Banna þetta og banna hitt, vegna þess að fólk er fífl

Nefnd forsætisráðherra um afnám verðtryggingar virðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar séu fífl upp til hópa og hafi ekki gripsvit á fjármálum fyrst þeir hafi komið sér upp húsnæði á undanförnum áratugum með því að taka til þess verðtryggð lán.

Langtímalán án verðtryggingar, hvorki til húsnæðiskaupa eða annars,  hafa varla verið í boði síðastliðin þrjátíuogfimm ár og ef draga ætti ályktanir af niðurstöðu nefndarinnar og margra annarra, sem tjáð hafa sig um málið, ætti hver einasti maður sem húsnæðislán hefur  tekið á þessum tíma að vera gjaldþrota og búa á götunni eða í tjöldum einhversstaðar.

Staðreyndin er auðvitað allt önnur og flestir sem tóku verðtryggð húsnæðislán á upphafsárum þeirra eru löngu búnir að greiða þau upp og eiga nú íbúðarhúsnæði sitt skuldlaust, eins og t.d. upplýsingar frá skattstjóra hafa sýnt þegar veittar eru upplýsingar um eignir og skuldir landsmanna.

Nú orðið er farið að bjóða upp á óverðtryggð íbúðalán og ef marka má fréttir hefur eftirspurn eftir þeim minnkað, vegna þess að greiðslubyrði verðtryggðu  lánanna eru lærgi í upphafi lánstímans og afborganir jafnari allan lánstímann.

Nefndin nefnir fjörutíuára jafngreiðslulánin "eitraðan kokkteil" vegna þess að á lánstímanum greiðir skuldarinn mun meira til baka en sá sem tekur tuttuguogfimm ára lán.  Þetta hefur auðvitað verið viðtað frá því að byrjað var að veita þessi lengri lán og var mikið um þau ritað og rætt á sínum tíma, en flestir húsnæðiskaupendur valið þau þrátt fyrir þá vitneskju.

Nú er lagt til að lengstu lánin verði bönnuð og mismunun tekin upp varðandi  vaxtabætur eftir lánsformum húsnæðislána.  Varla mun slík mismunun standast mannréttindaákvæði stjórnarskrár, enda gjörsamlega galið að gera tillögu og þannig framkomu við landsmenn.

Það er merkilegur hugsunarháttur að hafa ekkert merkilegra fram að færa í tillögugerð um húsnæðislán en að allir skuli taka nákvæmlega eins lán til ákveðins lánstíma og sæta mismunun við álagningu  opinberra gjalda ella.

Þrátt fyrir að nefndin virðist álíta að fólk sé almennt ekki með fullu viti er alveg óhætt að mótmæla því og leyfa sér að fara fram á að lántakendur fái sjálfir að ákveða hvaða lánsform þeir kjósi sér og eins verði lánstíminn samningsatriði milli lánveitanda og lántakanda.

Versta niðurstaða málsins yrði EITT RÍKISLÁN fyrir alla, eins og fræg persóna Ladda myndi segja. 

 


mbl.is Hægt að afnema verðtrygginguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

FJÖRUTÍUÁRA 3 MILJ. KR. LÁNIÐ MITT BORGAST EKKI NIÐUR- ÞAÐ HÆKKAR- UPPP ! BARA FRAMLENGJA UM ÖNNUR 40 ÁR SAGÐI TUGGUSMJATTANDI GÚRÓ HJÁ hÚSNÆÐISSTOFNUN- AFBORGUN AF LÁNINU ER 450 KR. PR MÁN. VEXTIR OG VERÐBÆTUR UM 35 ÞÚS. GERI MAFIAN BETUR !

Erla Magna Alexandersdóttir, 27.1.2014 kl. 21:01

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Anuietslán byrja yfirleitt ekki að lækka fyrr en eftir miðjan lánstímann. Höfuðstóll verðtryggðra lán hækkar með verðbólgunni en til lengri tíma litið hækka laun meira en neysluverðsvísitalan, þannig að greiðslubyrðin helst nokkuð stöðug yfir lánstímann þó einstaka sveiflur geti þó orðið. Yfir allan lánstímann jafnar þetta sig þó.

Það er hins vegar vitað að því lengri sem lánstíminn er, því hærri verður endurgreiðslan að lokum. Það segir sig sjálft.

Axel Jóhann Axelsson, 27.1.2014 kl. 21:21

3 identicon

Axel, eins og þú sérð á pósti Erlu þá hefur nefndin rétt fyrir sér; Íslendingar eru fífl upp til hópa og hafi ekki gripsvit á fjármálum. Og lausnin verður að ríkið rekur húsnæðiskerfið gegnum skattakerfið. Lánin hætta að skipta máli en ríkið dælir út styrkjum og vaxtabótum til að stýra húsnæðiskaupum landsmanna.

Oddur zz (IP-tala skráð) 27.1.2014 kl. 21:52

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ekki banna. Heldur hætta að leyfa. Þú skilur það kannski eftir smá útskýringar:

Verðtrygging er aðeins heimiluð með tveimur lagagreinum, og ströngum skilyrðum.

Önnur verðtrygging en þar er heimiluð, er annars bönnuð. Þannig eru lögin.

Í þessum tveimur lagagreinum er hvergi leyft að vísitölutengja höfuðstól lána.

Það eina sem þarf er að framfylgja lögunum og hætta að heimila brot á þeim.

En það er oft einfaldleikinn sem fólk á hvað erfiðast með að skilja.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.1.2014 kl. 22:15

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það er mjög fróðlegt að nota Lánareiknivél Landsbankans til að skoða myndrænt greiðslubyrði mismunandi 40 ára og 25 ára lána.

Á línuritum sem birtast sést hvernig eftirstöðvar breyatst og hvernig greiðslubyrðin breytist. Við sjáum t.d. hve eignamyndun er hæg þegar 40 ára verðtryggt lán er tekið.

http://www.landsbankinn.is/einstaklingar/reiknivelar/fasteignalan/

http://www.landsbankinn.is/fyrirtaeki/reiknivelar/lanareiknir/

Flriri reiknivélar eru hér:

http://www.landsbankinn.is/einstaklingar/reiknivelar/

Ágúst H Bjarnason, 28.1.2014 kl. 08:41

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ágúst, eins og áður sagði hafa þessar reiknivélar verið til hjá bönkunum frá því að byrjað var að lána til fjörutíu ára, þannig að allir hafa getað reiknað út mismuninn á 25 og 40 ára lánunum. Þrátt fyrir það hafa flestir valið 40 ára lánin fullkomlega meðvitað um þennan mismun.

Nú getur fólk valið um verðtryggð og óverðtryggð lán og hvers vegna ætti ríkið þá að ákveða fyrir fólk lánstíma og lánategund?

Axel Jóhann Axelsson, 28.1.2014 kl. 11:09

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já ég man eftir þessum reiknivélum. Þeim sem bankarnir notuðu sjálfir til að útbúa greiðsluáætlanir sem miðuðust við 0% verðbólgu og héldu þannig kostnaðinum við verðtrygginguna leyndum fyrir neytendum. Ég man vel eftir þeim reiknivélum.

Þær greiðsluáætlanir sem settar voru fram í lánssamningum voru hinsvegar nánast án undantekinga ólöglegar, og í mörgum tilvikum var jafnvel aldrei gerð nein greiðsluáætlun, sem er ennþá ólöglegra. Þess vegna eru þetta ólöglegir lánasamningar.

Ólöglegt lán verður ekki löglegt þó einhver "hafi kunnað mátt og kannski getað" reiknað þetta út sjálfur. Lögmætið byggist á því að bankinn á að reikna þetta og kynna fyrir viðskiptavininum. Ef hann gerir það ekki eða veitir villandi upplýsingar er það ólöglegt. Um þetta gilda lög hér á landi og hafa gert það í meira en tuttugu ár. Nú er kominn tími til að fara eftir þeim.

Kannski á fólk ekki eftir að ná þessu, frekar en fyrri daginn, nema það fái leiðbeiningar um það frá EFTA-dómstólnum. En sem betur fer þá er það allavega komið þangað til úrlausnar og við þurfum ekki að sannfæra núverandi ríkisstjórn um að það geti ef til vill verið skynsamlegast að fara einmitt dómstólaleiðina með þetta.

P.S. Heimsmetið í skuldaleiðréttingu á ennþá: Hæstiréttur Íslands.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.1.2014 kl. 17:54

8 identicon

Þarf þetta að vera eitthvað flókið

Lán eiga að miðast við laun

svo fólk geti gert raunhæfar áætlanir

Þetta er alveg hægt - laun alþingismann miðust einu sinni við laun menntaskólakennara

afhverju var sú tenging tekin af? 

Grímur (IP-tala skráð) 28.1.2014 kl. 18:49

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Guðmundur, er ekki rétt að dómstólar ljúki sinni umfjöllun um málið áður en eitthvað verður fullyrt um lögmætið.

Hvað reiknivélarnar varðar, þá var hægt að setja inn áætlaða verðbólgu í þær og sjá hvernig útkoman breyttist miðað við mismunandi verðbólguspár.

Það er ódýr eftiráskýring að halda því fram að maður hafi tekið lán sem maður hafi ekki haft nokkurt vit til að taka og enga getu eða vilja til að borga.

Axel Jóhann Axelsson, 28.1.2014 kl. 19:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband