Einkavæðing er ekki sama og glæpavæðing

Þegar Landsbanki og Búnaðarbanki voru seldir á sínum tíma mynduðust engar biðraðir fyrir utan ráðuneytin af áhugasömum aðilum, sem ólmir vildu kaupa bankana.  Leitað var með logandi ljósi að erlendum bönkum sem hægt væri að fá til að kaupa þó ekki væri nema annan bankann, en ekki einn einasti hafði á því nokkurn áhuga.

Að endingu var tekin "pólitísk" ákvörðun um að selja bankana til Samsonar og S-hópsins, en þó ákvörðunin hafi verið tekin af pólitíkusum, er það ekki það sama og ákvörðunin hafi ekki verið eftir öllum lögum og heimildum, enda kemur fram í fréttinni:  "Steingrímur Ari sagðist ekki vera að halda því fram að lög hefðu verið brotin í tengslum við söluna. Ríkisendurskoðun hefði staðfest að ráðherrunum hefði verið heimilt lögum samkvæmt að víkja reglum til hliðar."

Í ljósi reynslunnar má auðvitað segja að það hafi verið mistök að selja þessum aðilum bankana, en það gat enginn séð fyrirfram, að þessir nýju eigendur myndu reka bankana eins og einkaspaibauka sjálfra sín og sinna og stunda að því er virðist hreina glæpastarfsemi í tengslum við rekstur þeirra og annarra fyrirtækja sinna.

Sala á einhverju til óheiðarlegra manna gerir seljandann ekki samsekan um glæp, sem kaupandinn kann að nota hið selda til að fremja.


mbl.is „Þetta var pólitísk ákvörðun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 20.4.2010 kl. 12:15

2 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Æ, er ekki hægt að hætta þessu endalausa vitleysiskarpi?

Hin pólitíska ákvörðun fólst í því að hverfa frá "dreifðri eignaraðild" og velja þess í stað "kjölfestu fjárfesta". Þetta var ekkert annað en plott á milli stjórnmálablokka um að hygla sínum gæðingum - S-hópur vs. Samson - Framsókn vs. Sjálfstæðisflokkur. Það sjá það allir, vaknaðu maður.

Þannig var verið að víkja frá öllum grundvallarprinsippum varðandi fagmennsku og þá kröfu að fá aðila með þekkingu á bankarekstri sem kaupendur. 

Þeir einstaklingar sem fara með æðsta vald ríkisins geta ekki búið til hér fjármálaumhverfi og firrt sig svo ábyrgð á því sem einstaklingarnir gerðu (oftast algerlega samkvæmt þeim lögum og reglum sem ríkið setti).  Bankamenn, sem aðrir, fara alveg eins langt og þeim er heimilt samkvæmt lögum. Það er á ábyrgð löggjafans (og engra annarra) að sjá til þess að hafa bankakerfið undir stjórn. 

Þór Ludwig Stiefel TORA, 20.4.2010 kl. 12:23

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Dreift eignarhald í upphafi, hefði ekki komið í veg fyrir eitt eða neitt, eða það er ekki hægt að fullyrða slíkt.  Þá hefðu einhverjar hundruðir eða þúsundir eignast hlut í bönkunum, þ.e. hlutabréf. Hlutabréf eru í rauninni ekkert nema staðfesting á eignarhluta sem að gengur kaupum og sölum og ekkert sem að mælir gegn því að Samson, Baugur, S-hópurinn eða einhverjir aðrir hefðu getað keypt upp alla þessa smáu hluti sem að hefðu þá verið í umferð. Burt séð frá því lagaumhverfi sem sett var um bankana, þá kemur það nafn "bankamanns", sem mestum skaða olli hvergi fram í því ferli þegar að einkabankarnir voru einkavæddir, þ.e. nafn Jóns Ásgeirs.

Það er talað um í skýrslunni að setja hefði mátt strangari lög um starfssemi bankana og viðskiptalífsins.  Kannski byrjuðu menn á því með að setja fjölmiðlalögin.  Það vita allir hvaða örlög þau lög fengu og hvaða öfl þrýstu á forsetann með að staðfesta ekki lögin, til þess að tryggja Baugi og tengdum aðilum næga aðkomu að fjölmiðlum og þar með að viðhalda sinni áróðursmaskínu.

 Þegar horft er til þess hvaða ítök Baugsveldið hafði í bankakerfinu, áður en það veldi tók við að tæma Glitni, má alveg ímynda sér það, að hefði verið gerð tilraun til að þrengja að bönkunum, þá hefðu sömu öfl og komu í veg fyrir fjölmiðlalögin, farið á stjá.

 Samt er varla hægt að segja að núverandi stjórnvöld séu nokkuð að læra af hruninu.  Stuttu eftir að föllnu bankarnir voru einkavæddir, þá var tekin í "nýeinkavæddum" Arion banka ákvörðun um framtíð Haga. Við getum látið það liggja milli hluta hversu langur aðdragandi sé að þeirri ákvörðu.  En gott og vel.  Þegar ákvörðunin liggur fyrir þá birtist Jóhanna í Kastljósi og lýsir yfir undrun og skelfingu yfir þessu öllu saman, en stjórnvöld geti bara ekkert gert, bankinn sé kominn í hendur kröfuhafa.  Eftir mikla eftirfylgni eftir því að fá uppgefið, hver eigi bankana, þá kom það úr dúrnum að í raun væri það eignarhaldsfélög skilanefndana, sem að héldi utan um eignir kröfuhafana, án nokkurrar aðkomu þeirra, semsagt kröfuhafarnir hafa enga aðkomu að rekstri og ákvörðun stjórnenda bankans. Stjórnarmenn nýju bankana fá ekki að setjast í stjórn nema FME, gefi þeim hæfnisvottorð til setu þar og eru því stjórnarmenn bankana þar á ábyrgð FME, sem er svo á ábyrgð viðskiptaráðherra.  Það þarf vissulega að "teygja" langt til þess að stjórnvöld, hefðu getað einhverju breytt varðandi Haga, en það hefði samt verið hægt, hefði staðið til þess vilji.
  Það má alveg þegar mál 365miðla hjá Landsbankanum, rikisbankanum er skoðað, þá má alveg ímynda sér að vilji stjórnvalda, til þess að koma einhverjum böndum á "Baugsveldið" er svo ekki sé meira sagt mjög takmarkaður.

Kristinn Karl Brynjarsson, 20.4.2010 kl. 12:34

4 identicon

Davíðsherdeildin reynir enn að verja sinn mann. Steingrímur Ari var að gagnrýna það að reglum var ekki fylgt við söluna, heldur viku pólitíkusarnir þeim til hliðar þegar þeir fundu "sína" menn til að hygla. Það skal tekið fram að þessar reglur höfðu ekki verið settar út í loftið, heldur var hugmyndin sú að (a) að fá erlenda banka inn í kaupin til að tryggja það að einhverjir með reynslu af bankarekstri kæmu að rekstri bankanna og (b) að bankinn yrði ekki í eigu lítils hóps manna sem næði þannig tangarhaldi á bankanum og íslensku efnahagslífi um leið. Frá hvorutveggja var snúið, að ákvörðun forystumanna stjórnarflokkanna tveggja, Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Við sjáum nú afleiðingar þeirrar ákvörðunar. Að halda því fram að þessi ákvörðun hafi helgast af því að enginn erlendur banki hafi viljað kaupa er léttvæg, því að ef svo var þá hefðu þeir kumpánar kannski átt að spyrja sig hvort tíminn til að selja bankana væri réttur.  

Gunnar (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 13:12

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er alveg fráleitt að segja að bankarnir hafi "glæpavæðst" vegna þess að þeir voru einkavæddir, því Kaupþing var í einkaeigu frá upphafi, en þar komust vafasamir menn til valda og sameinuðust svo Búnaðarbankanum, þannig að það voru ekki þeir sömu sem stjórnuðu og áttu meirihluta í bankanum eftir það.  Þannig gekk sá banki kaupum og sölum eftir einkavæðingu með alkunnum afleiðingum.  Hlutabréfin í Íslandsbanka, síðar Glitni gengu kaupum og sölum þangað til Jón Ásgeir og félagar náðu þar undirtökunum og "glæpavæddu" hann endanlega.  Landsbankinn var hins vegar "glæpavæddur" af upphaflegum kaupendum, þannig að allir enduðu þeir í sama "glæpafarinu" þó ótrúlegt megi virðast.  Að kenna einkavæðingunni sem slíkri um það er fráleitt, meira að segja hvernig kaupendurnir voru valdir, enda staðfesti Ríkisendurskoðun að farið hefði verið að lögum um söluna.  Þær reglur sem vikið var frá, voru reglur sem settar voru af þeim sömu og viku síðan frá þeim, vegna breyttra aðstæðna. 

Hitt er annað mál að tíminn sem bankarnir voru seldir á var alls ekki heppilegur, þar sem í ljós kom að eftirspurn eftir íslenskum bönkum var nánast engin og upphaflega hugmyndin um að fá erlenda banka til að kaupa var ekki fyrst og fremst tilkomin af því að menn vildu fá erlenda reynslu að bönkunum, heldur af því að menn vildu selja fyrir gjaldeyri.  Það gekk upp þegar Bjöggarnir mættu með bjórpeningana sína og staðgreiddu Landsbankann með þeim.  Lánin sem þeir tóku síðar í Kaupþingi voru því ekki beint til kaupa á bankanum, en tengdist þeim þó óbeint.

Ekki fyrir svo löngu síðan seldi verslunarmaður byssu til manns, sem laug til um að hann væri að kaupa byssuna fyrir annan aðila og út á hans leyfi, en notaði hana síðan til að myrða mann.  Verslunarmaðurinn fékk ákúrur fyrir að kanna byssuleyfið ekki nógu vel, en engum datt í hug að ásaka hann um að vera meðsekan að morðinu.

Sölumanni verður aldrei kennt um, ef hið selda er notað til glæpaverka.

Axel Jóhann Axelsson, 20.4.2010 kl. 13:50

6 Smámynd: Haraldur Davíðsson

hahahahahaha...ég mála blátt oní blátt, og blanda svörtu í grátt....þvílíkt rugl í þér maður!

Það lá fyrir, að fyrir Samson fór dæmdur fjárglæpamaður, og veldi hans og peningar urðu til á "óskilgreindan hátt", í viðskiptum við vafasama aðila í A. Evrópu....það liggur einnig fyrir að Finnur og félagar í S-hópnum, voru ekkert annað en fénaður á beit hjá framsókn....en blessaður verðu þennan gjörning sem er fyrsta skrefið í glæpsamlegu hruni íslands, og ósvífinni fyrirgreiðslu og einkavinapoti gjörspilltra stjórnmálamenna....

Haraldur Davíðsson, 20.4.2010 kl. 14:34

7 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Þetta einkavæðingarferli sem rifist er um í dag átti sér stað fyrir 7-8 árum og flest öll gögn og vitnisburðir manna komnir fram.

Núna fyrir nokkrum mánuðum voru 2 föllnu bankana "einkavæddir".  En hverjum?........... 

Núna þegar að skýrslan um bankahrunið hefur verið birt, þá er það orðið ljóst hverjir felldu banka, þ.e. eigendur og stjórnendur þeirra.
Þegar fréttir bárust af því að Arion banki hafi afskrifað 200 milljarða skuld Ólafs Ólafssonar í Samskip og tekið ákvörðun um framtíð Haga. Þá birtust leiðtogar ríkisstjórnarinnar og kváðust vera yfir sig bit á þessu öllu saman og í hálfgerðu sjokki, en gætu samt ekkert gert því bankinn væri kominn í hendur kröfuhafa. Eflaust má deila um það hversu langt þessar ákvarðanir varðandi Samskip og Haga hafa verið langt komnar í ferlinu áður en að kröfuhafarnir „tóku“ bankann yfir, þannig að ég læt það liggja á milli hluta.
Núna eftir að viðskiptanefnd Alþingis, hefur loks fengið svör um hverjir séu „raunverulegir“ eigendur, þ.e. kröfuhafarnir og er þá vísað í kröfulista á föllnu bankana, en jafnframt er því haldið fram að svokallaðir kröfuhafar „ráði“ engu, þar sem að eignarhaldsfélög skilanefnda bankana haldi utan eignir þessara nýju eigenda og þá hlýtur það að liggja í þeim orðum að skilanefndir bankana reki bankana í dag og hafi yfir þeim allt ákvörðunnarvald. Á sama hátt er þá hægt að segja að ákvarðanir Arionbnka varðandi Samskip og Haga, hafi verið teknar af skilanefnd bankans og komi því „kröfuhöfunum lítt við enda þeir áhrifalausir „eigendur“ bankans.
Hver ber þá ábyrgð á skilanefndum föllnu bankana? Við skulum fá Gylfa Magnússon efnahags og viðskiptaráðherra skýra það út fyrir okkur með því að birta hér bút úr viðtali hans við fréttastofu RÚV:
„Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra segir að ríkið beri beint og óbeint ábyrgð á skilanefndum gömlu bankanna og það sé eðlilegt að ríkið beiti sér sem kröfuhafi í þeim til að gera athugasemdir við launagreiðslur skilanefndarmanna. Hann segir erfitt að setja reglur um hverjir megi og hverjir megi ekki fá fyrirgreiðslu í bönkunum enda séu bankastofnanir ekki dómstólar."
Sé það eðlilegt að ríkið beiti sér sem „kröfuhafi“ innan skilanefndana vegna launagreiðslna til skilanefndarmanna, þá er það á sama hátt eðlilegt að „ríkið“, ríkisstjórnin beiti sér í skilanefndum bankana fyrir því að séu stunduð önnur vinnubrögð en þau að afhenda gerendum bankahrunsins aftur yfirráð í sínum fyrirtækjum, á einhvern annan hátt en að lýsa yfir „undrun og skelfingu“ yfir sjónvarpsfréttum , þar sem greint er frá því að gerendur í bankahruninu séu að öðlast á ný yfirráð yfir sínum fyrirtækjum.
Taki maður þessar skýringar stjórnvalda „góðar og gildar“, þ.e. að þau hafi ekki haft „vald“ til þess að stöðva þessa gjörninga Arionbanka, þá spyr maður: „Hvar er Fjármálaeftirlitið?“
Stjórnvöld hafa einnig gefið það út að enginn fái að koma að stjórn „endurreistu“ bankana nema með samþykki FME. Nú má leiða að því líkum að FME hafi haft undir höndum, flestar þær upplýsingar sem birtust í skýrslunni um gjörðir þessara manna sem settu bankakerfið á hliðina og eru að fá afhend að nýju völd í sínum fyrirtækjum. Fjármálaeftirlitið hlýtur þá að bera ábyrgð á gjörðum þeirra sem þeir gefa „hæfnisvottorð“ til stjórnarsetu í nýju bönkunum.
Þetta er samt ekki eina „málið“ þar sem viðbrögð stjórnvalda í málefnum „nýju“ bankana varðandi gerendur í bankahruninu orka tvímælis svo ekki sé meira sagt.
Landsbankinn sem er í meirihlutaeign íslenska ríkisins lauk fyir nokkrum vikum samningum við eigendur 365miðla, um endurfjármögnun fyrirtækisins.
365 miðlar voru lengi vel í eigu Jóns Ásgeirs og tengdra fyrirtækja (sömu eigendur og áttu Haga), en nú ber svo við, vegna þess að Jón Ásgeir er með dóm á bakinu þá má hann ekki sitja í stjórn fyrirtækis og er nú eiginkona Jóns skrifuð fyrir fyrirtækinu, þó svo að öllum séu ljós yfirráð Jóns Ásgeirs yfir fyrirtækinu, sem og reyndar yfir Högum líka.
Þessi ríkisbanki, sem rekinn er af Bankasýslu ríkisins, sem heyrir beint undir fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, féllst semsagt á að afhenda 365 miðla sínum fyrri eigendum gegn því að eins milljarðs hlutafjáraukningu og er því hlutafé 365miðla orðið 3 milljarðar, þar af 2,4 milljarðar í svokölluðu „a-hluta“ og 600 milljónir í „b-hluta“. Það fé sem er í b-hlutanum er í eigu ónefnds aðila, svokallað áhrifalaust eða atkvæðalaust hlutafé.
Það hlýtur nú samt að teljast nokkuð líklegt að eigandi tuttugu prósenta hluts í fyirtækinu, þrátt fyrir að hafa ekki atkvæðisrétt á stjórnarfundum, hafi eitthvað með rekstur fyrirtækisins að gera og ráði eflaust töluverðu um það efni sem birt er í miðlum fyritækisins, eins og t.d. Fréttablaðinu, sem dreift er ókeypis og óumbeðið inn á hvert heimil í landinu.
Allt þetta hefur ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, þeirra sem haft hafa hvað hæst, undanfarin ár um einkavinavæðingu stjórnvalda í aðdraganda hrunsins, látið óátalið. Þó að ekki liggi neitt fyrir nema „semi“ játning Össurar Skarphéðinssonar á tengslum fyrirtækja í eigu Jóns Ásgeirs og Samfylkingarinnar, þá liggja þau tengsl ljóst fyrir.
Það má því alveg kalla þetta aðgeraleysi stjórnvalda, gagnvart gjörðum nýju bankana: „Einkavinavæðingu hina síðari.“

Við getum svo ákveðið hvort við ætlum að rífast um Davíð og Halldór, þangað til að "afleiðingar" síðustu einkavæðingar verða jafnvel tilkynnar með skýrslu líkt og þessari sem til umræðu í dag.

 Það að FME hafi fullt kontról á því sem er að gerast með nýju bankana í dag, stenst enga skoðun til lengri tíma. FME hefur ekkert vald til þess að skipta sér af því, hver kaupir og selur kröfur í föllnu bankana og þar með hefur FME ekkert í höndunum um það hverjir eiga bankana frá degi til dags, nema með því að skoða kröfulista bankana. Jafnvel þó hann sé uppfærður daglega, þá breytast ekkert endilega nöfn þeirra lögaðila sem eiga kröfur í bankana, en nöfn þeirra sem standa bakvið lögaðilana getur hæglega breyst án þess að FME hafi eitthvað með það að gera.

 Það er ljóst að megnið af þeim peningum sem að rænt var úr bönkunum hér heima fyrir hrun, gufuðu ekki upp, heldur eru þeir geymdir á stöðum sem þeir voru fluttir á eftir flóknum leiðum og ekkert sem segir okkur það, að mögulegir gerendur í þjófnaði úr bönkunum þ.e. fyrri eigendur þeirra, geti ekki haft aðkomu að nýju bönkunum.

En það er reyndar gömul aðferð í stjórnmálum að benda á glæpi fortíðar, til að skapa nægt myrkur í nútíðinni, til "nútímaglæpa".

Kristinn Karl Brynjarsson, 20.4.2010 kl. 14:57

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Frábær pistill Kristinn Karl og í raun ekkert við hann að bæta, hann segir það sem segja þarf.  Eitthvað annað en ómerkileg athugasemd Haraldar Davíðssonar, sem er eingöngu slagorð og glamur, sem ekkert er á að græða, eða leggur nokkuð vitrænt til umræðunnar.

Axel Jóhann Axelsson, 20.4.2010 kl. 15:12

9 identicon

Heill og sæll; Axel Jóhann - sem og, þið önnur, hér á síðu hans !

Axel Jóhann !

Það eigum við sammerkt; við, sem erum yst til hægri - sem og þeir, sem eru viðlíka, á vinstri væng stjórnmálanna, að bezt fari á, að Bankar séu, í ríkisins forsjá.

Rétt er; að leiðrétta ambögur nokkrar, í þinni grein.

Bankarnir tveir; voru GEFNIR, í hendur innlendra fáráðlinga og gróða púka.

Ekki seldir; ágæti drengur.

Miklu fremur; hefði ég kosið, að fá kaupendur, austan frá Laos (Asíu) - Malí (Afríku) og sunnan frá Ekvador (Suður- Ameríku), sem RAUNVERULEGA kaupendur að þeim, svo dæmi mætti nefna, úr öðrum heimshlutum. 

Það ríkir þó; lágmarks SIÐMENNING, í þessum löndum - annað en, á daginn hefir komið, hér á Íslandi, gott fólk.

Sá er þó; munurinn !

Punktur !!!

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 15:47

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er auðvitað rétt hjá þér Óskar, að betra hefði verið að fá nánast hvern sem var til að kaupa bankana, en þá sem það gerðu, fyrst þeir voru ekki merkilegri pappírar en raunin hefur sýnt.  Það var búið að leita til allra mögulegra erlendra banka um að kaupa, en enginn hafði áhuga.  Líklega hefur ekki verið leitað til banka í Asíu eða í Arríku, en aðilar þaðan hefðu að minnsta kosti ekki staðið sig ver en íslensku fáráðlingarnir.

Bankarnir voru náttúrlega ekki gefnir, því þeir voru seldir hæstbjóðendum, en markaðsvirðið var ekki hátt á þeim tíma og hefður þeir verið reknir eins og venjulegir bankar, væru þeir ekkert margra tuga milljarða króna viðri í dag heldur.  Allt var blásið út í kringum þennan bankarekstur eins og hver önnur blaðra, enda sprakk hún að lokum.

Axel Jóhann Axelsson, 20.4.2010 kl. 16:04

11 identicon

Það var ábyrgðarhluti hjá Davíði Oddssyni að selja dæmdum fjársvikara, Björgólfi Guðmundssyni, Landsbankann.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 10:21

12 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Með tilliti til þess hvernig fór, voru það mistök að selja Bjöggunum Landsbankann, en það sá enginn fyrir hvernig bankinn yrði rekinn eftir söluna.  Reyndar voru allir bankarnir reknir af glæpamönnum, sem allir höfðu hreinan skjöld áður en þeir komust í aðstöðu til að misnota bankana í sína eigin þágu og enginn sá það fyrir heldur.

Eftir sem áður eru bankaræningjarnir sekir um það hvernig fór, ekki þeir sem seldu þeim bankana.

Axel Jóhann Axelsson, 21.4.2010 kl. 10:58

13 identicon

Þessar fréttir um afskriftir nafna míns í Samskipum eru rangar. Það hefur ekkert af hans skuldum, hvorki persónulegum né skuldum tengdum eignarhaldsfélögum hans verið afskrifaðar.

kv,

Ólafur S (IP-tala skráð) 22.4.2010 kl. 23:49

14 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Hvernig nennirðu að hvítþvo Davíð og Halldór með þessari langloku. Hvað veist þú meira en stendur í skírslunni og ekki varstu í aðstöðu Steingríma Ara sem varð að segja af sér samviskunnar vegna. Ekki vegna þess að hann vissi hver væru bestu kaupendurnir heldur að það átti að nota hans nafn og verkstjórn einsog strengjabrúðu fyrir bakmenn í ráðherrastólum. Auðvitað verður ábyrgðin þeirra um aldur og ævi og hvað gerir það fokking til. Þessir gæjar hafa fengið sitt útúr kerfinu og verður víst ekki frá þeim tekið.

Gísli Ingvarsson, 23.4.2010 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband