Verður er kennarinn launa sinna

Framhaldsskólakennarar hafa verið í verkfalli undanfarna daga til að knýja á um kjarabætur stéttarinnar og útlit er fyrir verkföll fleiri félaga ríkisstarfsmanna á næstu mánuðum.  

Flest, eða öll, félögin benda á að "aðrir" hafi fengið meiri hækkanir en þeirra eigin félagar og því þurfi að "leiðrétta" launabilið á ný og þannig ganga kaupin á eyrinni varðandi kjarabaráttuna árum og áratugum saman.  

Ekkert stéttarfélag getur unað öðru að fá meiri launahækkun en það sjálft og því gengur kjarabaráttan nánast eins fyrir sig árum og áratugum saman, þrátt fyrir fögur fyrirheit um að lægstu laun skuli hækkuð umfram önnur, en þegar til á að taka sættir sig enginn við minni hækkun en "aðrir" hafa fengið.

Hvað sem öðru líður er kennarastarfið með þeim mikilvægustu í þjóðfélaginu og menntun að verða sífellt nauðsynlegri hverjum manni til að takast á við lífið í æ flóknara og tæknivæddara þjóðfélagi. Í hverju starfi eru gerðar sífellt meiri og meiri  kröfur um menntun og hver sá sem heltist úr skólalestinni á sífellt minni möguleika á góðu framtíðarstarfi.

Kennarar eiga því og þurfa að fá góð laun fyrir sín störf og á móti á og verður að gera miklar kröfur til þeirra, enda ábyrgðin mikil á að skila unga fólkinu út í lífið tilbúið til að takast á við lífið og tilveruna án vandkvæða.

Kennaranámið ætti að vera ekki síðra eða minna í það lagt en t.d. læknanám og vera launað í samræmi við það.   


mbl.is Samingur til 2½ árs líklegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ertu á þeirri skoðun að þjóðfélagið hafi efni á þessu? hvort er mikilvægara í þínum huga menntakerfið eðe heilbrigðiskerfið?ég bara spyr, horfðu á allan þann niðurskurð ,sem landsbyggðin hefur þurft að þola,hvort skyldi nú vera mikilvægara? og að bera saman lækna og framhaldsskólakennara, jæja ég er ekki sammála þér.

sveinn Zophoniasson (IP-tala skráð) 24.3.2014 kl. 23:26

2 identicon

Sæll.

Ef stytta á stúdentsprófið um 1 ár er þá hugmyndin að gera kröfur um færri einingar? Vill ríkið þá að nýja stúdentsprófið verði 75% af því sem það er núna? Eða vilja menn að sami einingafjöldi sé á bak við 3 ára stúdentspróf og er á bak við 4 ára stúdentspróf? Þetta er algert grundvallaratriði sem ég heyri því miður engan tala um. Ætli Illugi skilji málið?

Fyrir um 40 árum voru framhaldsskólakennarar og þingmenn með sömu laun. Hvernig er þeim málum háttað nú? Af hverju skyldu framhaldsskólakennarar ekki vera ósáttir?  

Helgi (IP-tala skráð) 25.3.2014 kl. 06:44

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Með því að leggja kennara- og læknastéttina að jöfnu hér að ofan var hreint ekki verið að gefa í skin að hægt væri að jafna kjör þeirra í einu vetfangi, eða í einum kjarasamningum. Slíkt þyrfti að vera langtímamarkmiðið og tæki að sjálfsögðu einhver ár að ná þeim áfanga.

Eins og ástandið er núna í þjóðfélaginu þarf og verður að endurreisa heilbrigðiskerfið fyrst af öllu, en því miður er ekki skilningur á því alls staðar og óþolinmæðin að taka völdin víða, enda greinilega mikið traust borið til ríkisstjórnarinnar um að hún geti unnið kraftaverk í viðreisn þjóðfélagsins eftir hrunið, þó fyrri ríkisstjórn tækist það ekki á fjórum árum.

Hvað styttingu náms til stúdentsprófs varðar, þá hef ég hvergi heyrt að námsmagnið sjálft eigi að minnka, heldur eigi að ljúka yfirferð yfir sama námsefni á þrem árum í stað fjögurra eins og nú er.

Axel Jóhann Axelsson, 25.3.2014 kl. 09:12

4 identicon

@3: Sæll.

Ég stórefast um að fækka eigi einingum á bak við stúdentspróf með því að stytta námið. Hef þó ekki séð neitt um það.

Eftir stendur þá að fara þarf yfir sama námsefni á skemmri tíma sem hlýtur eiginlega að kalla á lengingu skólaársins. Það þýðir að kennarar þurfa að vinna lengur. Ég get þá ekki séð að um launahækkun yrði að ræða heldur yrði meiri vinna keypt af þeim. Hærra kaup fyrir meiri vinnu er ekki það sama og launahækkun. Sumir virðast ekki fatta það.  

Eftir stendur að alls kyns óþarfar stéttir hafa farið framúr kennurum hvað laun varðar og krafa þeirra, og annarra stétta sem vinna mikilvæg störf, um leiðréttingu launa er skiljanleg. Margir opinberir starfsmenn eru fullkomlega gagnslausir. Af hverju að hafa Byggðastofnun? Af hverju á ríkið að skipta sér að því hvar er byggð og hvar ekki? Er fólki ekki treystandi til að ákveða hvar það býr? Vita stjórnmála- og embættismenn betur?

Þú nefnir heilbrigðiskerfið. Ég er sammála þér að nauðsynlegt er að endurreisa það. Vandinn er hins vegar sá að hérlendis ríkir læknaskortur þó ekki megi tala um hann. Lausnin er að hleypa einkaframtakinu að. Ef sumir eiga pening og vilja borga fyrir einhverja þjónustu heilbrigðisstétta á einkasjúkrahúsi eða á einkastofu á að leyfa þeim það. Slíkt gagnast öllum, biðlistar hjá hinu opinbera munu styttast. Fjölmörg störf gætu orðið til.

Besta leiðin til að koma okkur úr þeim hjólförum sem við erum í í dag er að skera hraustlega niður hjá ríkinu og byrja á stjórnsýslunni. Þingmenn hér eru um 5x fleiri per íbúa en á Norðurlöndunum. Þingmönnum má fækka. Sömuleiðis á að leggja niður störf allra aðstoðarmanna þingmanna og ráðherra. Ef þetta fólk vill aðstoðarmenn borgar það fyrir þá úr eigin vasa. Ég á ekki að þurfa að borga fyrir það að einhver þingmaður eða ráðherra veit ekkert um eitthvað málefni og þarf að finna gögn um það - það er verk viðkomandi en ekki aðstoðarmanna.

Svo má leggja niður ýmis ráðuneyti. Halda menn t.d. að fólk hætti sækja sér menntun og kennarar hætti að kenna ef menntamálaráðuneytið yrði lagt niður? Auðvitað ekki. Þar sparast talsverður peningur. Sömu sögu má t.d. segja um efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Menn áttu viðskipti hver við annan og sóttu sér menntun áður en þessi ráðuneyti voru sett á laggirnar. Skera þarf niður fjárlög ríkis og sveitarfélaga um 20% á ári næstu 5 árin eða svo. Sömuleiðis þarf að fækka reglum eins og að leggja niður miðlægar námskrár - skólarnir sjá um að búa sér til slíkar.

Lækka þarf alla skatta verulega, ég legg til 9% tekjuskatt, 9% fyrirtækjaskatt og 9% vsk. Með þetta lágum sköttum myndum við sjá einkageiran blómstra og erlend fyrirtæki myndu sækja í að koma hingað vegna lágrar opinberrar álagningar. Þó Laffer kúrfan sé kannski ekki vísindi er öruggt að skatttekjur hins opinbera myndu aukast verulega með lækkun álagningarprósentu - fjölmörg dæmi héðan og erlendis frá sína fram á sannleiksgildi þess. Atvinnuleysi myndi hverfa eins og dögg fyrir sólu við verulega skattalækkun og laun myndu hækka.

Vandinn er sá að ef þessi leið yrði farin hafa stjórnmálamenn úr minna fé að spila til að kaupa sér atkvæði og skipta sér að - þeir vita jú betur en aðrir. Það vilja þeir ekki og því munum við lenda í þjóðargjaldþroti innan ekki svo margra ára. Það mun kosta mannslíf :-(

Helgi (IP-tala skráð) 26.3.2014 kl. 08:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband