Syndir feðranna......

Björt framtíð hefur fundið sér tilefni til að hlaupa frá ríkisstórnarsamstarfi, sem flokkurinn hefur aldrei verið fær um að axla.  

Tilefnið sem flokkurinn nýtir er að fram hefur komið að faðir forsætisráðherra var einn "valinkunnra" manna sem vitnaði um að kynferðisafbrotamaður sem aplánað hafði sinn dóm hefði hagað sér skikkanlega, eftir því sem hann best vissi, eftir tugthússvistina.

Í allt sumar hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu um úrelt lög um "uppreist æru" glæpamanna ákveðnum árum eftir afplánun og vélræna afgreiðslu ráðuneytisins slíkra mála.  Fram að þeim tíma hafði þessum málum verið lítill gaumur gefinn í þjóðfélaginu, enda sami háttur verið hafður á slíkum málum áratugum saman og öll mál afgreidd á sama hátt, hver sem í hlut átti.

Eftir að umræðan fór af stað í sumar jókst krafa um að upplýst væri hverjir þessir "valinkunnu" menn væru í því máli sem hæst bar í umræðunni á þeim tíma.  Ráðuneytið taldi sig ekki geta upplýst um þessi mál, fyrr en eftir að kærunefnd upplýsingamála hefði lagt blessun sína yfir hvaða upplýsingar mætti veita vegna svona mála.  

Af einhverjum ástæðum stigu hinir "valinkunnu" ekki fram og einfaldlega skýrðu frá sinni aðkomu að málunum, enda fyrst og fremst um umsagnir um hegðun brotamannanna eftir afplánun að ræða. Hefðu hinir "valinkunnu" einfaldlega stigið fram er ólíklegt að umræðan um þeirra að komu hefði orðið eins og hún varð, með allri þeirri heift, stóryrðum og dylgjum og raunin varð.

Nú er komið í ljós að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna forsætisráðherra, var einn hinna "valinkunnu" vegna umsóknar kynferðisglæpamanns um "uppreist æru" og í fyrsta lagi er fuðulegt að hann skuli hafa lagt nafn sitt við slíka umsókn vegna stöðu sonarins og ekki síður að hann skuli þá ekki hafa stigið fram strax í sumar og birt það afsökunarbréf sem hann hefur nú sent frá sér.

Meðmæli föðurins hefur nú orðið til þess að Björt framtíð hefur gripið það sem hálmstrá til að slíta ríkisstjórninni.  

Þar með sannast enn og aftur að "syndir" feðranna bitna á börnum þeirra, eins óverðskuldað og það er nú alla jafna.


mbl.is Slíta samstarfi við ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband