Gengdarlaus græðgi

Öll fyrirtæki þurfa og eiga að skila hæfilegum hagnaði, bæði til að nýta til innri uppbyggingar og til greiðslu arðs.  Útborgaður arður ætti að ganga jafnt til þeirra sem leggja fram fjármagn til rekstrarins og þeirra sem leggja fram vinnuframlagið.

Ekkert fyrirtæki getur gengið né skilað hagnaði nema vegna vinnu starfsmannanna og á öllum hátíðarstundum fyrirtækjanna mæra stjórnendur starfsfólkið í hástert og þakka því góðan árangur og mikinn hagnað.  Í fæstum tilfellum dettur þeim þó í hug að láta starfsfólkið njóta arðsins og hvað þá að þessir þakklátu stjórnendur láti hvarfla að sér að greiða "starfsmönnum á plani" mannsæmandi og lífvænleg laun.

Nú orðið er svo komið málum að eigendur og stjórnendur fyrirtækjanna virðast í flestum tilfellum vera haldnir þvílíku mikilmennskubrjálæði og gengdarlausri græðgi að þeim finnst sjálsagt að raka að sjálfum sér þvílíkum launum og arðgreiðslum að taka mun marga mannsaldra að koma öllum þeim peningum í lóg og siðblindan orðin slík að jafnvel finnst þeim að öll laun hinna óbreyttu væru betur komin í hærri arðgreiðslum og launum til sjálfra sin.

Siðblindunni og gengdarlausri græðginni verður að segja stríð á hendur og snúa ofan af þeirri öfugþróun sem átt hefur sér stað í fyrirtækjarekstri um allan heim undanfarna áratugi og skipta framleiðsluverðmætunum á réttlátari hátt en gert er nú orðið.

Þó þetta ástand sé alls ekki bundið við Ísland, heldur allan heiminn meira og minna, er vel hægt að taka fyrstu skref til breytinga á ástandinu hér og nú með þeim kjarasamningum sem í gangi eru.


mbl.is Virðir ákvörðun Rannveigar Rist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband