Verður kosning til stjórnlagaþings tómt klúður?

Nú er það komið á hreint að 523 einstaklingar gefa kost á sér til setu á stjórnlagaþinginu og þar af eru aðeins um það bil þriðjungurinn konur, sem eftir sem áður eiga að hafa um það bil helming þingfulltrúa.  Það hlýtur að þýða að atkvæði greidd kvenfólkinu gilda helmingi meira en atkvæði greidd karlmönnunum og verður það að teljast einkennilegt jafnrétti, ekki síst þar sem krafan um jöfnun atkvæða vegna Alþingiskosninga verður æ háværari og einnig að landið allt verði gert að einu kjördæmi, einmitt til að tryggja þá jöfnun atkvæða.

Einnig hafa ýmsir sett fram kröfu um að í öllum kosningum fari fram persónukjör og jafnvel að heimilt verði að kjósa fólk af mörgum listum og sumir hafa jafnvel krafist þess að alls ekki verði boðnir fram neinir listar, heldur verði um algera einstaklingskosningu að ræða, með svipuðu eða eins sniði og kosningin til stjórnlagaþingsins mun verða.

Ef kjósendur eyða tíu mínútum að meðaltali til að kynna sér hvern frambjóðanda til stjórnlagaþings og áherslur hans í sambandi við stjórnarskrárbreytingar, mun það taka 87 klukkustundir í allt og verður að telja að tíu mínútna skoðun á frambjóðendum og stefnuskrám þeirra vegna svona mikilvægs máls eins og stjórnarskráin er, sé í raun allt of skammur tími og þyrfti að vera að minnsta kosti helmingi meiri.

Þá væri það fullt starf með átta stunda vinnudegi í heilan mánuð að ákveða sig hverja kjósa skuli í kosningunni og eins að reikna út hvernig atkvæðið nýtist með tilliti til þess ójöfnuðar kynjahlutfallanna, sem í kosningareglunum felast.


mbl.is 523 í framboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er akkúrat ekkert vandamál.  Ég hef nú þegar gert upp hug minn.  Ég veit um ca. 10 einstaklinga sem ætla í framboð og ég hef í hyggju að kjósa þetta góða fólk sem ég treysti til góðra verka.  Ég hef ekki í hyggju að velja 25.  Þessir tíu nægja mér alveg.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 20:49

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er einmitt hættan við þetta fyrirkomulag, þ.e. að fólk kjósi eingöngu ættingja, vini, kunningja eða "frægt" fólk, af því að það kemst ekki yfir að kynna sér hina frambjóðendurna og hvað þeir hafa til málanna að leggja og því er stórhætta á að hæfasta fólkið nái ekki kosningu inn á þingið.

Axel Jóhann Axelsson, 25.10.2010 kl. 21:50

3 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Ég óttast ekki svo mjög, Axel, að hæfasta fólkið nái ekki kjöri af þessum sökum. Hæfasta fólkið á líka kunningja og vini og jafnvel kannski fleiri en hinir.

Magnús Óskar Ingvarsson, 25.10.2010 kl. 22:41

4 Smámynd: Jón Óskarsson

Að kjósa færri en 25 þýðir að atkvæðisrétturinn er vannýttur svona svipað og að mæta ekki á kjörstað (ekki eins og að skila auðu).  Hitt er annað mál að það verður ekki auðvelt mál að finna 25 nöfn í hópi 523 frambjóðenda, jafnvel þó svo að maður væri búinn að ákveða sig og "æfa" sig á "æfingakjörseðli" sem kemur í hús nokkrum dögum fyrir kosningar.

Varðandi framboð til stjórnlagaþings þá höfðu bæði kyn fullkomlega sama tækifæri til framboðs.  Samt eru konur aðeins 30% af frambjóðendum.  Ef síðan á að fara að handstýra því að kynjahlutföll verði jöfn á þinginu, þá held ég að tími sé kominn til að karlmenn í þessu landi rísi upp og mótmæli.  Það gengur ekki að vera að handstýra jafnrétti með lögum og valdboði, þegar raunverulegur vilji er ekki til þess.

Simmi og Jói á Bylgjunni bentu á skemmtilegan hátt á það á síðasta laugardag að það hefði alveg gleymst að setja sérstakan kynjakvóta til sjós á sama tíma og slíkur kvóti var settur í varðandi allar stjórni meðalstórra og stærri fyrirtækja.  Það er svolítið merkilegt að ef hlutföllin eru konum í óhag þá skal þeim hlutföllum breytt með valdi (sbr. uppstillingar á framboðslistum), en ef konur eru í meirihluti (sbr. VG í Reykjavík fyrir síðustu Alþingiskosningar) þá má ekki hrófla við því og færa karlmann ofar.

Að sjálfsögðu er æskilegt að á þessu þingi verði kynjahlutföll í sæmilegu jafnvægi en til þess þarf að kjósa jafna skiptingu kynja.

Jón Óskarsson, 25.10.2010 kl. 22:42

5 Smámynd: Sævar Einarsson

Skemmtilega orðað hér http://lol.is/?skoda=9033

Sævar Einarsson, 25.10.2010 kl. 23:23

6 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Kynjahlutfall - allt þetta tal um kynjahlutföll - tryggja verði að konur .....   finnst mér argasta svívirðing við konur.

Það er enginn sjúkdómur að vera kona - OG - konur komast þangað sem þær vilja á eigin verðleikum rétt eins og karlar. Það búa nánast jafnmargar konur hér á landi og karlar -

Konur þurfa EKKI á einhverjum aumingjaúthlutunum að halda út á kynferði sitt - fjarri því.

Farið að bera þá virðingu fyrir konum sem þær eiga svo sannarlega inni - hættið að tala um þær eins og það að vera kona sé sjúkdómur.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 26.10.2010 kl. 07:01

7 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Er ekki alveg gráupplagt í þessum kvenframbjóðendaskorti að þær sem kosnar verða  noti bara kunningja og vina aðferðina, þ.e að ef konur eiga að fá 50% sæta að þessi auka kvennasæti verði bara látin bíða og svo velji þær kjörnu bara vinkonur og viðhlæjendur í þau?

Hvaða rugl er þetta annars að konur eigi að skipa helming þeirra sem sitja þingið. Það á bara að kjósa um frambjóðendur og ef konurnar sem á listanum eru fá ekki atkvæði, þá detta þær út og öfugt. Það hljómar eins og glæpamennska að skammta þetta fyrirfram. Mér finnst það allavega afvegaleidd kvennabarátta ef þetta er árangurinn. Er þetta e.t.v. það sem kallað er jafnrétti í dag?

Bergljót Gunnarsdóttir, 26.10.2010 kl. 07:22

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það heitir víst jafnrétti í dag, að hafa svipaðan fjölda af hvoru kyni í öllum stjórnum, ráðum og samkomum sem kosið eða skipað er til, hvort sem konur gefa kost á sér eða ekki.  Þetta verður sjálfsagt til þess að konur hætta að bjóða sig fram til embætta eða annarra starfa í því skjóli, að þær verði skipaðar hvort sem er til að fylla upp í "kynjakvóta". 

Ef karlmenn verða t.d. kosnir í 16 sæti á stjórnlagaþingið en konur í 9, þá verður þingfulltrúum einfaldlega fjölgað upp í 31 og fjölgað í hópnum um sex konur, þannig að á þinginu munu þá sitja 16 karlar og fimmtán konur.  Þá mun engu skipta þó karlar hafi verið kosnir í öll sætin frá 26-31, þeim mun öllum verða ýtt til hliðar og konur skipaðar í þau í nafni jafnréttis og "kynjakvóta".

Þetta er einmitt kallað jafnrétti í dag.

Axel Jóhann Axelsson, 26.10.2010 kl. 09:34

9 identicon

Hvað sem kynleiðréttingu líður í þessu samhengi þá grunar mig að nú fyrst verði okkur refsað grimmilega fyrir að vera ekki búin að hundskast til að taka upp rafrænar kosningar. Ef það tekur hvern og einn 10-15 mínútur að kjósa, hvernig haldið þið að muni ganga að telja þessi flóknu atkvæði? Ég sé fyrir mér ævintýralegt klúður í uppsiglingu þar sem bæði Florida og Zimbabwe munu geta hlegið að okkur.

Helgi (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 11:08

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er alveg óhætt að taka undir þessar áhyggjur þínar Helgi.  Reyndar mun vera búið að taka á leigu talningavélar, sem atkvæðaseðlar verða skannaðir inn í og síðan á tölva að sjá um talninguna, en þar sem fólk skrifar afar misjafnlega vel og skýrt er spurning hvernig það mun ganga.  Verði þátttaka í kosningunni svipuð og í öðrum kosningum, mun hins vegar verða algert öngþveiti á kjörstöðum og biðraðir gífurlega langar, þar sem hver kjósandi mun þurfa allt að fimm mínútur til að skrifa niður þessi tuttuguogfimm fjörurra stafa númer frambjóðendanna, sem kjósa á, miðað við að venjuleg kosning, þar sem merkt er við einn lista, tekur hvern mann ekki nema 15-20 sekúndur.

Vonandi tekst þessi kosning vel, en því miður óttast maður annað.

Axel Jóhann Axelsson, 26.10.2010 kl. 11:27

11 Smámynd: Jón Óskarsson

Nákvæmlega.  Þetta er kallað jafnrétti í dag.    Ég er algjörlega sammála þér Axel með það að það hlýtur að virka letjandi á kvennabaráttuna ef konur getur farið að ganga að því vísu að þær fái stöður og störf út frá kynjakvótum hér og þar.

Jón Óskarsson, 26.10.2010 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband