Hvað tekur "vandleg íhugun" langan tíma?

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir að kauptilboð Huangs Nubo í jörðina Grímstaði á Fjöllum þarfnist "vandlegrar íhugunar" af sinni hálfu, enda þyrfti að gefa undanþágu frá Íslenskum lögum til að maður frá svo framandi landi, sem Kína er, fái að kaupa íslenska landareign.

Erlend fjárfesting er það sem einna mest skortir nú um stundir í íslenskt atvinnulíf og því ætti allur áhugi erlendra fjárfesta á eflingu ferðaþjónustunnar að vera fagnaðarefni, sem og á flestum öðrum sviðum, nema ef vera skyldi í sjávarútvegi.

Ögmundur varpar fram eftirfarandi spurningu: "Þetta þurfum við að ræða og ekki kyngja ómelt, væri okkur sama ef landið væri allt selt með þessum hætti?"  Fram að þessu hefur ríkisstjórnin verið með miklar meltingartruflanir í sambandi við allt sem snýr að atvinnuuppbyggingu í landinu og minnkun atvinnuleysisins, þannig að ekki er við öðru að búast en að langan tíma geti tekið að koma þessum bita alla leið í gegn um meltingarveg Iðnaðarráðuneytisins.

Miðað við að Kínverjar skipuleggja mál yfirleitt í áratugum er sjálfsagt hægt að reikna með að Huang Nubo hafi þolinmæði til að bíða venjubundnar meltingartruflanir stjórnsýslunnar íslensku í talsverðan tíma. 


mbl.is Þarf að fara vandlega yfir kauptilboð Huangs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það er reyndar athyglisvert í þessu máli og Magmamálinu, að þeir sem umræðir, leita ráðgjafar í ráðuneytum Össurar Skarphéðinssonar, sem eru báðum tilfellum ,,röng" ráðuneyti, eða ráðuneyti sem ekki hafa með málaflokkinn að gera.

Kristinn Karl Brynjarsson, 28.8.2011 kl. 15:05

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Það verður nokkuð áhugavert að fylgjast með hvernig ESB andstæðingar tækla þetta mál því hver er munurinn að selja landið og missa yfirráð þar með eða ganga inn í bandalag á sínum forsendum ?

Jón Ingi Cæsarsson, 28.8.2011 kl. 15:24

3 identicon

Rikid aetti ad kaupa og endurleigja kallinum. Med skilmalum ad sjalfsogdu...

Tha naest verkid, og atvinnan med, og fjarmognun oll ad utan. Svona stort apparat skapar mjog morg storf.

Thad er ad segja....ef hann vill....

Jon Logi (IP-tala skráð) 28.8.2011 kl. 17:01

4 Smámynd: Ólafur Ólafsson

Ég er á móti því að útlendingar geti keypt land, jarðir og fasteignir...

kv.

Óli

Ólafur Ólafsson, 28.8.2011 kl. 18:22

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Athyglisvert sjónarmið hjá Jóni Inga að það teljist vera sala á landinu eins og það leggur sig að innlima landið í ESB. Það er nú reyndar alveg í takt við það sem andstæðingar innlimunarinnar hafa alltaf haldið fram og því kemur þessi yfirlýsing úr nokkuð óvæntri átt.

Axel Jóhann Axelsson, 28.8.2011 kl. 18:56

6 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Er þetta ekki sjónarmið sem haldið er fram að þannig sé það ef Ísland gangi í ESB. Afsal á sjálfstæði og auðlindum...en ekki hafa það þannig að það sé eitthvað sem ég er sammála.

Hvernig viljum við að innanríkisráðherra bregðist við þegar kemur tilkynning um að japanskur auðmaður hafi keypt Reynihlíð og Skútustaði ? Er það ekki flott mál fyrir nógu hátt verð og mikinn gjaldreyri ??

Jón Ingi Cæsarsson, 28.8.2011 kl. 20:28

7 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Kaupin er nú ekki gengin í gegn, þó svo að eflaust sé búið að ganga frá viljayfirlýsingu varðandi kaupin.  Sá kínverski stofnar eflaust íslenskt félag um Grímsstaði, eða EES-skúffufélag, verði eitthvað bras að fá undanþáguna. 

Hefði og ef spurningum er reyndar erfitt að svara.  En ef að svona yrði daglegur viðburður, þá yrðu viðbrögðin líklega í líkingu við það, þegar auðmennirnir tíu, eða hvað sem voru margir, óskuðu eftir íslensku ríkisfangi í skiptum fyrir að fjárfesta um allar koppagrundir.......

Kristinn Karl Brynjarsson, 28.8.2011 kl. 21:08

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Skiptir einhverju máli hvort fjárfestar eri lkínverskir, japanskir, bandarískir. afrískir eða evrópskir. Eins og staðan er í dag, vegna EES, hafa Evrópubúar í raun einkarétt á fjárfestingum hér á landi og ekki mun innlimun í ESB auðvelda fólki utan stórríkisins aðkomu að fjárfestingum hér á landi.

Annars eru Össur og Magma reyndar búin að finna leið fram hjá þessum reglum og sjálfsagt eiga fleiri eftir að nýta sér lagasmuguna, sem Össur benti Magmamönnum á.

Axel Jóhann Axelsson, 28.8.2011 kl. 21:15

9 identicon

Axel Jóhann blessaður. Ágætt að ympra á þessu. Mér finnst vafasamt að líta aðeins á þetta sem einfalda fjárfestingu í túrisma og aðrir langtímahagsmunir gæti legið að baki sem ég beni á hér að neðan. Mér finnst einnig að landsvæðið sem hann fer fram á sé óeðlilega stórt. Hótel þarf aðeins fáeina hektara.

Þarna sammt frá verður hugsanlega við ströndina hafnaraðstaða fyrir norðursiglingar frá Asíu og svæðið er hernaðarlega mikilvægt og getur orðið enn frekar þegar af ýmsum ástæðum línur skerpast milli á Kína og vestrænna ríkja. Það sjá menn þegar að muni gerast.

Það má ekki vera með glannaskap í þessu sambandi, kínverjar hugsa stórt og hafa hagsmuni sem við þurfum að skilja. Það er einnig afar ólíklegt að Huang þessi sé einn um þetta plan. Við þurfum því að líta á þetta frá öryggissjónarmiði einnig því Ísland verður aftur hernaðarlega mjög mikilvægt ef norðursiglingar hefjast þó ekki væri nema stuttan ríma á ári.

Annað atriði er að hringvegurinn liggur um svæðið sem er braut til mikilvægra hafna og öryggismannvirkja.

Guðmundur Pálsson (IP-tala skráð) 28.8.2011 kl. 21:29

10 identicon

Mér finnst mikilvægt og umhugsunarvert að setja þessi landakaup í samhengi við þau kaup sem Kínverjar hafa staðið í í öðrum löndum hins síðustu ár.  Það er einhver ástæða fyrir því að þeir eru að ná yfirtökum á landi, auðlindum, nýtingarrétti o.s.frv. í öðrum löndum.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 28.8.2011 kl. 22:57

11 identicon

Góður punktur H.T. Bjarnason.

Kaup Kínverja á heiminum eru varhugaverð - eins og ESB.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 29.8.2011 kl. 08:44

12 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég hef margoft bent á það hér á blogginu að Kína sé rísandi heimsveldi sem muni stjórna öllu sem það vill eftir nokkra áratugi, eða a.m.k. ekki seinna en á síðari hluta aldarinnar. Kínverjar eru að leggja undir sig heiminn með peningum, en ekki hervaldi, og það geta þeir gert með því að halda lífskjörum almennings heimafyrir niðri, en hirða allan arð í ríkissjóð, sem síðan er nýttur til uppkaupa á eignum- og skuldum heimsbyggðarinnar.

Kínverjar eiga nú þegar megnið af skuldum Bandaríkjanna og eru byrjaðir að kaupa ríkisskuldabréf Evrópuríkja í stórum stíl, ásamt því að kaupa lönd og fyrirtæki um allar jarðir í nafni kínverskra "einkafjárfesta", sem skyndilega hafa brotist frá örbirgð til ofsaríkiæmis á undra skömmum tíma.

Kínverjarnir koma og þess vegna hefur einnig verið lagt til, bæði í gamni og þó ekki síður til að benda á alvöru málsins, að kínverska verði tekin upp sem skyldufag í barnaskólum landsins, til að undirbúa æskuna fyrir störf fyrir herraþjóð framtíðarinnar.

Miðað við undirtektir við þessum bloggum er andvaraleysið mikið í þessu efni og greinilegt að almennt er fólk ekki búið að átta sig á kínversku aðferðinni til heimsyfirráða.

Axel Jóhann Axelsson, 29.8.2011 kl. 09:57

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nákvæmlega, Axel. Fólk er ekki búið að átta sig og það sem meira er; ríkisstjórnin er ekki búin að átta sig að undanskildum Ögmundi.

Árni Gunnarsson, 29.8.2011 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband