Mörgum spurningum ósvarað

Dómurinn, sem nýfallinn er í héraðsdómi, um að ólöglegt sé að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, er stórmerkilegur, ekki síst vegna þess að hann varpar ljósi á vankunnáttu og flumbrugang lánastofnana við lánveitingar.  Í lögum er þetta alveg skýrt, þ.e. að bannað sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum, en hins vegar er ekki óheimilt að veita erlend lán, en það er tvennt ólíkt.

Í skuldabréfi þar sem tekið er fram að lántakandi sé að taka að láni ákveðna íslenska upphæð, er óheimilt að binda greiðslur við erlenda gjaldmiðla, en ef höfuðstóllinn er í erlendum gjaldmiðli, er eðlilegt að afborganirnar séu einnig í þeim sama gjaldmiðli.  Þetta tvennt er gjörólíkt, það fyrra ólöglegt, en það síðara löglegt.

Í tilefni af þessum dómi vakna margar spurningar, sem dómurinn sjálfur svarar ekki, þar sem einungis segir að gengisviðmiðunin sé ólögleg, en sjálfur lánssamningurinn ekki.  Er þá lánastofnuninni heimilt að endurreikna afborganirnar miðað við vísitölu neysluverðs, eða á að líta svo á að lánið sé algerlega óverðtryggt?  Hvað með vexti?  Væntanlega hafa vextir verið lægri á þessu láni, en venjulegum lánum í íslenskum krónum, allavega óverðtryggðum lánum.  Teljist lánið algerlega óverðtryggt, standa þá lágu vextirnir, eða er lánastofnuninni heimilt að endurreikna vextina, miðað við önnur óverðtryggð lán?

Þetta eru stórar spurningar, sem enn er ósvarað.  Þessum dómi verður örugglega áfrýjað til hæstaréttar, sem trúlega staðfestir hann.  Þá er líklegt að ný málaferli hefjist um aðra þætti, svo sem verðtryggingu og vexti.

Það verður spennandi að fylgjast með framhaldi þessa máls.


mbl.is Gengislánin dæmd óheimil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Satt segirðu, framhaldið verður fróðlegt. Sérstaklega það sem þú segir um heimildir lánastofnana til að endurreikna afborganir og höfuðstól. Ef þær fá einhliða heimldir til slíks sjálfdæmis hver er þá neytendaverndin?

Erlingur (IP-tala skráð) 13.2.2010 kl. 10:41

2 Smámynd: Jón Óskarsson

Loksins loksins fellur dómur sem tekur að hluta til efnislega á umdeildum lánveitingum.

Lánasamningar eru jafn misjafnir og þeir eru margir og það þýðir ekki að þessi dómur nái yfir nema einhvern ákveðinn flokk lána.   Það er algjör grundvallarmunur á því hvort "lánað er í erlendri mynt" sem er fullkomlega löglegt, eða hvort lánað er í íslenskum krónum með viðmiðun við erlendar myntir (gengistrygging).

Í ákveðnum lánasamningum sem ég hef séð þá er skýrt tekið fram að miðað sé við gengistryggingu en ekki minnst orði á "verðtryggingu" og í þeim tilfellum þá hljóta þeir samningar að teljast hafa verið "óverðtryggð lán" með þeim vöxtum sem þar voru tilgreind.   Það er frekar líklegt að í þeim tilfellum geti lánveitendur verið að tapa á "neikvæðum" vöxtum vegna samanburðar við verðtryggð lán með vöxtum.    Hversu mikið tapið var (eða hversu lítill hagnaðurinn var) fer síðan eftir því hversu háir vextir voru á viðkomandi láni.

Það er því meiri líkur en minni á því að ef til þess kemur að endurreikna þurfi ákveðin lán þá muni þau lán verða að vera reiknuð í íslenskum krónum án verðtryggingar.  Hvað lánveitendur geta síðan gert varðandi vexti á eftirstöðvar lánanna eða breytingar á þeim varðandi eftirstöðvar lánstímans er svo annað mál.

Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með framvindu málsins og ljóst að hagsmunir þúsunda heimila og fyrirtækja í landinu eru í húfi.  Niðurstaðan hjá Hæstarétti ef hún verður á sömu nótum og hjá Héraðsdómi gæti skapað nýjar forsendur til úrvinnslu á skuldavandamálunum og að loks væri hægt að koma fram með raunhæf úrræði.  Gjaldþrotum, uppboðum, eignaupptökum og öðrum slíkum neikvæðum þáttum gæti snarfækkað.  

Úrræði fyrir skuldara þurfa að vera sem mest samræmd og taka á öllum tegundum lána með einum eða öðrum hætti.  Það væri því mjög mikilvægur áfangi að þessi tegund lána fengi ákveðinn úrskurð svo hægt sé að vinna út frá því.  Stökkbreytingar lána af völdum gengisbreytinga og óðaverðbólgu eru ekki lántakendum einum að kenna og jafnvel alls ekki.  Þær eru heldur ekki endilega lánveitendum sem slíkum að kenna.   Það er hins vegar tvennt ólíkt að vinna úr skuldavanda vegna verðtryggingar en vegna gengistryggingar.

Jón Óskarsson, 13.2.2010 kl. 14:23

3 identicon

Eini þátturinn í þessum samningum sem var dæmdur ólöglegur er gengistryggingin. Aðrir þættir samninganna hljóta að gilda áfram, þar á meðal vextirnir.

Það er ekki hægt að bæta skilmálum inn í samninga mörgum árum eftir að þeir voru undirritaðir, hvort sem þeir heita verðtrygging eða annað.

Lánastofnanir verða bara að gera svo vel að taka afleiðingum heimsku sinnar.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 13.2.2010 kl. 16:59

4 identicon

Dæmi Hæstiréttur þessi lán ólögleg og verði þeim breytt í óverðtryggð lágvaxta krónulán þá þýðir það að þeir sem ákváðu á sínum tíma að taka gengisáhættu til þess að reyna að græða (þ.e. fá hagstæðari lán en verðtryggð íslensk lán) þurfa ekki að bera þá áhættu og hagnast verulega. Þó eru þeir þátttakendur í ólögmætum gjörningi, því þegar tveir aðilar gera með sér ólögmætan samning getur vart verið að einungis annar viðkomandi aðila sé að brjóta lög.

Hvað skyldu þeir sem héldu sig við íslensku lánin og vildu reyna að forðast áhættu segja við því? Sá hópur er alltént meirihlutinn.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 01:46

5 Smámynd: Jón Óskarsson

Svo föst erum við orðin í þessu landi í því að lán "skuli" vera verðtryggð að okkur þykir óeðlilegt að skulda óverðtryggt lán.  Er nú ekki eitthvað að í þeirri hugsun.  Við erum eina þjóðin í heiminum sem viðhefur þær aðferðir sem við notum við verðtryggingu lána.  Fyrir nokkrum árum voru bílalán í Noregi t.d. með 1,9% vöxtum og að sjálfsögðu óverðtryggð og engum þar þótti neitt óeðlilegt við þau viðskipti.

Ég einfaldlega fagna því ef þessum lánum er breytt í óverðtryggð lán.  Slík breyting ásamt leiðréttingum á greiðslum hingað til ættu að geta bjargað málum hjá því fólki sem ekki er þegar búið að missa bíla, atvinnutæki og íbúðir til lánveitendanna.  Spurningin er aftur á móti hvernig því fólki verður bættur sá skaði að hafa misst eignir sökum þess að það fólk var krafið um ólögmætar afborganir og svo háar að fólk gat ekki staðið undir þeim.

Það kann vel að vera að þetta muni valda smærri fjármögnunarfyrirtækjum vandræðum en þau eru í flestum tilfellum í eigu stærri fjármálafyrirtækja og breyting þessara lána úr gengistryggðum í óverðtryggð er samanlagt ekki mikið meira en búið er að afskrifa hjá örfáum aðilum m.v. fréttir undanfarinna vikna.

Jón Óskarsson, 14.2.2010 kl. 02:59

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jón, Íslendingar eru svo fastir í verðbólguhugsunarhættinum og þess vegna þykja verðtryggðu lánin sjálfsögð.  Óverðtryggð lán eru hvort sem er alltaf með svo háum vöxtum, að þau taka tillit til áætlaðrar verðbólgu og svo er erfiðara að nota síbreytilega vexti á annuitetslán, sem fólk skilur hvort sem er ekki.  Það virðast fáir skilja að rúmlega fyrri helming lánstímans er verið að greiða lítið niður af höfuðstólnum, en aðallega vexti, en svo snýst þetta við seinni hlutann.  Svo skilur fólk ekkert í að lánin skuli hækka með verðbólgunni, en ekki lækka, þó "alltaf sé verið að borga þau niður".

Það þarf að breyta hugsunarhættinum, þannig að fólk fari að líta á verðbólguna sjálfa, sem vandamál, en ekki verðtrygginguna.  Í lítilli, sem engri verðbólgu, skiptir verðtryggingin engu máli.

Axel Jóhann Axelsson, 14.2.2010 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband