Ef ekki Landsbanka á lóðina, þá hvað?

Heilmikið fjaðrafok hefur orðið á samfélagsmiðlunum vegna fyrirhugaðrar byggingar Landsbankans á húsi undir starfsemi sína á lóð við höfnina í nágrenni Hörpu.  

Sumir bera því við að það sé bruðl af hálfu bankans að byggja nýjar höfuðstöðvar á einni af dýrustu lóðum landsins og réttara væri að hagnaði bankans væri varið til annarra þarfa, t.d. til að byggja nýjan Landspítala.

Aðrir, t.d. hínn ágæti þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson,segja að lóðina ætti að nota undir einhverja starfsemi sem veitti meira lífi í miðbæinn, sérstaklega á kvöldin enda loki bankinn klukkan sextán á daginn. 

Ef hugsað er um hvaða starfsemi það gæti verið sem héldi uppi lífi og fjöri fyrir utan Hörpu á kvöldin, þá koma aðallega upp í hugann barir, danshús, bíó og aðrir slíkir staðir sem aðallega hafa opið á kvöldin og fram á nóttina.  Lúxushótel á að byggja á næstu lóð við hliðina á bankalóðinni og verslunar- og íbúðahús eru einnig fyrirhuguð á reitnum.

Þarna mun sem sagt verða um að ræða dýrasta íbúðar- og verslunarsvæði landsins og megi ekki reisa höfuðstöðvar eina ríkisbankans á þessum slóðum verða menn að svara því hvaða starfsemi væri æskilegri á þennan stað, því algerlega útilokað er að nokkurt bíó, bjórstofa, ballhús og hvað þá kaffihús muni opna á öllum þrem eða fjórum hæðum fyrirhugað húss á þessum stað.

Bankinn er nú með starfsemi á a.m.k. tuttugu stöðum í miðbænum og hlýtur að geta selt margt af því húsnæði fyrir milljarða og annarsstaðar sparast húsaleiga, enda áætlar bankinn að spara sjöhundruð milljónir króna árlega með sameiningu starfseminnar á einn stað.  Slíkur sparnaður ætti að þykja eftirsóknarverður í hvaða rekstri sem er.

Sá sem þetta skrifar er ekki móðgunargjarn og tekur þessar ágætu hugmyndir Landsbankamanna ekkert illa upp sem viðskiptavinur hans til áratuga, þó sumt viðkvæmara fólk virðist taka hugmyndinni sem persónulega móðgun.

 


mbl.is Móðgun við viðskiptavini bankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll og blessaður Axel og takk fyrir pistlana sem ég er oftar en ekki sammála.

Miðborgarsækin starfsemi er mikið meira en bíó, bjórstofa og ballhús. Ef það á að byggja upp líflega miðborg þá er forsenda að það sé fólk í borginni. Banki lokar ekki aðeins kl.16 heldur er hann lokaður á öllum frídögum og um helgar. Slík starfsemi uppfyllir þess vegna ekki þau skilyrði sem ég vísaði til. 

Skemmitlegar miðborgir eru með góða blöndu af söfnum, verslunum, veitingastöðum, kaffihúsum, hótelum, íbúðum og menningartengdri starfsemi. 

Þeir sem benda á að ekki sé vel farið með eignir skattgreiðendana með því að byggja á dýrasta stað á landinu banka þurfa ekki að koma með útfærðar skipulagstillögur til að taka þátt í umræðunni.

Kær kveðja

GÞÞ

Guðlaugur Þór Þórðarson (IP-tala skráð) 12.7.2015 kl. 21:11

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Í sjálfu sér er ég sammála þér, Guðlaugur, eins og nánast alltaf.  Á þessum reit verður Harpa, lúxushótel, íbúðir og verslanir. Miðað við lóðaverðið þarna verða þetta einhverjar dýrustu íbúðir landsins og almennir launamenn munu ekki koma til með að búa í þeim og ekki verða verslanirnar þarna þær ódýrustu í bænum, ef að líkum lætur.

Miðbærinn er ágæt blanda af þeirri starfsemi sem þú nefnir, en þú nefnir ekki banka- eða fjármálastarfsemi sem einnig þarf að vera fyrir hendi í almennilegri miðborg.  Nú eru öll bankaútibú að víkja úr miðbænum og hótel, barir og veitingahús að koma í staðinn.  Með öllum þeim ferðamannastraumi sem rennur um miðborgina veitir ekki af a.m.k. einnni bankaafgreiðslu, sem væntanlega mun verða pláss fyrir í þessum fyrirhuguðu aðalstöðvum Landsbankans.  Það þætti sennilega hálf aumt að þurfa að vísa fólki nánast eins langt út á Granda og hægt væri að komast til að fara í bankaafgreiðslu.

Bygging Hörpu var óhemjudýr og þrátt fyrir að þar sé líf og fjör allan daginn og fram á kvöld ber reksturinn sig ekki og munar þar mörg hundruð milljónum á ári hverju.  Þó önnur hús á reitnum muni ekki jafnast á við Hörpuna í byggingakostnaði munu þau eftir sem áður verða afar kostnaðarsöm og rekstur í þeim mun þurfa gríðarmikla veltu til að standa undir rekstrinum og stofnkostnaði.  Söfn og önnur menningartengd starfsemi mun aldrei standa undir sér þarna, enda sýnir Harpan það með sínum hundruða milljóna framlögum úr ríkis- og borgarsjóði ár hvert.

Við erum lang oftast sammála um menn og málefni, Guðlaugur, og þessi pistill minn er fyrst og fremst settur fram til að skapa umræður og kalla fram hugmyndir.  Það gerist auðvitað ekki ef allir sem tjá sig um málefnin segja það sama og setja ekki fram neina mismunandi sýn.

Axel Jóhann Axelsson, 12.7.2015 kl. 22:05

3 identicon

Alveg rétt hjá þér við eigum að ræða hlutina gagnrýnið og málefnalega

Bankaútibú geta verið til staðar og þurfa ekki að vera í höfuðstöðvum. Þeim fer samt sem áður mjög fækkandi og flestir kjarnar eru með hraðbanka og þegar þú nefnir það, er eitthvert útibú í miðborginni?

Rekstur Hörpunnar stendur undir sér ef ekki væru fasteignagjöldin sem eru gríðarlega há en hún mun seint greiða upp fjárfestinguna. 

Auðvitað verður viðkomandi starfsemi að standa undir sér en það er algengt að húsnæði samsnstandi af margvíslegri starfsemi. Það er alla jafna kvöð á viðkomandi svæðum eins og t.d á hafnarsvæðinu í Reykjavík. Þú getur ekki verið með hvaða starfsemi sem er þar. 

Í þessu tilfelli er það ríkisbankinn sem á hæðsta tilboðið í þessa lóð og ýtir þarf af leiðandi öðrum út.

Aðalatriði er þetta, þessi staður er frábær og hjarta borgarinnar.Hjartað er vandmeðfarið og miðbærinn hefur farið í endurnýjun lífdaga vegna ferðamannana. Ef við viljum að þeir haldi áfram að koma hingað verðum við að skipuleggja miðborgina vel. Viljum við fleiri ,,Seðlabanka" í miðborgina? Ég held ekki.

Viljum við að ríkisbankinn kaupi dýrustu lóðina á landinu undir sína starfsemi? Ekki ég.

Kær kveðja

GÞÞ

Guðlaugur Þór Þórðarson (IP-tala skráð) 12.7.2015 kl. 22:56

4 identicon

Og það er ekki eins og þetta fé renni úr landi, Reykjavíkurborg fær það og getur þá bætt þjónustu við bæjarbúa. Ekki yrðu Reykvíkingar ánægðir ef bankinn ákvæði að spara og flytti starfsemina til Hafnarfjarðar.

Davíð12 (IP-tala skráð) 13.7.2015 kl. 00:13

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Björgúlfur vildi byggja þetta dauða skrifstofuhúsnæði í laugardalnum og mönnu þótti þá nóg um.

Út á Granda með þetta.

þetta verður aldrei byggt þarna.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.7.2015 kl. 02:12

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Axel, þú spyrð "ef ekki Landsbankann, hvað þá?".

Þetta er dýrasta byggingalóð landsins í dag. Þar á að leyfa einkaaðilum að byggja, þeim sem telja sig geta grætt á staðsetningunni. Ríkisrekið fyrirtæki, eða fyrirtæki sem haldið er uppi af almenning, á ekkert erindi á svo dýrann stað.

Eftir hrun, þegar Harpan var varla komin upp fyrir yfirborð jarðar, var ákveðið af borg og ríki að klára verkið. Þjóðin var í sárum og flest annað betra við peningana að gera. En þessi ákvörðun var tekin. Áður lágu auðvitað áætlanir um byggingakostnað og það sem mestu skipti, kostnað við rekstur. Byggingakostnaður fór auðvitað yfir áætlun, enda annað óeðlilegt hér á landi. Það sem þó kom mest á óvart var að reksturinn varð mun þyngri en gert hafði verið ráð fyrir. Þar kom auðvitað til skattheimta borgarinnar. Vegna hennar varð rekstrarkostnaður nærri helmingi hærri en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Landsbankinn ætlar að byggja fyrir 8 milljarða. Fyrsti milljarðurinn fer í lóðakaup og víst er að þarna verður ekki byggður einhver kassi með skrifstofum. Íburður verður örugglega í stærri kantinum. Áætlanir bankans eru að hann muni spara um 700 milljónir á ári. Ekki þarf sérfræðing til að sjá að þessar tölur gætu hæglega breyst verulega. Byggingakostnaður gæti hæglega orðið mun hærri og sparnaður minni. Uppákomur eins og við byggingu Hörpunnar og rekstur hennar ættu að vera víti til varnaðar. Stjórnendur bankans líta þetta þó ekki sem neitt vandamál, enda vita þeir að lítið mál er að ná auknum tekjum. Hærri vextir og aukin þjónustugjöld eru fljót að bæta upp smá skekkju hér og þar.

Ekki efast ég um að Landsbankinn geti sparað með því að vera með sem mest af sinni starfsemi á sama stað. Hvar sá staður er skiptir hins vegar engu máli og enn síður þær umbúðir sem um bankann eru. Þarna inni er fyrst og fremst verið að höndla með peninga annarra, einföld skrifstofuvinna.

Ef einhver stofnun ætti að sýna ráðdeild, er það einmitt bankastofnun.

Gunnar Heiðarsson, 13.7.2015 kl. 02:47

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Gunnar, ekki er ég mikill áhugamaður um ríkisrekstur fyrirtækja sem einstaklingar gætu hæglega rekið, en í þeim tilfellum sem ríkið á meirihluta í hlutafélögum verður að gera þá kröfu að viðkomandi fyrirtæki sé rekið eins og önnur félög á markaði og meginreglan á að sjálfsögðu að vera sú að ríkið sé ekki í neinum samkeppnisrekstri.

Landsbankinn er hlutafélag og stjórnað af sérstakri stjórn og forstjóra og þeim á að vera treystandi til að reka fyrirtækið á sem hagkvæmastan hátt og fram hefur komið að yfirstjórn bankans telji þennan gjörning hagkvæman og rekstrinum til hagsældar.  Sé eigandi fyrirtækisins ósammála því mati hlýtur hann að setja stjórnina af umsvifalaust og skipa nýja sem betur væri treystandi fyrir rekstrinum.

Landsbankinn er, eða á a.m.k. að vera, í fullri samkeppni við tvo einkabanka og vonandi verður hann skráður á markað og settur í sölu í fyllingu tímans og þá mun verðmæti hans miðast við stöðu hans, bæði út frá rekstri og eignum.  Þá myndi ríkissjóður fá eign sína í bankanum greidda að fullu og þangað til á bankinn, eins og önnur fyrirtæki, að skila eiganda sínum góðum arði án þess þó að selja þjónustu sína svo háu verði að hann verðleggi sig út af markaðinum.  Reyndar á hann að vera í fararbroddi á markaðinum, bæði varðandi verð og þjónustu.

Axel Jóhann Axelsson, 13.7.2015 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband