Er Arion banki að taka þátt í peningaþvætti?

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, staðfestir að Bónusgengið verði að greiða með peningum fyrir þær verslanir sem það kaupir nú út úr Högum, eða eins og hann orðar það í samtali við Moggann:  "Ef hann greiðir ekki með peningum þá fær hann ekki hlutabréfin. Þetta eru engin lán frá bankanum. Hann kemur með peningana einhverstaðar annars staðar frá, ég veit ekki hvaðan."

Er Höskuldur að reyna að telja fólki trú um að hann selji eignir frá bankanum á 1.237,5 milljónir króna án þess að vita hvort kaupandinn sé borgunarmaður fyrir upphæðinni, hvað þá að kannað sé hvort og hvernig eigi að fjármagna kaupin.  Nú hefur komið fram í fréttum að Bónusgengisforinginn hafi á síðasta ári talið fram til skatts rúmar þrjúhundruð milljónir króna í hreina eign, þannig að augljóst er, að hann getur ekki átt fyrir kaupverðinu, nema þá í leynisjóðum í bankaleyniríkjum.

Hinn möguleikinn er sá, að aðrir bankar láni honum fyrir kaupverðinu og væri þá fróðlegt að vita hvaða banki treystir Bónusgenginu fyrir svo mikið sem einni krónu, eftir að það hefur skilið eftir rjúkandi rúst fyrirtækja með yfir eittþúsund milljarða króna skuldir, sem gengið ætlast til að lánadrottnar og íslenskir skattgreiðendur borgi fyrir sig.

Arion banki virðist einnig ætla að afskrifa 50 milljarða króna af 1988, eignarhaldsfélagi Haga, sem var að fullu í eigu Bónusgengisins, að því er virðist til þess að gengið geti keypt Haga aftur, þegar bankinn setur félagið í sölu. 

Það gæti skotist upp í hugann að Arion banki sé að taka þátt í einhverskonar peningaþvætti með þessu braski í samvinnu við Bónusgengið.  Að minnsta kosti er þetta einhver mesti sóðaskapur, sem átt hefur sér stað í íslensku viðskiptalífi frá upphafi og er þó af nógu að taka, jafnvel þó ekki væri miðað við fleiri gengi en Bónusgengið eitt og sér.


mbl.is Þarf að greiða með peningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það er eðlileg krafa, að greint verði frá hvaðan peningararnir koma. Það eru gjaldeyrishöft í landinu og ef um Krónur er að ræða þá er verið að sniðganga gjaldeyrishöftin. Ef um gjaldeyri er að ræða, verður að upplýsa hvort um peningaþvætti er að ræða. Það gæti verið í þágu Jóns Ásgeirs, eða Rússnesku Mafíunnar. Stofnun undir verndarvæng ríkisvaldsins má ekki komast upp með að eiga viðskipti við menn sem liggja undir grun um glæpsamlegar athafnir.

 

Á það má minna, að Jóhannes átti 10% kauprétt í Högum. Ef ég man rétt, þá var þessi kaupréttur kominn til vegna þess að Jóhannes var sagður ómissandi við reksturinn. Af nýgjustu fréttum að dæma er hann ekki nauðsynlegur, en fær samt stórkostlega fyrirgreiðslu frá Arion banka. Tökum einnig eftir yfirlýsingu Jóhannesar:

 

Arion banki hefur tilkynnt mér að félagið fari nú í söluferli. Ég hef fullan hug að gera tilboð í félagið og þar með eignast Bónus aftur.

 

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka segir:

 

Þær breytingar sem felast í samkomulaginu eru að mati bankans nauðsynlegur undanfari sölunnar á Högum. Þekking Jóhannesar á rekstri Haga hefur nýst vel til að koma félaginu yfir erfiða hjalla en nú taka aðrir við og ljúka söluferlinu. Það er mat bankans að hagsmunir Jóhannesar og bankans fari ekki lengur saman þar sem Jóhannes hefur lýst því yfir að hann hyggist bjóða í félagið í því söluferli sem nú fer af stað og því óhjákvæmilegt að gera breytingar sem setja alla fjárfesta við sama borð. Jóhannes gefur eftir 10% forkaupsrétt og samþykkir 18 mánaða samkeppnisbann. Ákvarðanir um að selja sérleyfisverslanir skýrast af því að umboðin fyrir þær eru ekki föst í hendi vegna persónulegra tengsla og því ekki forsvaranlegt að selja þær með Hagasamstæðunni. Salan á 50% eignarhlut í SMS byggist á því að þar er um eign að ræða sem tilheyrir ekki starfsemi Haga hér á landi. Að auki er verið að selja þessar eignir á góðu verði fyrir Haga. Eftir standa Hagar sem söluvænlegt fyrirtæki í góðum rekstri.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 31.8.2010 kl. 13:51

2 Smámynd: Gunnlaugur H Gunnlaugsson

100% sammála thér Axel, thetta er ótrúlegur gjörningur. Skil bara ekki ad bankinn skuli thora ad láta almenning sjá og heyra thessi óskup!!!!!!

Gunnlaugur H Gunnlaugsson, 31.8.2010 kl. 13:54

3 identicon

Því miður virðist svo vera að stjórn arion banka virðist ekki vera í nokkru sambandi við tíðarandan eða nútímann , og viðskiftasiðferði er ekki til í orðabókinni .

Mér þykir líklegt að viðskiptavinum bankans muni ekki fjölga til framtíðar og þá heldur fækka vegna afglapa þeirra aðila er hér ráða ferð hjá bankanum .

Valgarð Ingibergsson (IP-tala skráð) 31.8.2010 kl. 14:29

4 Smámynd: Maelstrom

Axel: "Er Höskuldur að reyna að telja fólki trú um að hann selji eignir frá bankanum á 1.237,5 milljónir króna án þess að vita hvort kaupandinn sé borgunarmaður fyrir upphæðinni, hvað þá að kannað sé hvort og hvernig eigi að fjármagna kaupin"

Finnst þér það óeðlilegt?  Bankinn lýsir því yfir að hann muni ekki fjármagna þessi kaup.   Eðlilegt.  Bankinn lýsir því yfir að tilboð hafi komið í eignir sem talið var viðunandi.  Eðlilegt.  Ef Jóhannes kemur síðan með peninginn í gengum viðurkenndan banka (þ.e. ekki millifærslu úr einhverri skattaparadísinni) þá er bara ekkert óeðlilegt.  Skv. lögum í landinu er bankanum beinlínis bannað að láta uppi meiri upplýsingar.

Valgarð Ingibergsson: "...ekki vera í nokkru sambandi við tíðarandan eða nútímann , og viðskiftasiðferði er ekki til í orðabókinni..."

Þú vilt s.s. banka sem brýtur landslög og lætur opinberlega uppi upplýsingar um einstaka viðskipti.  Upplýsingar sem hvorki eru fyrir hendi ennþá (greiðslan hefur ekki verið innt af hendi) né má láta uppi (halló, alþjóð takið eftir!!! Jóhannes er kominn í viðskipti við xxx banka, hann fékk lánafyrirgreiðslu hjá yyy banka).  Slíkar upplýsingar er bannað að gefa upp.  Er það siðferðið sem þú vilt hafa í bankastofnunum landsins? 

Maelstrom, 31.8.2010 kl. 17:54

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það kemur ekki á óvart að leigupennar Baugsgengisins þori ekki að koma fram undir nafni, en Maelstrom er greinilega einn þeirra, sem gerður er út á bloggsíðum til að tala máli gengisins.

Það er fullkomlega óeðlilegt að selja eignir frá banka í lokuðu ferli og þykjast ekki vita hvort kaupandi sé borgunarmaður eða hvernig hann ætlar að fjármagna kaupin.  Undir svona stóra samninga er ekki skrifað, fyrr en kaupandi er búinn að sýna fram á greiðslugetu sína og ef Bónusgengisforinginn á þessa peninga undir koddanum, þá hefur hann verið að svíkja undan skatti, eftir fregnum af skattamálum hans að dæma.  Það eitt væri ámælisvert af bankanum, að selja til slíks skattsvikara, sem þar að auki liggur undir grun um að hafa falið fjármuni víða um heim.

Það væri einnig afar óeðlilegt að nokkur banki lánaði fyrir þessum kaupum, því Bónusgengið skuldar a.m.k. þúsund milljarða króna, sem það hefur skilið eftir handa öðrum að borga fyrir sig, að ekki sé minnst á 50 milljarðana sem það skuldar Arion banka vegna 1988, móðurfélags Haga. 

Finnst einhverjum öðrum en leigupennum og meðlimum Bónusgengisins eðlilegt að selja sömu aðilunum, sem ætla að hlaupa frá 50 milljarða skuld vegna Haga, verslanir út úr keðjunni, einungis af því að einhversstaðar á að grafa upp fé til að staðgreiða þær?  Svarið hlýtur að liggja í augum uppi.

Maelstrom telur það mikið siðferðisbrot, ef Arion banki gefur frekari upplýsingar um þessi viðskpti og fjármögnun þeirra.  Eina siðferðisbrotið í þessum viðskiptum eru viðskiptin sjálf og hver á aðild að þeim.

Það er ekki bara siðferðisbrot, heldur lýsir það algerri siðblindu og samviskuleysi.

Axel Jóhann Axelsson, 31.8.2010 kl. 19:36

6 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Flott færsla hjá þér Axel.

Þráinn Jökull Elísson, 31.8.2010 kl. 19:56

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Án þess að það skipti nú miklu máli þá get ég ekki annað en tekið undir flest ef ekki allt í þessum pistli.

Og þar að auki ályktanir höfundar um garpinn Maelstrom.

Nú fer það að verða full vinna að halda saman upplýsingum um fjárfestingar  athafnamanna sem í skattframtölum hafa sýnt stöðu bágindafólks.

Árni Gunnarsson, 31.8.2010 kl. 22:57

8 identicon

Ég þurfti einmitt að fá þennan viðskiptagjörning útskýrðan á mannamáli. Takk fyrir þetta Axel.

assa (IP-tala skráð) 31.8.2010 kl. 23:00

9 identicon

Peningaþvætti? er ekki heldur ólíklegt að Arion banki sé að stunda peningaþvætti? Verður það ekki að teljast ólíklegt að Arion banki sé að stunda eitthavð peningaþvætti í þessu máli eða öðrum málum, þegar augu allra beinast að því. Bankinn hlýtur að fara eftir eigin verklagsreglum og íslenskum lögum þegar kemur að því að leysa úr þessari flækju sem gömlu bankarnir og stofnanirnar skildu eftir sig. Bankinn er loksins undir ströngu eftirliti og afhverju ætti hann að taka áhættu á einhverju fáranlegu peningaþvætti?

Trausti (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 13:18

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þrátt fyrir að augu allra beinist að gerðum bankanna um þessar mundir, fer bankinn út í þessi siðlausu og samviskulausu viðskipti við hrunbarónana í Baugsgenginu.  Bankarnir gera greinilega bara það sem þeim sýnist og er nákvæmlega sama um allt eftirlit og álit almennings.

Axel Jóhann Axelsson, 1.9.2010 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband