Óábyrg Samtök lánþega

Samtök lánþega hvetja alla sparifjáreigendur landisins til að gera áhlaup á viðskiptabankana og hreinsa út úr þeim allt sparifé, sem þar er til ávöxtunar, en samkvæmt áhlaupsáskoruninni nema þessar innistæður um 2.200 milljörðum króna.

Áhlaup á banka er eitt það alvarlegasta sem fyrir getur komið í fjármálalífi nokkurrar þjóðar og því mikið ábyrgðarleysi að hvetja til slíks, en samtökin beina því til sparifjáreigendanna að taka út allar sínar innistæður og koma þeim í "öruggt skjól" t.d. í ríkistryggð skuldabréf.

Við svona áhlaup myndu bankarnir hrynja hver af öðrum og engum til að dreifa öðrum en ríkinu til þess að endurreisa þá og hefði þá ekki til þess annað fé, en það fé sem innistæðueigendur hefðu lagt til með kaupum á ríkisskuldabréfum og þar með myndi endurgreiðslugeta ríkisins á þessum skuldabréfum skerðast verulega, fyrir utan að tiltrú umheimsins á Íslendingum og íslensku fjármála- og efnahagslífi myndi algerlega gufa upp, ef eitthvað er eftir af slíkri tiltrú.

Þetta herútboð samtaka skuldara til þeirra sem hafa lagt til sparifé, sem síðan hefur aftur verið lánað út úr bönkunum er eitthvað það óábyrgasta útspil sem um getur í íslenskum og alþjóðlegum fjármálaheimi og getur ekki orðið til annars en að ýta undir umræður um að íslenskir stórskuldarar séu algerlega óábyrgir gerða sinna og orða.

Vonandi taka sparifjáreigendur ekki til sín þessar "ráðleggingar" þeirra, sem tekið hafa spariféð að láni, en ætlast til þess að þurfa ekki að borga það til baka að fullu. 


mbl.is Hvetja fólk til að taka út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Hárrétt. Nú  æpa þeir sem tekið hafa spariféð að láni , eldur, eldur  í troðfullum  sal.Þetta er ekki aðeions óábyrgt. Þetta er glæpsamlegt.

Eiður Svanberg Guðnason, 24.6.2010 kl. 09:03

2 Smámynd: Ólafur Guðmundsson

Það er ótrúlegt að fjölmiðlar lepji allt eftir þessum sjálfskipuðu "Hagsmunasamtökum".

Ólafur Guðmundsson, 24.6.2010 kl. 09:09

3 identicon

Ég hef ekki oft verið þér sammála Axel, en það er ég núna. Ég vona að fólk fari ekki að láta spila með sig eins og einhver peð og hleypi öllu í bál og brand. Innistæður á bankareikningum eru tryggðar, öruggari stað fyrir peningana er ekki hægt að finna.

Aðalsteinn (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 09:17

4 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

  Maður hefur það sterkt  á  tilfinningunni,að Morgunblaðinu leiðist ekki að hampa þessari frétt !

Eiður Svanberg Guðnason, 24.6.2010 kl. 09:20

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Eiður, þetta er búið að vera fyrsta frétt á Bylgjunni í þrem fréttatímum í morgun, þannig að ýmsum leiðist greinilega ekki að hampa þessari dellu.

Axel Jóhann Axelsson, 24.6.2010 kl. 09:29

6 identicon

Það verður stundum að lesa á milli línanna.  Eins og ég skil þetta er verið að snúa út úr orðum seðlabankastjóra og bankamálaráðherra.  Þeir segja að þetta verði mikið áfall fyrir bankana, en síðast í morgun gaf Íslandsbanki út yfirlýsingu um að þótt gengislán yrðu gerð upp skv. hæstaréttardómi þá færu þeir ekki niðurfyrir skyldubundið eiginfjárhlutfall. 

Eiríkur (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 09:51

7 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það er nú líklega það eina sem að Morgunblaðið, hefur unnið sér sakar, er að hafa opnað póstinn, sem innihélt þessa fréttatilkynningu og birt hana.  Auðvitað nýtur Morgunblaðið þess að skýra frá atburðum og viðhorfum líðandi stundar, frá sem flestum sjónarhornum.  Það er eitthvað sem flestir ef ekki allir miðlar ættu að taka sér til fyrirmyndar.

Kristinn Karl Brynjarsson, 24.6.2010 kl. 09:52

8 identicon

Þeir hvetja fólk til að setja bankana á hausinn og kaupa ríkisskuldabréf hjá ríkinu sem þarf að reyna að bjarga þessum bönkum og færi sennilega sjálft á hausinn í leiðinni. Ekki eru þeir að tala um önnur ríki því það væru brot á gjaldeyrishöftum.

Það kæmi mér ekki á óvart þó forsvarsmenn þessara samtaka væru sjálfir á hausnum.

Valdimar (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 10:01

9 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Bíðiði aðeins við! Eru það ekki einhverjir aðrir sem gáfu upp boltann og eru óábyrgir í sínu þvaðri?

Hvað með Seðlabankastjórann og viðskiptaráðherrann?

Kristján H Theódórsson, 24.6.2010 kl. 10:03

10 identicon

Þetta er mjög óábyrgt tal hjá þessum tilbúnu samtökum.  Má ég spyrja, hver stofnaði þau og í hvaða tilgangi.  Klekkja á bankakerfinu sem aldrei hefur gert þessum mönnum neitt.  Bara lánað þeim penininga á hagstæðum kjörum. 

Þessir menn eru örugglega á hausnum og líka óheiðarlegir.

kryppa.com (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 10:07

11 identicon

Þessi ruslaralýður í þessum samtökum krefst þess að þurfa ekki að greiða skuldir sínar. Þetta lið er með fé innistæðueigenda að láni og neitar að greiða til baka, en segir innistæðueigendum samt að taka peningana sína út! 

Eitthvað í þessu gengur nú ekki alveg upp .

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 10:15

12 identicon

Þegar bæði viðskiptaráðherra og Seðlabankastjóri lýsa því yfir að bankarnir ráði ekki við skellinn.

 Blasir þá ekki við að taka út peningana sína?

 Þetta "run" er pantað af ríkisstjórn og Seðlabankastjóra, og ekki við aðra að sakast ef áhyggjurnar eru óþarfar.

Það er allavega ljóst að það er ekki lengur ríkisábyrgð á innstæðum.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 10:16

13 Smámynd: Sigurður Ingi Kjartansson

Þið getið kallað þetta ruslaralýð og talað um að þau vilji ekki borga skuldir sínar en staðreyndir er samt sú að þetta fólk er alveg tilbúið að borga sínar skuldir en krefst þess að kjör séu sanngjörn sérstaklega í ljósi þess að þessi hópur á að taka þátt í því að bjarga fjármagnseigendum en eis og flesstir vita ákvað ríkið að tryggja þá sérstaklega fyrir skakkaföllum en sú aðgerð skapaði 2.318 milljarða króna skuldbindingu fyrir ríkið samkvæmt skýslu rannsóknanefndar.

Held að í því samhengi séu þeir 100 milljarðar sem kerfið tapar (miðað við hagnað bankanna á síðasta ári í bullandi kreppu ætti þetta ekki að þurfa að lenda á ríkissjóði) á þessum lánum hreinir smáaurar.

Sigurður Ingi Kjartansson, 24.6.2010 kl. 10:31

14 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Hvaða rugl er þetta. " Þetta lið er með fé innistæðueigenda að láni og neitar að greiða til baka". Ekki ljúga Þorgeir!

Er þetta "lið" ekki með s.k. erlend lán. Ekki eru það íslenskir innistæðueigendur sem búa erlendis ,eða hvað?

Þar fyrir utan er enginn af þessu "liði" að neita að greiða umsamin lán til baka. bara uppbólginn ólöglegan gengishagnað sem bankarnr ætluðu að svindla uppá það eftir að hafa möndlað svo með stöðutökur gegn krónunni að hún hrundi meira og hrottalegar en nokkur gat búist við.

Þar fyrir utan er búið að gera ráð fyrir þessum leiðréttingum í bókhaldi bankanna.

Kristján H Theódórsson, 24.6.2010 kl. 10:40

15 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður Ingi, margir þessara skuldara eru ekki að krefjast sanngjarnra kjara á endurgreiðlu lána sinna, heldur að greiða þau til baka óverðtryggð, með 2-4% vöxtum.  Það er ekki sanngjörn endurgreiðsla á skuldum, en eftir sem áður stendur dómur Hæstaréttar og lánafyrirtækin eiga að fara eftir honum og þangað til dómur fellur um eitthvað annað eiga þau að rukka eftir texta lánapappíranna og geta ekkert verið að þæfa málið, því ekki vildu þau slaka á innheimtunni og bíða eftir að Hæstiréttur kæmist að niðurstöðu í málinu.  Þau eiga ekki og geta ekki beðið eftir nýjum dómum, a.m.k. ekki vegna lána, sem voru með sömu kjör og dómarnir fjölluðu um.

Kristján, það er ekkert siðlegra að láta útlendinga tapa á lánum til Íslendinga, en íslenska sparifjáreigendur.  Þó búið sé að gera niðurfærslur í bókhaldi vegna óvissra endurkrafna, þá er það ekki það sama og endanleg afskrift.  Ef meira innheimtist af kröfum en varúðarniðurfærslan gerði ráð fyrir, þá gengur meira til kröfuhafanna en ráð var fyrir gert og myndar hvorki tap eða hagnað hjá lánastofnuninni, því varúrðarfærslan er væntanlega færð yrir höfuðstól í uppgjöri.

Axel Jóhann Axelsson, 24.6.2010 kl. 10:55

16 Smámynd: Sigurður Ingi Kjartansson

Axel, þú verður samt að athuga að þetta voru þau kjör sem okkur var boðið, okkur voru sýndir útreikningar á blaði sem áttu að sýna mér hversu mikið við ættum að borga til baka af láninnu um hver mánaðarmót ég var meiri að segja látinn kvitta á þetta blað til að staðfesta að ég hefði séð það, þetta sagði bankinn mér að ég ætti að borga til baka, er eitthvað ósanngjarnt að ég fari fram á að borga akkurat það? Sérstaklega í ljósi þess að eina forsendan sem breyttist frá þeim sem bankinn sýndi mér var gengi krónunar og ástæðan fyrir því var samkvæmt skýrslu rannsóknanefndarinnar einmitt stöðutaka þessra sömu stofnanna enn EKKI neitt sem ég gerði.

Varðandi af hverju fólk tók þessi lán en ekki eithvað annað þá var bara ekkert annað í boði, þegar Sigurbjörn bróðir minn keipti sinn bíl hjá B&L 2007 þá var pabbi eitthvað að vesenast í þessu með honum en pabbi var ekkert hrifin af þessum gengistryggðu lánum (vissi greinilega meira en ég enda er hann eins og þú veist enginn vitleysingur), hann bað því sölumannin um annarskonar lán en svarið var einfallt "það er ekki í boði"

Þegar ég keipti minn bíl þá man ég heldur ekki eftir að mér hafi verið boðinn annar valkostur.

 Það er ekkert ósiðlegt að láta þann sem braut löginn tapa á eiginn lögbroti.

Sigurður Ingi Kjartansson, 24.6.2010 kl. 11:17

17 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ætla menn ekki að fara að vakna upp og skilja þá staðreynd, að ríkisstjórn landsins er að fara með þjóðina til fjandans  - afsakið ég meinti Evrópusambandsins ? Hvenær ætlar almenningur að losa sig við vanhæfa landráðamenn eins og Jóhönnu, Steingrím og Össur ?

Ekki verður betur séð en að hin raunverulega kreppa sé að skella yfir. Samtök lánþega, ein fjölmennustu samtök landsins, hvetja til áhlaups á bankana og þar með gjaldþrots þeirra. Er ekki skynsamlegra að efna til kosninga og senda Icesave-stjórnina í langt frí ?

Er samfélagsupplausn og byltingarástand framundan ?

Loftur Altice Þorsteinsson, 24.6.2010 kl. 11:26

18 identicon

Mér sýnist tilganginum vera náð, allavega er Íslandsbanki skriðinn úr fylgsni sínu og búinn að gefa það út að þótt að öll erlend lán hans til viðskiptavina verði borguð samkvæmt Hæstaréttardómnum (er til annar valmöguleiki?) standi Íslandsbanki vel.

Það er því alveg óþarfi að hlusta á bullið í Gylfa, hinir bankarnir fylgja fljótlega í að básúna það að þeir lifi þetta af líka

Hvar er annars samkeppniseftirlitið í öllu þessu fjármögnunarsamkrulli öllu saman?

Einar Tryggvason (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 11:28

19 identicon

Hvað sagði ég, nú er Arionbanki búinn að gefa út yfirlýsingu um að hann sé ekki í hættu vegna dómsins

http://www.visir.is/arion-banki-ekki-i-haettu-vegna-gengisdoms/article/2010933965442

Mér sýnist Gylfi hafa tekist í gær að grafa sína Ráðherrragröf ágætlega sem að mér þykir miður því að allt þangað til í gær treyti ég honum 100% til allra góðra verka

Einar Tryggvason (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 11:40

20 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður Ingi, ekki er ég að sýta það að lánafyrirtækin tapi á þessum löglausu pappírum sínum og hef margsagt að þau eigi að fara að dóminum og það strax.  Það breytir ekki því, að þessi kjör á lánunum eru bara gjöf, fyrst gegnistryggingin var dæmd af þeim.  En ég ítreka, að dómurinn stendur, hann er lántakanum í vil og lánafyrirtækin eiga ekkert að draga það að fara eftir honum.  Þau hlífðu fólki ekkert í innheimtunum fyrir dóm og eiga ekkert að draga það nú að fara eftir honum.

Svo er reyndar annað, að þessir lánapappírar voru ekki allir eins, þannig að dómarnir sem voru kveðnir upp þann 16. júní ná ekki yfir öll þessi "erlendu" lán, t.d. ekki þau sem tilgreindur höfuðstólinn í erlendri mynt, og svo var eitthvað mismunandi orðalag á vaxtaákvæðunu, t.d. var í einhverjum tilfellum talað um ákveðið vaxtaálag á tiltekna vexti í viðmiðunargjaldmiðlinum.  Ef viðmiðunargjaldmiðillinn er núna íslensk króna, þá getur svona orðalag orðið tilefni til nýrra málaferla og ef maður þekkir lánafyrirtækin rétt, þá verður allt hártogað og teygt varðandi þessi lán öll og ekki leyst úr einu eða neinu, nema með úrskurðum dómstóla.

Líklega er það rétt að ekki var boðið upp á önnur lán en þessi gengislán á þeim tíma sem gengi krónunnar var hvað sterkast og allir vissu að það myndi ekki standast til lengdar og falla a.m.k. um 30-40% án þess að til sérstaks hruns myndi koma og ekki þurfti heldur neina sérstaka stöðutöku gegn krónunni til þess heldur.

Auðvitað var ábyrgðarhluti af lánastofnunum að halda þessum lánum að fólki, þegar fyrirséð var að krónan myndi veikjast, enda vöruðu margir við því, en því miður (eða sem betur fer) fældi það ekki fólk frá því að taka þessi lán.  Lánafyrirtækin eiga ekkert betra skilið en að tapa á þessu, því þau vissu mætavel að krónan myndi falla.

Að segja þetta vera kjarakjör og ekki sanngjörn vegna óverðtryggðra lána, þýðir ekki það sama og að verið sé að taka stöðu gegn skuldurum og með lánafyrirtækjum.  Það er eingöngu verið að benda á einfalda staðreynd og alls enginn stuðningur við lögbrjóta.

Axel Jóhann Axelsson, 24.6.2010 kl. 11:41

21 identicon

Það virðist sem að sumir vilji að verst útleiknu fórnarlömb hrunsins eigi að slaka á lagalegum rétti sínum gagnvart bönkunum. Ein af rökunum fyrir tilslökun er að annars muni kjör bankanna verða verri fyrir almenning. Þá spyr ég hversvegna jöfnun átti sér ekki stað fyrir hæstaréttardóminn? Var eitthvað minna ósanngjarnt hvað bankarnir komust billega frá öllu saman og enduðu með tugi milljarða hagnað fyrir 2009?

Ef þetta nær fram að ganga þá ætti að vera sjálfsagður hlutur að spóla til baka með björgun peningamarkaðssjóðanna sem og björgun innistæðutrygginga umfram 20.þús evrur. Hafa Gylfi, Már og Mörður ekkert um það að segja?

Þráinn Guðbjörnsson (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 11:44

22 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þráinn, innlánin voru ekki greidd úr ríkissjóði við yfirfærslu í nýju bankana, heldur var sama upphæð í útistandandi kröfum færð til þeirra á móti innlánunum.

Ríkið þurfti hins vegar að leggja nýju bönkunum til nýtt eigið fé (hlutafé), en það er ekki það sama og að hafa látið skattgreiðendur ábyrgjast og greiða innlánin.

Axel Jóhann Axelsson, 24.6.2010 kl. 11:49

23 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Maður nennir varla lengur að þrasa við þá tómthausa sem endilega vilja klína óorði á okkur sem kannske/vonandi vorum frelsuð úr snöru óprúttinna lánafyrirtækja. Einkennilega árátta að vilja endilega etja okkur saman við aðra lán- og lífeyrisþega þessa lands sem einfaldlega eru ekki að tapa neinu þótt okkar vandi sé leystur.

Frétt á Mbl.is í morgun ,með vísan í Viðskiptablaðið greinir þetta raunar þannig ,að kostnaður af þessu afnámi gengistryggingar verði um 100 milljarðar og lendi  að mestu á fjármálfyrirtækjunum sjálfum, lántakendum, íslenska ríkinu eða dreifast milli þessara aðila.  Þar fyrir utan er vitað að búið er að afskrifa fyrir þessum möguleika, allavega að hluta. Langlíklegast verður hér ekki raunverulegt tap , kannske bara minni gróði næstu misserin.  Menn ættu að lesa tilkynningar frá Íslandsbanka og nú líka Arion banka , þar sem öllu kjaftæði þeirra Más og Gylfa er hafnað sem óábyrgu bulli, eða þannig.

Kristján H Theódórsson, 24.6.2010 kl. 11:49

24 identicon

Það er ÓTRÚLEGT að lesa þessi skrif hér!

Að kalla menn sem berjast fyrir réttlæti ruslalýð er fyrir neðan allar hellur! Þið ættuð að láta skoða hausinn á ykkur alvarleg! Már og Gylfi sögðu í gær að ef það er farið eftir lögum í landinu að þá fer bankakerfið á hausinn! Þeir þó allavega vara við bankahruni annað en fyrri stjórn gerði.

Þið ættuð að lesa ykkur til og hætta svona svívirðingu á fólk. Þið dæmið ykkur sjálfa sem fábjána með svona skrifum!

Axel, að erlendir aðilar tapi sínum kröfum er ekker siðlegra? Bíddu... kynntu þér málið. Þessir erlendir bankar lánuðu áhættufé til íslands í þeirri von um skjótan gróða. Eiga þeir ekki að tapa eins og aðrir sem taka áhættu? Á fólk sem tekur lán, gengistryggt eða verðtrygt að borga fyrir stöðutöku gegn krónunni, markaðsmisnotkun bankana, falskan hagnað og góðæri osfr. Byrjið á að skoða örsök vandans en ekki bendla fólk við fjárglæfri og vitleysu. Ekki tók ég nein gengislán en vertryggðu lánin eru allt önnur umræða og eru jafn ósanngjörn og hin!

Ég mæli með að þú, Axel kynni þér málið betur. Það er í raun átakanlega fyndið að lesa þessi skrif þín um nýfallin dóm hæstaréttar!

Finndu þér e-ð annað til að kvarta yfir....

Hlynur Gudlaugsson (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 11:55

25 identicon

Almenningur verður að gera sér grein fyrir því að sú afstaða Samtaka lánþega að vekja athygli á ummælum viðskiptaráðherra og seðlabankastjóra er ekki orsök hruns.

Orsökin er aldrei sú að segja satt heldur sú að orsaka það sem varð til þess að einhver varð að segja satt.

Almenningur á ekki að greiða fyrir illa rekna banka í einkaeigu. Slíkt er hlutverk fjárfesta sem spila með eigið fé í áhættufjárfestingum.

Okkar hlutverk er að sjá til þess með eðlilegu aðhaldi, að bankar og önnur fyrirtæki hagi sér með þeim hætti að almenningi stafi ekki hætta af.

Guðmundur Andri Skúlason (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 12:15

26 identicon

Ný frétt á RUV með yfirskriftina "Bankarnir þola afskrift gengislána ".

Eina leiðin til að knýja fram þessa yfirlýsingu bankann var sjálfsagt að hvetja til áhlaups.

Yfirlýsing lánþega var þó í mínum huga varla annað en smá útskýring á orðum seðlabankastjóra.

-----------

Axel, varðandi stofnun nýju bankanna þá voru fluttar yfir eignir og skuldir. Eignir voru m.a. gengistryggð lán á meðan skuldir voru m.a. innlánsreikningar. Ef að jafnvægi var þarna á milli við yfirfærsluna þá er augljóst hvað þarf að gera til að viðhalda því jafnvægi við eignarýrnun; i.e. minnka skuld tengda innlánsreikningum. Sjálfsagt er það kolólöglegt en ég vil vekja athygli á því hvaða möguleikar eru í stöðunni "þegar lögunum sleppir og réttlætiskennd og skynsemi" taka völdin [Mörður Árnason, Eyjublogg 22.6.2010].

Þráinn Guðbjörnsson (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 12:55

27 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Hlynur, viltu vinsamlega útskýra þessi orð þín aðeins betur: 

"Ég mæli með að þú, Axel kynni þér málið betur. Það er í raun átakanlega fyndið að lesa þessi skrif þín um nýfallin dóm hæstaréttar!

Finndu þér e-ð annað til að kvarta yfir...."

Hvaða mál þarf ég að kynna mér betur og hvað er svona fyndið við skrifin um dóm Hæstaréttar?

Það er svo sem rétt hjá þér, að ég þyrfti að finna eitthvað annað en dóm Hæstaréttar til að kvarta yfir, því ég hef hvergi kvartað yfir honum.  Ég hef einungis bent á að 2-4% vextir af óverðtryggðum lánum væri á við góða gjöf, en jafnfram tekið fram að það skipti engu máli um dóm Hæstaréttar og eftir þeim dómi ættu lánastofnanirnar að fara og það strax.

Kannski þú þyrftir að finna þér eitthvað annað til að kvarta yfir en mín skrif um dóm Hæstaréttar.  Varstu kannski bara ekki búinn að lesa þau, áður en þú fórst að kvarta yfir þeim?

Axel Jóhann Axelsson, 24.6.2010 kl. 13:10

28 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þráinn, ef útlánin sem nýju bankarnir yfirtóku reynast minna virði en ráð var fyrir gert við yfirtökuna, er þá ekki líklegt að þeir verði látnir yfirtaka meira af útlánum gömlu bankanna til að jafna á móti innlánunum, frekar en að skerða innlánin, sem voru flutt yfir á sínum tíma?

Manni fyndist það nú liggja beinna við.

Axel Jóhann Axelsson, 24.6.2010 kl. 13:14

29 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það verður að teljast einkennileg réttlætiskennd að sjá það óréttlæti í hæstaréttardómnum að greiðendur gengistryggðra lána skuli aðeins þurfa að greiða 2-4 % vexti ofan á upphaflega lánsfjárhæð en ekki yfir 100% með stökkbreyttum höfuðstól og það vegna þess að einhverjir höfðu gert ráð fyrir gróðanum við að endurreisa skipulagða glæpastarfsemi.

Magnús Sigurðsson, 24.6.2010 kl. 13:41

30 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Magnús, ef þú ert að beina orðum þínum til mín, þá verð ég bara að viðurkenna, að ég skil ekki sneiðina.

Axel Jóhann Axelsson, 24.6.2010 kl. 13:50

31 identicon

 Kristján H. Theódórsson sagði eftirfarandi:

 "Hvaða rugl er þetta. " Þetta lið er með fé innistæðueigenda að láni og neitar að greiða til baka". Ekki ljúga Þorgeir!Er þetta "lið" ekki með s.k. erlend lán. Ekki eru það íslenskir innistæðueigendur sem búa erlendis ,eða hvað?"

Dómurinn staðfesti þann skilning sem uppi var hjá öðrum aðilanum að um væri að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum, ekki erlendum gjaldmiðli, og hana má ekki gengistryggja. 

Útlán banka á Íslandi (í íslenskum krónum, eins og skuldbindingarnar í dómnum) eru fjármögnuð með lánum sem bankarnir taka hjá öðrum stofnunum eða ríkinu annars vegar, en með innlánum frá einstaklingum og fyrirtækjum hins vegar. 

Þeir sem krefjast þess að fá að greiða sínar skuldbindingar til baka á neikvæðum raunvöxtum eru að gera kröfu um að greiða ekki til baka sömu verðmæti og þeir fengu lánuð út, hvort sem það verður úrskurðað löglegt eða ekki. 

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 14:47

32 Smámynd: GAZZI11

Ég skil ekk af hverju við eigum að láta fjárglæframenn og íslenskar bankastofnanir geyma peningana okkar og þann sparnað sem ætlaður er viðkomandi á efri árum. Mér finnst bara allt í lagi að fólk taki peningana sína og geymi þá á eins öruggum stað og hægt er. Sá staður er ekki á Íslandi. Löngu búinn að flytja mína peninga og sparnað erlendis.

Íslendingar eiga að taka stöðu gegn íslensku bönkunum og stjórnmálamönnum þangað til þeir bera einhverja virðingu fyrir almenningi.  

GAZZI11, 24.6.2010 kl. 15:11

33 identicon

Mér finnst nú 2-4% bara nokkuð sanngjarnt fyrir húsnæðislán. Það þykir nokkuð sanngjarnt annarsstaðar í heiminum. Því ekki á Íslandi? Verðbólgan? Hún er að mestu tilkomin vegna lélegrar stjórnsýslu hjá fjármálastofnunum sem og ríkinu. Mér er nokk sama þótt svo að það lið þurfi að taka til í sínum ranni og bera ábyrgð á því sem það er að gera. Það þarf að breyta kerfinu í heild sinni og koma verðbólgu niður og þessi dómur er eitt besta meðal sem Ísland hefur fengið í þeirri baráttu.

Þú getur kallað þetta gjöf. Ég kalla þetta sanngjarna þóknun og algjöra himnasendingu fyrir íslensku þjóðina.

Kristinn (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 22:18

34 identicon

Axel Jóhann Axelsson.

Gengistrggðu lánin eru á vöxtum á bilinu 2-9prósent.

Vissulega er það rétt að 2-3% vextir eru ekki beint sanngjarnir vextir, en málið er bara það að síðasta heila árið hafa bæði bankarnir (þeir sömu og stútuðu krónunni) og svo einnig Gylfi Magnússon hafnað öllu sem heitir sanngirni, og ætluðu sér að blóðga hvern einasta lántakanda til síðasta blóðdropa og elta hann alla ævi og niður í gröfina.

Þetta var afstaða bæði viðskiptaráðherra og lánafyrirtækjanna alveg fram að dómi Hæstaréttar.

Málið er bara það að þegar lántakendur hafa þurt að þola það sem þeir hafa þurft að þola síðustutvö árin, og enginn hefur mátt heyra á það minnst að deila ábyrgðinni á þessu hruni að þá eiga þessir aðilar bara nákvæmlega ekkert "goodwill" inni hjá lántakendum.

Núna eru þessi fyrirtæki, og Gylfi Magnússon einfaldlega að fá að bragða eigið meðal, og verði þeim að góðu.

Þeir geta sjálfum sér um kennt eins og þeir hafa hagað sér frá hruni.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband