Nornaveiðarnar halda áfram

Um þessar mundir er þjóðfélagið á hvolfi vegna nornaveiða og beinast þær helst að stjórnmálamönnum, enn sem komið er að minnsta kosti.  Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var knúin til að segja af sér varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum og taka sér hlé frá þingstörfum, vegna fyrri starfa og gerða eiginmanns hennar. Þingmenn hafa tekið frí frá þinginu vegna tengsla við bankana fyrir hrun og einstakir þingmenn eru umsetnir á heimilum sínum af nornaveiðurum, sem þykjast geta dæmt æruna af fólki, án nokkurra sannana um lögbrot af hálfu viðkomandi fórnarlambs.

Nýjasta dæmið um þessa sefasýki er brotthvarf Guðrúnar Valdimarsdóttuir, hagfræðings, af lista Framsóknarflokksins í Reykjavík og jafnframt hefur hún sagt sig úr öllum trúnaðarstörfum á vegum hans þ.m.t. formennsku í Félagi framsóknarkvenna í Reykjavík. 

Þessa ákvörðun tekur þessi unga og vammlausa kona vegna þess að eiginmaður hennar tók þátt í milljarða plotti fyrir bankahrun og tapaði á því verulegum peningum, ef rétt er skilið.  Vegna þessara viðskipta eiginmannsins krafðist fulltrúaráð Framsóknarflokksins þess, að hún segði sig af framboðslistanum fyrir borgarstjórnarkosningarnra í Reykjavík, en þar skipaði hún annað sætið, eftir prófkjör fyrr í vor.

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvar blóðþorstinn endar þegar hjarðhegðunin beinist inn á nýja braut, en hún hefur sveiflast frá algerri meðvirkni í efnahagsruglinu fyrir bankahrun, yfir í nánast algerar ofsóknir gegn þeim, sem einhver bein tengsl eða viðskipti áttu við banka- og útrásarruglarana.

Um þessar mundir er vandlifað í þessu ágæta landi.

 


mbl.is Segir sig af lista Framsóknarflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Sé ekki betur en að þú sjálfur sért á grimmum nornaveiðum 2 færslum neðar..

hilmar jónsson, 27.4.2010 kl. 22:23

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ertu að meina færsluna um kosningarnar í BÍ?  Ef svo er, þá verður þú nú að útskýra hvaða nornaveiðar þú sérð þar.

Axel Jóhann Axelsson, 27.4.2010 kl. 22:30

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Að betur athuguðu máli sé ég að þú hefur líklega átt við færsluna um Ólaf Ragnar.  Þar er bara verið að tala um nokkur karaktereinkenni mannsins og dekur hans við útrásarvíkinga.  Það dekur hefur hann viðurkennt sjálfur og sagði í áramótaávarpinu að hann hefði gengið of langt í því og baðst afsökunar, þó nýlega hafi hann algerlega tekið nýjan pól í hæðina og varið öll sín afskipti af útrásinni.

Þetta voru alls engar nornaveiðar og ekki einu sinni ýjað að því að hann segði af sér.

Axel Jóhann Axelsson, 27.4.2010 kl. 22:38

4 identicon

Sæll Axel,

Þú hefur greinilega ekki skoðað málið vel. Maðurinn hennar var leppur fyrir Jón Ásgeir í viðskiptum sem snérust eingöngu um að koma 8 milljörðum út úr Glitni í hendur JÁ. Það er afar hæpið að maðurinn hennar hafi ekki verið með á nótunum um hvað þetta var eiginlega sem hann var að taka þátt í. Og hún er vel menntuð, hagfræðingur og samkvæmt því sem þú segir vammlaus kona. Og ef hún er sjálf flækt í þessa fjármálagjörninga eiginmannsins, sem er auðvitað ekki réttsýnum stjórnmálamanni sæmandi, eða þá alveg grunlaus um það sem eiginmaðurinn er að gera (og mætti þá jafnvel kalla hana kjána) þá á hún ekkert erindi í stjórnmál.

Nei, það eru ekki nornaveiðar þegar við viljum losna við fólk sem tók þátt í að tæma bankana okkar.

Jon P (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 10:13

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jón, ekki eru allar eiginkonur með puttana í því sem eiginmennirnir eru að bralla í viðskiptum, en hafi hún verið innvikluð í fyrirtækið og viðskipti þess, þá er það annað mál.  Varlega verður samt að fara í því, að láta syndir eiginmannanna koma niður á eiginkonu og börnum.  Það er rétt hjá þér, að ég veit ekki um hvað þessi viðskipti snerust, en er ekki undrandi, ef þetta hefur tengst Jóni Ásgeiri í Bónus, þeim fyrrum elskaða og dáða manni af almenningi í landinu.

Svo er það annað mál, að fulltrúaráðum flokkanna er alveg frjálst að ákveða hvernig þau raða upp sínum framboðslistum, enda er það í þeirra verkahring að ganga frá og samþykkja listana.  Vonandi hefur fulltrúaráðið haft ríkar málefnalegar ástæður til að fella þessa konu út af listanum, þrátt fyrir að flokksmenn hafi kosið hana í annað sætið í prófkjöri og þar hafi ekki eingöngu nornaveiðar verið að baki.

Axel Jóhann Axelsson, 28.4.2010 kl. 10:34

6 Smámynd: Kristján Hilmarsson

 

Ætla ekki að blanda mér í þetta einstaka mál hjá framsókn, þekki ekki nóg til þess máls, heldur taka aðeins fyrir svona hvað mér sýnist og óttast varðandi svokallaðar "hreinsanir" og "nornaveiðar" sem hafa verið í gangi eftir hrun, á þá við allt sem gert er utan réttarkerfisins. 

"Nei, það eru ekki nornaveiðar þegar við viljum losna við fólk sem tók þátt í að tæma bankana okkar." segir Jón ! nei kannski ekki ennþá Jón, en það er ekki víst að þetta stoppi þar sem siðmenntuðu fólki ber að stoppa, vegna þess að hvatirnar á bak við eru ekkert endilega réttlætiskenndin sem flestir segja að standi á baki þessu.

Og þetta:"við viljum losna við fólk "  getur rétt eins hjá mörgum, verið drifið áfram af hefndarþörfinni, sem er sterkur eiginleiki í okkur manneskjum, tengist oft réttlætiskenndinni án þess við tökum eftir því, og þá er ekki eins létt að stoppa og aðgerðir gerðar í ekta réttlætisskyni, vil bara nefna þetta sísona og biðja alla um að skoða sinn hug og fylgjast með, bæði sjálfum sér og þróuninni í þessu áður en þetta fer alveg úr böndum.

Kristján Hilmarsson, 28.4.2010 kl. 10:50

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Algerlega sammála þessu, Kristján.  Það getur verið ótrúlega stutt á milli eðlilegrar gagnrýni og hreinna ofsókna. 

Axel Jóhann Axelsson, 28.4.2010 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband