Samræma sjúkra- og lyfjaskrár

Umfjöllun Kastljóss undanfarið um læknadópið hefur verið sláandi og varpað skýru ljósi á hversu útbreitt vandamálið er. Að þeir fimm læknar, sem mest ávísa á lyf úr þeim lyfjaflokkum sem helst eru misnotaðir, skuli á árinu 2009 hafa gefið út lyfseðla fyrir slíkum lyfjum fyrir 160 milljónir króna, eru ótrúlegar og enn ótrúlegra að sá sem stórtækastur er skuli vera nálægt helmingi þeirrar upphæðar.

Miðað við upplýsingarnar sem fram komu í Kastljósinu um verð á þessum lyfjum á götunum, þá er augljóst að veltan á þessu læknadópi nemur einhverjum milljörðum króna. Ekki má gleyma því að þetta læknadóp er stórlega niðurgreitt úr ríkissjóði og auðvitað alger óhæfa að nokkur læknir skuli misnota aðstöðu sína á þennan hátt, ekki síst í því ljósi að þeir vinna eið að því að vernda og bjarga mannslífum, en ekki steypa þeim í helvíti eiturlyfjafíknar.

Á tækni- og tölvuöld er auðvelt að koma á samræmdum sjúkra- og lyfjaskrám, þar sem allir læknar hafi aðgang að allri sjúkrasögu sjúklinga, allri læknismeðferð þeirra um ævina og alla lyfjanotkun. Svo sjálfsagt ætti að vera að koma slíkum skrám í gagnið, að ekki ætti einu sinni að þurfa að ræða málið meira.

Slíkur sameiginlegur aðgangur lækna að sjúkrasögu sjúklinga væri ekki eingöngu til þess að koma í veg fyrir misnotkun sjúklinga á kerfinu og óhóflegar ávísanir einstakra lækna á ávanabindandi lyf, heldur ekkert síður vegna hagsmuna "venjulegra" sjúklinga, sem oft þurfa að leita til lækna með mismunandi sérfræðinám og ekki síður vegna þess mikla fjölda, sem ekki hefur fastan heimilislækni og hittir því einn lækni í dag, en annan næst og þarf þá að endurtaka alla sína sjúkrasögu og viðkomandi læknir hefur engin tök á að sannreyna söguna, eða samhæfa þá meðferð sem hann teldi nauðsynlega.

Það er allra hagur að samræma sjúkra- og lyfjaskrár strax og þó fyrr hefði verið.


mbl.is Ávísuðu lyfjum fyrir 160 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Karl Ellertsson

 Smámynd: Árni Karl Ellertsson

Það er verulega ómaklega vegið að Grétari Sigurbergsyni með þessum fréttaflutningi. Grétar er á nokkurs vafa fremsti sérfræðingur okkar Íslendinga á sviði geðlækninga og þá sérstaklega ADHD. Þó það sé nauðsinlegt að stemma stigu við misnotkun á þessum lyfjum er svona æsifréttamennska forkastanleg. Það er búið að dæma mannin og það af fólki sem hefur ekki hundsvit á málefninu. Andið með nefinu og leyfið manninum að skýra sitt mál. Ég get vitnað um það að þar er vandaður maður á ferðinni sem af heilindum vill hjálpa sýnum sjúklingum. Þið finnið ekkert óhreinnt mjöl í pokahorninu á þeim bæ.

Árni Karl Ellertsson, 31.5.2011 kl. 01:52

Árni Karl Ellertsson, 31.5.2011 kl. 02:13

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég var í sjálfu sér ekkert að ásaka neina einstaka lækna, einungis að benda á þá staðreynd að sumir þeirra ávísa gríðarlegu magni af þessum lyfjum til sjúklinga sinna og væntanlega geta þeir gefið fullnægjandi skýringar á því.

Auðvitað eru það fyrst og fremst fíklarnir sjálfir og þeir sem nýta sér glufur á kerfinu, sem ganga á milli lækna og ljúga upp ýmsum sögum til þess að fá þá til að ávísa á sig þeim lyfjum, sem hægt er að misnota og selja á dópmarkaðinum.

Það væri ekki síður læknum, en sjúklingum, til hagsbóta að sjúkra- og lyfjaskrár væru sameinaðar og allir læknar hefðu aðgang að þeim, því með því móti gætu þeir betur metið heilsufar sjúklinganna og ekki síður metið raunverulega þörf fyrir þessi lyf og önnur.

Slíkt fyrirkomulag myndi einnig, a.m.k. að mestu, koma í veg fyrir misnotkun glæpamanna á niðurgreiddum lyfjum úr velferðarkerfinu. Fíklarnir sjálfir þyrftu svo að sjálfsögðu að fá viðeigandi meðferð í kerfinu og án þess að vera háðir glæpamönnum um lyfjaútvegun.

Axel Jóhann Axelsson, 31.5.2011 kl. 11:08

3 identicon

Ég á ekki til eitt einasta orð. Finnst þvílíkt írafár vera gert og er líka alveg viss um að einhver ætlar sér það einmitt, því hver græðir á írafárinu ??? Jú væntalega sá seki.

En finnst mér þurfa að fara varlega, það er verið að eyðileggja mannorð þessara lækna í öllum fjölmiðlum, hver þeirra er sekur og hver er saklaus ( ekki gleyma því heldur )?? Getum við sjálf dæmt um það ?? með þessum látum finnst væntalega ekki sá seki, því úlfúðin og lætin eru svo rosaleg að það liggur við að fólk sé farið að grýta þessa lækna á götum úti.

Auðvitað þarf að bæta eftirlitið með lyfjagjöfum, sameiginlegur gagnagrunnur ætti fyrir það fyrsta að vera til staðar, svo sumir „sjúklingar“ geti ekki gengið á milli lækna til að fá meiri lyf jafnvel eingöngu til að selja þau. Dæmi eru um að 3 mismunandi apótek hafi afhent sama lyf til sama einstaklingsins á sama deginum, óhugnalegt ekki satt ? En ég vil kenna aðgerðaleysi yfirvalda um, e-h sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með gæðaeftirliti og lyfjaeftirliti almennt. Kennitala einstaklings á að birtast og allar upplýsingar varðandi hann hjá þriðja aðila hvort sem þú varst hjá lækni eða í apóteki, allt starfsfólk innan heilbrigðisgeirans er bundið trúnaði ( hvort sem það heldur hann eða ekki ) þannig að eftirlitið á að vera í gagnagrunni ( tölvutækt ) og svo hjá mannlegu auga sem vinnur við að taka á móti eða afhenda lyf.

Annað er að til þess að fá þessi lyf þarf að gangast undir greiningu ( kostnaðurinn fyrir fullorðinn einstakling var fyrir 2 árum 90.000 ) og í kjölfarið eru tímar hjá geðlækni ásamt lyfjagjöf, ég þekki þess dæmi að einstaklingur sem hefur liðið illa alla ævi fékk loksins betri líðan með þessari lyfjagjöf og samtalsmeðferð. Þessi einstaklingur er í dag hræddur við að sækja lyfin sín í apótekið vegna þessara umfjöllunar.

Hugsum áður en við framkvæmum, það er það minnsta sem við getum gert. Þessir læknar vilja fá lausn á þessu máli sjálfir, en ætli það verði hægt núna vegna írafársins sem orðið er í þjóðfélaginu, hvaða stétt verður tekin fyrir næst ?

Ég fagna því að Jóhannes Kr hafi opnað þessa umræðu og sé að rannsaka málið, en hún verður að vera málefnalegri en hingað til hefur verið í blöðunum og hjá almenningi. Af hverju þessi ofsa hræðsla í fólkinu ?Ja maður spyr sig !!

Harpa (IP-tala skráð) 31.5.2011 kl. 12:09

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Axel. Sleggjudómafrétt sem átti að setja Grétar Sigurbergsson og Stefán Hreiðarsson ásamt hinum sem taldir voru upp, í vafasamt ljós, er glæpsamlegt og óafsakanlegt af Sigmari Guðmundssyni, og hann ætti að biðjast afsökunar á sinni framsetningu á þessari röngu og villandi mynd sem hann dregur upp. Hafi hann skömm fyrir að standa svona að þessari umfjöllun í Kastljósinu í gærkvöldi. Svona verður vandinn ekki leystur, það er alveg klárt!

Það mætti halda að það væri enn 18. öld og ekki væri búið að finna upp síma, hvað þá tölvu! Það myndi enginn verða fegnari sameiningu sjúkra og lyfjaskrár en heiðarlegir læknar eins og þessir sem þarna voru taldir upp, ásamt þeim sem nauðsynlega þurfa þessi lyf til að virka í daglegu lífi. En það eru skúrkarnir sem standa í vegi fyrir samtengingunni, til að fela sína eigin slóð og kenna svo Grétari Sigurbergsyni og Stefáni Hreiðarssyni um allt saman í gegnum lyfjamafíu-stýrða fjölmiðlana. Þetta er ljótur leikur sem Sigmar skal ekki komast upp með! 

Ætlar Sigmar ekki koma með eitt einasta dæmi um það hvað dagur á sjúkrahúsi kostar fyrir ómeðhöndlaða ADHD-sjúklinga, og allan annan kostnað sem fylgir því að vera með ADHD á háu stigi án lyfja?

Harpa. Góður pistill hjá þér, og eins gott að segja fólki hvers konar kerfis-höfnunar-helvíti ADHD sjúklingar þurfa að ganga í gegnum, til að komast hjá eiturlyfja-heimum.

Það þarf mikinn viljastyrk og sterkt bakland til að ráða við hindranir kerfisins til viðunandi lífs fyrir ADHD sjúklinga, og hætta á að brotna alveg saman, við allar hindranirnar, og enda sem viðskiptavinur lænamafíunnar í undirheimunum, sem þeir vilja helst af öllu, sem eru óvandaðir lyfsalar! Kerfið er líka þannig uppbyggt að ekki er reiknað með að allir ráði við það! Þetta er ljótur sannleikur og það vita margir. 

Allir sem þekkja Grétar Sigurbergsson og Stefán Hreiðarsson vita hversu góðir og vandaðir læknar þeir eru, og eflaust hinir líka sem taldir voru upp, og setur Sigmar í það tortryggilega ljós að vera ekki heiðarlegur eða ófær að fjalla um þessi mál svo gagn sé að!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 31.5.2011 kl. 14:12

5 Smámynd: Jón Óskarsson

Mikið ofboðslega hlýtur Grétar að vera "afkastamikill" læknir.   Mér telst til að hann hafi gefið út nærri 7 lyfseðla á dag hvern einasta vinnudag ársins (venjulegt fólk vinnur oftast í kringum 1.800 dagvinnutíma á ári og reikni nú hver fyrir sig), og það bara vegna ákveðinna lyfja.  Ég myndi ætla að þessi maður hafi eitthvað þurft að nýta hvern vinnudag í önnur málefni sjúklinga sinna og eflaust að gefa út lyfseðla fyrir fleiri tegundum lyfja.   Þetta er óumdeilanlega mikið magn hvað sem fólki finnst.

Það getur vel verið að þessir læknar sem þarna voru nefndir séu allt færir sérfræðingar sem eru klárir á sínu sviði og gefi út lyfseðla til sjúklinga sinna í góðri trú um að það muni koma þeim vel í sínum sjúkdómum.  Hitt er annað mál að það er ekki vafi að alltof stór hluti þeirra sem þeir treysta misnota það traust og selja lyfin áfram til fíkla og dópsala.   Ég set líka stórt spurningamerkið við það fyrst að þessir læknar eru svona færir af hverju lausnin er alltaf að ausa út rándýrum lyfjum ?  Telur fólk færni þeirra byggjast á því hversu fljótir þeir eru að fylla út lyfseðla og hversu mikið magn þeir setja á seðlana ?

Samræmdar tölvukeyrðar sjúkraskrár eigi síðar en núna strax.   Mér persónulega hefur alltaf þótt það ónotaleg tilhugsun að ef ég veikist á röngum stað á landinu þá verði ég að reyna að stynja upp einhverri sjúkraævisögu (sem ég man hvort eð er ekki), því að sjúkraskrárnar mínar séu bara hjá einhverjum heimilislækni mínum sem er einhversstaðar órafjarri.

Ég minni líka fólk á öll þau læti sem spunnust í kringum gagnagrunn á heilbrigðissviði hér fyrir rúmum áratug.   Ég þóttist greina í hópi þeirra sem hæst létu fólk sem vildi einmitt hafa það kerfi á að það gæti labbað á milli lækna og apóteka og fengið öll þau lyf sem það sóttist eftir og enginn fengi að vita neitt.

Jón Óskarsson, 31.5.2011 kl. 23:32

6 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Jón. Ef þú hefur látið blekkjast af þessari frétt, er það verst fyrir þig og þá sem þurfa nauðsynlega á þessum lyfjum að halda.

Tókst þú eftir því að það var enginn læknalisti birtur með útskriftum á morfíni, og öllum hinum lyfjunum? Þú ættir að velta fyrir þér hvers vegna það var ekki gert!

Fjölmiðla-mafían er í áróðurs-herferð til að skaffa fleiri götu/skólahorna viðskiptavini, og þér finnst það allt í lagi.

Auðvitað á að samtengja allt kerfið, þá kæmi nú ýmislegt í ljós, sem Sigmar í Kastljósinu myndi læra margt af!

M.b.kv. 

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 1.6.2011 kl. 07:55

7 Smámynd: Jón Óskarsson

@Anna:  Sá maður sem skrifaði upp á mest af þessum lyfjum sem tekin voru dæmi um þarna skrifaði einn og sér upp á 214.000 dagskammta á einu ári í landi þar sem íbúafjöld frá kornabörnum upp í gamalmenni er um 320.000.   Það er ekki öll þjóðin á einhverjum lyfjum hvað þá þessum.   Gaman væri að fá heildarlista yfir samtals ávísaða dagsskammta.  Trúlega liggur það á milli 500þúsund og milljón dagsskammta, lauslega áætlað.  Síðan þætti mér í framhaldi gaman að því að þið sem farið hafið hamförum í að verja þessa lækna og þessar gengdarlausu útgáfur lyfseðla útskýrið fyrir okkur hinum sem kaupum ekki svo mikið sem ibófen nema í algjörri neyð, hvernig hægt er að réttlæta þetta ?

Þeir 372 einstaklingar sem fengu ávísað þessum 214.000 dagsskömmtum fengu semsagt 575 dagsskammta hver að meðaltali. Lyf á ekki að bryðja eins og sælgæti, en það vitum við bæði að fjöldi fólks gerir. Það er líka velþekkt staðreynd að það er mikið af fíklum sem misnota þessi lyf og þar af leiðandi algjörlega ljóst að hluti þess fólks sem fær þessi lyf, að ég tali nú ekki um þá sem fá tvöfaldan eða þrefaldan dagsskammt hver, er að selja þessi lyf áfram inn til undirheima landsins þar sem dópsalar götunnar græða enn frekar á eymdinni.

Anna:  Ég ver ekki dópsala, ég styð ekki aukið frelsi í viðskiptum með ólögleg vímuefni, og mér finnst þetta ekki í lagi.   Mér hins vegar finnst umfjöllun Kastljóss nauðsynleg.  Mér finnst nauðsynlegt að kafað sé ofan í þessi mál.  Mér finnst nauðsynlegt að spornað sé við óeðlilegum ávísunum á ávanabindandi lyf.  Ég vil réttlátt heilbrigðiskerfi, þar sem eru samræmdar sjúkraskrár og hver og einn einstaklingur í þessu landi fær réttláta læknismeðferð og eðlilega lyfjagjöf þegar þess er þörf.   Ég vil líka að kostnaður sjúklinga sé viðráðanlegur, en vegna meðal annars þess að búið er að misnota kerfið gróflega í mörg ár, þá hafa útgjöld okkar venjulegra landsmanna hækkað upp úr öllu valdi, bæði heimsóknir til lækna, smærri og stærri aðgerðir og lyfjakostnaður.

Svo vinsamlegast ekki halda því fram að ég styðji svona lagað.  Þvert á móti virðist mér sem sumir af þeim sem fara hamförum út af þessu máli um bloggheima séu viljugir að styðja enn frekar við misnotkunina. 

Jón Óskarsson, 1.6.2011 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband