Dómstóll götunnar og fjölmiðla dæmir án nokkurra málsgagna

Dómstóll götunnar og fjölmiðla var ekki lengi að dæma sýslumanninn á Selfossi til opinberrar hýðingar, embættis- og ærumissis, ásamt ævilangrar útskúfunar úr samfélagi manna, fyrir að úrskurða barnaníðing ekki í gæsluvarðhald á meðan að á rannsókn misgjörða hans fór fram.  Sýslumaðurinn lét þetta yfir sig ganga þangað til í dag, enda skipta málsbætur, eða málsástæður yfirleitt, dómstól götunnar og fjölmiðla aldrei nokkru einasta máli.

Loksins í dag, eftir að Héraðsdómur og Hæstiréttur hafa fjallað um málið, sendi sýslumannsembættið frá sér skýringar á málinu og segir í þeim m.a:  "Settur saksóknari kaus að lýsa því, við flutning kröfunnar fyrir Héraðsdómi Suðurlands, sem mistökum Lögreglustjórans á Selfossi að hafa ekki gert kröfu um gæslu yfir meintum geranda. Þetta gerir saksóknarinn vitandi vits að óformleg samskipti höfðu farið fram milli embættanna um mögulega gæsluvarðhaldskröfu bæði við upphaf máls, þegar upplýsingar um myndefnið lágu fyrir og við ábendingar barnaverndarnefndar Vestmanneyja í mars s.l. Niðurstaða þeirra samskipta var samdóma álit um að ekki skyldi krefjast gæsluvarðhalds. Ábyrgðin á þeirri ákvörðun er hinsvegar lögreglustjórans."

Þessar og aðrar skýringar og athugasemdir sýslumannsembættisins munu auðvitað engu máli skipta héðan af, því dómstóll götunnar og fjölmiðla hefur þegar kveðið upp sinn dóm og honum er ekki hægt að áfrýðja til neins æðra dómstigs og sama hve vitlausir og fljótfærnislegir dómar eru kveðnir upp af þessum aðilum, þá viðurkenna þeir aldrei nein mistök og þeir sem nánast líflátsdóma hljóta frá þeim eiga sér því yfirleitt engrar uppreisnar von.

Réttlát málsmeðferð er óþekkt hugtak hjá dómstóli götunnar og fjölmiðla. 


mbl.is Fagnar staðfestingu Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já er þetta ekki frábært, að leyfa barnaníðing að ganga lausum á meðal barna... til að vernda þolanda fyrir fréttaflutning.
Alger snilld eða hitt þó heldur; Þetta væri hlægilegt ef þetta væri ekki svona sorglega heimskt

DoctorE (IP-tala skráð) 29.6.2011 kl. 20:07

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Er ekki sorglega heimskt, að um leið og afbrotamaður játar sök, þá er honum sleppt úr haldi og getur þá haldið brotunum áfram óáreittur, a.m.k. um tíma? Er það ekki líka sorglega heimskt, að þegar búið er að dæma menn til fangelsisvistar, skuli þeir þurfa að bíða eftir afplánun í allt að fjögur ár?

Er ekki sorglega heimskt að dómstóll götunnar og fjölmiðla skuli reyna að gera sýslumanninn að sakborningi í málinu fyrir að hafa ekki dæmt manninn í gæsluvarðhald "vegna almannahagsmuna", í stað þess að gagnrýna að rannsókn þessa, að því er virðist einfalda máls, skuli taka tæpt ár og jafnvel ekki búið að gefa ákæruna út ennþá?

Axel Jóhann Axelsson, 29.6.2011 kl. 20:14

3 identicon

Segjum sem svo að þú sért sýslumaður, það kemur svona mál inn á borð til þín; Myndir af manninum nauðga barni, samstarfsmenn þínir segja sem svo: Hey verndum barnið gegn fréttaflutning, látum gaurinn ganga lausann...

Hvað gerir þú?
1 Segir þeim að þeir séu klikkaðir og krefst þess að maðurinn verði tekinn til að vernda barnið og börn almennt í hans umhverfi.
2 Ha, já ok gerum það.. dúllum okkur í málinu, förum eins hljótt og mögulega með það að það sé barnaníðingur í bæjarfélaginu

Hver sá sem vissi eitthvað um hvað var þarna í gangi bar skylda til að gera ALLT sem mögulegt var til að taka manninn úr umferð, þögnin er besti vinur níðingsins.
Hvað gerði þessi maður af sér á meðan lögregla og sýslumaður voru í feluleik með þetta mál... þetta er mjög alvarlegt

DoctorE (IP-tala skráð) 29.6.2011 kl. 20:15

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ef ég hefði verið sýslumaður hefði ég óskað eftir gæsluvarðhaldi á meðan á rannsókn málsins stæði, til að "vernda rannsóknarhagsmuni", setja rannsókn málsins í algeran forgang og gefa út ákæru áður en gæsluvarðhaldstíminn rynni út og óskað flýtimeðferðar fyrir dómi.

Ég man ekki eftir nokkru einasta máli, nema morðmáli, þar sem sakborningar eru látnir sitja í gæsluvarðhaldi mánuðum og árum saman á meðan mál eru til rannsóknar og fyrir dómi. Ekki einu sinni grófustu kynferðisafbrotamálum, né barnaníðingsmálum. Því er afar ólíklegt að maðurinn sæti ennþá í varðhaldi, miðað við þennan seinagang við rannsókn og útgáfu ákæru.

Axel Jóhann Axelsson, 29.6.2011 kl. 20:21

5 identicon

Fólk myndi þá vita að hann væri barnaníðingur og gæti því betur verndað börnin sín. En þarna gekk þessi maður laus, enginn vissi neitt.

DoctorE (IP-tala skráð) 29.6.2011 kl. 20:39

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þá er nú Bleik brugðið, ef fyrirfundist hefur einn einasti Vestmannaeyingur sem ekki hefur vitað um þetta óhugnanlega mál og að það væri í rannsókn.

Smærri og ómerkilegri tíðindi en þetta spyrjast fljótt út þó þau birtist ekki strax í fjölmiðlum.

Axel Jóhann Axelsson, 29.6.2011 kl. 21:15

7 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Þetta mál átti auðvitað ekki að taka ár, svona ofbeldismál á að hafa forgang og auðvitað átti lúðrasveitarfíflið að fara Fram á gæsluvarðhald strax, í svona máli á barnið ekki að eiga það á hættu að mæta eða fá símhringingu frá meintum geranda á meðan rannsókn stendur.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 29.6.2011 kl. 21:17

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Miðað við þessa klausu úr athugasemdum sýslumannsembættisins, komu fleiri bjálfar en "lúðrasveitarfíflið" að ákvarðanatökunni um málsmeðferðina: "Þetta gerir saksóknarinn vitandi vits að óformleg samskipti höfðu farið fram milli embættanna um mögulega gæsluvarðhaldskröfu bæði við upphaf máls, þegar upplýsingar um myndefnið lágu fyrir og við ábendingar barnaverndarnefndar Vestmanneyja í mars s.l. Niðurstaða þeirra samskipta var samdóma álit um að ekki skyldi krefjast gæsluvarðhalds."

Axel Jóhann Axelsson, 29.6.2011 kl. 21:21

9 Smámynd: Landfari

Ég held að enginn okkar hér hafi nokkrar forendur til að fella dóma í þessu máli. Því verður seint trúað uppá sýsla að hann sé að halda einhverjum hlífðarskildi yfir barnaníðingum. Þar sem gerandi og þolandi eru svo tengdir er þolandinn afhjúðaður um leið og gerandinn er það. Það vekur furðu hvað þessi rannsókn dregst á langinn en ég verð að treysta því að það sé ekki fyrir handvöm lögreglunnar eða mistaka í kerfinu því svona mál þarf að afgreiða hratt, fumlaust en umfram allt örugglega. Þó að málið virðist einfalt þá hefur sýsli sagt það vera flókið og hann hefur miklu betri forsendur til að dæma um það en við svo ég verð að trúa honum.

Í svona málum getur almenningur ekki krafist þess að fá allt upp á borðið til að geta tekið afstöðu. Þess vegna verðum við að treysta þeim sem til þess eru valdir að fara með svona mál. Við fáum aldrei að vita alla málavöxtu og komum aldrei til með að geta rökstutt hvort bregðast hefði átt við svona eða hinsegin. Það vekur hinsvegar athygli að sýsli tók þessa ákvörðun að höfðu samráði við settan saksóknara. Ekki túi ég því að það hafi verið gert alveg út í bláinn eða bara af því ekkert pláss var laust á Hrauninu á þeim tíma.

Ég veit um mál þar sem einn slapp vegna þess að það þótti ekki nægjanlega sannað að saknæmt athafi hefði átt sér stað, þó mér og öðrum hafi fundist það augljóst hverjum meðalgreindum manni. Þess vegna er miklsvert, þrátt fyrir að nauðsynina að ljúka svona málum fljótt, að vanda til verka svo málið ónýtist ekki fyrir dómi.

Ég verð að taka undir með Axel hér að ofan að ég man ekki til þess að einhver hafi setið í gæaluvarðhaldi á annað ár nema í Geirfinnsmálinu. Ekki varð það til að niðurstaðan yrði trúverðug í því máli.

Landfari, 29.6.2011 kl. 21:25

10 identicon

Axel hneykslan þinni er á öfugan veg snúið.

Það að embættismenn sæta gagnrýni fyrir verk sín er ekki bara sjálfsagt heldur eðlilegt. Það eru jú borgaranir sem eru þeirra yfirmenn og hafa sjálfsagðan rétt til að tjá sig um frammistöðu þeirra í verki.

Ég gef ekki túkall fyrir útskýringar sýslumanns og tel það skráveifu og lítilmennskuhátt að bera slíkt fyrir sig. Allir þeir sem málvöxtum voru kunnugir en lögðust gegn gæsluvarðhaldi brugðust skyldu sinni að vernda borgarana. Enginn getur ímyndað sér sálarkvöl þeirra barna sem þoldu níðið, vissu að þessi maður gekk frjáls þeirra á meðal og máttu eiga von að þola ofbeldið aftur hvenær sem var. Hver gætti hagmuna þeirra, hver var að hugsa um a vernda þau? Ekki sýslumaður.

Það eru embættismennirnir sem þurfa að biðja borgarana afsökunar í þessu máli fyrir að bregaðst skyldu sinni. En Ísland á það sammerkt með Sovétríkjunum sálugu og Norður Kóreu og Kína núna að kerfið og embætismenn eru borgurunum æðri og þeir svara ekki neinum nema sínum eigin geðþótta og kannksi hver öðrum.

Sem kviðdómandi götunnar, dæmi ég sýslumann til endalauss ærumissis þar til hann biður skjólstæðinga sína fyrirgefningar að hafa brugðist skyldu sinni að vernda þá gegn ofbeldi og hunsa þeirra öryggishagsmuni. Afplánun er hafin.

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 29.6.2011 kl. 21:44

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kristján, þangað til þú vísar í þær lagaheimildir sem sýslumaðurinn hefði átt að úrskurða glæpamanninn í ótímabundið varðhald eftir, er sleggjudómur þinn að engu hafandi, frekar en öðrum slíkum órökstuddum dómum sem uppkveðnir eru af þér og öðrum dómurum við dómstól götunnar.

Þó dómstóll götunnar fari ekki eftir neinum lagagreinum við uppkvaðningu dóma sinna, verður ákæruvaldið og dómstólarnir að gera það og rökstyðja fyrst ákærurnar og síðan dómsniðurstöðuna. Allt í samræmi við landslög.

Axel Jóhann Axelsson, 29.6.2011 kl. 22:15

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ætli þessi tiltekni sýslumaður hafi nú ekki sjálfur eitthvað lagt af mörkum með hegðun sinni allar götur í sýslumannsembætti til að útskýra harða dóma almennings.  Það er í raun og veru ótrúlegt miðað við sögu hans að hann skuli ennþá sitja sem sýslumaður.  M.a. man ég eftir málaferlum þar sem þessi ágæt rokkunandi og á margan hátt afar vel lesinn maður bauð upp rangan sumarbústað ég veit ekki hvernig það endaði, en það urðu út af þessu málaferli.  Mér finnst ég eiga honum gráan  belg að gjalda fyrir rauðan vegna samskipta hans við látinn son minn.  Hatur hans og lítilsvirðing við fólk sem hefur farið út af sporinu ætti eitt og sér að vera aðvörun um að fá slíkum manni of mikil völd.  Enda er ég sannfærð um að vegna þess hvernig þessi maður hagaði sér við son minn, á sinn þátt í því að hann er nú dáinn.  Það fær Ólafur Helgi að bera alla sína ævi sjálfur og er það í sjálfu sér eitt og sér nóg til að kikna undir. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.6.2011 kl. 10:25

13 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki þekki ég Ólaf Helga neitt persónulega, þó ég hafi talað nokkur orð við hann fyrir nokkrum áratugum um sameiginlegt áhugamála okkar, Rolling Stones, og get því ekki dæmt um hans hatur og lítilsvirðingu á fólki sem farið hefur út af sporinu. Miðað við þá lýsingu skýtur skökku við að hann sé nú ásakaður um að halda hlífiskildi yfir barnaníðingi og vernda hann á allan máta.

Ekkert veit ég heldur um samskipti þín og sonar þíns við sýslumanninn, en þungar eru ásakanirnar sem þú berð á hann og vonandi eru haldbær rök á bak við þær. Séu þær raunverulegar á auðvitað að kæra manninn og krefjast refsingar yfir honum og a.m.k. embættismissi. Ef slíkar sannanir eru ekki fyrir hendi, er ekki forsvaranlegt að bera slíkar sakir á nokkurn manna opinberlega, því slíkt gæti flokkast undir róg og ærumeiðingar og væri þar með jafnvel saknæmt.

Axel Jóhann Axelsson, 30.6.2011 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband