Öllum orðið sama um stjórnarskrána?

Ein háværasta krafan í "Búsáhaldabyltingunni" var um nýja stjórnarskrá og létu þá ýmsir eins og bankahrunið væri tilkomið vegna einhverra galla á stjórnarskránni og eins átti það að vera bráðnauðsynlegt að breyta henni, ekki síst vegna þess að hún væri orðin svo gömul.

Mikið var rætt og ritað um nauðsynina á nýrri stjórnarskrá og alls kyns athugasemdir við hana settar fram, sem komu stjórnarskránni í sjálfu sér ekkert við og fjöldi tillagna kynntar til breytinga, sem margar hverjar komu stjórnarskránni heldur ekkert við.  Áhugi á stjórnarskrármálefnum virtist vera mjög almennur og "allir" höfðu skoðanir á henni, jafnvel þó þeir hefðu aldrei lesið hana, eða kynnt sér að öðru leyti.

Ríkisstjórnin hljóp eftir kröfum um stjórnlagaþing og nú er komið að því og þá bregður svo við, að enginn áhugi virðist vera lengur á breytingum á stjórnarskránni, lítið sem ekkert er fjallað um málið, fulltrúa á þjóðfund um málið þurfti að dekstra til að mæta og framboð til stjórnlagaþingsins virðast ekki ætla að ná tvö hundruð, þannig að varla koma til með að sitja þar bestu og hæfustu menn þjóðarinnar í stjórnarskrárfræðum.

Tillaga að nýrri stjórnarskrá, sem stjórnlagaþingið mun senda frá sér verður ekki bindandi fyrir Alþingi, þannig að engin ástæða er til að reikna með því, að nokkuð verði gert með niðurstöðuna og þrefið um stjórnarskrána muni halda áfram inni á þingi einhver ár ennþá.

Ef að líkum lætur mun enginn þrýsta á Alþingi að flýta málinu, enda verður almenningsálitið sjálfsagt upptekið af öðrum málum, þegar þar að kemur.


mbl.is Hálfur milljarður í stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Hér er verið að sóa verðmætum sem betra hefði verið að nota í annað. Það er ekkert vit í að setja hóp manna í að krukka í þetta mikilvæga plagg sem þessi sami hópur hefur lítinn sem engan skilning á.

Orsaka hrunsins er ekki að leita í stjórnskipan, stjórnarskrá eða hjá eftirlitsaðilum. Því miður hefur of mörgum liðist að þvaðra um þetta og enn margir virðast kokgleypa þessa rökleysu. Því spyr ég þá sem halda að breytt stjórnarskrá munni bjarga öllu: Hvaðan kom allt það fé sem skyndilega var hægt að lána út um alla koppa og grundir bæði hér og erlendis? Varð bara hrun á Íslandi? Sumir kalla Sjálfstæðisflokkinn hrunflokk, þýðir það að Sjálfstæðismenn bera líka ábyrgð á hruninu í t.d. Bretlandi og Bandaríkjunum? Er það hrun líka íslensku stjórnarskránni að kenna?

Þegar fólk sem skilur ekki rót vandans ætlar að leysa hann getur ekkert komið út úr því annað en della :-(

Jon (IP-tala skráð) 16.10.2010 kl. 15:01

2 identicon

Í dag eru langflestir íslendingar reitt fólk, ég vill ekki að stjórnarskráin mín sé skrifuð af reiðu fólki. Svo held ég að fólk sé að hugsa um eitthvað annað í dag, held að það sé aðalega að pæla í því hvernig það eigi að framfleita sér næsta mánuðinn.

Bjöggi (IP-tala skráð) 16.10.2010 kl. 15:44

3 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Uggur er í mörgum vegna Stjórnlagaþingsins. Það er ekki vegna þess að breytingar á Stjórnarskránni komi ekki til álita, heldur vegna þess að Samfylkingin hefur haft forgöngu um málið. Samfylkingin ætlar að nota það í tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi til að hafa fullveldisréttinn af þjóðinni og hins vegar til að þyrla upp moldviðri og sundra þjóðinni, en við þá iðju hafa Sossarnir verið staðfastir og náð miklum árangri. 

Framhald hér:  Er þörf á Stjórnlagaþingi ?

Loftur Altice Þorsteinsson, 16.10.2010 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband