Lítil ummerki um kreppu í landinu

Allar úti- og bæjarhátíðir, sem haldnar eru um helgina virðast ætla að slá aðsóknarmet, miðað við undanfarin ár og verslun á öllum sviðum tengdum skemmtanahaldinu sjaldan eða aldrei verið meiri.  Fátt bendir því til þess að landið hafi verið að glíma við mestu efnahagskreppu, sem yfir hefur dunið frá lýðveldisstofnun, því kostnaður við skemmtanahaldið um helgina er í flestum tilfellum umtalsverður.

Útlendingar og Íslendingar búsettir erlendis, sem hingað hafa komið undanfarið, hafa haft á orði að þeir sjái engin ummerki um kreppu hérlendis, enda aki hér allir um á glæsibílum, veitingastaðir séu þéttsetnir að staðaldri og allar verslanir fullar af fólki, sem versli eins og enginn verði morgundagurinn.

Allt annað er uppi á teningnum í umræðum manna á meðal um ástandið í landinu, því allir keppast um að útmála hve erfitt lífið sé og allt orðið dýrt og endar nái engan veginn saman vegna brýnustu lífsnauðsynja og hvað þá vegna afborgana húsnæðis- og bílalána.

Umsvifin í allri verslun og skemmtanahaldi hlýtur því að endurspegla afar mismunandi kjör landsmanna og að kreppan komi lítið sem ekkert við suma, á meðan hún er að sliga aðra.  Um þá verst settu lofaði ríkisstjórnin að reisa skjaldborg, en ekkert hefur orðið úr því ennþá og sýnist ekki ætla að verða á næstunni.

Það virðist ætla að koma í hlut dómstólanna, en ekki stjórnarinnar, að leysa þá allra verst settu undan versta efnahagslega okinu, sem sligað hefur stóran hóp í þjóðfélaginu eftir hrunið.

Telja verður það dómstólunum til tekna, en ríkisstjórninni til vansa.

 


mbl.is „Stærsta föstudagsbrekkan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Það vill enginn horfast í augu við raunveruleikann.

Aðalsteinn Agnarsson, 31.7.2010 kl. 14:02

2 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Reyndar er Steingrímur aðeins farinn að leiðbeina, Hæstarétti.  Fram kom í viðtali hans við Reuters í gær að, ef Hæstiréttur staðesti dóm Héraðsdóms, varðandi vexti á þeim gengislánum, sem dæmd höfðu verið með ólöglega gengistryggingu, þá væru nánast engar líkur á bankakrísu hér.  Semsagt, bankahrun vegna gengistryggðu lánana, ef af verður, mun skrifast á óhagstæðan dóm Hæstaréttar, gagnvart stjórnvöldum.

Kristinn Karl Brynjarsson, 31.7.2010 kl. 14:25

3 identicon

Audvitad er naudsynlegt ad their sem hafa a thvi efni, eydi pening og haldi fyrirtaekjum, verslunum, o.s.frv. gangandi. Vilt thu ad allir haetti ad eyda, og lifi a gurkum og vatni bara til thess ad "taka thatt" i kreppunni..

Balli (IP-tala skráð) 31.7.2010 kl. 16:29

4 identicon

Ég borðaði nú núðlur og annað drasl í nokkra mánuði til að geta skroppið í helgarferð til útlanda.

Þannig að þó að fólk sé að mörgu leiti að gera sömu hlutina þá þýðir það ekki endilega að eyðslan sé óbreytt.

En það er mikilvægt að lifa lífinu, meðal annars með því að ferðast, það er gott fyrir sálin. Maður á að leyfa sér hluti einstaka sinnum þó það sé kreppa.

Geiri (IP-tala skráð) 31.7.2010 kl. 16:47

5 identicon

Veruleikafirring er býsna útbreiddur kvilli.

Garðar (IP-tala skráð) 31.7.2010 kl. 16:51

6 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Tek undir þetta með þér Axel, það er ekki að sjá á yfirborðinu að hér ríki kreppa, starfa sjálfur í verslun og furða mig daglega á traffíkini!

Guðmundur Júlíusson, 31.7.2010 kl. 21:39

7 identicon

Í kreppu dregur fólk úr neyslu á ýmsum sviðum, hinsvegar hættir það ekki að lifa lífinu.

Athugið að margir eru búnir að skera niður á fullu og orðnir þunglyndir af kreppunni, er eitthvað rosalega hræðilegt við það að þetta fólk leyfi sér smá skemmtun um versló?

Geiri (IP-tala skráð) 31.7.2010 kl. 21:55

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er auðvitað ekkert athugavert við það, að þeir sem eiga peninga eyði þeim í hvað sem þeir vilja, enda bráðnauðsynlegt fyrir hagkerfið.  Hins vegar er ég ekki viss um að þeir, sem í mestum fjárhagsvandræðum eru, séu þeir sem mestu eyða í skemmtanahald um helgina.  Sennilegra er að þeir sitji heima og lesi um gamanið hjá hinum, sem ekki eiga við jafn mikla fjárhagserfiðleika að etja.

Nema allir húsbílarnir, húsvagnarnir, fellihýsin og bílarnir sem draga þau hafi verið á gengistryggðum lánum og eigendurnir séu að halda upp á Hæstaréttardóminn.

Axel Jóhann Axelsson, 31.7.2010 kl. 22:09

9 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Já, nema!!!!

Guðmundur Júlíusson, 31.7.2010 kl. 22:51

10 identicon

menn þurfa nú ekki alltaf að hugsa um þessa leiðinlegu kreppu,þetta er nú engin heimsendir hjá okkur Íslendingum ! .

Oddur Ómarsson (IP-tala skráð) 1.8.2010 kl. 01:15

11 identicon

Eyðslan í kreppuna er misjöfn, margir spara kaup á nauðsynjum til þess að hafa efni á munaði, t.d. ferðalögum og fötum, á meðan aðrir leggja áherslu á að leggja fyrir örfáa þúsundkalla á mánuði þegar nauðsynjum er fullnægt.

Sjálf veitti ég mér þann munað að kaupa mér blandara í dag, og þvílík eyðsla, 5000 krónur í Bykó, ódýrasti blandarinn sem til var, en mér fannst réttlætanlegt að verðlauna mig fyrir sparsemi undanfarið og keypti þess vegna hlut sem ég hef lengi langað í :)

Brynja (IP-tala skráð) 1.8.2010 kl. 05:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband