna starfsmannaleigu til að selja spítalanum vinnu á taxta sem gæfi hjúkrunarfræðingunum mun hærri laun en kjarasamningar gera ráð fyrir.  Framkvæmdastjóra hjúkrunar hrýs hugur við þessum fyrirætlunum, enda sé slíkt fyrirkomulag miklu dýrara fyrir spítalann og allt vinnuskipulag mun erfiðara og flóknara en ella og auki þar til viðbótar álag og erfiði kjarasamningsráðinna starfsmanna.

Það er greinilega mikill höfuðverkur sem fylgir því að ákveða hvort nýta skuli verktöku.


mbl.is Dýrt að kaupa verktaka í hjúkrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það liggur auðvitað ljóst fyrir, Axel, að kaup á verktöku er dýrari en kostnaður við fastann starfsmann. Á þessu eru þó undantekningar.

Ef um er að ræða tilfallandi störf, sem koma upp tiltölulega sjaldan, er kaup á verktöku að sjálfsögðu hagkvæmari. Þá er auðvitað einnig hagkvæmara að kaupa verktöku ef laun hjá verktakafélaginu eru mun lægri en laun viðkomandi fyrirtækis.

Varðandi Ríó Tintó og þá kjarasamninga sem þar gilda, þá er ákvæði um að laun starfsmanna verktaka skuli vera þau sömu og starfsmanna Ríó Tintó, meðan þeir starfa innan svæðis þar. Svo hefur verið um all langt skeið. Stéttarfélög annarra stóriðjufyrirtækja hafa verið að berjast fyrir svipuðu ákvæði undanfarin ár og hafa að hluta náð því í gegn. Enda hefur sýnt sig að án slíks ákvæðis skirrast þessi fyrirtæki ekki við að ráða ódýrt vinnuafl gegnum verktaka, stundum gerfiverktaka, til starfa í föstum stöðum. Þekkt eru dæmi þess að menn sem vinna hlið við hlið eru á mjög mismunandi launum, eftir því hvort þeir eru starfsmenn fyrirtækisins sjálfs eða einhvers verktaka.

Þá eru þekkt dæmi innan ríkisfyrirtækja, m.a. Landspítalans, þar sem föstu starfsfólki er sagt upp og verktakar látnir vinna verkið. Fólk í þrifum hefur kannski lennt verst í þessu. Eftir stendur að vinnan við þrifin er jafn mikil og áður, einungis laun þeirra sem vinna verkið sem lækka.

En hver er svo raunverulegur ávinningur verktöku? Þegar fyrirtæki kaupir verktöku eða býður út ákveðna þætti í sinni starfsemi, þarf auðvitað sá sem býður í verkið að ætla sér einhvern pening fyrir umstangið. Þann kostnað verður verkkaupi auðvitað að borga. Þá leggst ofaná þessa þjónustu virðisaukaskattur og hann verður verkkaupi einnig að borga. Það er ekki fráleitt að ætla að fyrirtæki sem kaupir slíka þjónustu sé að greiða um 60-70% hærra en þau laun sem starfsmenn verktakans fá. Er þá miðað við að eftir að greidd hafi verið launatengd gjöld þá ætli verktakinn sjálfur sér þóknun og síðan VASKur ofaná allt.

Því er ljóst að vel rekið fyrirtæki ræður ekki verktaka nema í undantekningartilfellum og þá einungis í mjög tímabundin störf, eða sérhæfð.

Enginn efi er á að Ríó Tintó er ekki að setja þessa kröfu fram til að manna tímabundin störf. Þessi krafa er fram sett til að geta ráðið til langframa, í föst störf. Það sem fyrirtækið virðist ekki skilja, eða vill ekki skilja, er að til að þessi leið verði þeim hagkvæmari þurfa þeir að ráða til sín verktaka sem greiða starfsfólki sínu a.m.k. 60% lægri laun en fyrirtækið sjálft greiðir. Samkvæmt íslenskum kjarasamningum og lögum um lágmarkslaun er slíkt fyrirtæki ekki til hér á landi. Hins vegar væri hægt að fá starfsfólk á slíkum kjörum erlendis frá, gegnum erlenda verktaka eða erlendar starfsmannaleigur.

Kannski það sé ætlun Ríó Tintó, að nýta þá glufu sem aðild okkar að EES gefur og ráða bara erlent starfsfólk, gegnum erlenda aðila? Kannski ástæða þess að þeir leggi svo mikla áherslu á að ná þessu ákvæði út úr sínum kjarasamning sé af þeim toga?

Varðandi hugmyndir um verktöku hjúkrunarfræðinga, þá er ansi frjálslega farið fram með þá hugmynd. Ekki er víst að pyngja hjúkrunarfræðinganna muni þyngjast mikið, ef nokkuð, við þá ætlan, en alveg ljóst að kjör þeirra í ellinni mun versna til muna. Þeir yrðu þá ekki starfsmenn ríkisins og nytu því ekki þeirra réttinda sem hinn ríkisstyrkti lífeyrissjóður gefur, að ekki sé minnst á þá ríkistryggingu þess sjóðs.

Meiri líkur eru á að fyrir hjúkrunarfræðingum fari þá á svipaða leið og fór fyrir skúringafólki spítalans.

Annars er merkilegt að þessi hugmynd um einkarekstur hjúkrunarfræðinga skuli koma úr ranni vinstra fólks. Skyldu Steingrímur og Jóhanna vita af þessu?

Gunnar Heiðarsson, 21.7.2015 kl. 13:39

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þetta með virðisaukaskattinn skiptir ekki máli í sambandi við kaup á svona undirverktöku (gerfiverktöku) því fyrirtækið sem kaupir vinnuna getur í flestum tilfellum fengið hann frádreginn sem innskatt við uppgjör á sínum virðisaukaskattsskilum.  

Heilbrigðisþjónusta er undanþegin virðisaukaskatti, þannig að hann kæmi ekki til við útselda vinnu hjúkrunarfræðinganna.  Ef af stofnun þessarar starfsmannaleigu þeirra verður hlýtur Landspítalinn eingöngu að kaupa slíka verktöku í undantekningatilfellum og alls ekki hafa slíka verktaka í fullri vinnu allan mánuðinn og allt árið.

Sem dæmi myndi maður áætla að vegna þess að uppskurðir fara aðallega fram á morgnana, þá myndi spítalinn einungis leigja skurðstofuhjúkrunarfræðinga hálfan daginn og eingöngu þá daga sem skurðstofur eru í notkun.  Í annan tíma yrðu sérhæfðir skrurðstofuhjúkrnarfræðingar væntanlega verk- og tekjulausir nema starfsmannaleigan tæki á sig að brúa það sem uppá mánaðarlaunin myndi vanta og ekki yrði mikill hagnaður af slíkri starfsemi.

Sama hlyti að eiga við á flestum öðrum sviðum spítalans, starfsfólk yrði líklega ekki leigt af þessari starfsmannaleigu nema á álagstímum og leigan yrði sjálf að greiða starfsmönnum sínum orlof, veikindadaga og framlag í lífeyrissjóð og önnur launatengd gjöld.  

Eins og þú bendir á myndu þessir starfsmenn tapa gríðarlegum lífeyrisréttindum, þar sem launþegar á almennum vinnumarkaði njóta ekki jafn góðra réttinda í ellinni og ríkisstarfsmenn gera.

Að þessu öllu athuguðu má líklega gera ráð fyrir að aldrei verði af stofnun þessarar hjúkrunarfræðingaleigu.

Axel Jóhann Axelsson, 21.7.2015 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband