Fjármálaráðherra beygður í duftið á mettíma

Fáránlegasta hugmynd sem komið hefur frá ráðherra í manna minnum var kveðin í kútinn á mettíma og traustið á fjármálaráðherranum, sem ekki var sérstaklega mikið, hvarf eins og dögg fyrir sólu.  Eftir þessa útreið verður erfitt fyrir hann að endurvinna það traust og verða tekinn alvarlega framvegis.

Hugmyndin arfavitlausa gekk út á að taka alla tíuþúsund króna seðla úr umferð og síðan fimmþúsund króna seðlana í framhaldinu.  Hefði það komist í framkvæmd yrði eittþúsund króna seðillinn sá verðmesti sem í umferð yrði, þó einhversstaðar í kerfinu sé líklega til tvöþúsund króna seðill sem sjaldan sést.  Fyrir þá sem ekki hafa greiðslukort, annaðhvort vilja þau ekki eða af öðrum ástæðum, hefði þá eina ráðið verið að nota mynt með þúsundkallinum og líklega hefðu einhverjir valið að reiða fram hestburði af hundaðköllum í öllum stærri viðskiptum.

Aðrar hugmyndir, sem sumar hverjar virðast ágætar, til að sporna við skattsvikum, falla algerlega í skuggann fyrir þessari ótrúlega vitlausu um seðlaafnámið og verða síður teknar alvarlega eftir rassskellingu fjármálaráðherrans með tíuþúsundkallavendinum.

Með tilliti til þess að þessi sami fjármálaráðherra berst fyrir því að Ísland verði hjáleiga í ESB og tekin verði upp evra sem gjaldmiðill hér á landi gerir hugmyndina um seðlaafnámið enn undarlegra, þar sem til eru fimmhundruð evru seðlar, sem jafngilda tæpum sextíu þúsund íslenskum krónum og því erfitt að sjá hvernig Benedikt myndi afnema stóru seðlana frá ESB, enda eru þar notaðir 500, 200, 100 og 10 evru seðlar sem yrðu íslenskum skattsvikurum til frjálsra afnota í sínum svörtu viðskiptum, eins og skattsvikurum og öðrum glæpamönnum innan ESB.

Gönuhlaup Benedikts fjármálaráðherra verður lengi í minnum haft og spurning hvort honum verður hreinlega sætt í embættinu áfram eftir þessa sneypuför.


mbl.is Tíu þúsund kallinn ekki á förum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband