Stórmerkileg niðurstaða kosninga í Reykjavík

Margt er merkilegt við niðurstöðu borgarstjórnarkosninganna og þá ekki síst að þrátt fyrir mikinn sigur Samfylkingarinnar dugar hann ekki til að hún og arftaki Besta flokksins geti myndað tveggja flokka meirihluta, þar sem arftakinn beið afhroð miðað við útkomu forverans fyrir fjórum árum.

Miðað við kosningafylgi Samfylkingarinnar verður líklega að telja að hún sjálf hafi í raun fengið mest af fylgi Besta flokksins til sín, enda ekki verið neinn greinanlegur munur á flokkunum tveim á síðasta kjörtímabili.

Önnur stórmerk tíðindi þessara úrslita eru slök niðurstaða Sjálfstæðisflokksins, sem þó er mun skárri en skoðanakannanir gáfu til kynna fram á síðasta dag að flokknum myndi takast að ná.  Flokkurinn mun nokkuð örugglega verða í stjórnarandstöðu í borginni  næsta kjörtímabil og í því hlutverki verður hann að vera ákveðinn og áberandi, en var hvorugt undanfarin fjögur ár og geldur þess núna.

Við meirihlutamyndun í borginni verður VG líklega kippt um borð með Samfylkingu og Bjartri framtíð og verður fróðlegt að sjá hvernig þessum flokkum mun ganga að vinna saman, þar sem ekki er líklegt að Sóley Tómasdóttir verði eins fylgispök við Dag B. Eggertsson og Gnarrinn hefur verið undanfarin ár.

Einna merkilegustu tíðindi kosninganna eru þó líklega útkoma Framsóknarflokksins, sem margfaldaði það fylgi sem skoðanakannanir spáðu honum aðeins örfáum dögum fyrir kosningar og verður að skrifa þann sigur á gríðarlegar árásir vinstri manna á efsta mann Framsóknar á öllum vígstöðvum dagana fyrir kosningar.  Þessar ofboðslegu og illvígu árásir gerðu flokkinn svo áberandi að kosningarnar voru að stórum hluta farnar að snúast um Framsóknarflokkinn og aðrir komust varla að með sín málefni.

Við fyrstu sýn virðist Samfylkingarfólk og fréttamenn ljósvakamiðlanna því hafa misst meirihlutann í borginni með sínum illvíga málflutningi um Framsóknarflokkinn, en tryggt honum sinn stærsta kosningasigur í fjörutíu ár.

Þar feilreiknuðu vinstri menn sig illilega á lokadögum kosningabaráttunnar. 


mbl.is Meirihlutinn fallinn í borginni - lokatölur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Held líka að fjöldi fólks hafi hafnað meirihluta vegna flugvallarmáls. Og hampað Frammsókn útaf sama.

Næsti meirihluti þarf að endurskoða það mál á næsta kjörtímabili.

Það er ekki nóg að setja bót í gatið, og halda svo eyðilegginguni áfram.

Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 1.6.2014 kl. 08:14

2 identicon

Sammála Birgi - það er athygivert að fulltrúi Samfylkingar á Akureyri sagði að þeir vildu flugvölinn áfram í Vatnsmýrinni - en samflokksmenn hans í Reykjavík vildu hann burt.

Einnig verð ég að segja að manni ofbauð framkoma gangvart fulltrúra framsóknar. Þó ég sé ekki framskóknarmaður. það var augljóst að meðstjórandi Lóu Pindar í stóru málunum hafði ekki mikið áltit á fulltrúa framsóknar - , hann greip stöðugt fram í og heimtaði skýringar - og var ruddalegur - það hefði verið í lagi ef allir hefðu fengið sömu meðferð frá honum.

Lara (IP-tala skráð) 1.6.2014 kl. 09:20

3 identicon

Hárrétt greining

Það var bara ekki ástæða til að beina umræðu um þessa einföldu lóðaúthlutun
í ofsafenginn hræðsluáróður gegn kynþáttafordómum
og það gaf viðkomandi flokkum bakslag
því sumir hafa enn sjálfstæða hugsun

Grímur (IP-tala skráð) 1.6.2014 kl. 09:30

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki má heldur gleyma alvarlegustu tíðindum þessara kosninga, þ.e. hve kosningaþátttaka er lítil. Mjög sennilega eru það yngstu kjósendurnir sem ekki skila sér á kjörstað og þá vegna áhugaleysis á stjórnmálum. Allir flokkar verða að leita leiða til að vekja þann áhuga, ef lýðræðið á að lifa af til langrar framtíðar, því það er auðvitað spurning um lýðræði ef þróunin nær því að minnihluti kosningabærs fólks mæti á kjörstað og ráði þannig öllum málum fyrir meirihlutann.

Annað sem kemst í annála í sambandi við þessar kosningar er hvað RÚV tókst að gera kosningasjónvarpið leiðinlegt, að ekki sé minnst á allt klúðrið með tölvutæknina.

Enn eitt sem setti mark sitt á kosninganóttina var talningarklúðrið í Reykjavík, misvísandi skilaboð annarra og þriðju talna sem birtar voru og svo hin langa og stranga bið eftir lokaniðurstöðunni stórmerku.

Axel Jóhann Axelsson, 1.6.2014 kl. 11:52

5 identicon

Ég tek fram að ég sá ekki umræddan þátt með Lóu Pind sem Lara vísar til.

En umræðan um kynþáttafordóma, rasisma, er í besta falli barnaleg og fellur um sjálfa sig á skilgreiningarvanda. Múslimar eru ekki kynþáttur og að tala um trúarbrögð sem slík, að vita ekki betur, gengisfellir að mínu áliti sjálfkrafa alla þá sem taka þátt í slíkri umræðu. Það er engin leið að taka þátt í slíkri umræðu; það svipar til að ræða um knattspyrnu og vísa til reglna í handknattleik.

Svo var einhver sem benti svo réttilega á að þessi umræða væri hvorki umræða um kynþætti né trúarbrögð heldur réttinn til skoðana og tjáningar.

Sjálfstæðisflokkurinn, með sína 3 karla í efstu sætum, hefði betur fléttuskipt listanum og gert Hildi og hinar efstu konurnar meira áberandi. Ég hef trú á Halldóri því hann gerði góða hluti á Ísafirði en kynning flokksins og reyndar allra framboða á mönnum og málefnum fór algerlega fyrir ofan garð og neðan. Eina sem sást var mynd af efsta manni Samfylkingar. Ég hef trú á að Framsókn hafi fengið nokkur prik fyrir að hafa haft konur í efstu sætum. Þó er rétt að gæta jafnræðis í báðar áttir.

Afhroð B(v)ersta flokksins, arftaka hans, endurspeglast í persónufylgi manns sem telur sig grínara en er að mínu mati óskaplega leiðinlegur. Um leið og hann hvarf af sviðinu og ljósin slokknuðu, hvarf fylgið.

Kosningaþátttakan fannst mér endurspeglast í lélegri kynningu flokkanna og kjörstjórnar á kosningunum yfirhöfuð. Ég tók eftir því fyrir helgi að margir sem vinna með mér gerðu sér ekki grein fyrir hvenær kosningarnar yrðu/voru.

Nonni (IP-tala skráð) 1.6.2014 kl. 16:10

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Hægt er að taka undir flest, eða allt, sem þú segir um málið Nonni.

Axel Jóhann Axelsson, 1.6.2014 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband