Réttarfarið troðið í svaðið af sjálfu Alþingi

Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hefur verið boðið til viðræðna við þingflokk Samfylkingarinnar og áður á fund framkvæmdastjórnar flokksins, til þess að gera grein fyrir sinni hlið mála vegna tillögu Atlanefndarinnar um að stefna henni fyrir Landsdóm til að svara til saka um gerðir sínar og/eða aðgerðarleysi í aðdraganda bankahrunsins.

Ekkert er óeðlilegt við það, að sakborningum í jafn alvarlegum kærumálum sé gefinn kostur á að koma sínum málstað á framfæri áður en ákærur eru fluttar fyrir dómstólum, en í þessu tilfelli er röð atburðanna kolröng, því auðvitað átti nefnd Atla Gíslasonar að kalla alla ráðherra síðustu ríkisstjórnar fyrir sig og meta síðan út frá þeim yfirheyrslum, ásamt öðrum málsgögnum, hvort og þá hverjum nefndin vildi leggja til að stefna fyrir dómstólinn.

Atlanefndin komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu um neitt í sambandi við þessar ákærur, hvorki hvort yfirleitt skyldi stefna einhverjum og þá ekki hverjum.  Stórundarlegt er, að Samfylkingarfulltrúarnir skyldu leggja til að Ingibjörgu Sólrúnu yrði stefnt, en ekki Björgvini G., Jóhönnu og Össuri, sem þó fjölluðu öll um efnahags- og bankamálin á þessum tíma.

Með sínum slælegu vinnubrögðum í þessum kærumálum og að hafa í raun gert þau að pólitískum réttarhöldum, en ekki faglegum, hefur Atlanefndin komið af stað miklum illdeilum innan Samfylkingarinnar og hrossakaupum innan Alþingis um hvernig með málið skuli fara, ef og þegar Atli treystir sér til að mæla fyrir tillögum nefndarinnar.

Það hefði þurft mikið hugmyndaflug fyrir tiltölulega stuttum tíma, til að láta sér til hugar koma, að réttarfarið í landinu myndi nokkurn tíma komast niður á svona lágt plan.  Ekki síst þar sem það er löggjafasamkundan sjálf, sem er að troða það niður í svaðið.


mbl.is Ingibjörg Sólrún ræðir stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Nýja Ísland hvað?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 15.9.2010 kl. 13:41

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Að mínum dómi er þetta afskaplega einfalt; Annað hvort á að kæra ALLA ráðherrana sem voru í ríkisstjórn Geirs H. Haarde eða engan.

Jóhann Elíasson, 15.9.2010 kl. 13:47

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það er furðulegt að fyrningartími ráðherraábyrgðar sé aðeins 3ár miðað við að hægt er að elta menn áratugum saman og út yfir gröf og dauða út af nokkrum krónum. Ábyrgð ráðherra nær ekki einu sinni út eitt kjörtímabil.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 15.9.2010 kl. 13:50

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Nafni, já þetta er stórskrýtið, því ekki er líklegt að nokkrum ráðherra yrði stefnt fyrir Landsdóm á meðan hann væri í embætti.  Alla vega er erfitt að ýminda sér það ástand sem þyrfti að ríkja á Alþingi til þess að meirihluti þingsins samþykkti tillögu um að stefna sitjandi ráðherra fyrir dóminn. 

Eins og þú bendir á, þá fyrnast lögin um ráðherraábyrgðina á svo stuttum tíma, að þau myndu aldrei ná yfir heilt kjörtímabil ráðherra, sem farinn er úr embætti. 

Þetta, eins og öll umgjörðin um það, hvernig stefna skuli fyrir Landsdóm, er algerlega út í hött.

Axel Jóhann Axelsson, 15.9.2010 kl. 13:58

5 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Þingflokkur Samfylkingarinnar er þarna að gera sig vanhæfan til þess að geta tekið afstöðu í málinu.  Alþingi er að sigla inn í sína mestu niðurlægingu frá stofnun þess árið 930.  Lögjafarvaldið er á góðri leið með það að gera hluta Dómsvaldsins að pólitísku sláturhúsi.  Krókódílatár Steingríms J. og fleiri þingmanna yfir því að verða samkvæmt stjórnarskrá, líklega að ákveða það að kæra þessa fyrrum starfsfélaga sína, vekja óhug hjá undirrituðum og bera vott um óheiðarleik, fals og grimmd viðkomandi, sem að nú skal sefa með pólitískum hrossakaupum, mannfórnum og bakstungum.

 Það er eins gott að þetta lið hafi hugleitt hvernig það ætlar að halda úti Hæstarétti, þegar holskefla mála frá Sérstökum saksóknara skellur á réttinum.  Bróðurpartur Hæstaréttardómara, verður bundinn í Landsdómi, á meðan sá dómur starfar. Réttarhöldin fyrir Landsdómi geta tekið marga mánuði og jafnvel getur sá tími skipt árum, vegna þess hve margir verða hugsanlega fyrir dómnum, auk þess sem afstaða eða dómur dómsins verður matskenndur og ekki dæmt á solid sönnunnargögnum sem liggja fyrir.  Fyrst og fremst verður dæmt eftir framburði sakborninga, þeim trúverðugleika sem dómurinn hefur á framburðinum og orðum annarra, jafnvel pólitískum andstæðingum þeirra, er fyrir dómnum verða. Málarekstur verður t.d. ekki jafn einfaldur og í svokölluðu Tamílamáli.  

Verður uppgjörið þá komið eitthvað betur á veg?  Hæstiréttur lamaður mánuðum saman og hinir raunverulegu glæpamenn útrásarinnar ganga enn lausir og halda áfram að hylja slóð sína?

Sú ákvörðun sem alþingismanna bíður er fyrst og fremst sú, að taka ákvörðun um hvort að það sé virðingu Alþings sæmandi að gera Landsdóm að pólitisku sláturhúsi, til þess að sefa reiði almennings í pólitísku uppgjöri við markaðshyggjuna öðrum til viðvörunnar.   Verði þessi tillaga afgreidd neðan úr pólitískum skotgröfum, þá verður skömm og niðurlæging Alþingis og þeirra sem ýta á "já hnappinn" algjör.  Vei þeim hræsnurum og pólitísku loddurum er slíkt munu gera.

Kristinn Karl Brynjarsson, 15.9.2010 kl. 13:59

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Lilja Mósesdóttir hefur beinlínis sagt það opinberlega að þetta verði pólitísk réttarhöld yfir stjórnmálaskoðunum sakborninganna.  Að þingmaður skuli lýsa því yfir, að réttarhöldin eigi að snúast um skoðanir en ekki meinta glæpi sakborninganna, ætti að duga eitt og sér til þess að umræðu um málið verði hætt í þinginu.

Þingið ætti að hafa vit á að hætta þessum skollaleik og snúa sér að hlutverki sínu, sem er að setja landinu lög, en ekki að hafa fordæmi um að troða þau ofan í pólitískt forarsvað.

Axel Jóhann Axelsson, 15.9.2010 kl. 14:15

7 identicon

Ég sé gamla Ísland rísa aftur; Menn eru að spærsla upp í eitt og annað.. svo kemur þetta yfir okkur af fullum mafíu krafti

doctore (IP-tala skráð) 15.9.2010 kl. 15:20

8 Smámynd: Rafn Gíslason

Litast þessi umræða sem hér hefur farið fram ekkert af stjórnmálaskoðunum ykkar sjálfra? Skildi svo ekki vera.

Það er til háborinnar skammar að allir þeir 147 aðilar sem kallaðir voru fyrir rannsóknanefndina lýstu yfir sakleysi sínu, engin bar ábyrgð og svo er enn. Hvað þarf til að menn axli ábyrgð á gerðum sínum eða gangist við ábyrgð á aðgerðaleysi sýnu. Er það meining manna að hin almeni borgari eigi að taka á sig byrðarnar og þær hörmungar sem þessu hruni hefur fylgt án þess að svo mikið sem 1 aðili vilji gangast við ábyrgð, og ég verð að segja að mér finnst það skítt sama hvar menn standa í pólitík þegar svona er komið þetta er ekki hægt að verja með nokkru móti..

Rafn Gíslason, 15.9.2010 kl. 15:46

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Á þessu bloggi hefur því ekkert verið mótmælt að menn verði látnir svara til saka fyrir gjörðir sínar.  Því hefur hins vegar verið mótmælt, að á Alþingi skuli fara fram pólitískur skollaleikur um það, hvort og þá hverjum skuli stefnt fyrir Landsdóm.  Þingmenn fara að sjálfsögðu beint í pólitískar skotgrafir og hrossakaup um þessi mál, eins alvarleg og þau eru og ættu að hafa manndóm til að vísa því til óháðs aðila að fara yfir málið og leggja síðan fram álit um hverja ráðherranna skuli kæra og hverja ekki.

Það á ekki að vera komið undir pólitískum duttlungum og leynimakki í þinginu.

Axel Jóhann Axelsson, 15.9.2010 kl. 15:51

10 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ögmundur Jónasson dóms og mannréttindaráðherra þjóðarinnar lýsti því yfir í útvarpsviðtali í morgun, að hann væri búinn að taka ákvörðun, hvort hann greiði atkvæði með Landsdómi.  Honum hefði nægt orð Atla Gíslasonar, formanns þingmannanefndarinnar.  Yfirmaður mannréttinda í landinu, lýsti því yfir að hann hefði tekið yfirvegaða og málefnalega afstöðu til málsins, fyrir orð Atla.  Ögmundur tók ákvörðun áður en málið kemur til efnislegrar meðferðar í þinginu. Ögmundur tekur upplýsta og yfirvegaða ákvörðun, án þess að heyra hvað hugsanlegir sakborningar, hafa sér til málsbóta.  Í lögum um Landsdóm segir að ekki eigi að ákæra menn nema menn telji meiri líkur á sekt en sakleysi.  Með öðrum orðum Ögmundur telur hugsanlega sakborninga seka, fyrir orð Atla.

 Svona yfirlýsingar yfirmanns dóms og mannréttindamála myndi alls staðar annars staðar í þeim löndum sem við berum okkur saman við, verða til þess að sá yfirmaður myndi missa embætti sitt á stundinni. 

Kristinn Karl Brynjarsson, 15.9.2010 kl. 16:11

11 Smámynd: Rafn Gíslason

Ég er því sammála því Axel að þingið hefur sýn sig ófært um að taka á þessu máli svo mikið er víst og auðvitað hefði farið best á því að óháðir aðilar hefðu séð um þessa rannsókn, en hefði orðið meiri friður um það? Ég dreg það stórlega í efa, svo sem menn hafa grafið sig í pólitískar skotgrafir. Ég hef verið að fylgjast með umræðum á þinginu og hér á blogginu og má ekki á milli sjá hverjir það eru sem setja sig í þessar umræddu skotgrafir það fer að miklu leiti eftir pólitískum skoðunum manna, því verður ekki neitað. En það er með öllu óhæft að engin gangist við ábyrgð á því hvernig fór, það er hreinlega ekki líðandi.

Rafn Gíslason, 15.9.2010 kl. 16:12

12 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Alls staðar í réttarkerfinu teljast menn hafa gert sig vanhæfa til að fjalla um mál, ef þeir opinbera skoðanir sínar á sakarefninu eða hinum ákærðu fyrirfram.  Sama gildir ef ákærandi er skyldur sakborningi, eða tengdur honum á einhvern hátt.

Því verður ekki annað séð, en að hver einasti þingmaður sé vanhæfur til að fjalla um stefnur á hendur vinum sínum, flokksbræðrum og samverkamönnum.  Enda má velta fyrir sér, hvort þingheimur sé ekki meira og minna samsekur ráðherrunum, ef einhver er sekur á annað borð, því það var þingið sem setti lögin, sem unnið var eftir.

Axel Jóhann Axelsson, 15.9.2010 kl. 16:20

13 Smámynd: Rafn Gíslason

Sennileg er það svo að þeir sem helst ættu að koma fyrir dóm í þessu máli eru stikkfrí ef svo má að orði komast. Það er hinsvegar alveg ljóst að hver sem svo tæki þetta mál að sér yrði fyrir gagnrýni og það þvert á flokkspólitískar línur því þetta er umdeilt og verður það alltaf. En þjóðin kallar menn til ábyrgðar hver svo sem fer með ákæruvaldið það verður ekki hjá því komist Axel, hversu heit sem menn svo sem óska þess að annað verði. slíkt  gengur bara ekki.

Rafn Gíslason, 15.9.2010 kl. 16:39

14 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

ÞESSI frétt af seinkun þingflokksfundar Samfylkingarinnar um sólarhring og að nú ætlar þingflokkurinn einnig að boða Geir Haarde og Árna Matt. á sinn fund til skrafs og ráðagerða, sannar endanlega hvers konar skrípaleikur þessi málsmeðferð er öll að verða.

Er næsta skref í málinu, að allir þingflokkarnir kalli sakborningana á spjall núna, EFTIR að Atlanefndin er búin að semja tillögur um ákærur?  Til hvers var verið að láta nefndina fjalla um málið, ef niðurstöðum hennar er ekki treyst og þingflokkarnir fara sjálfir út í yfirheyrslur yfir þeim sem nefndin ásakar um glæpaverk? 

Það hljóta allir að sjá, hvar í pólitík sem þeir standa, að þetta er orðin alger vitleysa og engu löggjafarþingi eða þjóð bjóðandi.

Axel Jóhann Axelsson, 15.9.2010 kl. 16:47

15 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Á Össur Skarphéðinsson að taka ákvörðun um hvort að birta eigi svilkonu sinni Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur ákæru? 

 Úr því að þingmannanefnd Atla gat ekki komið ályktun úr nefndinni sem nýtur meirihluta Alþingis, þá þingmannanefndin að láta slíkt ógert.  Engin þessara álytkana verður samþykkt án pólitískra hrossakaupa.  Þarna var Atli Gíslason formaður nefndarinnar, sem jafnframt er lögmaður, ber af algjöru dómgreindarleysi, sem vart verður fyrirgefið.  Hvernig í ósköpunum er hægt að sýna þessu málefni slíkt dómgreindarleysi?   Hvað býr að baki slíku dómgreindarleysi?  

 Alþingi reynir að krafsa yfir þetta dómgreindarleysi með því að þvæla málinu milli nefnda.  Láta sem flesta taka ábyrgð á þessu dómgreindarleysi.  

 Er almenningi bjóðandi slíkt dómgreindarleysi?  Sefar slíkt dómgreindarleysi  reiði almennings? 

Kristinn Karl Brynjarsson, 15.9.2010 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband