Íslendingar búnir að borga sitt vegna Icesave

Með neyðarlögunum var forgangi krafna í bú Landsbankans breytt á þann veg að Breskir og Hollenskir innistæðueigendur á Icesavereikningum voru settir í forgang, fram yfir alla aðra kröfuhafa í bankann, sem fyrir vikið munu ekki fá neitt upp í sínar kröfur.

Þessu eru gerð góð skil í grein eftir Jón Gunnar Jónsson í Viðskiptablaði Moggans í dag og rétt að undirstrika vandlega það sem fram kemur í úrdrætti þeirrar greinar á mbl.is, en kjarni málsins er þessi: "Hann segir að neyðarlögin hafi fært Bretum og Hollendingum 600 milljarða króna á kostnað almennra kröfuhafa Landsbankans, sem eru til að mynda íslenskir lífeyrissjóðir, Seðlabanki Íslands, alþjóðlegir bankar og skuldabréfasjóðir sem lánuðu íslensku bönkunum.Jón Gunnar bendir á að Ísland hafi sýnt mikla sanngirni í Icesave-málinu. Miðað við fyrirliggjandi samning við Breta og Hollendinga sé hins vegar öll áhætta sem neyðarlögunum fylgir færð yfir á Ísland, en Bretar og Hollendingar njóti alls ábata sem af þeim stafar."

Fram hefur komið að Bretar og Hollendingar hafi hafnað því að ljúka málinu með eingreiðslu upp á 47 milljarða króna, vegna þess að með því væru ÞEIR að taka of mikla áhættu, enda reikna þeir með að fá margfalda þá upphæð í vöxtum frá íslenskum skattgreiðendum.  Væri það ekki svo, hefðu þeir þegið þessa 47 milljarða og málið hefði verið dautt.

Því verður seint trúað, að almenningur á Íslandi selji sig sjálfviljugur í skattaþrældóm vegna þessar fjárkúgunar, sem hvergi finnst lagalegur grundvöllur fyrir.  

Þar fyrir utan er almenningur búinn að taka á sig meira en nóg, með tapi lífeyrissjóðanna og Seðlabankans vegna þessa máls. 


mbl.is 600 milljarða neyðarlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Í þessari tilskipun um innistæðutryggingar, sem allir vitna í, hvort sem að þeir séu andvígir eða fylgjandi Icesavelögunum, stendur að ríki skuli sjá til þess að nægt fé sé í tryggingarsjóðnum, til þess að tryggja innistæður á sínu yfirráðasvæði.

 Hvar liggja mörkin með yfirráðasvæðið?  Er nokkuð ósanngjarnt að halda því fram að ríki taki skatta af fjármunum, sem eru á yfirráðasvæði þess?  Tók ekki breska ríkið fjármagnstekjuskatta af Icesaveinnistæðum?  Ekki íslenska ríkið. Og hefði hollenska ríkið ekki getað innheimt fjármagnstekjuskatta, af hollensku Icesaveinnistæðunum, hefði Icesaveævintýrið, varað í ár eða meira í Hollandi?

 Breska ríkið tali sig ekki þurfa að ábyrgjast innistæður á Ermasundseyjum, því það innheimti enga fjármagnstekjuskatta af þeim innistæðum.

Kristinn Karl Brynjarsson, 31.3.2011 kl. 10:29

2 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Las ég ekki einhversstaðar að breskur tryggingasjóður væri búinn að greiða Icesave eigendum þar í landi innistæður sínar.

Bergljót Gunnarsdóttir, 31.3.2011 kl. 11:26

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Bergljót, það er rétt að bresku og hollensku tryggingasjóðirnir greiddu út innistæður á Icesave og greiddu meira að segja miklu meira en reglur um tryggingasjóðina segja til um.  Nú krefjast þeir þess að halda forgangi í bú bankanna fyrir greiðslum sínum, sem þeir fengu með Neyðarlögunum, ásamt því að skattgreiðendur borgi alla vexti vegna útgreiðslna þeirra.

Því lengur sem tekur að gera bú bankann upp og hefja endurgreiðslur til Breta og Hollendinga, því hærri verða þessir vextir sem skattaþrælarnir munu þurfa að borga.

Fari hins vegar svo illa (sem er ólíklegt) að Neyðarlögin verði dæmd ógild fyrir dómstólum og búið verður að samþykkja ríkisábyrgðina, þá munu svo háar fjárhæðir falla á þrælana, að þeir munu varla standa undir þeim á 35 ára gildistíma þrælasölusamningsins.

Axel Jóhann Axelsson, 31.3.2011 kl. 11:33

4 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Alla jafna skildi maður ætla að neyðarlögin stæðust.  En hafa ekki íslensk stjórnvöld, markvisst meðviðað eða ómeðvitað, verið að grafa undan þeim?

 Það berst hingað áminningarbréf frá ESA, þar sem dregið er í efa lögmæti þeirra, vegna innistæða sem töpuðust á Icesavereikningunum og íslenska ríkið ábyrgðist ekki samkvæmt neyðarlögunum. 

Því bréfi hefur ekki verið svarað, né hefur verið tekið til varna á einn eða annan hátt vegna bréfsins, ef að undanskilinn er einhver skætingur Össurar við framkvæmdastjóra ESA.  

Þvert á móti hafa stjórnvöld unnið að því hörðum höndum, að semja við Breta og Hollendinga um ,,bætur" vegna meints lögbrots, er áminningarbréf ESA fjallar um.  Í því hlýtur að felast ákveðin ,,játning" á þeim sökum er ESA ber á okkur.  Skiptir þá engu þó þessir Icesavesamningar, séu nokkurs konar ,,pólitísk lausn" á deilunni.   

Meint brot er ennþá fyrir hendi og þrátt fyrir samninginn, er ekki öllum bætt það ,,tjón", er meint ,,lögbrot" stjórnvalda, kann að hafa valdið. 

 Hvort sem ríkisábyrgð vegna Icesave, er á upphæðinni allri, eða þá bara eftirstöðum Icesavekrafnanna eftir 2016, þá standa enn utan garðs, svokallaðir ofur-innistæðueigendur, þeir sem átt hærri innistæður, er upphæð innistæðutryggingarinnar nam.   Þeim hlýtur að vera mismunað á brotlegan hátt, samkvæmt áminningarbréfi ESA, líkt og öðrum, sem segja má að fái  tjón sitt bætt með Icesavesamningunum. 

 Til þess að bíta svo endanlega hausinn af skömminni, samþykktu stjórnvöld það, að verði samningurinn samþykktur, þá sækja þessir ofur-innistæðueigendur, rétt sinn fyrir breskum dómstólum, skv breskum lögum.  Með öðrum orðum, að um  íslensk lög og lögmæti þeirra, verður tekist á um  fyrir breskum dómstólum, sem dæma skv. breskum lögum. 

Kristinn Karl Brynjarsson, 31.3.2011 kl. 12:09

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jafnvel þó Icesavelögin verði samþykkt, þá getur það varla kallast að "bæta" fyrir það brot sem ESA er að ásaka íslensk stjórnvöld fyrir.  Þess vegna hlýtur það að vera skylda ESA að halda áfram með málið og stefna því fyrir EFTAdómstólinn, hvernig sem atkvæðagreiðslan fer þann 9. apríl.

Annað væri hrein fjárkúgun af hendi ESA, eingöngu í þeim tilgangi að styðja kröfur Breta og Hollendinga geng íslenskum skattgreiðendum.

Getur svo "virðuleg" stofnun eins og ESA verið þekkt fyrir svoleiðis vinnubrögð?

Axel Jóhann Axelsson, 31.3.2011 kl. 12:16

6 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Nei það getur ESA ekki verið þekkt fyrir.  Hvert verður þá svar íslenskra stjórnvalda við áminningarbréfinu, í ljósi þess að Icesavesamningurinn var gerður og hann samþykktur?  Þýðir þá nokkuð að andmæla bréfinu?  Yrði slíkt talið trúverðugt? 

 Já við Icesave myndi svo tryggja það, að færi svo að EFTA dæmdi íslenska ríkinu í óhag, þá yrðu skaðabótamál vegna málsins sótt fyrir breskum dómstólum, ekki íslenskum. 

Kristinn Karl Brynjarsson, 31.3.2011 kl. 12:22

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Eina raunverulega vörnin í málinu er að hafna lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þar sem ESA hlýtur að halda áfram með málið og ef svo ólíklega skyldi vilja til að Íslendingar töpuðu því, þá yrðu Bretar og Hollendingar að sæka skaðabótamál fyrir íslenskum dómstólum.

Janfvel þó allt færi á versta veg fyrir Íslendingum í þessum málaferlum öllum, yrði endanlegur dómur ekki verri en samningurinn sjálfur og reyndar miklu betri að því leyti, að þá yrðu bætur dæmdar í íslenskum krónum og vegna gjaldeyrishaftanna yrði hægt að mjatla þeim bótum út úr hagkerfinu eftir hentugleikum og gjaldeyriseign Seðlabanka.

Ekki má svo gleyma því, að langlíklegasta niðurstaða dómstóla yrði Íslendingum í hag, enda flestir ef ekki allir sammála um að kröfurnar séu ólögvarðar og því er hættan á "dómstólaleiðinni" hreint engin, þó ýmsir áróðursmeistarar haldi slíku fram.

Axel Jóhann Axelsson, 31.3.2011 kl. 12:36

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég vil leyfa mér að benda öllum á að lesa grein Jóns Gunnars Jónssonar í viðskiptablaði Moggans í dag.  Hún er afar greinargóð og stórfróðlega lesning um þetta efni og frábært innlegg í umræðuna um Icesave og Neyðarlögin.

Axel Jóhann Axelsson, 31.3.2011 kl. 12:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband