Breyting á kvótakerfinu

Mikið er rætt og ritað um kvótakerfið og ekki síst kvótaframsalið og virðast flestir vera á þeirri skoðun að gagngerra breytinga sé þörf á þessu kerfi.  Fiskveiðistjórnunarkerfið var og hlýtur að vera ennþá, hugsað til þess að vernda fiskistofnana, en ekki til að vernda hagsmuni einstakra útgerða.  Flestir eru sammála því, að nauðsynlegt sé að stjórna veiðunum, en ágreiningurinn snýst um hvernig það verði gert.

Núverandi kvótahafar virðast ekki geta hugsað sér neinar breytingar, en þeir sem eiga kvótalausa báta krefjast breytinga og er einna helst að skilja, að þeir vilji helst leyfa óheftar veiðar.  Óheft sókn í fiskisstofnana og stjórnlausar veiðar munu auðvitað ekki koma til greina og uppboð á kvótum til eins árs í senn gengur ekki heldur, því það myndi gjörsamlega eyðileggja allan stöðugleiga undir útgerð og fiskvinnslu.

Spurning er, hvort ekki mætti breyta kerfinu þannig innan samningaleiðarinnar svokölluðu, að kvóta yrði úthlutað til skipa til eins árs í senn og yrði þá byggt á veiðireynslu síðustu þriggja ára á undan, þ.e. að skip fengju úthlutað kvóta fyrir þeim afla, sem þau veiddu sjálf síðustu þrjú ár að meðaltali, en ekki tekið tillit til kvóta sem þau hefðu selt eða látið frá sér á þeim tíma.

Veiðiskylda skipa yrði 80% af úthlutuðum kvóta, en 20% mætti nota til að skipta á tegundum við aðrar útgerðir, en slík skipti myndu þá að sjálfsögðu hafa áhrif við næstu kvótaúthlutun.  Sala og leiga á veiðiheimildum yrði algerlega bönnuð að öðru leyti en því að sá kvóti sem eftir yrði þegar búið yrði að úthluta í samræmi við veiðireynslu þriggja síðustu ára, yrði boðinn upp og þar með gætu nýliðar komist inn í greinina.  Eina skilyrðið yrði að sá sem fengi úthlutað kvóta á þann hátt ætti bát eða skip, því aðrir gætu ekki fengið úthlutað neinum aflaheimildum.

Með þessu móti myndi allt kvótabrask heyra sögunni til og útgerðirnar yrðu að reka sig eingöngu á tekjum sem fengjust fyrir aflann sjálfan, en ekki af braski með veiðiheimildirnar.  Þetta myndi líka skapa ákveðinn stöðugleika fyrir bæði útgerðina og fiskvinnsluna.  Greitt yrði auðlindagjald fyrir hvert úthlutað tonn í aflaheimildum og yrði ákvörðun um upphæð þess tekin við kvótaúthlutunina árlegu.

Ekki dugar endalaust að gagnrýna núverandi kerfi og benda ekki á eitthvað annað í staðinn.

Þess vegna er þetta sett fram hér í von um umræðu í stað stóryrða. 

(Endurbirt örlítið breytt frá árinu 2009)


mbl.is Standi við sátt um samningaleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Þetta er góð aðkoma að þessu Axel en það er ekki rétt hjá þér að ekki séu aðrar leiðir færar en Kvótaúthlutun. Hér var við líði mjög gott og skilvirkt kerfi sem byggði á sóknarmarki sem gekk út á að úthlutaðir voru vissir sóknardagar sem voru leyfðir hverju skipi og innan þessara sóknar daga voru tímabil sem mátti veiða þorsk. Það var sátt um þetta kerfi innan útgerða og sjómanna. Ef þorskafli fyrstu tvö árin í kvótakerfinu 1984 0g 1985 kemur í ljós hve vel þetta kerfi gagnaðist við uppbyggingu þorskstofnsins.  Núna þarf ekki nema eitt pennastrik til að taka upp þetta kerfi. Okkur var ekki boðin nein samningaleið eða hlustað á varnaðar rök okkar sem vorum í greininni þá gegn breytingunni yfir í kvótakerfið.

Varðandi trillur og handfæraveiðar var það aðhlátur efni þegar settur var kvóti á trillurnar. Ef ekki er fiskur fyrir trillur með kannski 3 til 5 handfæra rúllur á mann þá geta menn hætt útgerð hér( síðan mega vera stoppdagar til að slaka á sókn í vondum veðrum á þessum litlu bátum). Þetta var bara einn fíflagangurinn enn í þessari kvóta hagsmuna gæslu

Ólafur Örn Jónsson, 17.1.2011 kl. 07:33

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ólafur, ég man vel eftir sóknardagakerfinu og ekki voru nú allir ánægðir innan þess og ekki heldur mikil ánægja með dagafjöldann, sem sí og æ var verið að fækka vegna ofveiði, að sagt var.  Á þeim tíma voru líka tvö kerfi í gangi, þ.e. kvótakerfi og sóknardagakerfi og ef maður man þetta rétt, þótti ástæða til að hafa bara eitt kerfi svo allir sætu við sama borð.

Svo er það þetta með strandveiðarnar að auðvitað ætti að vera óhætt að leyfa þær nánast óhindrað yfir sumarmánuðina a.m.k.  Þó þarf sjálfsagt að hafa einhverjar takmarkanir á þeim til þess að ekki fari allt úr böndunum í þeim efnum.

Aðalatriðið er að komast niður á kerfi sem sátt getur ríkt um, enda er útgerð og fiskvinnsla ennþá undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, ásamt stóriðjunni, þó margir haldi að þjóðarauðurinn verði til í tuskubúðunum í Kringlunni og Smáralind.

Axel Jóhann Axelsson, 17.1.2011 kl. 07:41

3 identicon

Þetta er svo sem góðra gjalda vert, en það þarf að huga að því hvernig við tengjum saman aflaheimildir og byggðarlög, svo heilu þorpin verði ekki skilin eftir á vonarvöl ef útgerð ákveður að flytja sig milli staða.

Bensi (IP-tala skráð) 17.1.2011 kl. 08:29

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ef hagkvæmt er að gera út frá einhverjum ákveðnum stað, þá verður stunduð útgerð þaðan.  Útgerð og finskvinnsla getur aldrei og á aldrei að vera einhverskonar atvinnubótavinna fyrir ákveðin þorp eða landssvæði.

Axel Jóhann Axelsson, 17.1.2011 kl. 08:32

5 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Í fljótu bragði finnast mér þetta mjög áhugaverðar tillögur hjá þér, betri en allar þær sem ég hef séð til þessa.

Ég hef nú verið ansi lengi til sjós, þannig að ég man skrapdagakerfið, sóknamarkið og allt þetta, jafnvel frjálsar veiðar á mörgum tegundum. Oft hef ég rætt við marga fróða menn um þessi mál, reynda skipstjóra og aflasæla.

Skoðanir þeirra eru ekki einsleitar, en öllum ber saman um að Hafró hafi ekki gengið vel að meta ástand hafsins.

Jón Ríkharðsson, 17.1.2011 kl. 09:46

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jón, það er nú málið að ýmislegt hefur verið reynt, en ekki náðst sátt í þjóðfélaginu um neina af þeim aðferðum sem reyndar hafa verið.  Núna virðist óánægjan í þjóðfélaginu vera mest með kvótaleiguna og -söluna, enda algerlega órökrétt að menn séu að braska með veiðiheimildirnar.

Eftir að hafa hugsað mikið um þetta mál finnst manni eðlilegast að hvert skip fái bara úthlutað kvóta fyrir þeim afla sem á það skip hefur verið veitt að meðaltali, t.d. síðustu þrjú eða fimm ár, því það hlýtur að mega reikna með að útgerðin hafi verið að gera viðkomandi skip út á eins hagkvæman hátt og mögulegt var og því réttlátast að úthluta kvóta í hlutfalli við það.

Með svona kerfi yrði sölu og leigu aflaheimilda hætt og allir (nema kvótabraskarar) ættu að geta vel við unað.

Axel Jóhann Axelsson, 17.1.2011 kl. 09:55

7 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Það eru nokkur atriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga, þegar kerfinu verður breytt (spurning hvenær ekki hvort). 

  • Þorskveiði síðustu ár er bara brandari.  160.000 tonn á móti meðaltalinu 450.000 tonn á árunum 1952-1972.  Sagan segir okkur að það er vel óhætt að veiða mun meira og sagan segir okkur líka að kenningar Hafró ganga ekki upp.
  • Kostnaður í núverandi kerfi er alltof mikill og kemur algerlega í veg fyrir að nýjir aðilar komist inn í greinina.  Það gengur ekki upp, eða hvaða framtíð á grein sem engir nýjir komast inn í??
  • Núverandi kerfi er brot á stjórnarskránni, um atvinnufrelsi.
  • Skilja þarf á milli fiskvinnslu og útgerða til að tryggja réttlátt samkeppnisumhverfi.
  • Veiðiráðgjöf á ekki að vera á verksviði Hafró.

Þar fyrir utan er eðlilegt að smábátar njóti sem mest frelsis, enda á það að vera stökkpallur fyrir nýja aðila inn í sjávarútveginn.

Sigurður Jón Hreinsson, 17.1.2011 kl. 11:05

8 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Mikið er ég hrifinn af svona umræðu. Engar öfgar heldur málefnalegar umræður um  mikilvægt mál.

Sigurður I B Guðmundsson, 17.1.2011 kl. 12:38

9 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Það er eitt sem er alveg á hreinu ef stjórnað er með sóknarmarki og allan fisk á markað að þá verða til góðar arðbærar útgerðir allstaðar sem fiskur ern nálægt (trillur og minnibátar)  eða góð aðstaða til fiskvinnslu (togarar og stærri veiðiskip). Markaðir gefa vinnslunum tækifæri að fá alltaf þann fisk sem þær þurf hvar á landi sem þær eru staddar. Við viljum lýðræði sem byggir á frelsi einstaklingsins til athafna þá er sóknarmark með allan fisk á markað sá vaxtarbroddur sem mun byggja landið og dreifa byggðunum. Peningarnir munu flæða "frjálsir" um þjóðfélagið og skila sér í skattheimtu og til þjónustu fyrirtækja. Eina sem þarf að ætlast til af þjóðfélaginu er að passa uppá að samgöngur séu góðar og að spilltir stjórnmálamenn eins og Halldór og Davíð komist ekki aftur til valda.

Ólafur Örn Jónsson, 20.1.2011 kl. 22:37

10 identicon

Við þurfum ekki að stjórna veiðum á fiski.  Það er ekki hægt að útrýma fiskistofnum með ofveiði.  Ef afli verður of lítill miðað við veiðiflotann þá fara þeir að tapa sem eru með mestan kostnað við sóknina.  Þeir hætta útgerð sem tapa á henni, annað hvort leggja skipum eða fara á hausinn.  Við þetta minnkar sóknin í veiðistofnana, veiðistofnarnir braggast og þeir sem eftir voru fara að græða meira.  Þá verður aftur pláss fyrir fleiri útgerðir og bankarnir geta þá, ef þeir vilja komið skipum sem þeir eignuðust aftur í útgerð.  Debet og kredit munu sjá um að allt gangi upp í veiðistjórnun.

Bankar verða að vanda sig í útlánum.

Hallgrímur Gísla (IP-tala skráð) 30.1.2011 kl. 10:48

11 identicon

Þjóðin fær svo rentur af auðlindinni með því að setja 5% gjald á hvert landað fisktonn sem miðaðst við meðalverð á mörkuðum ársins á undann

Hallgrímur Gísla (IP-tala skráð) 30.1.2011 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband