Geta skuldarar borið heimsku fyrir sig til að losna undan lánaskilmálum?

Árið 1979 voru sett lög, svokölluð Ólafslög, um verðtryggingu fjárskuldbindinga og síðan hefur mestur hluti lána sem veitt hafa verið í landinu verið bundinn við breytingu vísitölu.  Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á því við hvaða vísitölu skuli miðað en undanfarin mörg ár hefur verið miðað við breytingu neysluverðsvísitölunnar.

Vegna mikils falls krónunnar á árunum 2008 og 2009 og þar með mikillar hækkunar neysluverðsvísitölunnar hafa ýmsir skuldarar verðtryggðra lána rekið mál fyrir dómstólum í tilraun til þess að fá þau dæmd ólögleg og í andstöðu við ESB-tilskipanir, en með úrskurði EFTA-dómstólsins í dag virðist sú tilraun farin út um þúfur.

Stefnendur hanga þó á síðasta hálmstráinu, sem er að skuldarar skilji ekki upp eða niður í verðtryggingunni, þrátt fyrir þrjátíuogfimm ára gildistíma, og viti því ekki undir hvað þeir eru að gangast með undirritun lánasamninganna.

Í úrskurði EFTA-dómstólsins segir m.a:  "Hvað varðar þá spurn­ingu hvort aðferðinni við út­reikn­ing verðbreyt­inga hefði verið ræki­lega lýst taldi dóm­stóll­inn það ákaf­lega mik­il­vægt að neyt­andi fengi nægi­leg­ar upp­lýs­ing­ar um skil­mála samn­ings og af­leiðing­ar hans áður en hann samþykkti hann. Slík lýs­ing yrði að gefa neyt­and­an­um færi á að taka upp­lýsta ákvörðun áður en hann und­ir­ritaði samn­ing. Þetta ætti sér­stak­lega við í til­vik­um þar sem aðilar kæmu sér sam­an um verðtrygg­ingu sem leiddi sjálf­krafa til breyt­inga á höfuðstól skuld­ar­inn­ar líkt og verðtrygg­ing­in í þessu til­viki. Það væri á grund­velli þeirra upp­lýs­inga sem neyt­andi ákvæði hvort hann vildi skuld­binda sig eða ekki sam­kvæmt skil­mál­um sem selj­and­inn eða veit­and­inn hefði samið fyr­ir­fram."

Niðurstaða málsins virðist því velta á því hvort skuldarar geti borið fyrir sig heimsku til þess að sleppa undan lánasamningum sínum, t.d. húsnæðislánum. 


mbl.is Verðtrygging ekki bönnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég var eins árs þegar þessi lög voru sett.

Ertu að halda því fram að ég sé "heimskur" að hafa ekki þekkt efni þeirra fyrr en eftir að það var of seint?

Það er þá all sérstæð skilgreining á heimsku. Prófaðu að tala við fólk á tvítugsaldri í dag um verðtryggingu.

Þú ert að boða hér mjög alvarlega fordóma í garð heilla kynslóða. Skora á þig að endurhugsa þetta.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.8.2014 kl. 20:29

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er verið að tala um hvort fólk skilur lánasamningana sem það sjálft skrifar undir. Ef það skrifar undir áratugaskuldbindingu án þess að skilja hvað það er að gera, er alveg sama hort það er fætt fyrir eða eftir Ólafslög.

Axel Jóhann Axelsson, 28.8.2014 kl. 20:42

3 identicon

hvernig væri að spyrja efta dómstólinn að því hvort það hafi verið lögleg aðgerð að afnema verðtryggingu af launum? hvernig á dæmið að ganga upp að lánin hækki stöðugt en launin ekki,,,maður spyr sig,,,

alfreð (IP-tala skráð) 28.8.2014 kl. 20:49

4 identicon

"Vegna mikils falls krónunnar á árunum 1978 og 1979". Er ekki eitthvað brogað við þessi ártöl, verðtryggingin kom ekki fyrren 1979. En þrátt fyrir þennann sparðatíning er ég að mestu sammála þér.

Vilhjálmur Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.8.2014 kl. 20:55

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Vilhjálmur, þarna átti auðvitað að standa 2008 og 2009 og því hef ég lagfært þetta í færslunni. Hins vegar voru Ólafslög auðvitað sett vegna gríðarlegrar verðbólgu árin á undan lagasetningunni og reyndar náði hún hæstum hæðum nokkrum árum síðar, eða 1983- 1984 ef ég man rétt.

alfreð, ertu að meina að laun hafi ekkert hækkað frá árinu 1979, þegar þú segir að lánin hækki stöðugt en launin ekki?

Axel Jóhann Axelsson, 28.8.2014 kl. 21:03

6 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Axel.

Má ekki snúa þessari spurningu þinni upp á þá sem lána þessi verðtryggðu lán!

Eru þeir svona vitlausir að fara framhjá lögum og tilskipunum  um upplýsingagjöf til lántakenda, eða hafa lögmenn þeirra ekki lesið lögin sem þeir eiga að fara eftir?

Eggert Guðmundsson, 28.8.2014 kl. 21:17

7 identicon

Verðtrygging launa var ekki afnumin með lögum heldur var það ákveðið í kjarasamningum að nota aðrar viðmiðanir. Fram að því hafði reyndar ríkisvaldið oft verið að krukka í vísitöluhækkanir. Fyrstu ár mín á vinnumarkaði fékk maður 10-15% kauphækkanir á þriggja mánaða fresti eftir því hvernig verðbólguvindarnir blésu. Engu nær á eftir.

Vilhjálmur Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.8.2014 kl. 21:46

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eggert neglir þetta:

Hvernig eiga lántakendur að skilja verðtrygginguna, ef lánveitendurnir sjálfir virðast alls ekki skilja sjálfir lögin sem gilda um hana?

Hefurðu heyrt talað um hugtakið "aðstöðumun"? Hvor í betri aðstöðu til að skilja verðtrygginguna, bankinn eða þú?

Ég leyfi mér að fullyrða að meirihluta þeirra sem starfa í bönkunum skilja hana ekki heldur. Með fullrði virðingu fyrir þeim.

Hef oft og mörgum sinnum horft upp á bankanna halda fram misskilningi um verðtryggingu fyrir dómstólum.

Eftir stendur að skrif síðuhöfundar bera vott um alvarlega fordóma gagnvart þeim sem eru ekki fjármálasérfræðingar.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.8.2014 kl. 21:56

9 identicon

Já, eftir vikulegar fréttir í öllum fjölmiðlum í nærri 35 ár um áhrif hækkunar á bensíni eða tómatsósu á vísitölubundin lán virðist sú vera raunin. Sumir halda því jafnvel fram að vegna þess að þeir voru ekki lausir við bleyjuna þegar lögin voru sett þá geti þeir hvorki skilið efni þeirra né kynnt sér þau af einhverju viti fyrr en eftir lántökur og óðaverðbólgu. Vonandi er þeim ekki sleppt út í umferðina einum ef þeir kynna sér ekki reglurnar fyrr en of seint. Sumir halda að séu í boði verðtryggð lán þá beri ríkinu skylda til að verðtryggja allt og furða sig á því að geti samið við alla banka um verðtryggt lán en röð vinnuveitenda sem bjóða verðtryggð laun er styttri en hár á Ýsu.

Afkomendur snillinga, menntaðasta og víðlesnasta fólk í heim, gáfumenni sem rekja ættir sínar til konunga og skálda bíða nú niðurstöðu dóms um hvort þeir séu slefandi hálfvitar sem ekki geti hjálparlaust hneppt skyrtu og ættu því ekki að þurfa að virða samninga. Skyldleikaræktun er augljóslega útbreidd og farin að hafa meiri áhrif en áður var talið. Það er spurning hvort svona vitgrannt fólk sem greinilega þarfnast mikillar aðstoðar eigi það ekki að fara sér að voða eigi einhvern tilverurétt sem sjálfstæð þjóð.

Hábeinn (IP-tala skráð) 28.8.2014 kl. 22:00

10 Smámynd: Guðmundur Jónsson

""Geta skuldarar borið heimsku fyrir sig til að losna undan lánaskilmálum?""

Svar já

Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga

31. gr. [Hafi nokkur maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða léttúð eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér hagsmuna eða áskilja sér þá þannig að bersýnilegur mismunur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því er fyrir þá kom eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, skal gerningur sá, er þannig er til kominn, ógildur gagnvart þeim aðila er á var hallað með honum. Sama gildir þótt annar maður en sá, sem gerningurinn var gerður við, eigi sök á misferli því sem getið er í 1. málsl. þessarar greinar, enda sé þeim, er haginn átti að hafa af gerningnum, það kunnugt eða megi vera það kunnugt.]1)

Guðmundur Jónsson, 28.8.2014 kl. 22:02

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Axel Jóhann, flestir taka verðtryggð lán vegna þess að greiðslubyrði þeirra er hógvær til að byrja með.  Ekki út af neinu öðru.  Fæstir lántakar velta fyrir sér hvort að þeir borgi svo og svo mikið á löngum tíma, því þeir ætla hugsanlega ekki að eiga húsnæðið sem lánið hvílir á nema í stuttan tíma.  Þeim er sama um það hvort höfuðstóllinn hækki meðan verð húsnæðisins hækkar líka.

Ég þekki mann sem tók 8 m.kr. verðtryggt lán í kringum 1992 og missti ekki úr greiðslu.  Árið 2010 var staða lánsins 20 m.kr., þegar búið var að greiða líklegast annað eins, ef ekki meira.  Allt líklegast vegna þess, að upphafleg greiðslubyrði var lág og aðrir lánakostir voru ömurlegir.

Marinó G. Njálsson, 28.8.2014 kl. 22:18

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hábeinn: viltu tilkynna þig sjálfur fyrir fordómafullan (og þar með ólöglegan) málflutning eða þarf ég að gera það fyrir þig?

Hvernig væri nú að fullorðnast og skríða upp úr sandkassanum?

Ég skora á síðuskrifara að láta ummæli Hábeins standa, og jafnframt að birta IP-tölu hans hér svo við getum öll séð hver það er sem stundar svona hatursorðsæðu á netinu á bakvið gervinafn. Ef ekki þá beinist sú áskorun til stjórnenda moggabloggs.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.8.2014 kl. 23:06

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hábeinn, ertu nokkuð Axel í dulargervi?

Guðmundur Ásgeirsson, 28.8.2014 kl. 23:08

14 identicon

Ég þekki líka mann sem tók 8 m.kr. verðtryggt lán í kringum 1992 til 40 ára og missti ekki úr greiðslu.  Árið 2010 var staða lánsins 20 m.kr og 22 ár eftir.

Hann notaði 8 milljónirnar til að kaupa hús. Árið 2010 var staða lánsins 20 m.kr og hann seldi húsið á 60 m.kr. Auðvitað hefði hann viljað borga bara af þessum 8 m.kr. og því skuldað bara 3,6 m.kr. þegar hann seldi, en lánveitandinn var ekki til í að lána honum fyrir húsi en fá bílskúr til baka.

Frammari T (IP-tala skráð) 28.8.2014 kl. 23:21

15 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Guðmundur, ég er vanur að setja mínar skoðanir fram undir fullu nafni og frábið mér því aðdróttanir þínar um að ég sé að skrifa hér undir hinum ýmsu dulargerfum.

Að mínu mati setti Hábeinn fram hárbeitta ádeilu um efnið og að sjálfsögðu verður innlegg hans látið standa þarna áfram, eins og þín Guðmundur.

Axel Jóhann Axelsson, 29.8.2014 kl. 00:18

16 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Frábært Axel. Þá birtirðu vonandi IP-tölu viðkomandi, til að hreinsa sjálfan þig af öllum slíkum "aðróttunum".

Ég stend engu að síður við þá afstöðu að innlegg Hábeins feli í sér ólögmætan hatursáróður sem beri að upplýsa.

Guðmundur Ásgeirsson, 29.8.2014 kl. 00:49

17 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Axel,

Mér finnst þetta útúrnúningaeinfeldni. Verðtrygging útlána var til löngu fyrir Ólafslög en var þá bundin sömu upphæð í verðtryggingu innlána. Fyrstu lög sem ég fann um verðtryggingu voru frá 1965 ef ég man rétt, gætu verið 1968. Það sem skeði við Ólafslög var að bankarnir gátu verðtryggt útlán án samsvarandi verðtryggingu innlána. Verðbótaþáttur var til að byrja með hóflegur, minnir að lán sem ég tók 1981 hafi verið með 15% verðbótaþætti en þetta hækkaði svo smám saman. Minnir að 1983 hafi þetta verið komið í 40% Síðan er það 84 eða 85 að Seðlabankinn ákvarðar einhliða að því er ég best veit að bankarnir gætu verðtryggt útlán 100% og sett svo ótrúlega vexti þar í ofanálag. Á þessum tíma stjórnar Geirs Hallgrímssonar og síðar Þorsteins Pálssonar (eða var hún á undan? farinn að förlast í þessu) að verðbólga rakst upp í 140% á einhverjum mánuðum og verðlag fór allt til fjandans. En bankarnir voru gulltryggðir hvernig sem allt valt og létu sig litlu skipta hvernig efnahagsstjórn landsins rullaði.

Persónulega held ég að verðtrygging eigi rétt á sér þegar um mikla verðbólgu er að ræða, en að hún taki aðeins við í þrepum og verði aldrei meira en 50% af höfuðstól. Eins og staðan er núna eru bankarnir stikkfrík eins og venjulega og þeirra áhætta og ábyrgð er aldrei nein. Þeir hafa ekkert aðhald frá efnahagsstjórn landsins og hefur verið gefið ókeypis veiðileyfi á landið síðan 2008 enda allar ríkisstjórnir síðan fyrir hrun hlaðið undir bankana eins og enginn sé morgunndagurinn. Hagnaður ruglbankanna skiptir hundruðum milljarða síðan þeir risu úr öskustónni, meðan landsmönnum hefur blætt út.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 29.8.2014 kl. 03:24

18 Smámynd: Hörður Þórðarson

Framlag Frammara hittir beint í mark.

"Hann notaði 8 milljónirnar til að kaupa hús. Árið 2010 var staða lánsins 20 m.kr og hann seldi húsið á 60 m.kr."

Hann tók 8 milljónir að láni, keypti hús, borgaði af láninu í 18 ár, skuldaði 20 milljónir í lokin og átti 60 m.kr. hús. Er þetta ekki eins sanngjarnt og verið getur? Á hann að fara að heimta leiðréttingu? Hefur hann verið hlunnfarinn? Mér fyndist hann vera ansi harður og óraunsær ef hann færi að heimta niðurfellingu skulda.

Vill hann kannski fá nudd tvisvar á viku og heimsreisu einu sinni á ári sem"bætur" fyrir að hafa borgað af sanngirni af láninu? Það er ekki laust við að mér finnist að sumir á Íslandi hugsi þannig. Grátkórinn vegna verðtryggingarinnar er ansi  hávær.

Ég held að bankarnir ættu að hafa gáfnapróf áður en þeir lána fólki peninga. Það þarf bara að spyrja eina spurningu:

Skilur þú, Siggi eða Jóna að þú verður að borga tilbaka þau verðmæti sem þú tekur að láni, auk vaxta, hvað sem allri verðbólgu líður?

Ef Siggi eða Jóna skilja þetta ekki, þá fá þau að sjálfsögðu ekki lán. Hábeinn kallar svoleiðis fólk "slefandi hálfvita". Kannski fullt sterkt til orða tekið....

Hörður Þórðarson, 29.8.2014 kl. 03:34

19 identicon

Ég tók 9 millur fyrir 10 árum, búinn að borga 8 og skulda 15 og ballið rétt að byrja. Mafíuhyskið glottir hringinn.........

GB (IP-tala skráð) 29.8.2014 kl. 07:32

20 Smámynd: Þórir Kjartansson

,,Ruddalegar athugasemdir, sem innihalda lítið sem ekkert annað en skítkast og/eða persónulegar svívirðingar um menn og málefni verða fjarlægðar af þessari síðu, jafnóðum og þær uppgötvast"   -  stendur skrifað undir mynd síðuhafa.  Þessi:  ,,ÆæÓó, hitti ég á auman blett Gummi litli lögspekingur? Eru foreldrar þínir systkini?" - frá hr. Hábeini  verður þá væntanlega fjarlægð.

Þórir Kjartansson, 29.8.2014 kl. 09:18

21 identicon

GB tók 9 millur fyrir 10 árum, búinn að borga 8 og skuldar 15.....Íbúð sem kostaði 9 millur 2004 kostar yfir 17 í dag..... og af láni sem tekið var 2004 hafa aðallega verið vaxtagreiðslur, lítið er farið að borga niður af höfuðstóli. Þannig að í dag ættu eftirstöðvar að vera um 17 millur en ekki 15 ef lánið hefði fylgt húsnæðisverði. Hagnaðurinn er því um 2 millur og jafnvel vaxtabætur sem sjaldan eru dregnar frá kostnaði þegar fólk reiknar hann. Laun hafa einnig hækkað síðan 2004 þannig að sennilega er GB að vinna færri daga fyrir hverri afborgun en fyrstu árin. 

Frammari T (IP-tala skráð) 29.8.2014 kl. 09:42

22 identicon

jafngreiðslulán (Annúitet) heita svo vegna þess að mánaðargreiðslan er jöfn út lánstímann. Þar að leiðandi er afborgunin lægri í byrjun en af jafnháu láni með jöfnum afborgunum. Með slíku láni er maður þar af leiðandi að taka viðbótarlán fyrir vöxtunum framanaf og þarafleiðandi ekki óeðlilegt að heildargreiðslan sé aðeins hærri. Þetta lánsform gerir mönnum kleift að taka hærra lán en ella; ef maður þyrfti að greiða alla vextina strax, hefði maður ekki greiðslugetu til að borga af nema mun minna láni (sem myndi þá hugsanlega ekki duga til að kaupa sér kofann).

Verðtryggingin er svo allt annað fyrirbæri en hún gefur færi á að semja um fasta raunvexti.

Sjálfur man ég ekki annað en að verðtrygging + raunvextir hafi alltaf (eða a.m.k. yfirleitt) hagstæðari lántaka en breytilegir vextir sem er hinn möguleikinn sem er í boði (það lánar enginn pening á föstum vöxtum þar sem hætta er á verðbólgu og það jafnvel hárri nema þeir séu það háir að það myndi enginn taka það lán).

Versti óvinurinn er verðbólgan, verðtryggingin er viðbrögð við henni.

ls.

ls (IP-tala skráð) 29.8.2014 kl. 10:01

23 identicon

Það þarf að fara varlega í að spyrja þá bræður Dodda og Gumma spurninga, þeir eru viðkvæmar sálir sem auðveldlega móðgast. Sennilega er internetið ekki rétti staðurinn fyrir húmorslaust fólk sem er að tapa glímunni við andlegt jafnvægi.

Hábeinn (IP-tala skráð) 29.8.2014 kl. 11:24

24 Smámynd: Stefán Þ Ingólfsson

Axel, ekki veit ég hvort þú hefur tekið verðtryggt lán, en ég efast um að þú hefðir vitað hvað þú varst að undirgangast, ef þú hefðir tekið verðtryggt lán árið 1985, þá ungur að árum og fullur bjartsýni, en uppgötvaðir smá saman að þú varst fastur í glæpsamlegri svikamyllu.

Stefán Þ Ingólfsson, 29.8.2014 kl. 11:28

25 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hah, Hábeinn virðist ekki hafa vitað að ég er aldrei kallaður Gummi af vinum mínum. Touche.

ls, þetta er ekki rétt lýsing á jafngreiðsluláni hjá þér, á venjulegu jafngreiðsluláni er ekkert lán tekið fyrir neinum vöxtum heldur eru þeir allir staðgreiddir.

Ef fólk skilur ekki einu sinni hverni jafngreiðslulán virkar, hvernig á það þá að skilja verðtrygginguna?

Til hamingju ls, nú ert þú kominn í hóp "heimskra" samkvæmt skilgreiningu þess sem heldur úti þessari síðu hérna.

Svo er verðtrygging ekki "vibrögð" við verðbólgu, heldur ein af meginorsökum hennar síðan henni var komið á.

Menn ættu að vinna heimavinnuna sína fyrst áður en þeir æða fram á ritvöllinn og kasta sér á skriffærin.

http://arxiv.org/abs/1302.4112

Guðmundur Ásgeirsson, 29.8.2014 kl. 11:33

26 identicon

Jú Guðmundur, ég veit hvernig jafngreiðslulán virkar og nettó niðurstaðan er sú að framan af er maður að taka lán fyrir vöxtunum. Það hangir saman með því að maður byrjar ekki að greiða höfustólinn niður að marki fyrr en á líður.

Og ég er ekki í þeim hóp sem þú nefnir, vegna þess að ég veit upp á hár hvernig lánin mín virka og er ekki að reyna að skjóta mér undan þeim samningum sem ég hef skrifað undir (enda vissi ég hvað ég var að skrifa undir). Ég veit líka að ef ekki koma önnur eins stór áföll og komu fyrir fimm árum, verður bæði eignastaða og greiðslugeta í mun betra horfi en nú eftir þó ekki nema fimm til tíu ár. Annars vegar vegna þess að þá verð ég farinn að greiða meira inn á höfustólinn en ég er núna, og hins vegar vegna þess að launin mín (og annarra) hafa hækkað meira ein verðbólgan.

Og verðtryggingin er viðbrögð við verðbólgu, gegnir í meginatriðum sama hlutverki og t.d. LIBOR og aðrir slíkir indexar á stærri mörkuðum en krónan er, og var sett í gang á tímum óðaverðbólgu.

ls.

ls (IP-tala skráð) 29.8.2014 kl. 12:21

27 identicon

Hvenær urðum við vinir Gummi?

Ekki voru ávísanareikningar dæmdir ólöglegir þó til væri fólk sem hélt að það væri í lagi að skrifa ávísanir meðan blöð voru í heftinu. Og ekki minnist ég þess að verðbólgan hafi verið eitthvað minni fyrir tíma verðtryggingar. En ég man það að það þurfti að þekkja mann og vera í réttum flokki til að fá þessi lán sem urðu að engu löngu fyrir síðasta gjalddaga. En þú varst bara eins árs þegar lögin voru sett og getur því ekki með nokkru móti vitað hvað fór fram fyrir þann tíma, er ekki upphaf alheimsins fæðing þín?

Hábeinn (IP-tala skráð) 29.8.2014 kl. 12:25

28 Smámynd: Starbuck

Hábeinn

Þú hlýtur að geta komið skoðunum þínum á framfæri án þess að vera með hroka og dónaskap.   

Starbuck, 29.8.2014 kl. 15:00

29 identicon

Maður kaupir hús, tekur 20 millj kr. lán, eftir 40 ár hann búinn að greiða 100 millj af he.. láninu. Tökum með í reikninginn að þá getur hann líka selt húsið á 250 millj, launin hans eru 4 millj og kaffibollinn á kaffi París kostar 5000 kall.

Tóti (IP-tala skráð) 29.8.2014 kl. 16:35

30 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Stefán, ég er mjög vel kunnugur verðtryggðum lánum og hef skuldað, og skulda slík lán. Ég hef hins vegnar aldrei tekið lán án þess að kynna mér lánaskilmálana vandlega og aldrei tekið lán sem ég hef ekki skilið hvernig er samsett og við hverju má búast með framtíðargreiðslur þess.

Fleira þarf að áætla við lántökuna heldur en eingöngu hækkun lánsins vegna vísitölu, því einnig þarf að áætla framtíðarlaunaþróun og ekki síður hvernig reikna megi með að fasteignaverð þróist.

Fólk sem ekki skilur þessa þætti húsnæðiskaupa ætti að fresta öllum kaupum þangað til það öðlast fullan skilning á málinu í heild.

Axel Jóhann Axelsson, 29.8.2014 kl. 18:30

31 identicon

Ekki gera þig heimskari en þú ert Axel,þú veist nákvæmlega hvað ég meina,,eða hækka launin þín í réttu hlutfalli og lánin þegar krónan fellur,,,

alfreð (IP-tala skráð) 29.8.2014 kl. 20:26

32 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Alfreð, kannski ertu eins heimskur og þú spilar þig eða hefur þú aldrei heyrt minnst á kaupmáttaraukningu, eða hvað það hugtak þýðir?

Axel Jóhann Axelsson, 29.8.2014 kl. 20:31

33 Smámynd: Hörður Þórðarson

alfreð er sorglega dæmigerður. Vælir og veinar ef lánin hækka hraðar en launin en stein heldur kjafti þegar launin hækka hraðar en lánin og vill ekki sjá að þetta jafnast út.

Vill sennilega hafa allt verðtryggt, laun, lán og allt annað. Það er ávísun á fullkomna hringavitleysu og mörg hundruð prósent verðbólgu á ári. Þetta var reynt, og reyndist illa.

Hörður Þórðarson, 29.8.2014 kl. 20:45

34 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vona að ég hafi ekki misst af Frammara.  Alltaf gaman af þessum einstaklingum sem geta ekki komið fram undir nafni.

Græði ég á því, að húsnæðisverð hækkar?  Það veltur á ýmsu.  Einstaklingur tók 8 m.kr. lán til að kaupa húsnæði sem kostaði 12 m.kr.  Þ.e. lánið dekkaði 2/3 af kaupverðinu.  Hann greiðir af láninu reglulega í 20 ár, alls eitthvað um 32 m.kr.   Skuldar þá 20 m.kr.  Alls eru greiðslur og eftirstöðvar því 52 m.kr.  Segjum að hann selji húsnæðið á þeim tímapunkti á 60 m.kr., eins og þú lagðir til, Frammari (held að það sé um 10 m.kr. yfir markaðsverði, en látum það kyrrt liggja).  Þá er hann búinn að tapa 12 m.kr. af eiginfé sínu miðað við að hann átti 1/3 við kaup á íbúðinni, en það er bara 13,3% við sölu.  (Reiknað með því að draga geiðslur og eftirstöðvar frá söluverði á söludegi.)  Ef upprunalega eigið féð hefði tekið sömu breytingum og lánið, þá hefði það átt að standa í 26 m.kr. en ekki 8 m.kr.  Þarna hafa því glatast 18 m.kr. á núvirði.

Hækkun húsnæðisverðs skilaði sér ekki, þar sem hún var étin upp af þeim greiðslum sem fram höfðu farið.  Auk þess, ef greiðslurnar aftur í tímann eru núvirtar, þá reynist hann tapa enn þá hærri upphæð.  Þ.e. ef upphæðirnar sem fóru annars vegar í eiginfjárframlag og hins vegar afborganir og vexti hefðu borið vexti á bankareikningi (lagt inn mánaðarleg), þá legðu þær sig á mun hærri upphæð en 60 m.kr. (Sést best á tölunum sem ég nefndi áðan, þ.e. 32 m.kr. í greiðslur, 20 m.kr. í eftirstöðvar og 26 m.kr. sem upprunalega eigið féð hefði hugsanlega verið hægt að ávaxta eða alls 78 m.kr.)

Þetta er hin klassíski afleikur þeirra sem halda að hækkun húsnæðisverðs vegi upp verðbótahækkun lánanna.  Auk þess er enginn hagnaður, nema eignin sé seld, og hluti þess hagnaðar, ef ekki allur, er étinn upp af því að nýja húsnæðið hefur líka hækkað í verði umfram það sem annars hefði orðið.  Hækkun húsnæðisverðs þarf því ekki að skila eigandum neinum gróða.

Tökum einfaldara dæmi, sem byggir bara á hækkun húsnæðisverðs.  Eign er keypt 2004 á 30 m.kr. og hún er seld á 50 m.kr. 2012.  Í staðinn er keypt eign sem kostaði 35 m.kr. 2004 en kostar 57 m.kr. 2012.  Í þessu dæmi hagnast viðkomandi ekkert á hækkun húsnæðisverðs.  Hann tapar á henni og það án þess að skoða nokkuð hve mikið hann er búinn að borga af lánum og hvernig höfuðstóll lána hefur breyst.

Marinó G. Njálsson, 29.8.2014 kl. 22:35

35 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er innbyggt í annúietetslánin að lítið er greitt niður af höfuðstólnum á fyrri helmingi lánstímans, þannig að í þessu dæmi virðist íbúðin einmitt vera seld á miðjum lánstímanum. Ekki eru vaxtabætur teknar með í þennan útreikning, þannig að hann gefur ekki rétta heildarmynd af dæminu.

Einhversstaðar verða allir að búa og hefði viðkomandi ekki keypt þessa eign, hefði hann líklega orðið að leigja og hvað hefði hann þá greitt í leigu á þessum tuttugu árum án þess að eignast eina einustu krónu í íbúðinni?

Bæði er að fjörutíu ára lánin eru ekki hagstæð og eins er vitað að lán með jöfnum afborgunum mynda eign hraðar en jafngreiðslulánin. Að öllu þessu þarf fólk að huga áður en lagt er út í fasteignakaup og þó svo hafi ekki verið lengst af, þá er nú hægt að velja sér lánategund og hver og einn verður að meta fyrir sig hvað er hagstæðast að gera í þeim efnum.

Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2014 kl. 00:02

36 Smámynd: Hörður Þórðarson

Marinó. Hvaðan koma þessar "eitthvað um 32 m.kr" sem eiga að hafa verið greiðslurnar í 20 ár? Hvaðan koma þessar 12 m.kr. sem húsnæðið á að hafa kostað?

Það kostar peninga að taka lán. Þar sem ég á heima, á Nýja Sjálandi, er ekki verðtrygging en það kostar um 4% vexti umfram verðbólgu að taka húsnæðislán. Á Íslandi sýnist mér að bjóðist verðtryggð lán með 3,85% vöxtum, það er 3.85% umfram verðbólgu. Þetta eru nánast nákvæmlega sömu kjör, jafnvel lítið eitt betri á Íslandi. Er einhver ástæða til að vera að gráta yfir þessu?

http://www.islandsbanki.is/einstaklingar/lan/husnaedislan/verdtryggt-husnaedislan/

Hörður Þórðarson, 30.8.2014 kl. 00:07

37 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hörður,

Ég setti tölurnar annars vegar inn í reiknivél Landsbankans og hins vegar líkan sem ég er með í tölvunni hjá mér og gerir ráð fyrir raunverulegri verðbólgu.  Hér er um raunverulegt dæmi að ræða, en þar sem ég er ekki með nákvæma kaupdagsetningu og söludagsetningin er tilbúin, þá eru útreikningarnir rúnaðir.

Axel Jóhann,

þar sem ég er ekki með tekjuupplýsingar, þá hef ég ekki upplýsingar um vaxtabætur, en á fyrri hluta tímabilsins, þá voru efri mörk þeirra innan við 100.000 kr. (ef ég man rétt).  Á síðari hluta tímabilsins, þá fékk fólk með sæmilegar tekjur engar vaxtabætur.

Hvaða máli skiptir leiga?  Af hverju skiptir þá ekki staðsetning máli, því hún hefði sparað bíl.  Sorry, þú getur gert betra en þetta.

Í seinna dæminu gæti lánið verið til 10 ára og það hefði samt verið óhagstætt.

Þið getið snúið út úr þessum dæmum, eins og ykkur listir.  Niðurstaðan breytist ekki.  Í lang flestum tilfellum nær hækkun fasteignaverðs ekki að vega upp tjón lánþega af verðtryggingunni.

Marinó G. Njálsson, 30.8.2014 kl. 00:31

38 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Margir, sem býsnast mest yfir málflutningi þeirra sem gagnrýna verðtrygginguna og framkvæmd hennar, benda iðulega á að verðtryggingin sé til að tryggja að sömu verðmætum sé skilað og fengin eru að láni. En eru svo í næstu setningu farnir að benda á að lántakandinn hafi grætt einhver reiðinnar býsn af því hann seldi á svo miklu hærra verði en hann keypti á svo og svo mörgum árum á undan.

Pistilritarinn, Axel Jóhann, sneri umræðunni hins vegar strax á haus í upphafi með því að leggja upp með að almenningur sé að reyna þykjast vera heimskur. Svo er náttúrulega ekki. Málið snýst um að bankar hafa ekki farið að lögum í sinni starfsemi meira og minna eftir að þeir voru einkavæddir og síðar endurreistir með afkvæmum sínum. Á bönkum hvílir lögfest upplýsingaskylda við gerð lánasamnings en þeir hafa ekki virt hana, að sumu leyti vegna fáfræði starfsfólksins og/eða stjórnenda, og stjórnvöld hafa ekkert gert í því að þeir virði hana. Þess vegna er leitað til dómstóla nú.

Erlingur Alfreð Jónsson, 30.8.2014 kl. 00:38

39 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er endalaust hægt að deila um útreikninga og vera með og á móti verðtryggingu. Þessi þráður snerist hins vegar um það hvort fólk gæti borið fyirir sig heimsku til að sleppa undan lánaskilmálum, þar sem svo virðist að um það snúist sá angi málsins sem eftir er að fá leiðbeiningu um frá EFTA-dómstólnum.

Allir hljóta að bíða spenntir eftir því hvort þjóð sem elst upp við það frá blautu barnsbeini að hlusta á umfjöllun í fjölmiðlum og annarsstaðar, nánast daglega, um verðhækkanir og verðbólgu og áhrifin á lán heimilanna, telst vera svo skini skroppin að hún botni ekki upp eða niður í um hvað er verið að fjalla.

Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2014 kl. 10:09

40 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Málið snýst um upplýsingaskyldu banka við gerð löggerninga við neytendur, skv. lögum sem um slíka löggerninga gilda, en ekki um daglega umræðu í fjölmiðlum, eða annarsstaðar, sem ekkert gildi hefur við sömu löggerninga. EFTA dómstóllinn segir að upplýsingaskylda lánveitanda eigi að vera ítarleg, til verndar neytendum, þannig að ekki verði hægt að snúa túlkun slíkra samninga eins og hentar lánveitanda hverju sinni. Samningsskilmálar eiga að vera skýrir og ótvíræðir. Ekki snúa umræðunni svona á haus, Axel.

Erlingur Alfreð Jónsson, 30.8.2014 kl. 10:55

41 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Axel Jóhann, er það heimska að fá rangar upplýsingar, en treysta því að þær séu réttar, enda útbúnar af sérfræðingum?

ls: Nei það er er ekkert lán tekið fyrir vöxtum í jafngreiðsluláni. Ég skal veðja við þig upp á allan höfuðstólinn !

Þetta er hinsvegar gert í lánum með svokuölluðu "vaxtagreiðsluþaki" sem er allt annar hlutur.

Hér geturðu lesið meira um það hvernig vaxtagreiðsluþak virkar (svipað og greiðslujöfnun):

http://umraedan.landsbankinn.is/fjarhagur/2012/06/11/Hvernig-virkar-vaxtagreidsluthak/

Það er ekki tekið lán fyrir neinum vöxtum, nema með láni sem er sérstaklega útbúið með þessu vaxtagreiðsluþaki.

Svolítið sérstakt að segjast skilja nákvæmlega hvernig eitthvað virkar, og setja svo fram ranga lýsingu á því.

Góður fréttirnar við þetta eru, að það styður bara það sjónarmið að þetta sé allt saman mjög óljóst og villandi.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.8.2014 kl. 12:34

42 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Axel Jóhann, ef ég á að meta út frá þeim sem ég hef rætt við um virkni verðtryggingarinnar, þá held ég að vel innan við 10% þeirra skilji til fulls hvernig hún virkar.  Flestir halda að hún sé sanngjörn, þar sem húsnæðisverð og laun hækka með, en eins og dæmi að ofan sýnir, þá er hækkun húsnæðisverðs yfirleitt ekki nóg til að vega upp hækkun höfuðstóls lánanna.  Það sem fæstir skilja varðandi verðtrygginguna, er þó atriðið sem þú nefnir að ofan.  Það er ekki fyrr en vel er liðið á lánstímann, sem fólk byrjar að greiða niður höfuðstól lánsins.  Þess vegna græða fjármálastofnanir á tá og fingri, þegar fólk ákveður að endurfjármagn verðtryggð lán sem eru enn þá á uppleið hvað upphæð eftirstöðva varðar.  Menn eiga ALDREI að endurfjármagna verðtryggt lán með öðru verðtryggðu láni.  Við það fellur fólk í svikamyllu verðtryggingarinnar.

Þessi virkni verðtryggingarinnar er hvergi útskýrð í lánasamningum og kemur ekki frram í greiðsluáætlun, þar sem hún sýnir ekki hækkun höfðustólsins.  Ég þori að fullyrða að nánast enginn lántaki velti þessu fyrir sér, þar sem þetta er ekki útskýrt fyrir fólki.  Eina sem fólk veltir fyrir sér við lántöku er hvort það standist greiðslumat og hafi efni á fyrstu afborguninni.

Nú hvers vegna heldur þú að fólk endurfjármagni verðtryggðu lánin?  Vegna þess að hækkun mánaðarlegu greiðslunnar er orðin svo mikil, að það ræður ekki við hana.  Ef það ræður ekki við hana af mun lægri upprunalegum höfuðstóli, segjum 10 árum eftir lántöku, hvers vegna heldur fólk þá að það ráði við hana af hærra láni eftir 10 ár?  Verðtryggingin húsnæðislána er og verður alltaf svikamylla.  Svikamylla sem nánast enginn áttar sig á.

Marinó G. Njálsson, 30.8.2014 kl. 12:40

43 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Erlingur, hvað er óskýrt og tvírætt í samningum um verðtryggð lán? Er það að ekki sé reiknað með einhverri ákveðinni verðbólguprósentu? Ef sett væri inn 5% verðbólguspá út lánstímann, en verðbólga yrði 4% að meðaltali, væru upplýsingarnar þá "réttari"? Ef sett væri inn ákveðin verðbólguspá fyrir lánið, yrði þá ekki að setja inn spá um launaþróun skuldarans út lánstímann?

Umræðunni er ekkert snúið á haus með því að fjalla um mál sem búið er að stefna fyrir dómstóla, en þar er einmitt verið að fjalla um það hvort lántakendur eigi að skilja hvernig verðbætur virka á lánin án þess að með lánasamningum fylgi alls kyns verðlags- og launaþróunarspár sem ættu að gilda fyrir lánstímann.

Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2014 kl. 18:52

44 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Marinó, auðvitað á fólk sem skiptir um fasteign alltaf að taka með sér gamla lánið yfir á nýju eignina, í stað þess að skilja það eftir á gömlu fasteigninni og taka síðan viðbótarlán ef þarf til að brúa mismun á kaup- og söluverði.

Það ítrekast enn og aftur að það er með ólíkindum ef það er staðreynd að íslendingar skuli ekki skilja annúietslánin eftir alla þá áratugi sem þau hafa verið við lýði og raunar verið allsráðandi á húsnæðislánamarkaði fram á síðustu ár, en nú orðið hefur fólk þó val um lánsform. Það merkilega er að flestir velja verðtryggðu annúietslán fram yfir hin þrátt fyrir alla umræðuna um lánamálin, ekki síst síðustu árin.

Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2014 kl. 19:01

45 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Enn og aftur Axel, málið snýst um lögfesta upplýsingaskyldu lánveitanda, sem ekki er virt, og hvaða áhrif það hefur á framkvæmd lánasamningsins. Umræðunni er snúið á haus þegar menn fjalla um málið frá allt öðru sjónarhorni en málareksturinn snýst um. Lestu nú lögin um neytendalán eins og þau voru sett 1994 og þá færðu kannski einhvern botn í út á hvað málið gengur. Einnig væri gott ef þú kynntir þér (aftur?) svör EFTA dómstólsins við þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar í málinu.

Erlingur Alfreð Jónsson, 30.8.2014 kl. 19:49

46 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Erlingur, viltu ekki vera svo góður að hætta þessum endalausu útúrsnúningum og svara bara þeim spurningum sem beint var til þín?

Sama staglið endalaust bætir engu við umræðuna.

Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2014 kl. 20:06

47 identicon

Eg vil benda á að þó svo að nú sé hægt að taka eða á óverðtryggð húsnæðislán var það hreinlega ekki hægt hér á árum áður. Af því leiddi að þessi meinta "heimska" lántakenda stafaði fyrst og fremst af því að ef fólk ætlaði sér yfir höfuð að "eignast" þak yfir höfuðið tók Það verðtryggð lán.

Verðtryggð neytendalán eru nánast hvergi til á byggðu bóli nema hér. Jú reyndar í Ísrael líka, en þar vara fjármálaráðgjafar lántakendum frá því að taka slík lán.

En sumum finnst allt best á Íslandi, vatnið, lambakjötið o.s.frv. og það er víst ekkert við því að gera. En eftir því sem fleiri hafa sömu skoðanir á verðtryggðum lánasamningum og Axel því ólíklegra að hér verði nokkurn tímann eðlileg ástand á fjármálamörkuðum.

Skúli Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.8.2014 kl. 21:22

48 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Axel, það er greinilega ekki útúrsnúningur af þinni hálfu að beina umræðunni í tal um að fólk sé að bera fyrir sig heimsku þegar það leitar réttar síns? En hvað um það.

Þá að spurningunum sem þú setur fram. 

Erlingur, hvað er óskýrt og tvírætt í samningum um verðtryggð lán? Heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar eru óskýr atriði ef ekki er miðað við mælda verðbólgu við gerð samningsins. Samningurinn er því ekki ótvíræður varðandi þessi mikilvægu atriði.

Er það að ekki sé reiknað með einhverri ákveðinni verðbólguprósentu?  Er það að ekki sé reiknað með einhverri ákveðinni verðbólguprósentu?  Ef sett væri inn 5% verðbólguspá út lánstímann, en verðbólga yrði 4% að meðaltali, væru upplýsingarnar þá "réttari"? 12. gr. neytendalánalaga eins og þó stóðu frá setningu árið 1994 þar til þeim var breytt síðasta vetur og er líklega sú grein sem gildir um meirihluta gildandi lánasamninga stóð svo:

"Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði breytt til loka lánstímans."

Ég lít því svo á að þar með hafi átt að miða við verðbólgu eins og hún var á þeim tíma sem samningurinn var gerður, og neytandi hafi átt að vera upplýstur um þróun lánsins út frá þeim forsendum. Þetta hefur nú verið skýrt í gildandi útgáfu laganna. Forsendur verðtryggðra samninga voru hins vegar alltaf 0%. Sem ég tel ólöglegt.

Í 14. gr. þessara sömu neytendalánalaga frá 1994 sagði ennfremur: "Nú eru vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindir í lánssamningi og er lánveitanda þá eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Að öðru leyti fer um vexti af neytendalánum samkvæmt ákvæðum vaxtalaga.

Lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar.

Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki ef lánveitandi getur sannað að neytanda hefði mátt vera ljóst hver lántökukostnaðurinn átti að vera. Ef ákvæði 1. eða 2. mgr. leiða til lækkunar eftirstöðva skal neytandi greiða þær samkvæmt samningnum og lækkunin koma fram á síðustu afborgunum."  

Lestu í þessu sambandi Hrd. 672/2012 er varðaði lánssamning sem lánveitandi taldi að hluta verðtryggðan en lántaki var ekki sammála, en þar segir Hæstiréttur í dómsorði í framhaldi af tilvitnun í ofangreinda 14.gr. að "af framangreindu er ljóst að lögin gera ríkar kröfur til skýrleika lánssamninga af þeim toga sem hér um ræðir." Að öðru leyti vísa ég í dómsorð ofangreinds dóms Hæstaréttar þar sem rétturinn gerir kröfur um að orðalag samninga sé skýrt og ótvírætt.

Ef sett væri inn ákveðin verðbólguspá fyrir lánið, yrði þá ekki að setja inn spá um launaþróun skuldarans út lánstímann?  Nei, vegna þess að lög um neytendalán gera ekki kröfu til þess að launaþróun skuldarans sé tilgreind í lánssamningi.

Erlingur Alfreð Jónsson, 30.8.2014 kl. 21:44

49 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Leiðrétting! Tilvitnun í 12.gr. átti að hljóma svo "......að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans."

Biðst afsökunar á þessari misritun sem varð við afritun textans úr PDF skjali. 

Erlingur Alfreð Jónsson, 30.8.2014 kl. 21:50

50 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Erlingur, þetta mál snýst ekki um það hvað þú telur ólöglegt. Dómstólar dæma um það eins og annað. Kannski verður einmitt tekist á um þessa setningu m.a: "Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki ef lánveitandi getur sannað að neytanda hefði mátt vera ljóst hver lántökukostnaðurinn átti að vera."

Málshefjandi mun væntanlega bera því við að hann hafi alls ekki skilið um hvað lánasamningurinn snerist. Sem sagt bera við heimsku og dómstóllinn verður þá að meta hvort það dugi sem rök í málinu. Við skulum vona það þjóðarinnar vegna.

Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2014 kl. 23:47

51 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Eins og málið snýst ekki um hvað ég tel ólöglegt, eins og þú réttilega bendir á, snýst það heldur ekki um heimsku málsaðila. En þú kýst að staglast á því áfram.

Þú virðist líka kjósa að kynna þér ekki lögin, sem um málið gilda, og skyldurnar sem eru lagðar á lánveitanda í þeim, eða lesa tilvitnaðar lagagreinar svo skilningur náist. Þú um það.

En til að sanna að neytandi hafi vitað hver lántökukostnaðurinn átti að vera verður að leggja fram útreikning, enda bar lánveitanda að upplýsa það t.d. árlega hlutfallstölu kostnaðar og hún fæst ekki nema með útreikningi og til þess þarf forsendur. Ekki er hægt að byggja á ætlaðri vitneskju málsaðila heldur einungis því sem sannarlega var lagt fyrir við samningsgerðina.

Og svo endar þú á því að gera málshefjanda upp skoðanir til að styðja við röksemdir þínar um heimsku. Flottur endir hjá þér.

Erlingur Alfreð Jónsson, 31.8.2014 kl. 00:22

52 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þú hættir ekki að koma á óvart, Axel Jóhann.  Kvartar yfir að fólk geti ekki borið fyrir sig heimsku, en þekkir ekki reglur Íbúðalánasjóðs.  Sjóðurinn leyfir ekki að fólk taki lánin með sér.

Svo ég endurtaki það sem ég sagði ofar.  Fólk er fyrst og fremst að velja sér lán með lágri upprunalegri greiðslubyrði.  Vegna þess að greiðsluáætlun sýnir ekki hvernig greiðslubyrðin hækkar með verðbólgu, þá hefur það ekkert annað í höndunum, en að þetta sé greiðslubyrðin.  Réttum upplýsingum er haldið frá lántökum.

Marinó G. Njálsson, 31.8.2014 kl. 14:16

53 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þetta er af heimasíðu Íbúðalánasjóðs, þannig að vel er mögulegt að taka með sér lán sjóðsins: "Íbúðalánasjóður getur heimilað veðflutning við eigendaskipti á íbúð að uppfylltum skilyrðum, sjá umsókn. Ekki þarf að greiða lántökukostnað og stimpilgjöld af veðlánaflutningi. Einungis þarf að greiða gjald fyrir skjalagerð og þinglýsingu."

Væntnlega er fólki gerð grein fyrir því að við lántöku sé það að greiða ákveðið hlutfall launa sinna í afborganir af láninu og að öllu eðlilegu ætti það hlutfall að haldast tiltölulega óbreytt út lánstímann. Eins og áður leyfi ég mér að efast um að nokkur maður fyrirfinnist á landinu sem ekki veit hvernig verðbólga hefur áhrif á verðtryggð lán.

Annars skiptir engu hvað mér og þér finnst réttlátt, sanngjarnt eða eðlilegt við lánakjörin, dómstólar virðast þurfa að taka afstöðu til skilnigs lántakenda á því sem þeir eru að gera og afar fróðlegt verður að sjá þá niðurstöðu.

Axel Jóhann Axelsson, 31.8.2014 kl. 16:54

54 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þar sem þú ert greinilega búin að fatta Axel að til að tjónast ekki af því að skulda vertryggt íbúðarlan verði eiga það og borga af því til loka lánstímans. Finnst þér ekkert bogið við það ?

Guðmundur Jónsson, 31.8.2014 kl. 21:33

55 identicon

Myndi þér líða betur Guðmundur (Ásgeirsson þ.e.a.s.) ef við orðuðum það þannig að því sem er bætt við höfuðstólinn (til að lækka greiðsluna framanaf) sé til helminga afborgunarhlutinn og vextirnir?

Hverju nafni sem við nefnum það þá er hluta af afborguninni (sem ella væri miðað við jafnar afborganir) bætt aftur við höfuðstólinn Það skiptir ekki máli hvort við orðum það þannig að við fáum aukalán fyrir vöxtum eða hvort við fáum aukalán fyrir afborgunum; nettó niðurstaðan er að við fáum aukalán framanaf (okkur er lánað aukalega fyrir hluta af afborguninni sem ella væri). Þetta aukalán er maður svo að borga upp síðari hlutann af greiðsluferlinu.

Ekki missa samt svefn yfir því að geta engan vegin verið sammála því orðalagi að í reynd sé maður að taka lán fyrir vöxtunum; það skiptir ekki öllu máli hvað maður kallar hlutina. Mér finnst skipta meira máli að menn átti sig á að jafngreiðslulán og verðtrygging er alls ekki sami hluturinn. T.d. eru stóru lánin mín jafngreiðslulán en minni lánin með föstum afborgunum þó öll séu þau verðtryggð.

Vaxtaþök og slíkir útúrdúrar eru svo allt annað mál og koma þessu ekkert við.

ls.

ls (IP-tala skráð) 31.8.2014 kl. 22:00

56 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það getur vel verið að ÍLS sé farin að heimila veðflutning, en hann gerði það ekki til skamms tíma nema í algjörum undantekningartilfellum.  Man eftir því að þingmaður fékk að færa lán á milli eigna og varð það að fjölmiðlamáli.  Þegar ég spurði um þetta fyrir nokkrum árum, var allur meinbugur á því og gafst ég upp.

Marinó G. Njálsson, 31.8.2014 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband