Fólk hvatt til sjálfshjálpar af Velferðarráði Reykjavíkur

Félagsmálayfirvöld kvarta sáran þessa dagana vegna þess að þörf nokkurs hóps fólks fyrir aðstoð til að framfleyta sér, er sýnileg vegna biðraðanna sem myndast við hjálparmiðstöðvar þar sem sjálfboðaliðar útdeila matvælum og öðrum nauðsynjum, sem einstaklingar og fyrirtæki gefa í þessum tilgangi af örlæti sínu.

Ríki og sveitarfélög hafa þá skyldu að sjá til þess að enginn eigi að þurfa að þola hungur eða vera án húsaskjóls vegna fátæktar, en hafa aldrei staðið við þá skyldu sína og núna, þegar tímarnir eru sérstaklega erfiðir vegna mestu kreppu lýðveldistímans, er frekar dregið úr framlögum til félagsmála, heldur en að aukið sé við þá aðstoð sem nauðsynleg er.  Fólk bíður ekki í biðröðum í kulda og trekki eftir mataraðstoð, nema önnur ráð séu ekki tiltæk og geta ástæður verið margar, t.d. sjúkdómar, atvinnuleysi og skuldavandi.

Frekar en að gera þá eitthvað í vandamálinu, bregðast talsmenn borgarstjórnarmeirihlutans við með því að kvarta yfir starfi sjálfboðaliðanna og finna því allt til foráttu.  Til dæmis lætur Stella K. Víðisdóttir, sviðsstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar,  eftirfarandi frá sér fara:  "Við höfum áhyggjur af þessum röðum, þar sem fólk bíður eftir að fá mat í poka. Ég geri ekki lítið úr þörfinni, en okkur finnst þessi aðferð ekki vera uppbyggjandi. Hún hvetur ekki til sjálfshjálpar."

Hvað gerir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar til að hvetja fólk, sem ekki getur séð sér farborða vegna fjárskorts, til sjálfshjálpar?  Það hlýtur að vera í verkahring þessa ráðs að koma með úrræði til að stytta eða eyða þessum biðröðum.  Bendir það kannski fólkinu á að fara bara og kaupa sér útsæðiskarftöflur og grænmetisfræ og bíða síðan til vors með að setja niður? 

Í menningarbyltingunni í Kína var fólkið sent út í sveitirnar til endurhæfingar og í Kambódíu gerðu Rauðu Khmerarnir það sama, en þar áttu fæstir að vísu afturkvæmt, þó fleiri hefðu lifað endurmenntunina af í Kína. 

Eru hugmyndir meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar í Reykjavík um sjálfshjálp þessa fólks ef til vill sóttar í þessar fyrirmyndir?


mbl.is Deila á matargjafir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Er ekki kominn tími til að Borgarstjórinn & Co hætti að grínast og geri eitthvað, nú er komið nóg og nóg nægir.

Bergljót Gunnarsdóttir, 5.11.2010 kl. 14:38

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sennilega verður ekki neinn tími til að sinna þessum málum, eða öðrum, fyrr en eftir miðjan mánuðinn í fyrsta lagi.  Það þarf nefnilega að auglýsa vel frumsýningu kvikmyndarinnar GNARR, sem verður í bíó 12. nóvember og svo sjá allir í hendi sér, að það þarf líka að fylgja frumsýningunni vel eftir og veita fjölmiðlaviðtöl (með hvíslara) dagana á eftir.

Það hljóta allir að skilja, að skemmtanabransinn er rosalega tímafrekur og önnur vinna stelur miklum tíma frá honum.  DJÓK.

Axel Jóhann Axelsson, 5.11.2010 kl. 15:07

3 identicon

Einhver skrifaði að Besti flokkurinn væri orðinn Versti flokkurinn og brandararnir orðnir grátlegir.

Þeir sem líða fyrir mannana heimsku í borgarstjórn eru aðallega þeir sem ekki stekkur bros á vör í matarbiðröðum hjálparstofnana.

Að voga sér að segja að hjálpandi hendur leiði ekki til sjálfshjálpar er enn heimskulegra en brandarar borgarstjórans hlægilega.

Hvernig á atvinnulaust barnafólk sem oft er búið að missa allt, að hjálpa sér sjálft að áliti sviðsstjóra Velferðarráðs Gnarrismans. Leita að tómum flöskum í ruslatunnum??

Sveinn Úlfarsson (IP-tala skráð) 5.11.2010 kl. 16:43

4 identicon

Mér finnst færslan kraftmikil og sannfærandi en hnaut um seinustu setninguna (Fannst hún svolítið "pólitísk") svo ég fór á netið að athuga hvort þessi "sviðstýra" Reykjavíkurborgar væri  virkilega bara einn af "statistum" borgarstjórans okkar.

Eftir nokkra mínútna leit á netinu virðist hún hinsvegar eiga að baki dæmigerðan  glæsiferil ákveðinnar tegundar íslenskra embættismanna:                                                               Stúdentspróf (Verslunarskólinn 1979), Viðskiptafræðipróf( H.Í.1986), Meistarapróf í stjórnun og stefnumótun (H.R. 2004).                                                                                        Hún var framkvæmdastjóri Víðis Finnbogasonar ehf. Teppalands 1986 til 1995;framkvæmdastjóri Félagsþjónustunnar, síðar Fjármálasviðs Rekstrar og Þjónustuúrræða á Velferðarsviði 1996 til 2005, Staðgengill Félagsmálastjóra hjá Félagsþjónustunni í Rvík, síðar Sviðsstjóra  Velferðarsviðs (1999 til 2005); Framkvæmdastjóri Fjármála og Rekstrarssviðs Háskólans í Reykjavík frá 2005; Skipuð skv. tilnefningu m.a. Sambands íslenskra sveitarfélaga og Forsætisráðherra Íslands í ýmsar virtar nefndir eins og t.d. Almannavarna og Öryggisráð (2008?), Velferðarvakt, Velferðarráð, VIRK, o.s.frv., o.s.frv.                                                                                                                                                                                                      Greinilega enginn grínisti og, að því er virðist, engin bein tengsl við Besta Flokkin þó hún virðist  hafa átt samleið með Samfylkingunni ( t.d. í Garðabæ 2006)                                                 

Í umsögn ráðningarnefndar um umsókn hennar um  það embætti sem hún nú skipar segir m.a.að hún hafi lipurð og hæfni í mannlegum samkiptum og hæfni í að koma fram og tjá sig bæði í tali og skrifuðu máli svo kannski er kemur hún til með að verja stofnunina sem hún starfar fyrir fyrir þeim álitshnekki sem hlaust af þessum ummælum hennar.                          Kannski voru orð hennar tekin úr samhengi  ??????   Hefur hún kannski einhverjar uppbyggjandi tillögur fram að leggja???????

Agla (IP-tala skráð) 5.11.2010 kl. 18:06

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Agla, þetta er glæsilegur ferill hjá henni og því klaufalegri voru þessi ummæli hennar.  Vafalaust hefur hún meint vel, en svona yfirlýsingu hefði þurft að fylgja einhverjar tillögur til að bæta úr.

Svona ummæli, fjölmiðlaumfjöllun með myndbirtingum í blöðum og sjónvarpi gerir ekkert annað en að ýta undir og auka þá niðurlægingu sem fólkið upplifir við það að lenda í þeim aðstæðum að þurfa að þiggja matargjafir til að framfleyta sér og sínum.  Því verður öll umræða um þetta að fara fram á nærgætinn hátt og alls ekki þannig að mannskemmandi sé fyrir þær fjölskyldur, ekki síst börnin, sem neyðast til að þiggja þessa aðstoð.

Svo er auðvitað algerlega galið að gera lítið úr starfi hjálparsamtakanna og þeirri miklu vinnu, sem sjálfboðaliðar leggja á sig, ásamt gjafmildi ýmissa fyrirtækja.  Sjálfboðaliðarnir myndu ekki vinna þessa vinnu á vegum borgarinnar og fyrirtækin myndu ekki láta vörur sínar af hendi ókeypis, ef opinberar nefndir ættu að sjá um úthlutun þeirra.

Axel Jóhann Axelsson, 5.11.2010 kl. 19:01

6 identicon

Ég sé ekkert í fjölmiðlaumfjöllunum um þessi orð Sviðstjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem bendir til þess að ummælin hafi verið vel meint. Þá hefði líka kannski fylgt einhver "uppbyggjandi" tillaga um hvernig stofna mætti  nefnd,  væntanlega með sviðsstýruna sem nefndarformann, sem myndi koma með uppástungur um hvernig hægt væri að koma í veg fyrir biðraðir eftir plastpokum með matargjöfum.

Þessi uppákoma er, því miður, í mínum augum enn eitt dæmi um að "glæsilegur ferill" íslenskra embættismanna er ekki sjálfgefin trygging á að þeir séu starfi sínu vaxnir miðað við þann raunveruleika sem við þurfum nú að horfast í augu við.

Agla (IP-tala skráð) 5.11.2010 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband